Stefán Karlsson – minningarorð


1928 –2006

Unglegur, fjörlegur og stundum gáskafullur, þess á milli alvörugefinn og flutti mál sitt á fagurri norðlensku af festu og sannfæringarkrafti. Þannig kom Stefán Karlsson mér fyrir sjónir allt fram undir hið síðasta. Árin fóru vel með hann eins og gerist með suma þá sem sýnast eldri en þeir eru í æsku. Skallinn og skeggið grátt hurfu fyrir einörðum svip og bliki í auga yfir rjóðum vöngum. Mestu skipti hans innri maður, það jafnvægi sem hann bjó yfir og sú ögun sem hann tamdi sér í verkum sem lengi munu duga.
            Samskipti okkar og kynni urðu mest á sjötta áratugi síðustu alda og á þeim byggðist vinátta og traust til loka þótt leiðir lægju sjaldan saman. Okkur sem höfðum hann sem efnafræðikennara í MA veturinn 1951–1952 datt fæstum í hug að þar færi upprennandi sérfræðingur í íslensku máli og bókmenntum. Ég efast um að þekking kennarans á “kemi” hafi náð langt langt út fyrir kverið sem stuðst var við en hann kunni að miðla og síðan hefur þessi grein verið mér kært efni. Næst lágu leiðir saman í Atlavík á sumarhátíð 1955 og þar stóð þessi sigldi Fnjóskdælingur fyrir færeyskum dansi á grundunum þegar leið á nótt. Sumarið eftir vorum við saman í landmælingum í flokki Steingríms Pálssonar á öræfum, fyrst á Sprengisandi og síðan vestan Þjórsár með bækistöð við Kisu. Stefán kom seinna til leiks en þeir sem göslast höfðu yfir Tungná á Hófsvaði, hafði gerst frambjóðandi Þjóðvarnarmanna í Eyjafirði í alþingiskosningum þá um vorið. Við höfðum merkt fyrir “flugvelli” svo lenda mætti með Stefán og í Illugaveri var honum fagnað með veigum sem fylgdu úr höfuðstaðnum.
            Um haustið hleypti ég heimdraganum og næstu árin lágu leiðir okkar nokkrum sinnum saman í Kaupmannahöfn þar sem Stefán var nú tekinn til við íslensk fræði fyrir alvöru og sat við fótskör meistara Jóns Helgasonar í Árnastofnun. Inn þangað leiddi hann aðvífandi námsmann frá Saxlandi sem fékk að bera augum þau dýru membrana sem urðu viðfangsefni Stefáns upp frá því.
            Stafkrókar heitir ritgerðasafnið sem Árnastofnun færði okkur af tilefni sjötugsafmælis forstöðumanns síns. Það er mikill fjársjóður, skemmtilestur þeim sem unna íslenskri tungu og skynja að hún er líftaugin sem skiptir okkur máli hér á skerinu. Stefán var öðrum mönnum betur læs á rithendur. Oft hefur honum eflaust farið sem Jóni læriföður sínum Helgasyni að “ ... hugurinn sá yfir hlykkjóttum stafanna baugum hendur sem forðum var stjórnað af lifandi taugum.”
            Viðhorf okkar Stefáns til stjórnmála runnu að ég hygg í svipuðum farvegi. Það undraði mig því ekki að hitta hann fyrir nokkru í fagnaði með Vinstri grænum. Eflaust hefur hann undir lokin glaðst af einlægni við þau tíðindi að sjá erlendan her tygja sig brott af Suðurnesjum.
Stefán var víðsýnn og laus við einstrengingshátt. Auk fræðiiðkana lagði hann mörgu lið. Varðveisla og ræktun menningararfsins var þó sú hugsjón sem hann hlúði að lengst og best á farsælli ævi.

 

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim