Steingrímur Hermannsson
1928–2010

Nú á tímum kreppu og hruns er eðlilega mikið spurt um hlut stjórnmálamanna og stjórnsýslu í atburðarás liðinna ára. Þeir sem gengu út af sviðinu fyrir tveimur áratugum eru ekki líklegir til að fá á sig mikla brotsjói í því sögulega uppgjöri og ber þó að leita skýringa langt til baka. Tími Steingríms Hermannssonar var öðru fremur níundi áratugur liðinnar aldar þegar hann var í tvígang forsætisráðherra og vann það afrek að halda saman ríkisstjórn fjögurra stjórnmálaflokka til loka kjörtímabils 1991. Inn í þá mynd falla þjóðarsáttarsamningarnir sem margir komu að en þolinmóð stjórnarforysta Steingríms átti þátt í að náðust. Hann var laginn við að miðla málum en spurði sjálfan sig eftir á hvort ekki hafi stundum verið gengið of langt á kostnað efnislegrar niðurstöðu. Þar koma einkum við sögu EES-samningurinn sem bar í sér frækorn hrunsins og markaðsvæðing í sjávarútvegi sem lagði svo um munaði til spilapeninga í íslensku útrásina.

Mikilvægur eiginleiki í fari Steingríms var hæfileiki til endurmats á eigin viðhorfum. Því spáðu fáir að rafmagnsverkfræðingur menntaður í Vesturheimi og boðberi erlends fjármagns ætti eftir að halla sér til vinstri í Framsóknarflokknum er fram liðu stundir, hvað þá að verða liðsmaður í náttúruverndarstarfi. Reynsla hans sem landsbyggðarþingmanns í hálfan annan áratug víkkaði sjóndeildarhring borgarbúans og treysti þjóðlegar rætur. Á þær reyndi þegar áþreifingar hófust um aukið samstarf ESB og EFTA haustið 1988. Steingrímur útilokaði frá upphafi aðild Íslands að Evrópusambandinu en gerði sér ekki ljóst að af hálfu forystumanna sósíaldemókrata og hægri manna á Norðurlöndum var markmiðið að koma þáverandi EFTA-ríkjum sem fyrst inn í ESB. Sú fyrirætlan tókst að hluta en var stöðvuð hvað Noreg varðaði í þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 1994. Í lokagerð EES-samningsins stóð lítið eftir af þeim fyrirvörum sem íslenski forsætisráðherrann hafði fært til bókar á leiðtogafundi í mars 1989. Þessar brigður dró Steingrímur skýrt fram á Alþingi í lokaumræðu um EES-aðildina, taldi hana stjórnarskrárbrot og greiddi atkvæði gegn samningnum.  

Sem framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins fyrr á árum hafði Steingrímur fengið góða innsýn í rannsókna- og þróunarstarf og það gagnaðist honum síðarmeir. Eftir að hann varð forsætisráðherra kom hann vorið 1984 af stað svonefndri framtíðarkönnun, setti til verka fjölmenna nefnd sjálfboðaliða en Sjálfstæðismenn bundu enda á þessa viðleitni hans. Sjálfur áttaði hann sig hins vegar betur en áður á því sem var að gerast í umhverfismálum og undir hans forystu tókst loks að koma á fót umhverfisráðuneyti hérlendis árið 1990. Um framgang þess máls áttum við góða samleið. Eftir að Steingrímur yfirgaf stjórnmálin setti hann sig vel inn í samhengi umhverfis- og efnahagsmála en við litla hrifningu ýmissa samstarfsmanna. Því fylgdi margháttað endurmat hans á ríkjandi stefnu, ekki síst í umhverfis- og auðlindamálum. Nú þegar við kveðjum hann á ögurstundu fyrir íslenskt samfélag gerðu menn rétt í að rifja upp þær áherslur sem hann hafði að miðla af reynslu sinni síðasta spölinn.

Hjörleifur Guttormsson
9. febrúar 2010


Til baka | | Heim