Sveinborg Sveinsdóttir
f. 13. júní 1948, d. 13. mars 2004

Sveinborg verður öllum eftirminnileg sem henni kynntust, hjartahlý, glaðvær og greind. Hún er nú fallin frá á miðjum aldri og verður sárt saknað af þeim fjölmörgu sem áttu með henni samleið. Missir eiginmanns, dætra og annarra nánustu er auðvitað mestur, en geislunin frá Sveinu náði langt út fyrir kunningjahóp fjölskyldunnar. Í starfi sínu að félagsmálum og ráðgjöf leitaðist hún sem geðhjúkrunarfræðingur við að létta sem flestum hversdaginn og leita lausna oft á erfiðum málum fjölskyldna og einstaklinga.

Ég kynntist Sveinu eftir að Finnbogi eiginmaður hennar réðist til iðnaðarráðuneytisins 1979 en þá voru þau nýkomin frá námi erlendis. Það duldist engum að þar fóru afar samrýmd hjón sem nutu stuðnings hvort af öðru í lífi og starfi. Eftir dvöl á Akureyri um tíma fluttist fjölskyldan til Neskaupstaðar, þar sem Sveina stóð fyrir fallegu heimili þeirra hjóna og starfaði jafnframt sem félagsráðgjafi, um skeið bæði í Neskaupstað og á Eskifirði. Bæði áttu þau ættir að rekja á þessar slóðir og það hefur eflaust átt sinn þátt í að þau hösluðu sér lengi völl utan höfuðborgarsvæðisins. Ógleymanlegar eru heimsóknirnar til þeirra heima á Norðfirði þar sem saman fór besta atlæti í mat, fallegt borðhald og umræðuefni sem lyftu huganum yfir hversdaginn. Dæturnar áttu þar sín æsku- og uppvaxtarár og heimilisfaðirinn lagði sig fram á vettvangi atvinnulífs bæjarins með þeim árangri að athygli vakti um land allt. Saman unnu þau hugu og hjörtu samstarfsmanna þar í bæ og rækuðu þau tengsl eftir að haldið var til verka annars staðar fyrir fimm árum.

Við Kristín þökkum Sveinu samfylgdina og þá gleði og stuðning sem hún veitti öðrum á meðan kraftar frekast leyfðu. Öllum aðstandendum sendum við samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson


 


Til baka | | Heim