Sveinn Jakobsson
1939–2016

Kynni okkar Sveins Jakobssonar hófust haustið 1971 þegar við vorum boðnir ásamt Snæbirni Jónassyni síðar vegamálastjóra í kynnisferð til Bandaríkjanna á vegum Independence Foundation í Fíladelfíu til að kynnast náttúruverndarstarfi þarlendis. Forstjóri þeirrar stofnunar hafði heimsótt Ísland árin á undan, sem leiddi til þess að lögð var til hliðar fjárhæð til að efla kynni milli landanna. Þeir Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, Ólafur Bjarnason læknir og Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur völdu þátttakendur héðan sem urðu margir í tímans rás, en við þremenningarnir vorum þeir fyrstu sem hrepptum hnossið.  Þetta varð eftirminnileg, skemmtileg og gagnleg ferð sem víkkaði sjóndeildarhring okkar og lagði grunn að samskiptum, einnig okkar á milli hér heima fyrir. Sveinn hafði þá fyrir tveimur árum hafið störf hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, sem hann helgaði krafta sína þaðan í frá. Ég hafði þá um skeið unnið að því ásamt fleirum að koma upp náttúrugripasafni í Neskaupstað, sem enn heldur úti sýningu, og frjáls náttúruverndarsamtök voru þá jafnframt að stíga sín fyrstu skref hérlendis. Við Sveinn nutum því eðlilega ferðarinnar og Snæbjörn ekki síður vegna áhuga síns á að fella veglínur að umhverfinu, auk áhuga á skógrækt.
            Samstarf okkar Sveins féll brátt í nýjan farveg þegar Magnús Torfi Ólafsson skipaði haustið 1972 nefnd til að fjalla um stöðu náttúrugripasafna á landsbyggðinni og tengsl þeirra við Náttúrufræðistofnun, en Sveinn var þá tekinn þar við forstöðu til þriggja ára og varð formaður nefndarinnar. Með okkur var í nefndinni Hörður Kristinsson frá Náttúrugripasafninu á Akureyri. Þessi nefnd vann ötullega í eitt ár og skilaði þá af sér tillögum um náttúrufræðistofur landshlutanna sem viðbót við gildandi lög um náttúrurannsóknir hérlendis. Það var ekki við Svein að sakast að tillögur okkar lentu í skúffu í menntamálaráðuneytinu og áttu ekki þaðan afturkvæmt fyrr en nær tveimur áratugum síðar, þá sem efniviður í lög nr. 60/ 1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur í hverjum landshluta. Þá var Sveinn í þriðja sinn starfandi sem forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar, sem hann alla tíð sinnti af miklum dugnaði og ósérplægni. Um áratugi átti ég öðru hvoru við hann erindi sem jarðfræðing og sérfróðan um steina og steindir og bar undir hann leikmannsþanka mína um steinaríki Austurlands. Það var ætíð gott til hans að leita og einkar áhugavert að hlýða á fyrirlestra hans um bergfræði, þar sem sunnan- og vestanvert landið höfðu forgang í rannsóknum.
            Í minningunni er Sveinn dæmi um hógværan vísindamann, sem lætur verkin tala. Nálægð hans var notaleg, blandin kímni sem ég ósjálfrátt tengdi við danskar rætur hans og skólagöngu í Borginni við Sundið. Hann hefði mátt staldra lengur við til að miðla okkur af visku sinni og þekkingu.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim