Torfi Steinþórsson
f. 1. apríl 1915 - d. 17. apríl 2001


Með Torfa á Hala kveður eftirminnilegur maður með mikið og farsælt ævistarf að baki. Hann ólst upp á landsþekktu menningarheimili, þar sem faðir hans og afi höfðu búið og sett svip á umhverfi sitt. Torfi hélt starfi þeirra áfram, búinn ágætum hæfileikum, aflaði sér staðgóðrar menntunar, fyrst við Alþýðuskólann á Laugarvatni 1935-36 og síðar við Kennraskólann þaðan sem hann útskrifaðist 1942. Hafði hann áður stundað farkennslu eitt ár í heimabyggð og tvo vetur austur í Álftafirði. Nýútskrifaður réðist Torfi norður í Svarfaðardal þar sem hann kenndi í þrjá vetur 1942-45. Þar kynntist hann sínum lífsförunaut Ingibjörgu Zóphóníusardóttur frá Hóli í Svarfaðardal. Flutti hún með bónda sínum um landið þvert að Hala þar sem Torfi gerðist skólastjóri 1945 við nýstofnaðan heimavistarskóla á Hrollaugsstöðum í Suðursveit. Á Hala áttu þau síðan heima alla tíð. Börn þeirra urðu tíu, eitt lést nýfætt en níu eru uppkomin, mannvænlegur hópur sem starfar að meirihluta heima í héraði, frændgarðurinn með tengdafólki orðinn bæði stór og gildur.

Torfa verður lengi minnst sem skólamanns og farsæls uppalanda. Í fjörutíu ár 1945-1985 stóð hann við stjórnvölinn í skólanum á Hrollaugsstöðum og útskrifaði þaðan fjölda nemenda þótt hver árgangur væri ekki ýkja fjölmennur. Þá var þetta heimavistarskóli og þau Torfi og Ingibjörg héldu þar til vetur hvern með börnum sínum og veittu skólaheimilinu forstöðu. Lengst af mun nemendahópnum hafa verið tvískipt og var hvor hópur hálfan mánuð í senn í skóla en heima þess á milli. Félagsheimili sveitarinnar var frá upphafi tengt skólanum á Hrollaugsstöðum og skólastjórinn var jafnframt forustumaður í æskulýðs- og íþróttastarfi í sveitinni um áratugi. Torfi var í senn þéttur á velli og þéttur í lund, með rólegt fas og yfirbragð en léttur og skemmtinn þá hann vildi það við hafa og þá ekki síst í hópi ungmenna. Frásagnarhæfileika hafði hann fengið í heimanmund og var prýðilega ritfær. Eftir hann liggur fjöldi greina og ritgerða, og eru meðal annars eftirminnilegar frásagnir hans og föður hans af sjósókn í Suðursveit og víðar við sandana en þær birtust í tímaritinu Skaftfellingi.

Torfi var í félagsbúi með Steinþóri föður sínum til 1966 og stóð fyrir hefðbundnum búskap á Hala ásamt fjölskyldu sinni til 1975 að synir hans Fjölnir og Steinþór tóku við ásamt tengdadætrum. Það kemur utansveitarmönnum nokkuð á óvart að búmannsáhugi Torfa beindist ekki síður að sjósókn en landbúnaði. Þótt róðrardagar væru að jafnaði fáir úr Suðursveit var útræði frá Bjarnahraunssandi og síðar með hjólabátum af Breiðabólsstaðarfjörum bæði drjúgt búsílag á mannmörgum heimilum og krydd í tilveruna. Skemmtilegir og fróðlegir annálar úr Borgarhafnarhreppi sem Torfi ritaði um árabil í Skaftfelling bera þessu vitni. Annáll hans1984 hefst með þessum orðum: "Ef sett er jafnaðarmerki milli "logn" og "gott veður" þá var gott veður í Suðursveit árið 1984 og veðrið lék við allt líf. Það var fágæt stilla. Aðeins tvo daga sást sjór rjúka og þó með lítillæti..."

Félagsmálaáhugi Torfa tók einnig til stjórnmála. Hann fylgdi sósíalistum og Alþýðubandalaginu að málum og skipaði nokkrum sinnum sæti framarlega á framboðslista þess til Alþingis í Austurlandskjördæmi. Fyrir þingmann var gott að eiga hauk í horni þar sem Torfi var en vegna aldursmunar urðu samskipti mín þó meiri við afkomendur hans og tengdadóttur sem tók við skólastjórninni á Hrollaugsstöðum. Til Torfa sótti ég margs konar fróðleik um heimabyggðina, þar á meðal um fjalllendi Suðursveitar og gengnar kynslóðir.
Við fráfall Torfa á Hala sendum við Kristín innilegar samúðarkveðjur til Ingibjargar, barnahópsins stóra og alls venslafólks. Eftir stendur minningin um traustan og mætan mann.

 

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim