Úlfar Haraldsson
1935–2009

Bekkjarbróðir minn að norðan, Úlfar Haraldsson, er fallinn frá að manni finnst langt fyrir aldur fram. Hann var Akureyringur og við áttum samleið í Menntaskólanum á Akureyri, þar af þrjá vetur innan veggja einnar og sömu skólastofu sem rúmaði auðveldlega stærðfræðideildina. Þetta var 20 manna hópur sem skilaði sér til stúdentsprófs vorið 1955, þar af um þriðjungur Akureyringar. Tveir úr þessum hópi eru fallnir frá, Gísli Sigfreðsson verkfræðingur fyrir hálfum öðrum áratug og nú Úlfar. Hann var fyrirmyndar nemandi, jafnvígur á flestar greinar, skyldurækinn og dagfarsprúður. Til viðbótar góðri ástundun í námi lagði hann rækt við útilíf og íþróttir, sjálfsagður í bekkjarliði í blaki, hávaxinn og knár, og gekk á skíðum þegar aðrir sátu á kaffihúsum. Foreldrar Úlfars bjuggu við Oddeyrargötu og síðasta veturinn leigði ég á sömu slóðum í Oddagötu. Við áttum því oft samleið í og úr skóla og kynntumst þá betur en áður. Þá voru að mótast í huga okkar framtíðaráform, Úlfar ráðinn í að fara í verkfræði þar sem ekki færri en fimm bekkjarfélagar mínir fylgdust að, fyrst í Háskóla Íslands  og síðan til loka í Kaupmannahöfn. Allir hafa þeir skilað góðu verki þar á meðal Úlfar sem meðeigandi í Verkfræðistofunni Önn sf í Reykjavík. Eftir Akureyrarárin lágu leiðir okkar sjaldan saman en þegar áratugur var liðinn frá útskrift birtist við hlið hans Margrét Ríkarðsdóttir og mátti ekki á milli sjá um glæsibrag. Henni og afkomendum þeirra fylgja samúðarkveðjur og góðar óskir.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim