Valdimar
Andrésson Með Valdimar Andréssyni er fallinn frá öðlingur, einn af mörgum sem settu sterkan svip á Neskaupstað á liðinni öld. Frá blautu barnsbeini ólst hann upp við sjómennsku og störf sem henni tengdust. Hann vann á skipum Norðfirðinga sem sjómaður, mótoristi og formaður frá 14 ára aldri 1923 til ársins 1973 eða í hálfa öld og öðlaðist reynslu og yfirsýn sem fæst við að lifa og hrærast í síbreytilegri atvinnugrein. Fyrsta fleytan sem hann réði sig á var Gauti, elsti vélbátur Norðfirðinga og nú safngripur, og þaðan lá leiðin um stækkandi flota upp í togara, en sjósóknina endaði Valdimar á trillu. Vinna í landi við fiskverkun og viðhald báta og veiðarfæra var fastur liður lengst af og útgerð frá Hornafirði og víðar úr verstöðvum sjálfsagður þáttur í tilveru Valdimars eins og margra norðfirskra sjómanna fram undir miðja öldina. Valdimar fæddist í hjarta þorpsins á Nesi þar sem hét Nesstekkur og síðar reis stórhýsi kaupfélagsins Fram. Hann kom til utan hjónabands og var tekinn í fóstur mánaðargamall af Vilborgu Þorkelsdóttur og Birni Eiríkssyni, sem drukknaði þegar Valdimar var aðeins 10 ára. Ekki að undra að hann á efri árum minntist oft fóstru sinnar Vilborgar með virðingu og hlýhug og helst að eiginkonan Pálína Ísaksdóttir tæki henni fram. Með henni kom Valdimar sér upp fallegu heimili sem fylltist af fjórum tápmiklum piltum sem allir fetuðu í fótspor föður síns og urðu landsfrægir skipstjórar og aflaklær. Fereykið Sigurjón, Ísak, Hjörvar og Helgi urðu eðlilega stolt foreldra sinna sem gáfu þeim ekki aðeins sjómennskuna í arf heldur líka menningarlegt uppeldi. Ég kynntist þessu heimili fljótlega eftir að við Kristín fluttum til Neskaupstaðar 1963, áttum heima við sömu götu og starfsstöð mín sem kennara nánast í næsta húsi. Fyrir landkrabba var gefandi að skynja andrúmsloftið innan veggja hjá Valdimar og Pálínu og hlýða á tal þeirra feðga og gestkomandi. Oft teygðist úr þessum húsvitjunum og þá voru ljóð og aðrar bókmenntir brátt orðin umræðuefnið og stutt í heimsmálin. Ég hafði ungur lesið bókmenntasögu Kristins E. Andréssonar, hálfbróður Valdimars, og þótti sjálfsagt að sjómaðurinn væri á svipaðri bylgjulengd. En landið þvert og ólík viðfangsefni skildu þá bræður að og meiri kynni munu hafa tekist með Valdimar og Kristjáni hálfbróður hans í Hafnarfirði. Eftir að ég varð Homo politicus að aðalstarfi átti ég færri stundir með Valdimar og hans fólki þótt alltaf hittumst við öðru hvoru á götu eða þá ég leit við á vinnustað hans í saltfiskverkun SVN. Þar stóð þessi kempa yfir stömpum og körum fram yfir áttrætt eins og ekkert væri sjálfsagðara. Heilræði átti hann oft til að gefa, ekki síst tengd reynsluheimi hans á sjónum. Friðun fiskistofna á uppvaxtarstöðvum var honum hjartans mál og hann galt varhug við stórtækum veiðarfærum eins og snurvoð og botnvörpu og hvatti til varfærni við notkun þeirra. Valdimar var í senn heilsteyptur maður og margbrotinn, sjálfmenntaður og bókelskur, lá ekki á skoðunum sínum við kunnuga, glettinn og hlýr og afar raungóður. Þau Pálína fluttu sig um set við Mýrargötuna um1990 og áttu þar saman að ég best veit góða daga síðasta áratuginn. Hvers geta menn óskað sér frekar, með skýran huga og styrka hönd fram á tíræðisaldur og ævistarf að baki til að vera hreykinn af. Það er gott að hafa átt samleið sem slíku fólki sem með elju sinni lyfti íslensku samfélagi frá fátækt til velmegunar. Pálínu, sonum, tengdafólki og vandamönnum öllum sendum við Kristín samúðarkveðjur. Hjörleifur Guttormsson
|