Vilborg Harðardóttir
13. sept. 1935 - 15. ágúst 2002

Vilborg Harðardóttir var um margt óvenjuleg kona, létt í lund dagfarslega, glettin en skapheit og föst fyrir þegar sannfæring hennar var annars vegar. Gilti þá einu hvort í hlut áttu háir eða lágir. Hún átti stóran kunningjahóp úr ólíkum áttum eins og vel sást þá hún hélt upp á fimmtugsafmælið. Ég kynntist henni sem hluta af hópi, stórum og smáum. Minnsta einingin var hún og Árni Björnsson, óaðskiljanleg framan af ævi í huga manns. Stærra mengi var námsmannahópurinn austantjalds nálægt 1960 og síðan Alþýðubandalagið í margbrotnu samhengi fram á níunda áratuginn, þar sem Villa var um skeið í hlutverki varaformanns. Rauði þráðurinn í lífshlaupi hennar voru kvenfrelsismál, staða og hlutskipti konunnar í harðri veröld. Á því sviði lagði hún sjálfa sig að veði og þar markaði hún spor sem lengi munu sjást. Það urðu henni sár vonbrigði að flokkurinn sem hún lagði lið þekkti ekki sinn vitjunartíma í þessum efnum á áttunda áratugnum. Margt hefði farið á annan veg ef hlekkir vanans hefðu ekki haldið Alþýðubandalaginu í viðjum kynbundins misréttis, að ekki sé talað um aðra stjórnmálaflokka. Sá veruleiki hlaut að kalla á uppgjör af hálfu kvenna sem áttuðu sig á eigin stöðu og alþjóðlegum straumum.

Vilborg þekkti ekki aðeins vel til hér heima heldur og erlendis, því að hún gerðist snemma víðförul. Eftir dvöl í Mið-Evrópu á hápunkti kalda stríðsins skynjaði hún mótsagnir og bresti í stjórnkerfi Austur-Evrópuríkja sem grófu sína gröf, táknrænt með því að kyrkja vorið í Prag undir skriðdrekum 1968. Einmitt sú borg verður ætíð tengd nafni Vilborgar í huga mínum, en þar heimsótti ég þau Árna á útmánuðum 1957. Við gengum um götur og torg, litum niður í bjórkjallarana sem gátu verið frá dögum Snorra Sturlusonar og tókum saman sólarhæð að morgni. Önnur svipmynd kemur upp í hugann, Berlín veturinn 1961-62. Ég hafði heimsótt þau hjón sem þá bjuggu vestan megin múrs og ætluðu að fylgja mér yfir landamæri austurs og vesturs. Þar var Árni tekinn í yfirheyrslu öryggisvarða um nótt klukkustundum saman. Við biðum í rangala neðanjarðar undir sjálfu járntjaldinu og vorum staðföst í að fara hvergi en láta eitt yfir öll ganga. Vilborg vandaði laganna vörðum ekki kveðjurnar. Það hreif að lokum. Þannig var hún, feimulaus og óvægin ef því var að skipta. Ég held hún hefði ekki getað kosið sér betra svið en Snæfellsöræfi á ögurstund til að kveðja.

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim