Vilhjálmur Hjálmarsson
1914- 2014

Það er ekki öllum gefið að ná því að lifa lengi eins og Vilhjálmur á Brekku og nýta jafnframt dagana í uppbyggilegu starfi allt til loka. Nú er hann orðinn þjóðsagnapersóna, órofa tengdur Mjóafirði og varnarbaráttu hnignandi byggðar. Á Brekku fæddist hann um það leyti sem hvalveiðimennirnir norsku hurfu á braut og mannlíf þar féll í fyrri farveg. Hann ólst upp í skjóli foreldra sinna á Brekku til fullorðinsára og deildi með  þeim heimili. Sjálfur sagðist hann lengst af hafa verið í húsmennsku ásamt eiginkonu sinni, Margrétu Þorkelsdóttur, þar eð hann eignaðist fyrst á efri árum eigin íbúð. Á stjórnmálaferli hans var þessu ekki ólíkt farið, þar var hann í skugga Eysteins Jónssonar að heita mátti allan sinn þingferil.

Þessar aðstæður áttu eflaust drjúgan þátt í því að Vilhjálmur sigldi lygnan sjó sem stjórnmálamaður. Honum lét best að þoka málum fram í sátt, með hófstilltar kröfur, einnig þá heimabyggðin átti í hlut. Vilhjálm sá ég fyrst haustið 1949 á framboðsfundi vegna alþingiskosninga. Hann var þá nýliði á lista Framsóknarflokksins í Suður-Múlasýslu. Fram að því hafði hann ekki verið áberandi í pólitísku starfi, og mun val hans hafa komið nokkuð á óvart.

Ég kynntist Vilhjálmi fyrst að ráði eftir að við Kristín settumst að í Neskaupstað 1963 og síðar betur eftir að hann varð menntamálaráðherra á 8. áratugnum, en ég var þá formaður byggingarnefndar væntanlegs menntaskóla á Egilsstöðum. Viðtöl mín við ráðherrann enduðu ætíð með ósviknu gamanmáli í söguformi, því raupi sem varð upphafið að opinberum rithöfundarferli hans. Vilhjálmur varð snemma bókhneigður og á Brekku hafði hann aðgang að góðum bókakosti. Hann var 15 ára kjörinn í stjórn Lestrarfélags Mjófirðinga, síðar formaður þess 1936 og lengst af síðan. Hann kynntist í æsku íslenskum öndvegishöfundum sem og nýliðum þess tíma á ritvelli, þeirra á meðal Halldóri Kiljan Laxness sem hann mat ætíð mikils. Þegar Jónas frá Hriflu vildi gera Halldór útrækan úr bókasöfnum vegna Sjálfstæðs fólks, neitaði lestrarfélagsformaðurinn í Mjóafirði að taka við slíku boði að sunnan.

Vilhjálmur varð snemma prýðilega ritfær og þjálfaðist á þeim velli sem ritstjóri vikublaðsins Austra. Þegar kom að Mjófirðingasögum sótti hann margt í brunna sér eldri manna, þá sérstaklega til Benedikts Sveinsonar frá Fjarðarkoti (d. 1928) sem hélt dagbækur í hartnær hálfa öld. Þegar kom að örnefnum og sögum þeim tengdum reyndist Sigurður Helgason kennari frá Grund (d. 1973) honum gjöfull heimildarmaður. Þannig stóðu ritstörf Vilhjálms traustum fótum í heimabyggð, en sjálfur jók hann við og færði sig á víðari völl með fróðleik sem nær allt til okkar daga, Sjálfur leitaði ég til hans um yfirlestur á efni sem tengdist Mjóafirði og þegar efnt var til ferða á vegum Alþýðubandalagsins um heimaslóð hans gekk hann ljúflega í hlutverk leiðsögumanns.

Með Vilhjálmi á Brekku er horfinn af sjónarsviði tákngervingur fyrir horfna kynslóð sjálfmenntaðra alþýðumanna sem gátu gengið í hvaða hlutverk sem var í okkar samfélagi og skiluðu sínu verki með prýði,

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim