Hjörleifur Guttormsson                                                                 25. júní 2001
Mýrargötu 37
740 Neskaupstaður

Til Skipulagsstofnunar
Laugavegi 166
105 Reykjavík

Efni: Mat á umhverfisáhrifum 420 þúsund tonna álverksmiðju á Reyðarfirði

Undirritaður leyfir sér hér með að gera eftirfarandi athugasemdir við málið:

Efnisyfirlit:

  1. Almennt um matsskýrslu  og fylgigögn
  2. Reglugerð vantaði við matsáætlun
  3. Tengslin við NORAL-verkefnið
  4. Staðsetning og stærð álverksmiðju
  5. Rafskautaverksmiðja engin smásmíði
  6. Raflínur
  7. Samfélagsleg áhrif
  8. Framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga
  9. Áhrif á jaðarsvæði austanlands
  10. Núll-kostur
  11. Losun gróðurhúsalofttegunda
  12. Sjávarstraumar og lífríki sjávar
  13. Veðurfarsaðstæður í Reyðarfirði
  14. Losun mengandi efna og þynningarsvæði
  15. Förgun kerbrota
  16. Hávaðamengun
  17. Sjónmengun  og áhrif á útivistarsvæði
  18. Hafís og truflun siglinga
  19. Rammaáætlun og Kárahnjúkavirkjun
  20. Takmarkaðar orkulindir
  21. Ósjálfbær orkuöflun
  22. Efnahagsleg áhætta af NORAL-verkefninu
  23. Þjóðhagslegt mat og hagsmunatengsl
  24. Neikvæð áhrif á ímynd Austurlands
  25. Ýmis atriði
  26. Niðurstaða

Fylgiskjöl:

I.       Athugasemdir HG við tillögu að matsáætlun vegna 420 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði, dags. 30. júní 2000.

II.     Svar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, dags. 14. febrúar 2001 við fyrirspurn HG um setu Þórðar Friðjónssonar forstjóra Þjóðhagsstofnunar í viðræðunefnd um NORAL-verkefnið

1. Almennt um matsskýrslu og fylgigögn

            Matsskýrslan sem Reyðarál hf. lagði inn til mats hjá Skipulagsstofnun 25. maí 2001 vegna 420 þúsund tonna álvers á Reyðarfirði er læsilegt plagg og vandað að ytra búningi. Sérfræðiskýrslur 19 talsins fylgja í Viðauka A [A1 - A19, sérmappa] og “ýmsar upplýsingar” í Viðauka B [B1 – B 10, sérmappa]. Ein sérfræðiskýrsla  “Mat á efnahagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði” er fyrirliggjandi í sérútgáfu.

Fróðlegt er að bera þessi gögn saman við fyrri matsskýrslu vegna 480 þúsund tonna álvers á Reyðarfirði frá 15. október 1999 og þá málafylgju sem fylgdi í kjölfarið af hálfu framkvæmdaraðila og iðnaðarráðuneytis. Það matsferli var slegið af með úrskurði ráðherra 25. febrúar 2000 og “meðferð málsins ... ómerkt í heild sinni”. Hér verða málsatvik að baki þeim úrskurði ekki rakin, en tilefni getur orðið til þess síðar. Í því tilviki hét framkvæmdaraðilinn “Eignarhaldsfélagið Hraun ehf “ og kom hann fram fyrir “óstofnað hlutafélag”. Síðan hefur Reyðarál hf verið stofnað og ber nú fram auglýsta matsskýrslu. Inntakið er í aðalatriðum hið sama, framleiðslugeta álverksmiðjunnar 60 þúsund tonnum minni en áður var ráðgert, en við hefur bæst rafskautaverksmiðja, mikið og allflókið mannvirki, m.a. í umhverfislegu tilliti.

           

2. Reglugerð vantaði við gerð matsáætlunar

            Vorið 2000 setti Alþingi ný lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Meðal breytinga frá fyrri löggjöf voru ákvæði um gerð matsáætlunar í aðdraganda vinnu að matsskýrslu. Í 19. grein laganna er kveðið á um setningu reglugerðar er varði “...nánari framkvæmd laganna...”, m.a. um “framsetningu matsáætlunar, matsskýrslu og gögn” (b-liður 19. gr.). Með bréfi dags. 30. júní 2000 gerði undirritaður athugasemdir við tillögu að matsáætlun vegna 420 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði og sendi þær Reyðaráli hf. og Skipulagsstofnun. Þar er m.a. bent á að umrædd reglugerð hafi þá enn ekki verið sett og sagði m.a.:

“Ég tel ótækt að ætla að hefja mat á umhverfisáhrifum framkvæmda samkvæmt lögum þessum áður en umrædd reglugerð hefur öðlast gildi og fengið kynningu. Á það ekki síst við þegar jafn stórfelld framkvæmdaáform eru annars vegar... Hér er því eindregið lagt til að framkvæmdaraðili leggi ekki fram tillögu sína til Skipulagsstofnunar fyrr en nefnd reglugerð hefur verið gefin út. Að öðrum kosti afgreiði Skipulagsstofnun ekki tillögu að matsáætlun, sbr. 8. gr. 2. mgr., fyrr en eftir að heildstæð reglugerð hefur verið gefin út á grundvelli laganna og hlotið kynningu. Sú málsmeðferð sem nú stefnir í að óbreyttu hlýtur að leiða í órfæru jafnt fyrir stjórnvöld sem framkvæmdaraðila.”

            Á þetta var ekki hlustað. Lögboðin reglugerð var ekki gefin út fyrr en 22. september 2000 löngu eftir að vinna að matsskýrslu var hafin. Hér eru fyrri varnaðarorð um þennan þátt málsins rifuð upp og ítrekuð. Tilgangslaust er af hálfu stjórnvalda að ætla að vísa til fyrri reglugerðar á grundvelli eldri laga þar sem engin ákvæði var þar að finna um gerð matsáætlunar. Ekki verður betur séð en matsferli sem hafin voru áður en umrædd reglugerð var sett standist ekki kröfur um rétta stjórnsýslu.

3. Tengslin við NORAL-verkefnið

            Í upphafi matsskýrslu Reyðaráls hf er gerð grein fyrir álverksmiðju á Reyðarfirði sem hluta af svonefndu NORAL-verkefni sem sett var af stað 29. júní 1999 með yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands (viðskipta- og iðnaðarráðuneyti), Landsvirkjunar og Hydro Aluminium as í Noregi. Síðar varð til Reyðarál hf sem er fyrirtæki að hálfu í eigu Hæfis hf sem er samsteypa hóps íslenskra fjárfesta og að hálfu í eigu Hydro Aluminium as. Ríkisstjórnin ásamt Reyðaráli og Landsvirkjun gáfu 24. maí 2000 út nýja yfirlýsingu og staðfestu þar fyrri áform en með breyttri tilhögun á ráðgerðri orkuöflun fyrir álverksmiðjuna, þ.e. aðallega með Kárahnjúkavirkjun og svonefndri Fljótsdalsveitu og breyttri áfangaskiptingu álverksmiðjunnar frá því sem áður var áformað. Markmið þessara aðila um tímasetningu var óbreytt frá fyrri yfirlýsingu, þ.e. að komast að endanlegri niðurstöðu um hvort ráðist skuli í verkefnið fyrir 1. febrúar 2002.

            Í stað þess að ráðast í heildstætt mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem NORAL-verkefnið gerir ráð fyrir gerðu aðilar í yfirlýsingu sinni ráð fyrir að það yrði unnið aðgreint eftir framkvæmdaþáttum, Landsvirkjun sæi um mat á umhverfisáhrifum orkuframkvæmda og Reyðarál hf að því er varðar álverksmiðjuna. Raunin varð síðan sú að Landsvirkjun byrjaði á að setja tvær 400 kV raflínur milli Fljótsdals og Reyðarfjarðar í mat á árinu 2000 og Kárahnjúkavirkjun var sett í mat sér á parti og óháð orkukaupanda í maíbyrjun 2001. Reyðarál hf afhenti síðan matsskýrslu vegna álverksmiðju ásamt rafskautaverksmiðju til mats í maí 2001 og Fjarðabyggð matsskýrslu vegna hafnargerðar um svipað leyti.

            Tímaramminn sem NORAL-verkefninu er sniðinn hefur leitt af sér að óhæfilega stuttur tími hefur verið ætlaður til undirbúnings og framkvæmda við mat á umhverfisáhrifum, þar á meðal til þeirra rannsókna sem aðilar þó hafa sett af stað vegna matsþátta. Á þetta við um alla þætti verkefnisins en bitnar eðlilega meira á stærstu og umfangsmestu framkvæmdaþáttunum, virkjun og álverksmiðju. Bera matsskýrslur þessa augljós merki.

            Sundurgreiningin í mati á einstaka framkvæmdaþætti hefur síðan leitt til mjög alvarlegra ágalla á framkvæmd matsins og rýrt möguleika lögboðinna umsagnaraðila og almennings til að gera sér ljósa grein fyrir umhverfisáhrifum NORAL-verkefnisins í heild að samfélagslegum áhrifum meðtöldum. Byggingartími umræddra mannvirkja er til NORAL-verkefnisins teljast fellur að verulegu leyti saman en umfjöllun um samfélagslegu áhrifin birtist mönnum í pörtum. Háskólinn á Akureyri vann skýrslu um samfélagsleg áhrif Kárahnjúkavirkjunar en Nýsir hf “mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði” [A1]. Í þeirri skýrslu, sem er hluti af matsskýrslu Reyðaráls hf, var lítillega vikið að samlegðaráhrifum NORAL-verkefnisins í heild, sbr. það sem segir um markmið í kafla 1.2 á bls. 2, en þar segir m.a.:

“ Í þriðja lagi verða settar fram ábendingar um skipulag uppbyggingar á Mið-Austurlandi ef álverið verður reist.

Í fjórða lagi verður lagt mat á þróun byggðar og samfélags á Mið-Austurlandi ef ekkert verður af áformum um byggingu álvers.

Í fimmta lagi verða metin uppsöfnuð áhrif annarra verkefna á Mið-Austurlandi sem unnið verður að samtímis. Má þar nefna Kárahnjúkavirkjun, háspennulínur frá Fljótsdal til Reyðarfjarðar, höfn við álverið og væntanleg jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.”

            Þeir sem skoðað hafa mat á Kárahnjúkavirkjun sérstaklega hafa hins vegar ekki fengið sem hluta af matsskýrslu og fylgigögnum Landsvirkjunar þá skýrslu Nýsis hf sem hér um ræðir.

            Kórónan á þessari grautargerð er síðan sú staðreynd að Landsvirkjun hefur beðið um mat á Kárahnjúkavirkjun sérstaklega, óháð orkukaupanda, og ætlar sér að koma virkjuninni í gegnum mat algjörlega óháð því hvort hugsanlegur orkukaupandi heitir Reyðarál hf eða annað og óháð því hvort sá hinn sami yrði staðsettur á Austurlandi eða annars staðar. Í framsetningu skýrslu Landsvirkjunar er síðan slegið úr og í um þetta atriði. Geta menn rétt ímyndað sér hvort þessi aðferðafræði hafi ekki haft áhrif á viðhorf margra, ekki síst á Austurlandi,  til mats á Kárahnjúkavirkjun.

            Skýrsla [A19] um mat Þjóðhagsstofnunar á “impact of the NORAL project on Iceland´s Economy and Infrastructure” er hins vegar látin fylgja báðum matsskýrslunum. Það verk er hins vegar ómarktækt þar eð forstjóri Þjóðhagsstofnunar er hagsmunatengdur NORAL-verkefninu sem formaður samráðsnefndar um verkefnið, tilnefndur af íslenskum stjórnvöldum eins og annars staðar er að vikið í þessum athugasemdum (töluliður 23).

            Tilkoma NORAL-verkefnisins og aðkoma íslenskra stjórnvalda að því hefur leitt til ótækrar íblöndunar ráðherra og fleiri valdsmanna í það matsferli sem nú stendur yfir lögum samkvæmt, umfram það sem lög gera ráð fyrir. Þessir aðilar hafa, eins og rekja mætti um mörg dæmi, hamrað á framkvæmdaáformunum nánast sem væru þau staðreynd og látið svo sem mat á umhverfisáhrifum væru formsatriði eitt. Þetta á einnig við um þann ráðherra umhverfismála, sem á síðari stigum gæti þurft að skera úr um kærur á úrskurðum Skipulagsstofnunar. Hlýtur sú spurning að vera nærtæk hvort umræddur ráðherra sem og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu ekki skv. ofangreindu orðnir vanhæfir sem úrskurðaraðilar. Þá hefur verið gengið út yfir mörk eðlilegrar stjórnsýslu, m.a. með því að hefja matsferli samkvæmt lögum nr. 106/2000 áður en lögboðin reglugerð væri út gefin, sbr. tölulið 2 hér að ofan.

            Þessi málafylgja sem hér hefur verið rakin veldur því að vafasamt er að matsferli einstakra framkvæmdaþátta sem taldir eru til NORAL-verkefnisins fái staðist að lögum og réttum stjórnsýsluhefðum.

4. Staðsetning og stærð álverksmiðju

            Í 5. kafla matsskýrslu (bls. 71) er fjallað um “aðra kosti” fyrir staðsetningu álverksmiðju og staðhæft að staðsetning í Reyðarfirði hafi verið ákveðin að gaumgæfilega athuguðu máli, m.a. með samanburði vegna ráðgerðrar álverksmiðju Atlantsáls 1990 á Keilisnesi, Dysnesi og Reyðarfirði (Leirur).  Undirritaður véfengir að þar hafi verið faglega að verki staðið, m.a. var hugmyndin um álverksmiðju á Leirum í Reyðarfirði fyrirfram dauðadæmd þó ekki væri nema vegna nálægðar við þorpið.

            Í þessu sambandi er minnt á vinnu sem iðnaðarráðuneytið stóð fyrir á 9. áratug síðustu aldar og laut að athugunum á hugsanlegri staðsetningu orkufreks iðnaðar. Í yfirlitsskýrslu “Staðarval fyrir orkufrekan iðnað – Forval” (mars 1983) kom fram að ekki væri ráðlegt að setja niður “stóriðjuver” austanlands (sjá töflu 14 Heildaryfirlit, bls 129-130). Í sömu skýrslu, 4.3, bls. 16, er fjallað um “einhæfa iðnaðarstaði” sem dæmi er að finna um víða erlendis.

Þar er bent á að skipta megi þróun margra einhæfra iðnaðarstaða í þrjú skeið, hraðvaxtarskeið, stöðnunarskeið og hnignunarskeið. Stöðnunarskeið taki við skömmu eftir að iðjuverið hefur náð hámarksstærð. Mannafli sem unnið hefur við byggingarframkvæmdir flyst á brott að hluta, en hluti ræðst til starfa við iðjuverið. Að nokkrum áratugum liðnum megi oft greina upphaf hnignunartímabils sem einkennist af misræmi á milli framboðs og eftirspurnar á vinnuafli. Síðan segir orðrétt:

“Önnur ástæða hnignunar á mörgum einhæfum iðnaðarstöðum er fólgin í því að þar myndast svokallað “einnar-kynslóðar-samfélag” (engenerationssamfund). Ef ekkert er að gert sýnir reynslan að það er fyrst og fremst ungt fólk sem flyst til staðarins á hraðvaxtarskeiði, fólk sem er í þann mund að stofna fjölskyldu og eignast börn. Þessi fyrsta kynslóð hefur síðan reynst býsna rótföst. Einum til tveimur áratugum eftir hraðvaxtarskeiðið fara börn þessarar fyrstu kynslóðar að koma inn á vinnumarkaðinn. Þessi hópur á litla von um að fá atvinnu á staðnum þar sem foreldrar eru hvergi nærri komnir á eftirlaunaaldur...Einhæfir iðnaðarstaðir þykja óaðlaðandi til búsetu sökum einangrunar og ýmissa vandamála sem þar er að finna. Þannig má benda á að atvinnuleysi kvenna virðist vera varanlegt einkenni einhæfra iðnaðarstaða....Rekstrarskilyrði iðjuvera á einhæfum iðnaðarstöðum eru þannig óhagkvæm þegar til lengri tíma er litið...Margfeldisáhrif iðjuvera eru jafnan óveruleg á einhæfum iðnaðarstöðum og takmarkast við nauðsynlegustu þjónustu við fyrirtækið og starfslið þess....” Í 4.4. í skýrslunni segir í upphafi: “Staðarvalsnefnd gengur út frá þeirri meginforsendu að ekki beri að stuðla að myndun einhæfra iðnaðarstaða og að staðarval iðjuvera leiði ekki til verulegrar búseturöskunar innan einstakra landshluta verði hjá því komist.”
Gert er samkvæmt matsskýrslu ráð fyrir að álverið framleiði allt að  420 þúsund tonn/ári, þar af fyrri áfangi allt að 280 þús.t/ári en síðari áfangi allt að 140 þúsund tonn. Í matsskýrslu kemur fram að í skipulagi iðnaðarlóðar sé gert ráð fyrir þeim möguleika að stækka verksmiðjuna enn frekar umfram 480 þúsund tonna afköst síðar.

            Risastærð ráðgerðrar verksmiðju setur mark sitt á þessa framkvæmd, sem og orkuöflun til verksmiðjunnar og flutningslínur fyrir rafmagn til hennar. Ljóst verður þetta m.a. af samanburði við starfandi álverksmiðjur hérlendis sem samanlagt hafa framleiðslugetu fyrir um 250 þúsund tonn nú eftir stækkun Norðuráls í 90 þúsund tonn.

Undirritaður telur rangt orkupólitískt út frá aðstæðum hérlendis að auka við orkufrekan iðnað frá því sem nú er, ekki síst á meðan unnið er að heildarúttekt á vatnsafli og jarðvarma (sjá lið 20 Takmarkaðar orkulindir).

Mikið óráð er að ætla sér að staðsetja risaverksmiðju eins og hér um ræðir á Austurlandi með tilliti til fámennis og annarra samfélagslegra aðstæðna. Engin sérstök félagsleg greining var gerð á aðstæðum á Mið-Austurlandi áður en NORAL-verkefnið hófst og litið framhjá hlutlægum athugunum umræddrar stjórnskipaðrar nefndar 15-20 árum áður. Um álitsgerðir matsskýrslu Reyðaráls hf um samfélagsleg áhrif verður rætt síðar. Þá mæla náttúrufarsaðstæður í Reyðarfirði eindregið gegn því að staðsetja þar stóriðjuver af þeirri stærð sem hér um ræðir, sbr. töluliði 12-13 hér á eftir.

Orkumannvirki eru ekki hluti af matsskýrslu Reyðaráls, þar eð Landsvirkjun telst framkvæmdaraðili við byggingu þeirra. Hins vegar yrðu raflínur og spennuvirki ekki síður áberandi og landfrek í Reyðarfirði en framkvæmdir á verksmiðjulóð. Er hætt við að margir íbúar Reyðarfjarðar eigi eftir að vakna upp við vondan draum þeirra vegna, ef af framkvæmdum yrði.

5. Rafskautaverksmiðja engin smásmíði.

            Bygging 223 þúsund tonnna rafskautaverksmiðju fyrir álverksmiðju á Reyðarfirði er hluti af fyrirliggjandi mati og hefur ekki áður komið til umfjöllunar hérlendis í tengslum við mat á umhverfisáhrifum. Þannig var rafskautaverksmiðja ekki hluti af  fyrirhuguðum framkvæmdum við 480 þúsund tonna álver samkvæmt matsskýrslu Hrauns ehf 15. október 1999. Fyrir byggingu slíkrar verksmiðju eru nú einkum færð efnahagsleg rök frá sjónarhóli Reyðaráls hf. Um það segir á bls. 71-72 í matsskýrslu:

“Í matsáætlun var tekið fram að kannað yrði hvort hagkvæmt væri að reka álverið án þess að framleiðsla rafskauta væri á staðnum. Niðurstaða þeirrar athugunar er sú að nauðsnlegt sé að byggja rafskautaverksmiðju vegna álvers Reyðaráls og mun hagkvæmara sé að byggja hana á iðnaðarsvæðinu í Reyðarfirði en annars staðar.” Síðan eru bornar fram ástæður fyrir þessu í sex liðum og vegur sá síðasti etv. þyngst af hálfu fyrirtækisins, svohljóðandi: “Ef rafskautaverksmiðjan er ekki hluti álversins yrði kostnaður vegna flutnings rafskauta frá rafskautaverksmiðju staðsettri annars staðar og flutningur skautleifa til baka verulegur og myndi það rýra hagkvæmni álversins.” Lokaorð um þetta eru: “ Í heild yrði því mun óhagkvæmara að byggja rafskautaverksmiðjuna annars staðar og það myndi rýra hagkvæmni álversins.”
Við málsmeðferðina af hálfu Reyðaráls að því er rafskautaverksmiðju snertir er margt að athuga. Í athugasemdum undirritaðs við matsáætlun, tölulið 9 í bréfi dags. 30. júní 2001 sagði m.a. um rafskautaverksmiðju (fylgiskjal I):
“Bygging rafskautaverksmiðju við Reyðarfjörð er stórmál út af fyrir sig og nýtt í þessu samhengi. Tillaga Reyðaráls hf. að matsáætlun er fáorð um þessa framkvæmd, sem bætir við mörgum álitaefnum. Engin lýsing liggur fyrir á framleiðsluferli, losun mengandi efna, starfsmannafjölda o.fl. í rafskautaverksmiðju. Verður væntanlega að taka alla slíka þætti til sértækrar athugunar og sem hluta af heild eftir því sem við á. Hlýtur að þurfa að móta ítarlega matsáætlun þeirra vegna þar sem lagðar verði línur um hvernig fyrirhugað sé að vinna að matsskýrslu um rafskautaverksmiðjuna, hvaða rannsóknir þurfi að ráðast í hennar vegna svo og um mnegunarhættu og varnir gegn henni.”

Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar dags. 9. ágúst 2000 um tillögu Reyðaráls hf. að matsáætlun um álverið segir m.a.:

“Skipulagsstofnun telur að ítarlegri grein hefði átt að gera fyrir þessu í matsáætlun og að í matsskýrslu þurfi að gera ítarlegri grein fyrir hvaða mengunarefni koma frá starfsemi rafskautaverksmiðju, magni þeirra og eiginleikum, áhrifum á umhverfið og kostum varðandi mengunarvarnir ásamt því að skýra hvaða mengunarvarnir eru fyrirhugaðar.”

 Ekki hefur í matsskýrslu verið brugðist við þessum athugasemdum nema að takmörkuðu leyti. Umfjöllun um rafskautaverksmiðjuna ætti að vera sérstakur hluti í matsskýrslu, ef ekki sjálfstæð skýrsla unnin samkvæmt sérstakri matsáætlun. Eins og málefni rafskautaverksmiðju er lagt fyrir í matsskýrslu er erfitt, ef ekki útilokað að átta sig á áhrifum verksmiðjunnar sem sérstakrar einingar og þá um leið hvort hún er réttlætanleg sem viðbót við álverksmiðju á Reyðarfirði,  eins og henni er lýst að öðru leyti. Í stað þess að skilmerkilega sé gerð grein fyrir rafskautaverksmiðjunni sem einingu er umfjöllun um hana á dreif í matsskýrslu og þarf að fara í saumnálarleit til að tína þá saman, þar eð engin atriðaorðaskrá fylgir skýrslunni í heild. Engin sjálfstæð grein er heldur gerð fyrir vinnuaflsþörf verksmiðjunnar né er þar heldur að finna umfjöllun um vinnuumhverfi innan hennar, áhættuþætti o.s.frv. Umfjöllun um efnalosun frá rafskautaverksmiðju er einnig á dreif í skýrslunni. Framkvæmdaraðili hefur að því er virðist ekki haft áhuga á að rafskautaverksmiðjan sætti sjálfstæðri, gagnrýninni athugun.

Í fyrirlestraröð sérfróðra á vegum Landverndar í maí og júní 2001 um matsskýrslur Reyðaráls hf og Landsvirkjunar var m.a. rætt um losun frá rafskautaverksmiðju, sbr. fyrirlestur Bergs Sigurðssonar umhverfisefnafræðings og Ingibjargar E. Björnsdóttur umhverfissérfræðings, en útdráttur erindanna er aðgengilegur á heimasíðu Landverndar. Bergur Sigurðsson greindi m.a. frá eftirfarandi í sínu erindi:

“Við skautasmiðju Reyðaráls stendur ekki til að nota bestu fáanlegu tækni. Reyðarál hyggst nota eins þreps hreinsun við skautasmiðju, en í Noregi er víða notuð þriggja þrepa hreinsun. 1) Þurrhreinsun (eins og hjá Reyðaráli) 2) Vothreinsun (tíðkast víða í Noregi) 3)Síun á vothreinsivatni (tíðkast víða í Noregi).”

            Frá útblæstri rafskautaverksmiðju myndu berast 1,97 tonn af PAH í andrúmsloftið (Bergur Sigurðsson, fyrirlestur, vitnaði m.a. í Jonny Beyer sérfræðing við Rogaland Research) og bætist sá glaðningur í Austfjarðaþokuna undir hitahvörfum við viss skilyrði. Þessi krabbameinsvaldandi efni sitja á yfirborði svifryks í andrúmsloftinu og í rigningu geta efnin skolast út í sjó (Ingibjörg E. Björnsdóttir í fyrirlestri hjá Landvernd). Hér er því margt athugavert á seyði. Fyrir hálfu öðru ári var lögð fram matsskýrsla um 480 þúsund tonna álverksmiðju af hálfu sömu aðila, þá borin fram af sýndarfyrirtæki undir nafninu Hraun ehf. Þar var ekki minnst á rafskautaverksmiðju. Nú er slík verksmiðja talin ómissandi þáttur í rekstri 420 þúsund tonna álverksmiðju Reyðaráls hf. Í matsskýrslunni er verksmiðja þessi klædd í felubúning þannig að óframbærilegt verður að teljast.

            Losun frá rafskautaverksmiðjunni virðist einkum varða PAH-efni og SO2 . Á bls. 94 í matsskýrslu setndur m.a.:

“Eins og sjá má minnkar útblástur SO2 mikið við það að bæta við vothreinsivirki fyrir rafskautaverksmiðjuna. Slíkt myndi hins vegar auka verulega magn PAH í frárennsli og auka kostnað við verksmiðjuna. Því er hér, og í allri umfjöllun hér á eftir, gert ráð fyrir að útblástur frá verksmiðjunni verði samkvæmt tilfelli 2 hér að framan.”

 Þessi framsetning er næsta furðuleg og tilvísanir í “tilfelli” og”myndir” afar óljósar og nánast í krossgátuformi þannig að erfitt ef ekki ómögulegt er fyrir óinnvígða að átta sig á um hvað málið raunverulega snýst. Sami texti er síðan endurtekinn orðrétt á bls. 135!

            Á heildina litið er umfjöllun matsskýrslu um rafskautaverksmiðju algjörlega ófullnægjandi og villandi og ekki til þess fallin að unnt sé að taka afstöðu til hugmynda framkvæmdaraðilans um byggingu hennar nema þá til að hafna þeim. Ljóst er þó að rafskautaverksmiðja yrði til að auka verulega mengunarálag í Reyðarfirði, bæði í lofti og legi. Skipulagsstofnun og eftir atvikum Hollustuvernd ríkisins hljóta að fara vandlega ofan í sauma á mengun frá rafskautaverksmiðju  og þeirri hreinsitækni sem Reyðarál hyggst beita við rekstur hennar. Eðlilegt er að gera kröfu til að slík verksmiðja fari í sérstakt mat á umhverfisáhrifum lögum samkvæmt. Eins og málið nú liggur fyrir er rétt er að hafna byggingu slíkrar verksmiðju við aðstæður í Reyðarfirði.

6. Raflínur

            Þótt lagning tveggja 400 kV raflína frá Fljótsdal til Reyðarfjarðar hafi sætt mati á umhverfisáhrifum á árinu 2000 sem sérstakur framkvæmdaþáttur á vegum Landsvirkjunar verður ekki hjá því komist að minna á þær hér í tengslum við Reyðarfjörð sérstaklega og álverksmiðju Reyðaráls hf. Undirritaður skilaði 8. maí 2000 athugasemdum vegna mats á þessum línum og kærði 4. júlí 2000 ásamt Gunnari Guttormssyni úrskurð skipulagsstjóra um framkvæmdina. Var gerð krafa um frekara mat á framkvæmdinni, athugun á breyttu línustæði og lagningu línanna í jörð a.m.k. að hluta, sevo sem fyrir botni Reyðarfjarðar. Á ekkert af þessu var fallist utan að leggja línurnar samsíða yfir Hallormsstaðaháls.

Umhverfisáhrif af þessum línum eru með öllu óásættanleg, meðal annars munu þær stórskemma ásýnd innsta hluta Reyðarfjarðar og næsta nágrennis þéttbýlisins. Sætir furðu að íbúar byggðarlagsins og sveitarstjórn skuli mótmælalaust taka þessari tilhögun sem, ef umrædd verksmiðja yrði reist, mun verða skrifuð á reikning Reyðaráls hf ekki síður en Landsvirkjunar.

7. Samfélagsleg áhrif

7.1 Skýrsluhöfundur með bundnar hendur

Allmikil umfjöllun er í matsskýrslu um samfélagsleg áhrif NORAL-verkefnisins í heild og álverksmiðju Reyðaráls sérstaklega, byggt á skýrslu Nýsis ehf (viðauki A1). Segja má um þetta framlag almennt að það sé talsvert að vöxtum en rýrt að innihaldi. Í stað gagnrýninnar félagslegrar greiningar á umræddum framkvæmdaáformum, staðsetningu risaálverksmiðju á Reyðarfirði og líklegum áhrifum og afleiðingum fyrir Austurland, beinist samantekt Nýsis að því að sýna fram á að allt geti þetta gengið þokkalega upp og orðið til þess að styrkja byggð á Mið-Austurlandi og fjölga þar íbúum um nálægt 3000 manns á 10 árum. Umfjöllun skýrsluhöfunda og þröngt sjónarhorn verður skiljanlegra í ljósi ummæla Sigfúsar Jónssonar, aðalhöfundar skýrslunnar, sem féllu í umræðum á kynningarfundi Reyðaráls á Hótel Sögu 14. júní 2001. Þar lýsti hann sig samþykkan ýmissi framkominni gagnrýni undirritaðs á samfélagslegan þátt málsins, en bætti við að hendur sínar sem skýrsluhöfundar væru bundnar, honum hafi af Reyðaráli hf verið falið að meta áhrifin á þessum stað en ekki  að líta á aðra kosti. Því gæti hann ekki rætt málið opið eins og hann ella hefði kosið. Þessi ummæli, framkomin á opinberum kynningarfundi framkvæmdaraðilans, varpa ljósi á takmarkað gildi umræddrar skýrslu um mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álverksmiðjunnar og um  leið á matsskýrslu framkvæmdaraðilans í heild sinni.Ummæli Sigfúsar vekja einnig upp spurningar um tilhögun þess matsferlis sem markað er samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og sýna fram á nauðsyn þess að Skipulagsstofnun sem matsaðili geti látið fara fram rannsóknir á eigin vegum til mótvægis við hagsmunatengdar álitsgerðir og frestir Skipulagsstofnunar til athugunar á viðamiklum málum verði lengdir verulega.

7.2 Samfélagsleg sprengja

            Framkvæmdaáformum NORAL-verkefnisins sem fjallað er um í skýrslu Nýsis ehf. verður verður best lýst sem samfélagslegri sprengju sem setja mun austfirskt samfélag í uppnám og veikja enn frekar en orðið er innviði þess og viðnámsþrótt. Gangi hugmyndir NORAL-verkefnisins eftir yrðu Austfirðingar notaðir í tilraun sem leitt gæti af sér stærstu samfélaglega kollsteypu sem nokkru sinni hefði orðið hérlendis í seinni tíð og þótt víðar væri leitað.

Stóriðjuhugmyndin sem stjórnvöld kynntu síðsumars 1997 hefur frá þeim tíma haldið samfélaginu á Austurlandi í gíslingu og ýtt undir þann hugsunarhátt á flestum sviðum að “björgunin” komi að utan með stjórnvaldsaðgerðum af stærstu gerð, þ.e. í formi allt að 300 miljarða fjárfestingar! Þótt hugmyndir um stóriðju á Reyðarfirði hafi komið upp öðru hvoru áður voru þær ekki ofar á baugi en svo að í aðalskipulagi Reyðarfjarðar fyrir tímabilið 1990-2010 sem staðfest var 1992 var ekki gert ráð fyrir stóriðju í sveitarfélaginu. Segir í greinargerð með skipulaginu að þrátt fyrir umræðu um stóriðjuuppbyggingu við Reyðarfjörð sé það “...stefna þessa aðalskipulags að ganga ekki út frá slíkum breytingum heldur miða við hæga en örugga þróun byggðar og mannlífs.” Gerði skipulagið ráð fyrir að íbúar á Reyðarfirði verði 780-800 í lok skipulagstímabilsins árið 2010.

            Umrædd fjárfesting, um 300 miljarðar ísl. kr.,  er samkvæmt NORAL-verkefninu fyrirhuguð á tímabilinu 2002-2013, en meginþunginn við fyrri áfanga yrði á árunum 2003-2005. Vegna virkjunarframkvæmda er mannaaflaþörfin í heild talin  3330 ársverk, þar af við fyrri áfanga 2820 ársverk. Vegna álverksmiðju eru hliðstæðar tölur 2750 ársverk, þar af við fyrri áfanga um 2000 ársverk. Eru þá ekki meðtalin störf vegna fjölmargra tengdra verkefna, svo sem við lagningu raflína, hafnargerð, vegagerð og byggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Bygging íbúðarhúsnæðis ein og sér er í skýrslu Nýsis metin á 900 ársverk. Á mesta framkvæmdaárinu 2005 er vinnuaflsþörf NORAL-framkvæmda metin á um 2000 ársverk það eina ár! Til samanburðar má geta þess að heildarfjöldi ársverka við Blönduvirkjun var um 820 ársverk og við Hrauneyjafossvirkjun um 880 ársverk. Til samanburðar við þessar tölur má einnig hafa í huga að heildarstærð vinnumarkaðar á Mið-Austurlandi, fólk í fullu starfi, var á árinu 1999 um 3500 manns, þar af voru 100-200 ársverk unnin af útlendingum.

7.3 Áhrifin á atvinnulíf sem fyrir er

            Í skýrslu um samfélagsleg áhrif Kárahnjúkavirkjunar sem unnin var fyrir Landsvirkjun af Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri er gert ráð fyrir að þátttaka heimamanna í framkvæmdum muni verða 20-25% af heild (150-200 ársverk á ári 2003-2005) á byggingartíma.

Í skýrslu Nýsis ehf. er “...gert ráð fyrir að heimamenn muni sinna 15% af vinnu við framkvæmdir”, en erlent vinnuafl um 30%. Jafnframt er þar gert ráð fyrir “...að 300 ársverk á Mið-Austurlandi frestist frá árunum 2003-2005 til 2006-2009...”  Í skýrslunni má sjá staðhæfingar eins og þessar  (prentuð skýrsla í maí 2001): “Ekki virðast neinar líkur á því að atvinnulífið sem heild bíði skaða af tilkomu álversins og tengdrar starfsemi á svæðið. Þvert á móti munu skapast mörg ný viðskiptatækifæri fyrir fyrirtæki á svæðinu.” (bls. 48) ...”Bein, óbein og afleidd áhrif fyrirhugaðs álvers munu verða þau að hjálpa ungu menntuðu fólki sem á rætur á Mið-Austurlandi að fá störf við hæfi og þar með stuðla að meira jafnvægi í aldursskiptingu íbúanna og draga úr brottflutningi.” (bls. 49)...”Þessar forsendur sem hér hafa verið nefndar munu leiða til íbúafjölgunar vegna framkvæmda 2002-2005 upp í 9.150-9.200 manns. Árið 2006 munu störf í álverinu meira en bæta upp fækkun starfa heimamanna við framkvæmdir og leiða til þess að íbúafjöldi verður u.þ.b. 9.900 árin 2007-2008.” (bls. 51).

Íbúafjöldi á Mið-Austurlandi, þ.e. frá Breiðdal til Borgarfjarðar eystri og á Fljótsdalshéraði var 1. desember 2000 talinn 8.118 manns, karlar 5% fleiri en konur.

            Í skýrslu Nýsis ehf. og matsskýrslu Reyðaráls hf. er einkum gert ráð fyrir að atvinnusókn til álverksmiðju og tengdra framkvæmda komi frá sjávarútvegi (einkum vélstjórar og iðnaðarmenn, starfsmenn loðnubræðsla og vélaverkstæða), landbúnaði, litlum iðnfyrirtækjum og úr ferðaþjónustu. “Mikil aukning varanlegra starfa á Miðausturlandi á u.þ.b. 10 árum, þ.e. um 1000 störf, getur leitt til almennra launa- og verðhækkana. Skortur á vinnuafli getur haft neikvæð áhrif á atvinnugreinar eins og landbúnað, ferðaþjónustu og ýmsar þjónustugreinar. Aukin eftirspurn getur leitt til hækkunar á verði húsnæðis o.fl., en almennar verðhækkanir geta verið óhagstæðar fyrir þá sem búa við rýrar tekjur” (matsskýrsla, bls. 118).

            Allt eru þetta vangaveltur án stuðnings af rannsóknum og sem enginn getur sagt um hvort ganga muni eftir. Aðspurður féllst skýrsluhöfundur, Sigfús Jónsson, á það sjónarmið á nefndum kynningarfundi Reyðaráls hf 14. júní 2001. Vísa má einnig í athugasemdir dr. Ívars Jónssonar dósents við Viðskiptaháskólann á Bifröst, en hann flutti erindi á vegum Landverndar um samfélags- og efnahagslegan þátt í matsskýrslu Reyðaráls hf.

            Undirritaður sem fylgst hefur náið með austfirskum málefnum um langt skeið metur líkleg samfélagsáhrif með allt öðrum hætti en nefndir skýrsluhöfundar. Áhrifin á byggingatíma yrðu afdrifarík fyrir þróunina eftir að álverksmiðja tæki til starfa. Ekki fer hjá því að þá skapist eins konar Klondike-ástand á Austurlandi sem ekki myndi einskorðast við Mið-Austurland heldur taka til kjördæmisins í heild. Gífurleg röskun hlyti að verða á rekstrarumhverfi starfandi fyrirtækja, bæði kostnaðarlega og hvað snertir starfsfólk. Gera má ráð fyrir að mörg fyrirtæki hætti rekstri af þessum sökum og tilfinnanlegur samdráttur verði hjá öðrum. Mikill samdráttur í landbúnaði á svæðinu myndi óhjákvæmilega bitna á þjónustufyrirtækjum auk beinnar byggðaröskunar, m.a. í sveitum. Vegna hækkunar fasteignaverðs má búast við að margir selji eignir sínar og flytji burt af svæðinu. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að um 20% af þeim einstaklingum á Mið-Austurlandi, sem þátt tóku í könnun Félagsvísindastofnunar 1997, sögðust hafa hugleitt að flytjast burt af svæðinu. Nettóáhrifin að álverksmiðju byggðri gætu því orðið neikvæð þegar upp er staðið að því er íbúafjölda snertir og svæðið stæði uppi að verulegu leyti háð einum atvinnurekanda.

7. 4 Mönnun álverksmiðju og erlent vinnuafl

            Samkvæmt skýrslu Nýsis ehf. og matsáætlun á ekki að vera vandkvæðum bundið að manna álverksmiðjuna og í því sambandi er m.a. vísað í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar. Er þá gert ráð fyrir að vegna starfsmanna í 1. áfanga verksmiðju og afleiddra starfa, alls áætluð 750 manns, verði aðkomufólk sem setjist að alls 350, þar af “brottfluttir Austfirðingar” 100 talsins (tafla 13.2, bls. 120 í matsskýrslu). Um 400 manns verði heimafólk, þar af helmingur eða 200 manns “nýliðar á vinnumarkaði”. Undirritaður telur að fyrrtaldi hópurinn, aðkomufólkið, sé sýnd veiði en ekki gefin og afar ólíklegt að sá fjöldi skili sér inn á svæðið nema þá að gert sé ráð fyrir drjúgum hluta sem erlendu vinnuafli. Ef heimafólk skilaði sér til starfa í þeim mæli sem skýrsluhöfundar gera ráð fyrir myndi það bitna þeim mun meir á fyrirtækjum sem fyrir eru á svæðinu.

            Skýrsluhöfundar búa til atvinnusvæði miðað við 30 mínúna akstursfjarlægð og gera því skóna að þess sé að vænta að fólk frá Héraði og Neskaupstað aki daglega til vinnu í álverksmiðjunni. Umræddar 30 mínútur eru miðaðar við sumarfæri og augum lokað fyrir því að hálft árið geta akstursaðstæður verið lakari þannig að umræddur aksturstími getur þá allt að tvöfaldast. Þá geta og komið óveðurskaflar og aftök sem gera nánast ókleift að halda leiðum opnum, bæði um Oddsskarð og Fagradal. Ekki er einhlítt að miða við snjólétta vetur undanfarinna 5-10 ára.

            Tilkoma nýrra starfa í álverksmiðju gerist sem viðbót aðeins í eitt skipti og að verksmiðjunni fullbyggðri og fullmannaðri er komið svipað ástand  og áður með einkennum sem minna myndu á einhæfa iðnaðarstaði, sbr. tölulið 4 hér á undan. Endurnýjun á starfsliði slíkrar verksmiðju gæti orðið mjög hæg, ekki síst þar eð fárra annarra kosta væri völ fyrir sérhæft vinnuafl á svæðinu.

            Undanfarin ár hefur lítið sem ekkert atvinnuleysi verið á Austurlandi og miklu fremur skortur á vinnuafli. Reynt hefur verið að fylla í þau skörð með innfluttu vinnuafli og allt að 200 útlendingar hafa verið að störfum samtímis á svæðinu skv. upplýsingum í skýrslunni. Miklar líkur eru til að byggja verði í auknum mæli á erlendu vinnuafli á Austurlandi eftir tilkomu álverksmiðju, ekki síst í árstíðabundum störfum og þeim sem lakar eru launuð en svarar meðaltali. Slíkt getur leitt til margvíslegra félagslegra vandamála, ekki síst ef á skortir um nauðsynleg úrræði bæði fyrir útlendinga og heimamenn  til aðlögunar að breyttum aðstæðum. Slíkt kostar fjármuni en ekkert er í skýrslunni fjallað um þessa hlið málsins.

Í skýrslunni er talið líklegt “...að einhverjir Íslendingar sem búsettir eru erlendis hafi áhuga á að snúa heim, einkum þeir sem hafa menntun og starfsreynslu sem nýtist í starfi í álveri.”  Hins vegar er ekkert vikið að þeim möguleika að fyrirtækið þurfi hugsanlega að flytja inn erlent vinnuafl, utan nokkra erlenda ríkisborgara sem starfa á vegum Hydro Aluminium. Ekki er heldur nefnt að önnur fyrirtæki sem missa kynnu starfsmenn sína til álverksmiðjunnar þurfi að leita á erlendan vinnumarkað eftir fólki. Þá er ljóst að sveiflur sem vænta má í rekstraraðstæðum í áliðnaði myndu hafa langtum afdrifaríkari áhrif í fámennu samfélagi Austfjarða en á svæðum þar sem tugþúsundir eru á vinnumarkaði og fjölbreytni er til staðar í fyrirtækjamynstri.

            Umfjöllun í skýrslunni um áhrif álverksmiðju á vinnumarkað á Austurlandi einkennist af óskhyggju og ábyrgðarleysi gagnvart þeim aðstæðum, sem líklegt er að skapast myndu á vinnumarkaði austanlands við tilkomu verksmiðjunnar.

7.5  Álverksmiðja og kynskipting vinnuafls

            Eins og fram kemur í skýrslu Nýsis ehf. eru karlar um 200 fleiri en konur á Mið-Austurlandi eða 5% fleiri og er hlutfallið þó enn óhagstæðara litið til kjördæmisins í heild eða 7,8%.

“Fólk á aldrinum 20-29 ára er hlutfallslega færra en landsmeðaltal þessa aldurshóps og það á sérstaklega við um konur. Þær yfirgefa Austurland og leita mest á höfuðborgarsvæðið þar sem mestir möguleikar eru til menntunar og fjölbreyttrar atvinnu. Þetta hefur aukist s.l. áratug og á sér meðal annars skýringar í aukinni menntun og atvinnuþátttöku kvenna...Á vinnumarkaði á Austurlandi er munur á fjölda karla og kvenna í öllum aldurshópum.”

 

Störf sem eru í boði á Mið-Austurlandi nú eru almennt talin henta körlum betur en konum. Í matsskýrslu segir um nýliða á vinnumarkaði m.a. (bls. 119):

 

Ungar konur yfirgefa svæðið almennt fyrr og í meiri mæli en ungir karlmenn. Hvað varðar unga fólkið þarf einkum að huga að tvennu í sambandi við rekstur álversins. Í fyrsta lagi að vekja áhuga ungra karlmanna á störfum í álverinu og bjóða upp á sérstaka náms- og þjálfunarbraut við Verkmenntaskólann í Neskaupstað fyrir þá....Í öðru lagi þarf að huga að því hvernig hægt sé að laða ungar konur að svæðinu til starfa í álverinu. Það má gera með sérstöku verkefni sniðnu að þeirra þörfum til að þær flytjist síður burt af svæðinu og undirbúi sig til starfa í álverinu. Álverið mun einnig leiða til þess að ýmsum þjónustustörfum fjölgar á svæðinu en mörg þeirra eru áhugaverð fyrir konur.”

            Fáum blandast hugur um að tilkoma álverksmiðju myndi bæta gráu ofan á svart hvað varðar kynskiptingu á vinnumarkaði á Austurlandi konum í óhag. Er fátt frekar til þess fallið að auka þann mun sem fyrir er en tilkoma einhæfs þungaiðnaðar.

8. Framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga

            Samkvæmt matsskýrslunni þurfa að koma til margháttaðar stuðningsfjárfestingar á vegum ríkis og sveitarfélaga til styrkingar á innri gerð Mið-Austurlands þannig að svæðið yrði fært um að taka við risaálverksmiðju. Þarna er um að ræða stórframkvæmdir í jarðgangagerð, hafnargerð, byggingu allt að 900 nýrra íbúða, þar af 650 á árunum 2002-2008, og opinberar framkvæmdir á sviði menntamála og heilbrigðisþjónustu. Þar fyrir utan er talað um 18.000 fermetra atvinnuhúsnæðis sem aðallega yrði reist af einkaaðilum. Hér er um að ræða tugmiljarða fjárfestingar sem að verulegu leyti falla hvað tíma varðar saman við stórframkvæmdir NORAL-verkefnisins. Um íbúðabyggingar segir m.a. í skýrslunni, bls. 121:

            Varðandi húsnæðismál þarf einnig að huga vel að því hverjir muni standa fyrir húsbyggingum og hvernig uppbyggingin verður fjármögnuð. Búast má við að sveitarfélögin semji við verktakafyrirtæki og fjárfesta um að taka að sér tiltekin nýbyggingarhverfi og byggja þau í heilu lagi en selja síðan einstaklingum....Hins vegar er bygging leiguhúsnæðis ekki áhugaverður fjárfestingarkostur fyrir einkaaðila og því þurfa sveitarfélögin og ríkisvaldið að kanna sameiginlega með hvaða hætti hægt er að vinna að uppbyggingu leiguhúsnæðis eða kaupleiguíbúða á svæðinu ef áform um álver og virkjanir ganga eftir.”

Heildarfjárfestingin í nýju íbúðarhúsnæði vegna 1. áfanga álverksmiðju er metin um 10 miljarðar króna og 900 ársverk þurfi að koma til við að reisa íbúðirnar og undirbúa byggingarsvæði. Höfundar skýrslu Nýsis ehf. leggja áherslu á nauðsyn áætlunar um fjármögnun og skipulag þessara framkvæmda áður en þær hefjast. Núverandi húsnæðislánakerfi sé t.d. ekki hentugt til að sinna þessu verkefni að því er íbúðarhúsnæði varðar.

            Erfitt er að skilja hvernig aðilar að NORAL-verkefninu ímynda sér að öll þessi framkvæmdaáform geti gengið upp með sæmilegum hætti og hljóti pólitískan stuðning í þrjú kjörtímabil. Ekki er aðeins um það að ræða að fjárfesta í stóriðjuframkvæmdum á fámennu svæði fyrir 250 miljarða á 12 ára tímabili heldur þurfi samtímis að koma til um 50 miljarða fjárfesting að auki með beinum og óbeinum stuðningi ríkisvaldsins. Eigi að skapa rúm fyrir þessar fjárfestingar í íslensku hagkerfi þannig að ekki fari allt úr böndum yrði að takmarka í áður óþekktum mæli framkvæmdir alls staðar annars staðar á landinu á þessu tímabili. Um margt minna þessar ráðagerðir á miðstýrðar tiltektir valdhafa í Sovétríkjunum þegar mest gekk á þarlendis í uppbyggingu þungaiðnaðar. Hættan er sú að allt færi þetta hér

meir og minna á hliðina og sú grunnuppbygging sem samkvæmt matsskýrslu er forsenda þess að vel takist til láti á sér standa þegar til kastanna kæmi.

9. Áhrif á jaðarsvæði austanlands

            Lítið er um þennan þátt fjallað í matsskýrslu Reyðaráls hf en þó má ljóst vera að stóri ávinningurinn sem skýrsluhöfundar telja að felist í álverksmiðju fyrir Mið-Austurland væri að meira eða minna leyti á kostnað byggðarlaga í kjördæminu sem fjær liggja. Undir fyrirsögninni “aðkomufólk” segir í matsskýrslu (bls. 119):

“Aðkomufólki sem flyst til Austurlands vegna fyrirhugaðs álvers má einkum skipta í þrjá hópa:

  • Aðkomufólk sem kemur upphaflega til að vinna við framkvæmdir við álverið eða virkjanaframkvæmdir og ákveður að dveljast áfram á svæðinu.
  • Fólk sem býr í þorpum og bæjum sem eru utan daglegrar vinnusóknar til álversins, t.d. á Hornafirði, Djúpavogi, Vopnafirði og Norðulandi eystra. Margir búa við óöryggi í núverandi starfi, eru þreyttir á því eða eru sjálfstætt starfandi og hefðu áhuga á að flytja ef starf við hæfi byðist.
  • Menntað fólk sem hefur áhuga á tæknistörfum, stjórnunarstörfum, sérhæfðum skrifstofustörfum,  störfum við innkaup eða á rannsóknastofum. Fólk sem sækir í þessi störf getur komið víða að.”

Í matsskýrslu er þannig gert ráð fyrir umtalsverðu aðstreymi vinnuafls frá útjöðrum kjördæmisins. Áhrifin á þessi svæði hæfust þegar á byggingartíma, m.a. væri ekki lengra fyrir Vopnfirðinga að sækja vinnu við Kárahnjúkavirkjun  en fyrir fólk af Austfjörðum. Ef hugmyndir um enn frekari eflingu byggðakjarna á Mið-Austurlandi með stjórnvaldsaðgerðum gengju eftir, sbr. nýlega kynntar tillögur byggðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, gætu áhrifin orðið enn afdrifaríkari fyrir Vopnafjörð og Hornafjörð. Litið til Austurlands alls er þannig ólíklegt að um nettó fjölgun íbúa yrði að ræða eftir að álverksmiðja hefði tekið til starfa.

10. Núll-kostur

            Í matsskýrslu (bls. 72) eru nefnd nokkur svið atvinnulífs sem þróa mætti án álvers en lítið er gert úr þeim í heild. “Án álversins er líklegt að árið 2010 verði um 6.500-7000 manns búsettir í fjórðungnum, hlutfall ungs fólks og þar með barna verði enn lægra en nú, ójafnt hlutfall kynja aukist enn frekar og afkoma fólks á Austurlandi dragist enn frekar aftur úr höfuðborgarsvæðinu.”  Hér er verið að spá nær helmings fækkun íbúa frá því sem nú er á næstu 10 árum án þess að það sé rökstutt nánar. Umfjöllun um “núll-kost” tekur ekki hálfa blaðsíðu í matsskýrslunni!. Athygli vekur að bætt menntunarskilyrði og þróun háskólanáms eru ekki nefnd á nafn sem viðfangsefni né heldur sókn á sviði menningar og afþreyingar. Staðhæft er að tilkoma álverksmiðju hafi ekki neikvæð áhrif á þróunarmöguleika í öðrum greinum.

Umfjöllun matsskýrslu um þróunarhorfur á Austurlandi án álverksmiðju er á engan hátt frambærileg og lituð af hagsmunum og sýn framkvæmdaraðila álverksmiðju til eigin hugmyndar.

11. Losun gróðurhúsalofttegunda

Samkvæmt matsskýrslunni er gert ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda frá 420 þúsund tonna álverksmiðju nemi um  770 þúsund tonnum í koldíoxíð-ígildum eða 1,86 tonn fyrir hvert tonn af áli. Það væri meiri losun en barst frá öllum fiskiskipaflota Íslendinga á árinu 1990, en það ár  er viðmiðunarár í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að.

Við þetta bætist nokkur losun gróðurhúsalofttegunda og skert binding CO2 vegna Kárahnjúkavirkjunar sem gert er ráð fyrir að sjái Reyðaráli hf fyrir orku. Samkvæmt matsskýrslu Landsvirkjunar er sú losun talin vera ígildi 500 – 5000 tonna CO2 á ári. Losun CO2 á byggingartíma virkjunarinnar er metin verða 280.000 tonn CO2-ígilda. Nokkur óvissa er talin ríkja um losun metans sem hækkað gæti fyrri tölurnar.

Í matsskýrslu Reyðaráls (7.3 bls. 81) er því haldið fram til réttlætingar á losun gróðurhúsalofttegunda af völdum stóriðju á Íslandi að miklu betra sé að framleiða ál og aðrar afurðir þungaiðnaðar hér með vatnsafli en annars staðar þar sem notað sé jarðefnaeldsneyti til framleiðslunnar. Um það segir: “Það er því rökrétt að álykta að framleiðsla á áli við Reyðarfjörð muni draga hlutfallslega úr notkun jarðefnaeldsneytis vegna álframleiðslu í heiminum.” Þótt auðvelt sé að reiða fram tölulega útreikninga hvað þetta varðar fyrir álframleiðslu eina og sér er um blekkingu að ræða í samhengi loftslagssamningsins. Loftslagssamningurinn sem Ísland er aðili að gerir ráð fyrir að hver aðili að samningnum vinni gegn losun gróðurhúsalofttegunda innan sinnar efnahagslögsögu. Með Kyótó-bókuninni er gert ráð fyrir að ríki taki á sig lagalegar skuldbindingar í þessum efnum. Hvorki loftslagssamningurinn eða bókunin byggir á flokkun eftir framleiðslugreinum eða öðrum uppsprettum losunar á heimsvísu heldur er hverjum samningsaðila í sjálfsvald sett, hvernig hann nær settu marki. Ríki sem taka á sig skuldbindingar um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda munu væntanlega nýta það svigrúm sem þeim er ætlað upp að umsömdum mörkum, ef ekki með þungaiðnaði þá með annarri starfsemi. Þar er af nógu að taka, hvort sem er á sviði samgangna eða annarra þátta sem valda losun gróðurhúsalofttegunda. Heildarlosun út í andrúmsloftið á hverjum tíma mun því ekki ráðast af orkuframleiðslu til einstakra afmarkaðra framleiðsluþátta eins og áliðnaðar þótt ekkert sé á móti því að hafa uppi slíkan samanburð í eðlilegu samhengi.

Íslensk stjórnvöld leggja allt kapp á að fá stóriðju hérlendis undanskilda ákvæðum Kýótó-bókunarinnar við loftslagssamninginn. Í því skyni hefur allt frá samkomulaginu um Kyótó-bókunina í desember 1997 verið reynt að fá sérstaka undanþágu í þessa veru fyrir Ísland á vettvangi loftslagssamningsins, og er hún kölluð “íslenska ákvæðið”. Þetta er gert þrátt fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda á hvern íbúa hérlendis sé svipuð og gerist í flestum öðrum iðnríkjum, er t.d. nánast hin sama og meðaltal í ríkjum Evrópusambandsins. Jafnframt eru lífskjör hérlendis almennt með því besta sem þekkist. Á sama tíma hefur sáralítið verið gert til þess af hálfu íslenskra stjórnvalda að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis sem á árinu 1999 var komin 17% fram yfir losun á viðmiðunarárinu 1990 og hefur hækkað enn síðan.

Það er rangtúlkun íslenskra stjórnvalda, sem fram kemur í tilvitnuðu bréfi umhverfisráðuneytisins til Reyðaráls 4. maí 2001 að með því að taka í Kýótó 1997 inn í sérstaka bókun yfirlýsingu um athugun á stöðu lítilla hagkerfa hafi af hálfu loftslagsþingsins falist viðurkenning á sérstöðu Íslands. Engin afstaða liggur enn fyrir af hálfu aðildarríkja loftslagssamningsins til “íslenska ákvæðisins”. Vegna stefnu ríkisstjórnarinnar ber Ísland enn sem fyrr kápuna á báðum öxlum gagnvart Kyótóbókuninni og hugsar fyrst og fremst um að knýja fram stórfellda aukingu losunarheimilda til stóriðju hérlendis á fölskum forsendum á meðan markmið samningsins er að draga úr losun.

            Með áframhaldandi raforkusölu til orkufreks iðnaðar hérlendis eins og Landsvirkjun og stjórnvöld stefna að þrátt fyrir fullkomna óvissu um stöðu Íslands gagnvart loftslagssamningnum er hætt við að Ísland útiloki sig frá þátttöku í viðleitni þjóða til að hamla gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Af hálfu Geirs A. Gunnlaugssonar stjórnarformanns Reyðaráls hf kom fram á kynningarfundi fyrirtækisins 14. júní 2001 að fyrirtækið væri ekki að biðja um sérmeðhöndlun heldur vildi Reyðarál hf. vinna innan þeirra marka sem íslensk stjórnvöld setja og jafnframt þannig að ekki skekki alþjóðlega samskeppnisstöðu innan áliðnaðarins.

Í matsskýrslu Reyðaráls (bls. 83) kemur skýrt fram eftirfarandi stefna af þess hálfu að því er varðar losun gróðurhúsalofttegunda :

“Í ljósi framangreinds er því ekki gert ráð fyrir sérstökum mótvægisaðgerðum af hálfu Reyðaráls vegna losunar gróðurhúsalofttegunda frá álverinu, s.s. kaupum á losunarheimildum eða bindingu CO2 í gróðri.”

Við mat á umhverfisáhrifum Reyðaráls ber að líta á skuldbindingar Íslands samkvæmt Rammasamningnum um loftslagsbreytingar sem Ísland staðfesti 1994 eins og þær liggja fyrir en ekki út frá óskhyggju um undanþágu frá Kyótóbókuninni á meðan slík undanþága er ekki föst í hendi, hvað þá að nýting slíkrar heimildar hafi verið útfærð.

Þótt “íslenska ákvæðið” lægi samþykkt fyrir á vettvangi loftslagssamningsins, með losunarheimild sem svarar til 1,6 millj. tonna af koldíoxíði frá stóriðju, væri enn óvissa um hvernig deila ætti út slíkum heimildum til einstakra fyrirtækja, bæði út frá jafnræðisreglu sem og samkeppnisreglum, innlendum og alþjóðlegum. Það er því fullkomlega ábyrgðarlaust að ætla að horfa framhjá núverandi stöðu mála, afhenda Reyðaráli og/eða öðrum stóriðjufyrirtækjum losunarheimildir án skilyrða eða endurgjalds. Umrætt bréf umhverfisráðuneytisins er í raun markleysa og engin ríkisstjórn hefur heimild til að ganga gegn alþjóðlegum skuldbindingum eins og hér stefnir í að gert verði.

12 Sjávarstraumar og lífríki sjávar

Í sérfræðiskýrslum með matsskýrslu (A9, A10 og A11) er fjallað um rannsóknir á straumum, umhverfisþátum og lífríki í Reyðarfirði og lagt út af þeim í texta matsskýrslu 3.4 og 3.5 (bls. 49-55). Meðalstraumhraði út af fyrirhuguðu iðnaðarsvæði mældist 3 cm/sek og endurnýjunartími í innri hluta Reyðarfjarðar er talinn vera 8-9 dagar en hins vegar sé endurnýjunartími sjávar  í öllum firðinum að meðtöldum Eskifirði 4-5 vikur. Fram kemur (A11, bls. 3-4) að við mælingar með 100 m lögn (5.2) hafi mælir á 65 m dýpi flækst “og skilaði engum nothæfum niðurstöðum öðrum en hita, þannig að ekki eru nein langtíma gögn um þetta innflæði heldur einungis straumsjármælingar frá báti en þær eru nánast augnabliksgildi en sýna þó glöggt þessa lagskiptingu.”

Flestar tegundir íslenskra nytjafiska veiðast í firðinum, einkum á línu og í dragnót, aðaltegundin þorskur en einnig veiðast þar ýsa og nokkrar tegundir flatfiska. Heimamenn telja að þorskur hrygni í firðinum og þar vex upp ungviði af þorski og síld. Ýmsar botnlægar tegundir eru til staðar svo sem trjónukrabbi, beitukóngur, hörpudiskur og ígulker (skollakoppur) sem hefur verið nytjað.

Athyglisvert er það sem haft er eftir heimamönnum um hrygningu þorsks, m.a. í ljósi nýlegra hugmynda (Guðrún Marteinsdóttir) um marga staðbundna þorskstofna hér við land. Kynni það sama að eiga við um fleiri tegundir lífvera. Nauðsynlega þyrfti að afla gagna um hvar meintar hrygningarstöðvar þorsks eru innan fjarðar, m.a. með tillits til mengunarhættu frá ráðgerðri álverksmiðju við Hraun.

Hugmyndir hafa verið um að hefja stórfellt fiskeldi í Reyðarfirði en Skipulagsstofnun hefur talið nauðsynlegt að setja það mál í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum, m.a. með tillits til sambúðar við áformaða stóriðju.

Undirritaður telur að álverksmiðja Reyðaráls og annar hliðstæður mengandi iðnaður geti spillt möguleikum á nýtingu lífríkis sjávar í Reyðarfirði. Búast megi við að fiskeldi í firðinum og stóriðja fari ekki saman, m.a. vegna PAH-mengunar og fleiri efna frá álverksmiðju. Mælitækni verður æ fullkomnari og upplýsingar um mengun hafa áhrif á markaðssetningu samhliða síauknum kröfum um hollustu matvæla. (Sjá einnig tölulið 14).

13. Veðurfarsaðstæður í Reyðarfirði

Staðsetning álverksmiðju við náttúrufarsaðstæður eins og á Reyðarfirði væri mikið óráð, að ekki sé talað um risafyrirtæki upp á 420 þúsund tonna framleiðslu á ári eins og hér um ræðir. Reyðarfjörður er þröngur, umluktur háum fjöllum og þar eru staðviðri óvenju tíð og meiri en algengt er hérlendis. Í matsskýrslu er þetta í raun staðfest (bls. 44, 3.2.3 Veðurfar) en þar segir m.a.:

“Vindafar í firðinum mótast mjög af fjöllunum og vindstefna er yfirleitt inn eða út fjörðinn. Við sérstakar aðstæður og mikinn stöðugleika andsrúmslofts getur loftmassi lokast af innan fjarðarins vegna hringstreymis....Ríkjandi vindáttir eru úr austri og vestri samsíða  stefnu fjarðarins...Á sumrin er staðbundin hringrás (hafátt-landátt) ráðandi í vindafari. Athuganir benda til þess að á vissum tímabilum geti hringrásin átt sér stað algjörlega innan fjarðarins. Við slíkar aðstæður eru skilyrði óhagstæð með tilliti til loftdreifingar...Logn og stöðugt andrúmsloft, eða hægviðri með breytilegri vindátt og mögulegri hringrás sama loftsins innan fjarðarins, geta einnig skapað óhagstæð skilyrði til loftdreifingar. Logn er algengast að næturlagi yfir sumartímann. Stöðugt andrúmsloft er einnig algengt yfir veturinn, en logn er þá ekki eins algengt og að sumarlagi.”

Veðurstofa Íslands hefur oft vakið athygli á þessum aðstæðum, m.a.í bréfi frá 6. ágúst 1999 (fskj. 22 með mati á 480 þúsund tonna verksmiðju haustið 1999).

Þar var bent á

“… veðurfarslega sérstöðu Austfjarða þar sem kaldur Austur-Íslandsstraumur kælir oft neðsta hluta austlægra og suðaustlægra vinda sem af hafi berast. Veldur þetta tíðum hitahvörfum við jörð eða lágt í lofti og miklum stöðugleika loftsins. Eins hefur Veðurstofan oft bent á hina landfræðilegu staðreynd að Reyðarfjörður er umluktur um 1000 m háum fjöllum sem móta loftstreymi og auka líkur á hægviðri. – Allar mælingar okkar staðfesta þessa sérstöðu og þær mælingar á stöðugleika lofts sem gerðar hafa verið – fyrst með mælingum á Mjóeyri í Eskifirði upp undir Oddsskarð og nú síðast mælingar í mastrinu að Sómastaðagerði – sýna mikla tíðni jarðlægra hitahvarfa.”

Veðurathuganir á iðnaðarlóðinni, sem notaðir eru við útreikninga, ná yfir stuttan tíma eða aðeins tvö og hálft ár, sem teljast verður alltof stuttur tími til að fá traustar niðurstöður til að byggja á loftdreifingarspá og svo afdrifaríkar ákvarðanir sem hér um ræðir. Loftdreifingarspá sem víðtækar ályktanir eru dregnar af  í matsskýrslu byggir þannig á takmörkuðum og ófullnægjandi forsendum. Víðtækari veðurathuganir í Reyðarfirði með sjálfvirkum mælistöðvum hófust fyrst sumarið 2000 og höfðu þannig staðið í innan við ár þegar útreikningar NILU voru gerðir. Einnig það verður að teljast alltof stuttur tími til að draga af víðtækar ályktanir eins og hér um ræðir fyrir 420 þúsund tonna álverksmiðju.

Í október 1999, gaf Veðurstofa Íslands út skýrslu á ensku og ber hún heitið Wind and Stability Observations at Sómastaðagerði in Reyðarfjörður May 1998 – April 1999. Þar voru ítrekuð varnaðarorð Veðurstofunnar um sérstök veðurskilyrði í Reyðarfirði og þörf frekari sannsókna á þeim, m.a. að taka til sérstakrar athugunar stutt óhagstæð tímabil með tilliti til mengunar. Í umsagnarferli vegna mats á allt að 480 þúsund tonna álverksmiðju frá í október 1999 til febrúar 2000 sendi Veðurstofan frá sér 3 bréf um málið dags. 27. okt. 1999, 2.des. 1999 og 7. febrúar 2000. Í síðastnefnda bréfinu sagði m.a.:

“Að því er varðar álbræðslu með 480.000 tonna framleiðslugetu á ári, bendir Veðurstofan á að hér er um mjög stórt álver að ræða, tvöfalt stærra en stærsta álver í Noregi, og staðsett við miklu verri aðstæður, í hinum þrönga og fjöllum lukta Reyðarfirði, þar sem hægviðri og hitahvörf eru tíðari en víðast hvar á Íslandi...Er skemmst frá því að segja að Veðurstofan telur flest benda til að slíkt risa álver í Reyðarfirði myndi valda meiri mengun en talið yrði ásættanlegt.”

Hafa ber í huga að þótt nú sé gert ráð fyrir verksmiðju með 420.000 tonna framleiðslu á ári eða heldur minni en í fyrra mati, hefur bæst við rafskautaverksmiðja sem er mengunarvaldur.

Í viðaukum með matsskýrslu, A15-18, er að finna niðurstöður mælinga og annarra athugana Veðurstofunnar frá 1999 til haustsins 2000 og eru ritgerðir þessar allar á ensku. Í A16 (janúar 2000) kemur m.a. fram það sem vitnað er til hér að ofan, tekið úr bréfi dags. 7. febrúar 2000. Í A15 er einnig bent á að taka verði að því er varðar SO2 einnig tillit til mengunar frá annarri starfsemi, m.a. fiskimjölsverksmiðju á Búðareyri. Bent er á að NILU geri ráð fyrir 5-20% skekkjumörkum í langtíma meðaltalsuppsöfnun efna í módelútreikningum. Veðurstofan telur að veðurfarsaðstæður og breytileiki ásamt hringrás sólfarsvinda  að sumarlagi í Reyðarfirði valdi í raun meiri óvissu en þetta. Í A18 (september 2000) er m.a. bent á hitahvörf (inversion) á þremur hægviðristímabilum sumarið 2000 og möguleika á skilyrðum til svælingar (fumigation) á vissum tímum. Engar frekari ályktanir verða hér dregnar af þessum athugunum Veðurstofunnar en stofnunin mun vafalaust sem umsagnaraðili gefa álit sitt á matsskýrslu Reyðaráls hf.

Ótækt er að Reyðarál hf skuli ekki hafa séð um að öll gögn er málið varða liggi fyrir á íslensku, þar á meðal ofangreindir viðaukar með skýrslum Veðurstofu Íslands.

Við veðurfarsaðstæður eins og fyrir liggja í Reyðarfirði á ekki að setja niður stóriðjufyrirtæki sem valda teljandi mengun. Fyrri athuganir sem gerðar hafa verið á staðsetningu fyrir álverksmiðjur hérlendis, m.a. á vegum Staðarvalsnefndar iðnaðarráðuneytis,  hafa stutt þessa skoðun. Reynsla erlendis, meðal annars í Noregi, hnígur í sömu átt. Þar hefur verið horfið frá þeirri stefnu sem fylgt var á fyrrihluta 20. aldar, að setja álverksmiðjur niður inni í fjörðum, ekki síst vegna takmarkaðrar dreifingar mengunarefna. Sætir furðu ef Hydro Aluminium sem eigandi að Reyðaráli hf ætlar á Íslandi að eiga hlut að slíku fyrirkomulagi, sem afskrifað hefur verið í heimalandi þess.

14. Losun mengandi efna og þynningarsvæði

Við umfjöllun um mengun frá 420 þúsund tonna álverksmiðju ber ætíð að hafa í huga að óhagstæðari stað fyrir staðsetningu mengandi iðnaðar er vart að finna hérlendis en Reyðarfjörð.

Ýmislegt hefur breyst frá því mati sem gert var á 480 þúsund tonna álverksmiðju 1999-2000 og sumar forsendur framkvæmdaraðila liggja nú skýrar fyrir en áður.  Þannig er nú í nokkrum þáttum framleiðsluferlis gert ráð fyrir skárri mengunarvörnum en áður. Er þá haft í huga að til viðbótar við þurrhreinsun er nú gert ráð fyrir vothreinsun á álverksmiðjuna frá upphafi og urðun kerbrota í stað förgunar þeirra í flæðigryfjur. Ekki verður dregið í efa að tækni Hydro Aluminium ásamt vothreinsun skili betri árangri en gerst hefur hjá þeim álverksmiðjum sem fyrir eru hérlendis, enda hefur undirritaður í umfjöllun um þær ítrekað bent á að þær nýti engan veginn bestu fáanlega tækni og hefðu af þeim sökum ekki átt að standast mat á umhverfisáhrifum. Á hitt ber að líta að stærð ráðgerðrar verksmiðju Reyðaráls hf. gerir í ýmsum tilvikum meira en jafna upp þann ávinning sem fæst með minni losun mengandi efna á framleiðslueiningu (tonn). Á þetta m.a. bæði við um ryk og flúoríð. Þar fyrir utan er sú gífurlega losun gróðurhúsalofttegunda sem kæmi frá verksmiðjunni (sjá umfjöllun í tölulið 11) og sem engar mótvægisaðgerðir eru fyrirhugaðar gegn. Einnig kemur í ljós þegar nú liggja fyrir ýmsar upplýsingar um PAH-mengun frá álverksmiðju og rafskautaverksmiðju að um verulegt vandamál er að ræða af þeim sökum (sjá umfjöllun tölulið 15). Um rafskautaverksmiðju er annars fjallað sérstaklega undir tölulið 5.

Hér verður rætt nánar um nokkra einstaka þætti er snerta mengun frá álverksmiðjunni og frumdrög Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi. Þótt gerðar séu hér athugasemdir við starfsleyfisdrögin er undirvígur því mótfallinn að nokkurt starfsleyfi verði út gefið til álverksmiðju á Reyðarfirði, sbr. niðurstöðu athugasemda minna (tölulið 26)

               

14.1 Drög að starfsleyfi

Sem viðauki A14 með matsskýrslu eru frumdrög að starfsleyfi fyrir Reyðarál hf frá Hollustuvernd ríkisins með fyrirvara um hugsanlegar breytingar síðar, “byggt á útfærslu eldri leyfa fyrir sambærilegan iðnað miðað við frumgögn frá Reyðaráli áður en endanleg umsókn liggur fyrir.” Hér er um framför að ræða frá fyrri málsmeðferð sem auðveldar mönnum að átta sig á hvert stjórnvöld stefna að þessu leyti. Stærsta einstaka atriðið að því er þessi starfsleyfisdrög varðar er að þeim virðist ætlað að taka til allt að 280 þúsund tonna framleiðslu á ári, þ.e. ráðgerðs fyrri áfanga verksmiðjunnar en ekki til síðari áfanga. Þá er samkvæmt drögunum gert ráð fyrir að þau spanni einnig yfir “...framleiðslu á 167.000 tonnum af forbökuðum rafskautum og til rekstur[s] urðunarstaðar fyrir sérstakan úrgang frá álverinu.” Í drögunum er þannig gert ráð fyrir leyfi fyrir umrædda rafskautaverksmiðju og er því hér andmælt með vísan til töluliðar 5 hér að framan.

14.2 Flúor-mengun

Í drögum að starfsleyfi er gert ráð fyrir að magn heildarflúoríðs í ársmeðaltali af útblásturslofti verði að hámarki 0,4 kg/t af áli og 0,8 kg/t sem skammtímameðaltal. Rétt væri að mati undirritaðs ef til útgáfu starfsleyfis kæmi að miða mörk fyrir heildarflúoríð-losun við 0,35 kg/t af áli og að skammtímameðaltal yrði ekki hærra en 0,6 kg/t áli. Þetta er vel yfir þeim mörkum sem unnt er að ná með tækni Norsk Hydro.  Lá það raunar fyrir þegar um 1990 og benti undirritaður á þá staðreynd við undirbúning að Keilisnes-verksmiðju, stækkun ÍSAL og byggingu álverksmiðju Norðuráls.

14.3 Ryk-mengun

Starfsleyfisdrög gera ráð fyrir leyfilegu ársmeðaltali í ryklosun 1,0 kg/t áli og 1,3 sem skammtímameðaltal. Þetta eru alltof há mörk og langt yfir því sem unnt á að vera að ná með bestu tækni. Að réttu ætti að lækka mörk þessi um helming og miða við 0,5 kg/t áli.

14.4 Brennisteinsdíoxíð-mengun (SO2)

Með vothreinsun á auðveldlega að vera hægt að skila hreinsun á SO2  með ársmeðaltali 2,0 kg/t áli í stað 3,5 samkvæmt starfsleyfisdrögum og skammtímameðaltali 4,0 í stað 8,0 kg/t áli eins og hér er gert ráð fyrir. Sem lægst gildi fyrir brennisteinsdíoxíð skipta miklu með tilliti til verstu skilyrða og hættu á svælingu (fumigation).

14.5 PAH-mengun

Mengun af völdum fjölhringa kolefnissambanda (PAH) frá biki í áliðnaði er verulegt áhyggjuefni, meðal annars vegna ónógra rannsókna og takmarkaðrar þekkingar á afleiðingum hennar. Um er að ræða fjölmörg mismunandi efnasambönd af sömu syrpu efna, sum vatnsleysanleg en önnur ekki. Uppgufun verður m.a. á PAH frá hlöðnu súráli í rafskautaverksmiðjunni og einnig berast þau frá kerfóðringum. Þessi tjöruefnasambönd ganga inn í fæðukeðju ýmissa lífvera séu þau til staðar í umhverfi þeirra og geta reynst krabbameinsvaldur auk margháttaðra annarra áhrifa. Af þessum sökum m.a. fer afar illa saman stóriðja eins og áliðnaður og matvælaframleiðsla þar sem kröfur um ómengað umhverfi og stranga gæðastaðla í afurðum fara stöðugt vaxandi. Bakgrunnsrannsóknir á PAH-samböndum í seti í Reyðarfirði benda til mjög lágra gilda en á því yrði grundvallarbreyting með rekstri risaálbræðslu.

Hér verður vitnað til nokkurra atriða í matsskýrslu er snerta PAH (undirstrikanir HG):

“Af þeim 25,0 kg af PAH sem áætlað er að berist frá álverinu á hverju ári [Ath. Um 2 tonna PAH-losun í útblæstri frá rafskautaverksmiðju er ekki meðtalinn – HG] er gert ráð fyrir að 2,4 kg muni setjast til í Reyðarfirði en 22,6 kg muni skolast út úr firðinum...er hægt að áætla að styrkur PAH í seti verði yfir ströngustu mörkum í norskum viðmiðunarreglum á rúmlega 500 m breiðu belti undan iðnaðarlóðinni. Aukning á styrk PAH í seti mun verða yfir bakgrunnsgildum á um 8 km löngum hluta fjarðarins við iðnaðarsvæði.” (bls. 149) Vert er að benda á að nokkurt ósamræmi er í þessum tilvitnaða texta og því sem stendur um sama efni á bls. 111 í matsskýrslu.

“Niðurbrotsefni einstakra PAH-sambanda, s.s. B(a)P [Benzo(a)pyren], geta bundist DNA-sameindum og komið af stað æxlismyndun. Af þeim sökum eru PAH talin alvarlegt umhverfisvandamál og í hópi mjög mengandi efna. Hægt er að áætla styrk einstakra PAH-efna í lífverum út frá styrk B(a)P.” (bls.79)

“Af þeim 0,47 kg af B(a)P sem koma frá álverinu á hverju ári munu 0,40 kg setjast til í Reyðarfirði en 0,07 kg munu skolast út úr firðinum. Miðað við sömu setmyndunarforsendur og fyrir PAH-efnin mun styrkur B(a)P í seti verða yfir ströngustu mörkum í norskum viðmiðunarreglum...Aukning styrks B(a) í seti verður yfir bakgrunnsgildum í stærstum hluta innri Reyðarfjarðar.” (bls.149).

Sjá einnig það sem segir í tölulið 5 um PAH losun frá rafskautaverksmiðju.

14.6 Þungmálmar og snefilefni

Áliðnaði fylgir mengun af þungmálmum og fleiri óæskilegum snefilefnum úr aðfluttum hráefnum. Geta þau m.a. haft skaðleg áhrif á gróður í nágrenni verksmiðjunnar og ef til vill í öllum innanverðum Reyðarfirði þar sem loftdreifing er mjög takmörkuð og hægviðri algengt. Einnig er hugsanlegt að losun þeirra hafi víðtækari áhrif, meðal annars á Fljótsdalshéraði, þar sem lífræn ræktun í landbúnaði er þegar stunduð og hlýtur að verða á dagskrá í auknum mæli.

14.7 Díoxín-mengun úr sögunni?

Á fyrri stigum höfðu menn ástæðu til að hafa áhyggjur af nokkurri díoxín-mengun frá álverksmiðjum. Samkvæmt matsskýrslu Reyðaráls kunna slíkar áhyggjur að vera óþarfar að því er ráðgerða verksmiðju á Reyðarfirði snertir. Á bls. 75 stendur:

“Rannsókn á útblásturslofttegundum frá bræðsluofnum í norskum steypuskálum sýnir að díoxín getur myndast í litlu magni þegar klóríðsölt eru notuð við málmhreinsun. Hydro Aluminium as hefur þróað nýja hreinsiaðferð, án klóríðs, og hefur þess vegna ekki í hyggju að nota klóríð í steypuskála Reyðaráls. Þar af þeiðandi er ekki búist við að díoxín myndist í framleiðsluferlinu.”

Eftir stendur þó að hér er ekki fortakslaust að orði kveðið. Því vakna spurningar um hvort umrædd ný hreinsiaðferð hafi ekki þegar verið tekin í notkun í álframleiðslu og ef til vill sé eftir að sannreyna hana. Gerir fyrirtækið hugsanlega ráð fyrir öðrum uppsprettum díoxíns? Orðalag eins og “hefur ekki í hyggju” og “er ekki búist við” getur vart talist fullnægjandi trygging um svo grafalvarlegt atriði sem hér um ræðir.

14.8 Óvissa um þynningarsvæði

Samkvæmt matsskýrslu er tillaga að þynningarsvæði fyrir 420 þúsund tonna álverksmiðju miðuð við Hagalæk að innan og mörk friðlands á Hólmanesi að utan, þ.e. um 2,6 km í sín hvora átt frá kerskálum. Er tillaga þessi sögð í samræmi við drög að starfsleyfi. Umdrædd starfsleyfisdrög (viðauki B10) sýnast mér þó aðeins miðuð við fyrri áfanga álverksmiðju, þannig að eitthvað rímar hér ekki saman. Umræddur Hagalækur er aðeins um 1 km frá mörkum þéttbýlisins á Reyðarfirði, þannig að hér er greinilega teflt á tæpt vað miðað við óhagstæðar veðurfarsaðstæður og þá óvissu sem tengist mælingum og sem gengur inn í módelútreikninga NILU. Jafnframt verður að hafa í huga að veðurathuganir á svæðinu hafa staðið í skamman tíma og allir útreikningar eru byggðir á forsendum sem óhjákvæmilega eru háðar margháttaðri óvissu, m.a. um raunverulega virkni hreinsibúnaðar. Allt ber þetta að sama brunni, að fullkomið óráð væri að staðsetja umrædda risaálverksmiðju á fyrirhuguðu svæði við Hraun í Reyðarfirði.

Vert er og að vekja athygli á því sem fram kom um þynningarsvæði hjá Ingibjörgu E. Björnsdóttur umhverfissérfræðingi á vettvangi Landverndar nýlega þar sem hún sagði m.a.:

“Það vekur eftirtekt að matsskýrsla Reyðaráls byggir á útþynningarstefnu í umhverfismálum. Allt kapp er lagt á að reikna út þynningarsvæði, án tillits til þess hvað er raunverulega verið að setja út í andrúmsloftið. Víða erlendis eru vísindamenn farnir að efast um gildi útþynningarstefnunnar. Þannig skiptir t.d. ekki máli þótt koltvíoxíð þynnist út. Magn þess fer hækkandi í öllu andrúmslofti jarðarinnar. Þannig eru umhverfisáhrif álversins ekki bara staðbundin heldur hnattræn í eðli sínu.”

15. Förgun kerbrota

Kerbrot sem verða til þegar fóðringar í rafgreiningarkerum þurfa endurnýjunar við (líftími 5-7 ár) eru varasamasti úrgangur frá álverum skv. matsskýrslu (bls. 63) þar eð þau innihalda m.a. flúoríð og cýaníð. Gífurlegt magn kerbrota, um 24 kg fyrir hvert framleitt tonn af áli, félli til við starfsemi verksmiðjunnar eða um 10.000 tonn árlega. Kerbrotin er  áformað að urða á suðausturhluta verksmiðjulóðar með frágangi sem á skv. matsskýrslu að uppfylla skilyrði viðkomandi ESB-tilskipunar. “Í Reyðarfirði hefur urðun á landi með frárennsli í sjó orðið fyrir valinu, m.a. vegna óvissu um áhrif flæðigryfja á lífríki fjarðarsins. Streymi mengunarefna frá urðunarstað á landi er mun hægara en frá flæðigryfjum, auk þess sem auðvelt er að vakta frárennslið og grípa til mótvægisaðgerða ef nausðyn þykir. Viðtakinn er hins vegar sjór eins og fyrir flæðigryfjur.” (Bls. 78) Í töflu 12. 1 (bls. 110) sést m.a. sá mikli fjöldi efna sem berst  með frárennsli frá kerbrotagryfju. Þótt förgun á landi megi telja framför miðað við förgun í flæðigryfjur stafar mengunarhætta af því gífurlega magni kerbrota sem til félli og bætist hún við annað mengunarálag gagnvart sjó frá verksmiðjunni.

Þegar fjallað var um álbræðslu á Keilisnesi í umhverfisnefnd Alþingis árið 1992 var staðhæft af stjórnvöldum að gert væri ráð fyrir að endurvinnsla hæfist innan tíðar á kerbrotum (115. löggjafarþing 1992. Skýrsla umhverfisnefndar um starfsleyfistillögur fyrir álver á Keilisnesi, 493. mál, þskj. 774). Er rétt að athuga vandlega þann kost að flytja kerbrot frá áliðnaði hérlendis úr landi til endurvinnslu eða förgunar hliðstætt því sem gildir um skautleifar og álsora frá steypuskálum. Mikið óráð er að bjóða upp á þá hættu fyrir sjávarlíf og fiskiðnað landsmanna sem hlotist getur af frumstæðri meðferð kerbrota eins og hér er gert ráð fyrir. Því ætti að flytja slíkan úrgang frá álverksmiðju á Reyðarfirði úr landi í stað þess að urða hann á staðnum.

16. Hávaða-mengun

Álverksmiðjum fylgir mikill og hvimleiður hávaði, innanhúss og í grennd verksmiðjanna. Í matsskýrslunni er talið að hávaða frá verksmiðjunni muni gæta í einhverjum mæli í þéttbýlinu á Reyðarfirði og geti hann þar orðið allt að 25dB(A) að hámarki í 5,5 km fjarlægð miðað við 90 dB(A) frá hljóðgjafa. Um þetta segir í matsskýrslu:

“Sé tekið mið af ofangreindu má helst gera ráð fyrir að á stilltum sumarkvöldum, með hægum vindi vestur frá álverinu, berist lágur niður frá álverinu til þéttbýlisins í Reyðarfirði sem ekki ætti að trufla mannlíf í byggðinni” (bls. 127).

Hávaða frá álverksmiðju við Hraun myndi að sjálfsögðu gæta til allra átta, þar á meðal í náttúruverndarsvæðinu í Hólmanesi og einnig við Eyri sunnan fjarðarins og inn eftir ströndinni. Þá yrði margskonar hávaði  á byggingartíma svo og af stóraukinni umferð flutningabíla sem og annarra farartækja gegnum þéttbýlið.Gert er m.a. ráð fyrir að flytja fyllingarefni í steinsteypu í gegnum þéttbýlið á Reyðarfirði og þyrfti til þess 7.000 bílferðir vegna 1. áfanga miðað við vöruflutningabíla með tengivögnum. (bls.88).

17. Sjónmengun og áhrif á útivistarsvæði

Gífurleg sjónmengun yrði af álveri við Reyðarfjörð. Í stað þess umhverfis sem nú er munu kílómetralangir verksmiðjuskálar ásamt fleiri mannvirkjum setja svip sinn á umhverfið. Hið sama á við jafnvel í enn tilfinnanlegri mæli um tvær afar áberandi raflínur að verksmiðjunni. Munu þær setja mark sitt á fjarðarbotninn og hlíðina ofan kauptúnsins á Reyðarfirði.

Verksmiðjusvæðið við Hraun blasir meðal annars við frá Skíðamiðstöðinni í Oddsskarði en ósnortið yfirbragð Reyðarfjarðar þaðan séð er drjúgur hluti af upplifun manna sem þangað sækja. Bætist sjónmengunin og hugsanlega einhver hávaðamengun við sýnilega rykmengun og móðu frá verksmiðjunni. Þannig myndi álverksmiðja við Hraun laska verulega ímynd þessa fjölsótta íþrótta- og útivistarsvæðis.  Þessi neikvæðu áhrif munu ekki síður eiga við um þá sem leggja leið sína í friðlandið á Hólmanesi en það er örstutt frá verksmiðjusvæðinu.

18. Hafís og truflun siglinga

Í athugasemdum við matsáætlun, tölulið 7, benti undirritaður á að allar upplýsingar um hafís fyrir Austurlandi vantaði í áætlunina. Afrakstur af þessari ábendingu er að finna í matsskýrslu á bls. 58 og  vísað í viðauka B5 sem er minnisblað frá Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar, skrifað á ensku, dagsett “January 1993”! Hér  er með ólíkindum að verki staðið. Í stað þess að leita til sérfræðistofnana er látið nægja að draga fram gamalt minnisblað markaðsskrifstofu hagsmunaaðila. Í matsskýrslu segir á grundvelli þessa plaggs: “Hægt er að áætla út frá veðurfari að hafís reki suður eftir Austfjörðum á 15 ára fresti og geri siglingar þar hugsanlega varasamar.” (bls.  58).

Allir flutningar hráefna og framleiddra afurða til og frá verksmiðjunni myndu verða sjóleiðis og truflun af hafís gæti því haft tilfinnanlega röskun og kostnaðarauka í för með sér fyrir Reyðarál hf. Enginn getur útilokað að hafísrek og hafþök af ís, eins og þekkt er frá liðnum öldum, endurtaki sig og hefði verið skynsamlegt fyrir aðstandendur fyrirtækisins að gera sér sem ljósasta grein fyrir þeirri áhættu sem tekin er vegna hafíss, m.a. með því að fá sérfróða menn til að meta hana.

19. Rammaáætlun og Kárahnjúkavirkjun

Á bls. 67 er fjallað stuttlega um orkuöflun fyrir álverksmiðjuna og vísað í viðauka B6. Sá viðauki reynist vera “orðsending” frá Landsvirkjun dags. 8. maí 2001, undirrituð af Pétri Ingólfssyni verkefnisstjóra, samtals 13 línur þar sem taldar eru “framkvæmdir vegna raforkuframleiðslu og –flutnings fyrir 280 til 420 tonna álvers á Reyðarfirði árin 2002-2012”. Skrifaðu flugvöll! er haft eftir ónefndum manni þegar mikið lá við. – Í töflu 4.4 á bls. 67 er dregin fram áætluð orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði, 790-830 MW, 5.690-5.850 gígavattstundir/ári. Lagaheimild liggur í engu tilviki virkjana fyrir en um stöðu gagnvart Rammaáætlun að því er varðar Kárahnjúkavirkjun segir: “Tekin fyrir í fyrri áfanga haustið 2001.” Um aðra virkjanakosti (Kröflu2 og 3 og Bjarnarflagsvirkjun) segir: “Tekin fyrir í fyrri áfanga.” Enginn “viðauki” er þessu til stuðnings.

Á árinu 1999 setti iðnaðarráðuneytið í samvinnu við umhverfisráðuneytið af stað verkefni sem gengur undir heitinu Rammaáætlun og hefur sem einkunnarorð “Maður – Nýting – Náttúra”. Tilgangi og markmiði verkefnisins er þannig lýst á heimasíðu þess:

“Markmið Rammaáætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, bæði vatnsafl og háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, um leið verða skilgreind, metin og flokkuð áhrif virkjunarkosta á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta gæði þessa lands. Þannig verður lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.”  

Fjórir faghópar vinna að verkefninu undir sérstakri stjórn og er formaður hennar Sveinbjörn Björnsson jarðeðlisfræðingur. Fljótlega komu upp spurningar um stöðu hugmynda um Kárahnjúkavirkjun með tilliti til Rammaáætlunar og af því tilefni sendi verkefnisstjórnin fyrirspurnir til iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra. Svör ráðherranna dagsett 26. maí 2000 eru eindregin og á þá lund að Rammaáætlunin eigi að taka til Kárahnjúkavirkjunar eins og annarra virkjana sem ekki hafa hlotið leyfi ráðherra.

            Af hálfu verkefnisstjórnar liggur fyrir að reynt verði að gefa út bráðabirgðaálit um tólf virkjunarkosti, þar á meðal Kárahnjúkavirkjun, fyrir árslok 2001, en endanlegrar álitsgerðar verkefnisstjórnar um þá og fleiri virkjanahugmyndir sé ekki að vænta fyrr en undir árslok 2002 eða á árinu 2003. Þannig blasir við að álit verkefnisstjórnar Rammaáætlunar varðandi umrædda virkjunarkosti mun ekki liggja fyrir samhliða yfirstandandi mati á umhverfisáhrifum Reyðaráls hf. nema gerð verði sú breyting á matsferlinu hvað tíma áhrærir að beðið verði niðurstöðu úr Rammaáætlun.

Hafa verður í huga að sömu stjórnvöld og standa að Rammaáætlun, iðnaðarráðherra í samvinnu við umhverfisráðherra, bera ábyrgð á framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum. Einnig ber að hafa í huga að yfirlýst markmið með Rammaályktun er að með henni verði “…lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.”  

Telja verður einnig að Landsvirkjun hafi í yfirferð sinni á virkjunarkostum litið alltof þröngt yfir sviðið með tilliti til orkuöflunar og alls ekki brugðist við ákvæðum í matsáætlun þetta varðandi á fullnægjandi hátt. Málsmeðferð fyrirtækisins í matsskýrslu bendir til að vitandi vits hafi hringurinn verið þrengdur um þá virkjunarhugmynd sem fyrirtækið sem framkvæmdaraðili stefndi að frá byrjun, þ.e. Kárahnjúkavirkjun. Hér er ekki við Reyðaál hf að sakast en málsmeðferð Landsvirkjunar gæti hins vegar komið niður á framkvæmdaáformum fyrirtækisins um byggingu álverksmiðju.

Undirritaður telur að af hálfu aðstandenda NORAL-verkefnisins hafi það verið mikil mistök að ganga ekki út frá því að áður en hafist væri handa um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og Reyðaráls hf. lægi fyrir niðurstaða úr vinnu  á vegum Rammaáætlunar. Athugasemd þar að lútandi sendi ég Skipulagsstofnun og Landsvirkjun í bréfi dags. 23. júní 2000 (fylgiskjal I). Í erindi til Reyðaráls hf. vegna matsáætlunar dags. 30. júní 2000 benti ég einnig á að NORAL-verkefninu væri alltof þröngur stakkur skorinn hvað tíma varðar.

Eðlilegast væri úr því sem komið er að framkvæmdaraðilar að NORAL-verkefninu, Landsvirkjun og Reyðarál hf., drægju skýrslur sínar um mat á umhverfisáhrifum til baka eða fresti því að láta þær ganga endanlega til mats hjá Skipulagsstofnun uns fyrir liggur niðurstaða úr vinnu verkefnisstjórnar Rammaáætlunar og umfjöllun stjórnvalda um hana. Tíma sem þannig gæfist mætti nota til að fylla í fjölmargar eyður í æskilegum rannsóknum og athugunum vegna framkvæmdaáformanna.

20 Takmarkaðar orkulindir

Að mati undirritaðs er mikið óráð að ætla sér binda meiri orku en orðið er í hefðbundnum þungaiðnaði hérlendis, þar á meðal áliðnaði. Orkulindir landsins að teknu tilliti til umhverfisverndar eru það takmarkaðar að lítið sem ekkert er aflögu í þessu skyni, ekki síst ef menn stefna á vetnissamfélag í krafti innlendra orkulinda. Verður þetta skýrt hér nánar.

Með Kárahnjúkavirkjun og öðrum ráðgerðum virkjunum í þágu stóriðju á næstu 10 árum stefna Landsvirkjun og stjórnvöld að því að ráðstafa til stóriðju orku sem nemur um 12 teravattstundum á ári [Reyðarál, stækkun Norðuráls, stækkun Ísals, magnesíumverksmiðja, stækkun járnbendiverksmiðju á Grundartanga]. Þar af eiga að koma frá Kárahnjúkavirkjun um 5 teravattstundir á ári. Landsvirkjun hefur lengi gengið út frá að samtals megi áætla að til raforkuvinnslu hérlendis séu nýtanlegar um 50 teravattstundir, 30 teravattstundir fengnar með vatnsafli og 20 teravatnsstundir með jarðvarma. Draga verður frá stóran hluta af þessari áætluðu orku þar eð hún telst ekki hagkvæm til nýtingar eða verður ekki nýtanleg að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða. Hversu stórt hlutfall hér er um að ræða ætti að skýrast þegar fyrir liggur niðurstaða af vinnu að Rammaáætlun, sbr. lið 19 hér á undan. Á meðan sú niðurstaða ekki liggur fyrir er óverjandi að ætla að ráðast í Kárahnjúkavirkjun og aðrar þær virkjanir fyrir stóriðjumarkað, sem sýnilega er gert ráð fyrir í áætlunum stjórnvalda og Landsvirkjunar. 

Með hliðsjón af ofansögðu má hugsa sér að um helmingur af umræddri nýtanlegri raforku (virkjanakostum) eða samtals 25 teravattstundir verði í reynd til ráðstöfunar með tilliti til hagkvæmni og umhverfissjónarmiða. Þar af hafa þegar verið nýttar um 8 teravattstundir. Sé miðað við að almenn raforkunotkun vaxi um 2% á ári (viðmiðun orkuspárnefndar) næstu hálfa öld er um að ræða orku sem svarar til 6 teravattstunda á ári. Litið til þess yfirlýsta markmiðs stjórnvalda að innlend raforkuframleiðsla útrými á næstu áratugum þörf fyrir innflutt jarðefnaeldsneyti þarf í því skyni að gera ráð fyrir 10-20 teravattstundum miðað við eldsneytisnotkun Íslendinga 1999 [Heimild: Minnisblað frá Orkustofnun. Fylgiskjal með þingsályktunartillögu um Sjálfbæra orkustefnu. Mál 274, þingskjal 302 á 126. löggjafarþingi]. Lægri talan (10 teravattstundir) miðast við að vetni sé notað eingöngu í efnarafölum, en hærri talan (20 teravattstundir) við að vetni sé brennt í hefðbundnum brennsluvélum.

Af þessu er rétt að draga þá ályktun að fullkomið óráð sé að ráðstafa meiri raforku en orðið er til hefðbundins orkufreks iðnaðar. Þessi atriði og fleiri varðandi nýtingu orkulinda landsins munu skýrast þegar fyrir liggur niðurstaða af vinnu að Rammaáætlun, sbr. lið 19 hér á undan. Á meðan sú niðurstaða ekki liggur fyrir er óverjandi að ætla að ráðast í byggingu álverksmiðju Reyðaráls og Kárahnjúkavirkjun í hennar þágu eða aðrar þær virkjanir fyrir stóriðjumarkað, sem sýnilega er gert ráð fyrir í áætlunum stjórnvalda og Landsvirkjunar. 

21. Ósjálfbær orkuöflun

Það hefur eflaust ekki farið framhjá stjórn Reyðaráls hf. að mjög skiptar skoðanir eru um ráðgerða Kárahnjúkavirkjun og sætir virkjunarhugmyndin mikilli og vaxandi gagnrýni innanlands og utan. Þeir kostir sem margir tengdu við vatnsaflsvirkjanir til skamms tíma eru nú af mörgum véfengdir, ekki síst þegar um er að ræða stórvirkjanir sem ganga mjög á umhverfisgæði. Nægir í þessu sambandi að benda á viðamikla alþjóðlega úttekt sem birt var á síðasta ári um stíflur undir heitinu  Dams and Development: A New Framework for Decision-Making. The Report of the World Commission on Dams. An Overview - November 16 2000. [Internet: www.dams.org]

Eins og matsskýrsla Landsvirkjunar um Kárahnjúkavirkjun (maí 2001) ber með sér hlytust af byggingu Kárahnjúkavirkjunar gífurleg umhverfisspjöll, margfalt meiri en af nokkurri framkvæmd sem til álita hefur komið að ráðast í hérlendis fram til þessa. Virkjunarhugmyndin er tröllaukin jafnt á íslenskan sem alþjóðlegan mælikvarða og myndi hafa stórfelld neikvæð áhrif  á Fljótsdalshérað og hálendið inn af því allt til Vatnajökuls. Fyrirhugað er að safna nær öllu vatni sem til næst á hálendinu ofan við ca. 550 m hæðarlínu á 50 km belti austur-vestur, frá vatnaskilum Sauðár og Kverkár í vestri austur á Hraun, í ein jarðgöng og leiða að stöðvarhúsi, þaðan sem vatnið bærist í Lagarfljót. Veita á saman tveimur stórum jökulfljótum, og veldur það eitt út af fyrir sig margháttuðum vandamálum frá efstu mörkum framkvæmda allt til ósa og á haf út, meðal annars víðtækri röskun og hættu af völdum flóða og grunnvatnsbreytinga svo og breytingu hafstrauma í kjölfar breytts ferskvatnsrennslis til sjávar.

Auk alls þess mikla tjóns sem Kárahnjúkavirkjun hefði á náttúru Fljótsdalshéraðs og hálendið norðan Vatnajökuls er kjarni hennar, Hálslón, ósjálfbær framkvæmd þar eð með fyllingu þess af framburði myndu skapast óafturkræfar aðstæður sem hvorki náttúruleg ferli né mannlegur máttur réðu við að færa til fyrra horfs. Í lóninu myndu tapast jarðsögulegar minjar sem haft gætu alþjóðlega þýðingu og út frá ströndum þess skapast áfokshætta sem stórlega er vanmetin í matsskýrslu Landsvirkjunar og sem ógna myndi gróðri á stórum hluta Vesturöræfa. Yfir 100 fossar, sumir með þeim stærstu og mikilfenglegustu hérlendis, skerðast eða hverfa ef virkjunin yrði að veruleika.  Þá yrðu áhrif á vatnalíf  á svæðinu mikil og tilfinnanleg en verndargildi þess er vanmetið í matsskýrslu. Varðar það bæði stöðuvötn, dragár og og jökulár þar á meðal Lagarfljót sem yrði mun lífminna og korgugra og litur þess breyttist. 

Landsvirkjun hefur í matsskýrslu sinni óskað eftir að Kárahnjúkavirkjun verði metin óháð markaðssetningu orkunnar og gæti það eitt út af fyrir sig verið umhugsunarefni fyrir Reyðarál hf.

            Orkuöflunarþáttur NORAL-verkefnisns er hér gerður að umtalsefni vegna þess að ekki getur hjá því farið að Reyðarál hf. verði talið bera ábyrgð á virkjunarframkvæmdum í þágu álverksmiðjunnar. Með samningum um kaup á raforku frá Kárahnjúkavirkjun væri Reyðarál hf að stuðla að því að í þessa ósjálfbæru og stórskaðlegu framkvæmd yrði ráðist. Eigendur Reyðaráls hf. munu þurfa að svara fyrir um óbeina aðild sína að slíkum hervirkjum, þar á meðal Norsk Hydro og Hydro Aluminium as sem burðarás í NORAL-“viðskiptahugmyndinni.”

22. Þjóðhagslegt mat og hagsmunatengsl

Í matsskýrslu Reyðaráls hf. bls. 116, er vikið að þjóðhagslegum áhrifum álvers á Reyðarfirði og vísað í því sambandi í viðauka A19: Report of the Working Group on the impact of the NORAL Project on Iceland´s Economy and Infrastructure. Þjóðhagsstofnun, október 2000. Hér er á ferðinni enn eitt fylgigagn með matsskýrslunni á enskri tungu einvörðungu og er það að sjálfsögðu engan veginn boðlegt. Hitt er þó alvarlegra eins og að var vikið í upphafi þessa erindis, að þetta mat Þjóðhagsstofnunar er ómarktækt af ástæðum sem skýrast af fylgiskjali II sem er svar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins við fyrirspurnum undirritaðs, dags. 14. ferúar 2001. Þar kemur fram að Þórður Friðjónsson forstjóri Þjóðhagsstofnunar hefur frá í apríl 1998 verið formaður samráðsnefndar um NORAL-verkefnið og frá 15. ágúst 1999 jafnframt verið forstjóri Þjóðhagsstofnunar. Í símtali við ráðuneytið 20. júní 2001 var staðfest að staðan væri óbreytt frá því sem fram kemur í nefndu bréfi ráðuneytisins frá 14. febrúar sl.. Þarf ekki mörg orð um það að umsagnir Þjóðhagsstofnunar um NORAL-verkefnið og einstaka þætti þess eru á umræddum tíma (frá 15. ágúst 1999) með öllu ómarktækar vegna hagsmunatengsla forstjóra stofnunarinnar sem formanns samráðsnefndar um NORAL-verkefnið.

23. Efnahagsleg áhætta af NORAL-verkefninu

Efnahagsleg áhætta og meintur þjóðhagslegur ávinningur varðar ekki ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Engu að síður hljóta menn í tengslum við umfjöllun um NORAL-verkefnið að horfa til þeirra þátta, meðal annars þeirrar áhættu sem tekin væri með framkvæmd verkefnisins fyrir íslenskan þjóðarbúskap og um leið fjárfesta, þótt með nokkuð ólíkum hætti sé. Hér verða nefnd nokkur atriði þetta varðandi.

Álframleiðslu fylgja miklar verðsveiflur og óvissa um verðþróun til lengri tíma litið. Nú þegar eru útflutningstekjur af áli umtalsverður hluti af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins, en með NORAL-verkefninu hækkaði það hlutfall stórlega og áhrif af sveiflum á álmörkuðum yrðu þeim mun afdrifaríkari. Í stað atvinnuþróunar á breiðum grundvelli er með NORAL-verkefninu verið að viðhalda einhæfni í þjóðarbúskapnum en ekki sótt fram á breiðum grunni, m.a. í krafti þekkingar og góðrar menntunar landsmanna.

Fjárfestingar af því tagi sem NORAL-verkefnið byggir á myndu óhjákvæmilega valda verðbólgu og þenslu á vinnumarkaði. Til mótvægis yrði ríkið að beita sér fyrir miklum samdráttaraðgerðum á öðrum sviðum, sem m.a. snertu fjárfestingaráform um allt land utan Mið-Austurlands. Ástæða er til að efast um að pólitískur grundvöllur sé til slíkra aðgerða en um leið er hætt við að nauðsynlegar stuðningsaðgerðir hins opinbera við NORAL-verkefnið, m.a. íbúðabyggingar og vegaframkvæmdir, létu á sér standa og það tefldi samfélagsþáttum verkefnisins í tvísýnu.

Nú þegar er raforkusala til stóriðju, aðallega áliðnaðar, yfir 60% af raforkuframleiðslu Landsvirkjunar, að langmestu leyti til áliðnaðar. Söluandvirði orkunnar er að stórum hluta tengt við markaðsverð áls og tekjur fyrirtækisins eru að sama skapi háðar sveiflum á álmörkuðum. Með fyrirhugaðri aukningu á raforkusölu Landsvirkjunar til áliðnaðar í framhaldi af byggingu Kárahnjúkavirkjunar stefndi umrætt hlutfall í að verða nálægt 80%. Slíkt myndi enn auka á sveiflur í tekjum fyrirtækisins og valda því að alltof mikil áhætta væri tekin af eigendum þess, ríki og sveitarfélögum. Ekki er heldur forsvaranlegt að tefla í tvísýnu meira en orðið er hagsmunum viðskiptavina almenningsrafveitna,  sbr. 13. grein laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun.

Þá gætu gífurlegar lántökur vegna framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun fyrr en varir haft áhrif á ávöxtunarkröfur af lánum fyrirtæksins svo og á lánshæfni íslenska ríkisins, ekki síst ef til einhvers konar ábyrgða kæmi af þess hálfu vegna látökuheimilda í þágu byggingar virkjunarinnar.

Þá er ótalið það sem flokka má undir félagslega áhættu fyrir Austurland sérstaklega, en það er hugsanleg rekstrarstöðvun fyrirtækis eins og álverksmiðju, sem væri orðið ríkjandi á svæðinu.

24.  Neikvæð áhrif á ímynd Austurlands

Ekki fer hjá því að stórfelld aukning áliðnaðar hérlendis með tilkomu risaálverksmiðju við Reyðarfjörð og virkjarnir sem henni fylgdu hefði afar neikvæð áhrif á ímynd landsins í heild og Austurlands sérstaklega., bæði fyrir íbúa svæðisins í framtíðinni og ferðamenn sem þangað leggja leið sína. Í stað friðsælla sjávarbyggða og sveita með hefðbundnum og lífrænum búskap mun Mið-Austurland óhjákvæmilega fá á sig stimpil stóriðju, sem í augum flestra mun rýra upplifun af náttúru svæðisins og dvöl á því og verða til þess að beina ferðamönnum annað. Virkjanir í þágu verksmiðjunnar reistar á lítt snortnum víðernum norðan Vatnajökuls og raflínur frá þeim bæta síðan gráu ofan á svart.

Framkvæmd þeirra stóriðjuáforma sem hér um ræðir myndi frá upphafi hafa mjög slæm áhrif á þróun ferðaþjónustu og til langrar framtíðar litið. Álverksmiðja við Reyðarfjörð jafngildir gengisfalli alls Mið-Austurlands sem ferðaþjónustusvæðis þar sem að óbreyttu eru góðir möguleikar á að efla ferðaþjónustu sem atvinnugrein.

Hætt er við að svipað verði uppi á teningnum fyrir ímynd matvælaiðnaðar á svæðinu og um leið fyrir matvælaútflutning frá Íslandi vegna þeirrar mengunar sem er fylgifiskur þungaiðnaðar eins og álverksmiðju. Ráðamenn ættu að gera sér ljóst að kröfur neytenda víða um heim til hreinleika og gæða matvæla fara vaxandi með ári hverju og því segir reynsla manna á liðinni tíð ekki hálfa sögu hvað þetta varðar.

25. Ýmis atriði

Margt er hér enn ótalið sem ástæða væri til að gera athugasemdir við af tilefni framkominnar matsskýrslu Reyðaráls hf. Á örfá atriði skal bent að lokum.

25.1 Áhrif á gróður.

Eins og fram kemur í matsskýrslu og vandaðri úttekt Náttúrustofu Austurlands á gróðurlendi má vænta margvíslegra áhrifa á gróðurríki í næsta nágrenni verksmiðjunnar. Ástæða væri til að gefa út hliðstætt gróðurkort af innri hluta Reyðarfjarðar að sunnan eins og að norðanverðu. Í þessu sambandi má einnig nefna að óháð verksmiðjunni er að vænta stórfelldra breytinga á gróðurlendi Reyðarfjarðar vegna útbreiðslu alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis). Þessi innrásartegund, sem dreift hefur verið í stórum tíl af mannavöldum í Reyðarfirði eins og víðar, mun að fáum áratugum liðnum verða ríkjandi í úthaga við innanverðan Reyðarfjörð og í Eskifirði. (Sjá m.a. Fjölrit Rala nr. 207: Gróðurframvinda í lúpínubreiðum. Höf.: Borgþór Magnússon o.fl. Janúar 2001).

25.2 Dýralíf

Tilkoma álverksmiðju hefði margvísleg áhrif á dýralíf, einkum fugla og fjörulíf, auk sjávarlífs sem er í hættu vegna mengunar (töluliður 12). Álverksmiðja myndi óhjákvæmilega hafa í för með sér umtalsverða röskun á fuglalífi og öðru dýralífi á svæðinu. Minna má  í þessu sambandi á æðarvarp í sjávarhólmum í landi Hólma skammt frá fyrirhuguðu verksmiðjusvæði en þar er einnig eini þekkti varpstaður lunda innan til í firðinum.

25.3 Reyðarfjarðareldstöð.

Á bls. 41 í matsskýrslu stendur:

“Vitað er um þrjár megineldstöðvar í eða nálægt Reyðarfirði (mynd 3.16). Forn megineldstöð er í miðjum Reyðarfirði, önnur nálægt Eskifirði, og sú þriðja á Hólmanesi og í Berunesi sunnan fjarðar. Á svæðinu í nágrenni álversins eru hraunlögin mestmegnis gerð úr basalthraunlögum sem runnin eru frá þessari gömlu Reyðarfjarðareldstöð.”

Engin heimild er nefnd fyrir þessum fróðleik, sem er byggður á misskilningi. Eins og raunar kemur fram á tilvitnaðri mynd er aðeins um eina megineldstöð að ræða í Reyðarfirði, Reyðarfjarðareldstöð, en jarðmyndanir hennar liggja nokkuð austan við fyrirhugað verksmiðjusvæði og eru þannig eldri en berglögin við Hraun. Basalthraunlögin sem um ræðir á verksmiðjusvæðinu og í grennd þess eru því yngri en eldstöðin og ekki frá henni runnin. Þau hafa hins vegar runnið upp að eldstöðinni og átt þátt í að kaffæra hana á sínum tíma.

25.4 Heilsufar.

Ýmis konar skaðleg áhrif verða ekki útilokuð á heilsufar starfsmanna í álverksmiðju og hugsanlega á  íbúa í þéttbýlinu á Reyðarfirði vegna starfrækslu verksmiðjunnar, ekki síst á þá sem veilir eru fyrir og viðkvæmir, m.a. fyrir asma. Um þetta er lítið sem ekkert fjallað í matsskýrslu.

25.5 Þjóðminjar – Sómastaðir.

Hvergi sá undirritaður þess getið í matsskýrslu eða viðauka 14 (Fornleifakönnun...) að gamla húsið á Sómastöðum er hluti af “Húsasafni Þjóðminjasafns”, sbr. nýútgefið Þjóðminjakort. Á kortinu stendur: “Sómastaðir við Reyðarfjörð. Húsið byggði Hans Beck bóndi við torfbæ sinn árið 1875. Hlaðið steinhús úr ótilhöggnu grjóti, bundnu saman með smiðjumó, og er sú tækni ekki þekkt annars staðar á landinu. Í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1988.”

25.6 Örnefni.

Engin umfjöllun er um örnefni á verksmiðjusvæðinu eða í grennd þess í matsskýrslu. Örnefnaskrá með innfærslu örnefna á kort ætti að vera óaðskiljanlegur hluti matsferlis sem þessa, þar eð örnefni eru mikilvægur hluti búsetu- og menningarlandslags sem taka ber tillit til þá mannvirkjagerð og breyting lands er ráðgerð

25.6 “í Reyðarfirði” eða “á Reyðarfirði”?

Hvor forsetningarliðurinn er notaður fer eftir því hvort menn líta svo til að verksmiðja við Hraun sé hluti af þéttbýlinu á Reyðarfirði eða ekki. Menn búa á Reyðarfirði, vinna á Reyðarfirði, eiga heima á Reyðarfirði og fara niður á Reyðarfjörð. Ef áform Reyðaráls hf ganga eftir vaknar spurningin hvort menn vinna í álveri “á Reyðarfirði” eða í álveri “í Reyðarfirði”. Hins vegar hygg ég að almennt sé talað um Hólma í Reyðarfirði, þ.e. að forsetningin “í” sé notuð í tengslum við bújarðir í firðinum.

26. Niðurstaða

Eins og ofangreindar athugasemdir bera með sér telur undirritaður engar forsendur til að fallist verði á erindi Reyðaráls hf. um mat á umhverfisáhrifum 420 þúsund tonna álverksmiðju á Reyðarfirði á grundvelli fyrirliggjandi matsskýrslu, hvorki fyrri eða síðari áfanga.

Neskaupstað  25. júní  2001

Hjörleifur Guttormsson


Fylgiskjal I:
Athugasemdir HG við tillögu að matsáætlun vegna 420 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði, dags. 30. júní 2000.

Hjörleifur Guttormsson                                                     30. júní 2000
Mýrargötu 37
740 Neskaupstaður

Reyðarál hf
c/o Geir A. Gunnlaugsson stjórnarformaður
Síðumúla 28
108 Reykjavík

Efni: Athugasemdir við tillögu að matsáætlun vegna 420 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði

Undirritaður vísar til ábendinga sem hann bar fram á kynningarfundi Reyðaráls hf  á Reyðarfirði  19. júní sl. um matsáætlun. Í svörum fundarboðenda kom m.a. fram að við frekari mótun matsáætlunar yrði farið yfir allar þær athugasemdir sem á sínum tíma voru sendar Skipulagsstofnun vegna frummats á vegum  Hrauns ehf  í fyrra matsferli vegna 480 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði (október-desember 1999). Til áréttingar læt ég hér fylgja með athugasemdir mínar frá þessum tíma dags. 18. nóvember 1999.

            Þessu til viðbótar leyfi ég mér með bréfi þessu að koma á framfæri við Reyðarál hf athugasemdum vegna frekari vinnu fyrirtækisins að matsáætlun fyrir allt að 420 þúsund tonna álver í Reyðarfirði. Afrit sendi ég Skipulagsstofnun sem ætlað er að taka við tillögu að matsáætlun og fjalla um hana, sbr. 8. grein laga nr. 106/2000.

  1. Tímarammi væntanlegs mats.

Ég tel að NORAL-verkefninu sé alltof þröngur stakkur skorinn hvað varðar tíma til mats, meðal annars á fyrirhugaðri álverksmiðju. Á hálfu ári, þ.e. frá því gert er ráð fyrir að matsáætlun sé samþykkt af Skipulagsstofnun og þar til fyrirhugað er að leggja fram matsskýrslu í janúar 2001 verða tæpast framkvæmdar svo vel sé þær yfirgripsmiklu rannsóknir og athuganir sem vinna þarf að vegna þessara risaframkvæmda, bæði á umhverfis- og samfélagsþáttum. Á litlu er að byggja úr matsskýrslu Hrauns ehf sem var mjög ábótavant, auk þess sem þar voru skildir eftir ókannaðir með öllu mikilvægir þættir. Nægir þar að minna á allt það sem lýtur að straumakerfi og lífríki sjávar í Reyðarfirði. Svipuðu máli gegnir um veðurfarsrannsóknir þar eð ráðgerðar viðbótarathuganir í skamman tíma gefa mjög takmarkaða mynd af aðstæðum til viðbótar þeim takmörkuðu gögnum sem fyrir liggja.

  1. Reglugerð ekki til staðar.

Fyrir liggur að ekki hafa enn verið sett í reglugerð “...nánari ákvæði um framkvæmd laganna...”, þ.e. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 19. grein nefndra laga og ákvæði IV. til bráðabirgða, en samkvæmt því ákvæði skal slík reglugerð hafa öðlast gildi í síðasta lagi 1. október 2000. Ég tel ótækt að ætla að hefja mat á umhverfisáhrifum framkvæmda samkvæmt lögum þessum áður en umrædd reglugerð hefur öðlast gildi og fengið kynningu. Á það ekki síst við þegar jafn stórfelld framkvæmdaáform eru annars vegar. Beinlínis er tekið fram í 19. gr. b.-lið að nánari ákvæði í reglugerð varði m.a. “framsetningu matsáætlunar, matsskýrslu og gögn,” svo og “samráðsferlið,” samkvæmt c.-lið sömu greinar. Hlýtur það að leiða til óviðunandi réttaróvissu, jafnt fyrir framkvæmdaraðila sem aðra, að hefja matsferli fyrir útgáfu lögboðinnar reglugerðar. Um er að ræða mörg atriði sem varða m.a. réttarstöðu almennings og samskipti Skipulagsstofnunar og framkvæmdaraðila á hinum ýmsu stigum. Því er hér eindregið lagt til að framkvæmdaraðili leggi ekki fram tillögu sína til Skipulagsstofnunar fyrr en nefnd reglugerð hefur verið gefin út. Að öðrum kosti afgreiði Skipulagsstofnun ekki tillögu að matsáætlun, sbr. 8. gr. 2. mgr., fyrr en eftir að heildstæð reglugerð hefur verið út gefin á grundvelli laganna og hlotið kynningu. Sú málsmeðferð sem nú stefnir í að óbreyttu hlýtur að leiða í ófæru jafnt fyrir stjórnvöld sem framkvæmdaraðila.

  1. Stærð verksmiðjunnar

            Verksmiðjan sem Reyðarál hf ráðgerir að reisa og starfrækja á Reyðarfirði, er ekki aðeins risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða heldur á heimsmælikvarða. Verksmiðjan þyrfti drjúgan skerf af þeirri raforku sem líklegt er að virkjuð verði hérlendis næstu áratugi. Slíkt fyrirtæki fellur illa að íslenskum aðstæðum, umhverfislega, félagslega og efnahagslega og er því brýn þörf á að kanna rækilega alla þætti málsins. Alveg sérstaklega á það við um erfiðar umhverfisaðstæður eins og fyrir liggja í Reyðarfirði og samfélagsaðstæður á Mið-Austurlandi. Fyrirtæki sem hefði í þjónustu sinni um 600 starfsmenn, auk starfsmanna við þjónustu, skapar mikið álag á fámennar byggðir þessa svæðis og yrði óhjákvæmilega ríkjandi á svæðinu. Því verður að krefjast ítarlegra samfélagslegra rannsókna á áhrifum slíkrar verksmiðju til lengri tíma litið en varast að byggja á meira og minna órökstuddum getsökum eins og skýrsla Nýsis hf. frá árinu 1999 því miður gerði. Skiptir þá einnig miklu máli að metin séu áhrif á annað atvinnulíf á svæðinu sem líklegt er að lendi í erfiðri samkeppni um vinnuafl, fyrst af öllu á byggingartíma verksmiðju og virkjana.

  1. Losun gróðurhúsalofttegunda

Ekkert er að finna um þennan stærsta einstaka mengunarþátt ráðgerðrar verksmiðju í tillögu að matsáætlun. Starfræksla 420 þúsund tonna álverksmiðju yki losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis um þriðjung miðað við árið 1990 og rúmast slík losun hvorki innan þeirra skuldbindinga sem Íslendingar tóku á sig með aðild að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna né fellur að því svigrúmi sem Íslandi er ætlað samkvæmt Kyótóbókuninni. Engin grein er fyrir því gerð í drögum Reyðaráls hf  að matsáætlun hvernig fyrirtækið hyggst taka á þessu vandamáli sem þó er augljós hindrun fyrir starfrækslu slíkrar verksmiðju hérlendis. Óskhyggja íslenskra stjórnvalda, eins og hún hefur birst í yfirlýsingum, breytir ekki staðreyndum um alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Ekkert liggur heldur fyrir um hver verða afdrif undanþágubeiðni Íslands í COP-ferlinu að því er stóriðju varðar og óráð að treysta því að á hana verði fallist á meðan niðurstaða er ekki fengin á réttum vettvangi. Í þessu sambandi er rétt að benda á umsögn Þjóðhagsstofnunar frá 30. ágúst 1999 vegna undirbúnings frummatsskýrslu Hrauns ehf um álver í Reyðarfirði. Þar segir m.a.:

“Fyrir liggur tillaga um að Ísland fái að halda losun vegna nýrrar stóriðju utan við losunarbókhald, en ekki er ljóst hvort sú tillaga verður samþykkt. Til að uppfylla ákvæði Kýótóbókunarinnar yrði að öðrum kosti væntanlega að kaupa losunarkvóta á alþjóðamarkaði, en kostnaður vegna þess er ekki tekinn með í útreikningana.”

Gera verður þá kröfu til matsáætlunar Reyðaráls hf að með henni séu lagðar skýrar línur um hvernig fyrirtækið hyggist taka á losun gróðurhúsalofttegunda hugsanlegrar verksmiðju í matsskýrslu sinni og rektraráætlunum um verksmiðjuna. Ótækt verður að að telja ef vinna á að undirbúningi málsins á grundvelli óljósra og þokukenndra yfirlýsinga íslenskra stjórnvalda um losun gróðurhúsalofttegunda, hvað þá tillagna sem ekki hafa fengið afgreiðslu innan Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

5.      Hreinsun útblásturs

Ekki er viðunandi að miða kröfur um hreinsun útblásturs flúoríðs og ryks frá umræddri verksmiðju við PARCOM viðmiðunarmörk sem að stofni til eru frá árinu 1994 og í raun löngu úrelt. Minna má á að norsk stjórnvöld gerðu í aðdraganda umræddra samþykkta, sem ekki eru skuldbindandi, kröfur um mun þrengri mörk fyrir losun. Auðvelt á að vera með fyrirliggjandi tækni að fallast á og tryggja a.m.k. helmingi þrengri mörk en gengið er út frá í PARCOM-viðmiðunum. Ætti að gera ráð fyrir slíku í matsáætlun og fylgja því eftir við undirbúning að starfsleyfi. Fráleitt væri að ætla nýrri verksmiðju að starfa eftir úreltum viðmiðunum PARCOM.

            Þá er rétt að benda á að með orðalagi í tillögu Reyðaráls hf að matsáætlun þar sem segir: “...en með vothreinsun er a.m.k. 70% af brennisteinstvíoxíði fjarlægt úr kerreyknum” (bls.12) sýnist fyrirtækið ætla sér óeðlilega stórt borð fyrir báru, þar eð nær lagi væri að gera ráð fyrir 90-95% hreinsun í þessu samhengi.

6.      Veðurfarsrannsóknir

Í áformuðum viðbótarrannsóknum  á veðurfari kemur fram að sjálfvirkar veðurstöðvar verði settar upp á Vattarnesi yst við Reyðarfjörð og í fjallinu upp af Teigum í 220 metra hæð. Þetta sýnist vera allsendis ófullnægjandi og setja ætti upp tvær hliðstæðar veðurstöðvar utar með firðinum, til dæmis nálægt Berunesi og við Stóru-Breiðuvík. Athuganir á Vattarnesi “yst við Reyðarfjörð” endurspegla ekki innfjarðaraðstæður og lýsa því ekki nema að litlu leyti inn í það vandamál sem við er að fást, þ.e. takmörkuð loftskipti í firðinum um lengri eða skemmri tíma. Er því eindregið ráðlagt að bætt verði við nefndum athugunarstöðvum milli Teiga og Vattarness.

  1. Hafís í Reyðarfirði

Ekki er að finna í tillögu að matsáætlun að gert sé ráð fyrir söfnun sögulegra upplýsinga um hafís fyrir Austfjörðum og í Reyðarfirði sem hugsanlega þyrfti að taka tillit til í áætlunum um verksmiðjuna.

  1. Félagslegar rannsóknir

Undir lið 5.2.8 segir: “Líkur eru á að samfélagsleg og þjóðhagsleg áhrif álvers og Kárahnjúkavirkjunar verði metin sameiginlega og verði þá sem sjálfstæð skýrsla eða sem kafli í annarri hvorri eða báðum matsskýrslunum...”.  

            Þessi framsetning vekur upp margar spurningar, meðal annars í ljósi þess að um tvo framkvæmdaraðila er að ræða.

Í 5. grein 2. mgr. laga nr. 106/2000 er svohljóðandi ákvæði: “Í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði, getur ráðherra, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila, ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega.” - Þannig hefur málið ekki verið kynnt eða lagt fyrir af framkvæmdaraðilum, Reyðaráli hf og Landsvirkjun. Ekki verður heldur séð að 4. mgr. 5. greinar sömu laga þar sem segir “...að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, eða hluta hennar, samkvæmt þessari grein og 6. gr. fari fram með öðrum hætti en kveðið er á um í lögum þessum.” geti hér átt við, þar eð umræddar matsáætlanir Reyðaráls hf og Landsvirkjunar eru lagðar fyrir með vísan í  venjulega málsmeðferð samkvæmt lögunum. Ekki verður heldur séð að opinberir aðilar, ráðuneyti eða stofnanir á þeirra vegum geti gengið í hlutverk “framkvæmdaraðila” að því er varðar samfélagsleg og þjóðhagsleg áhrif álvers. – Það gerir málið jafnframt allt erfiðara úrlausnar, að ekki hefur verið sett reglugerð á grundvelli laganna, sbr. 19. grein og ákvæði IV. til bráðabirgða, en í reglugerð verður væntanlega skorið úr um ýmis álitaefni.

Svo nauðsynlegt sem það er að heildarsýn fáist um samfélagsleg og þjóðhagsleg áhrif  umræddra stóriðjuframkvæmda áður en pólitískar ákvarðanir yrðu teknar um framkvæmdirnar, leysir það vart framkvæmdaraðilana sjálfa undan þeirri lögboðnu skyldu að gera hvor um sig grein fyrir sínu eigin mati  á samfélagslegum áhrifum framkvæmdanna eins og lög og reglur um mat á umhverfisáhrifum kveða á um. Eðlilegt sýnist að mat framkvæmdaraðilanna á samfélagslegum áhrifum fái hliðstæða meðferð að lögum og aðrir þættir. Á síðari stigum yrðu samfélagsleg áhrif væntanlega til sérstakrar athugunar hjá  stjórnvöldum og stofnunum sem hlut eiga að máli.

  1. Rafskautasmiðja

Bygging rafskautaverksmiðju við Reyðarfjörð er stórmál út af fyrir sig og nýtt í þessu samhengi. Tillaga Reyðaráls hf. að matsáætlun er fáorð um þessa framkvæmd, sem bætir við mörgum álitaefnum. Engin lýsing liggur fyrir á framleiðsluferli, losun mengandi efna, starfsmannafjölda o.fl. í  rafskautaverksmiðju. Verður væntanlega að taka alla slíka þætti til sértækrar athugunar og sem hluta af heild eftir því sem við á. Hlýtur að þurfa að móta ítarlega matsáætlun þeirra vegna þar sem lagðar verði línur um hvernig fyrirhugað sé að vinna að matsskýrslu um rafskautasmiðjuna, hvaða rannsóknir þurfi að ráðast í hennar vegna svo og um mengunarhættu og varnir gegn henni.

  1. Málsmeðferð og  hagsmunatengsl

Brýnt er að málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum standist kröfur um hlutlægni og komist verði hjá árekstrum vegna hagsmunatengsla. Í fyrra matsferli þar sem Hraun ehf. var í hlutverki “framkvæmdaraðila” komu fram ábendingar um óeðlileg tengsl einstakra aðila er að málinu komu á fyrri stigum, m.a. að aðalhöfundur að skýrslu Nýsis hf. átti sæti í stjórn Landsvirkjunar. Einnig var aðkoma Þjóðhagsstofnunar sem umsagnaraðila gagnrýnd vegna aðildar forstöðumanns hennar að NORAL-verkefninu. Brýnt er að mat á þessum ráðgerðu stórframkvæmdum verði framvegis yfir gagnrýni hafið að þessu leyti og verði ekki umdeilt að því er form varðar vegna hagsmunatengsla.

Virðingarfyllst

Hjörleifur Guttormsson

Afrit sent Skipulagsstofnun

Meðfylgjandi:

Athugsemdir HG til skipulagsstjóra ríkisins frá 18. nóvember 1999 vegna 480 þúsund tonna álvers á Reyðarfirði. [Ekki framsendar með athugasemdum 25. júní 2001]


Fylgiskjal II:
Svar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, dags. 14. febrúar 2001 við fyrirspurn HG um setu Þórðar Friðjónssonar forstjóra Þjóðhagsstofnunar í viðræðunefnd um NORAL-verkefnið

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Reykjavík 14. febrúar 2001
Tilvísun:IVR01020074/15.040/GAG

Hjörleifur Guttormsson
Mýrargötu 37
740 NESKAUPSTAÐUR

Vísað er til erindis yðar,dags. 13. febrúar 2001, þar sem óskað er upplýsinga frá ráðuneytinu um setu Þórðar Friðjónssonar í viðræðunefnd stjórnvalda um NORAL-verkefnið.

1. Hvenær gegndi Þórður Friðjónsson nú forstjóri Þjóðhagsstofnunar starfi ráðuneytisstjóra?

Þórður Friðjónsson var settur í starf ráðuneytisstjóra iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta 14. apríl 1998 í stað Halldórs J. Kristjánssonar. Þórður gegndi starfinu þar til núverandi ráðuneytisstjóri tók við starfinu 15. ágúst 1999.

2. Á hvaða tíma var sami Þórður í viðræðunefnd stjórnvalda um NORAL-verkefnið svonefnda?

Halldór J. Kristjánsson var uphaflega tilnefndur af hálfu íslenskra stjórnvalda í samráðsnefnd um NORAL-verkefnið í maí 1997. Þegar Halldór J. Kristjánsson lét af störfum ráðuneytisstjóra og Þórður Friðjónsson var setttur ráðuneytisstjóri tók Þórður við setu í umræddri samráðsnefnd og hefur átt sæti í nefndinni síðan.

3. Var sami Þórður formaður þeirrar nefndar og ef svo er þá á hvaða tíma?

Þórður hefur gegnt stöðu formanns frá því hann tók sæti í nefndinni.

4. Á sami Þórður sæti í öðrum nefndum er fjalla um stóriðjumál á vegum ráðuneytisins?

Nei, Þórður Friðjónsson á ekki sæti í öðrum nefndum um stóriðjumál á vegum ráðuneytisins

F.h.r
Þorgeir Örlygsson (sign)/ Guðjón Axel Guðjónsson (sign)