Hjörleifur Guttormsson | 1. október 2013 |
Framsóknarforysta á villigötum gegn náttúruvernd Þeir eru margir sem spyrja sig hvers konar fyrirbæri Framsóknarflokkurinn sé orðinn og hvert forysta hans sé að stefna. Rætur þessa flokks tengdust á öldinni sem leið samvinnuhreyfingunni, en eftir að sú stóra félagsmálahreyfing missti fótanna er eins og líftaug flokksins hafi slitnað. Ég man þá tíð um og eftir 1970 þegar Eysteinn Jónsson náði að tengja flokk sinn við rísandi náttúruverndarhreyfingu í landinu og stilla með henni saman fólk í dreifbýli og þéttbýli til verndar náttúru Íslands. Náttúruverndarlög sem samþykkt voru á Alþingi 1971 innleiddu Náttúruverndarþing með þátttöku félagasamtaka og á þingum þessum voru kosnir fulltrúar í Náttúruverndarráð, aðrir en formaður og varaformaður sem ráðherra skipaði. Ég átti sæti í ráðinu jafn lengi og Eysteins naut við og það var gaman að vera í hans áhöfn. Röskum áratug síðar átti Steingrímur Hermannsson sem forsætisráðherra og formaður Framsóknar drjúgan þátt í að umhverfisráðuneyti varð loks að veruleika 1990. Boða afnám nýsettra laga Á síðasta kjörtímabili fór fram mikið starf við endurskoðun á gildandi náttúruverndarlögum frá árinu 1999. Með samantekt og kynningu á Hvítbók til verndar náttúru Íslands á árinu 2011 var lagður góður grunnur og á eftir fylgdu tvær atrennur að endurskoðun laganna. Fyrst voru teknir fyrir takmarkaðir þættir eins og akstur utan vega og um framandi lífverur, en þau atriði gengu síðan inn í heildarendurskoðun sem leiddi til samþykktar á nýrri löggjöf skömmu fyrir þinglok sl. vetur. Umhverfis- og samgöngunefnd lagði mikla vinnu í málið undir forystu Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og Marðar Árnasonar. Til samkomulags var gildistaka laganna ákveðin 1. apríl 2014 og ýmis ákvæði sett inn til bráðabirgða. Lögin voru svo að lokum samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi 28. mars sl. Setning laganna styrkir til muna grundvöll náttúruverndarstarfs í landinu. Núgildandi lög um náttúruvernd (nr. 60/1999) voru, svipað og löggjöfin sem ætlað er að leysa þau af hólmi, samþykkt í þinglok fyrir alþingiskosningar. Ég átti þá sæti í umhverfisnefnd þingsins en formaður hennar var Ólafur Örn Haraldsson, nú þjóðgarðsvörður. Fyrir lágu ýmsar breytingartillögur, m.a. um viðbótarkafla inn í lögin um landslagsvernd, efnistöku og framandi tegundir. Tekist var á í nefndinni sem að lokum sameinaðist þó um niðurstöðu sem dugði til lagasetningar, sem að mestu hefur haldist óbreytt í 14 ár. Við í stjórnarandstöðu á þessum tíma fengum ekki allt okkar fram, en viljinn til samkomulags réði ferðinni. Ég held engum hafi þá dottið í hug að fara að rífa þessa löggjöf upp ári seinna með vísan í kröfugerð hópa í samfélaginu sem ekki voru ánægðir með niðurstöðuna. Þróun umhverfisréttar á alþjóðavísu hefur hins vegar verið allhröð síðasta hálfan annan áratug, og það var m.a. af þeim sökum orðið brýnt að bregðast við henni með setningu nýrra náttúruverndarlaga. Þar við bætast ýmsar séríslenskar aðstæður er varða ekki síst umferð og umgengni við landið. Ferðamennska kallar á aðhald Við erum þessi árin vitni að ótrúlegum vexti í fjölda ferðamanna hérlendis og beinist umferð þeirra ekki síst að hálendi og öðrum óbyggðum. Ákvæði í löggjöf um umferð utan alfaraleiða hafa lengi verið ófullnægjandi, þar á meðal um akstur á vélknúnum tækjum og um viðurlög við akstri utan vega. Aðstæður hérlendis eru um margt einstæðar og þeim mun ríkari ástæða til að treysta lög og reglur til verndar landinu. Með fjölgun útlendinga sem sækja okkur heim vex ábyrgð okkar sjálfra um að sýna gott fordæmi, ella töpum við þeim gæðum sem teljast eftirsóknarverð til framtíðar litið. Sérkröfum hópa sem í krafti nýrrar og ágengrar tækni vilja auka eigið svigrúm til ferða verður að stilla í hóf. Á það jafnt við um jeppaeigendur og veiðimenn, svo dæmi séu nefnd. Einnig þurfa bændur sem vörslumenn heimalanda og afrétta að sýna aðgæslu og ganga á undan með góðu fordæmi. Í nýjar akslóðir sækja fyrr en varir herskarar, sumir í góðri trú. Nú gerist Sigurður Ingi umhverfisráðherra beinlínis talsmaður sérkrafna ákveðinna hópa, þegar hann setur fram hótun sína um afnám nýrrar náttúruverndarlöggjafar í heild sinni. Þó er í ákvæðum til bráðabirgða við lögin sértaklega kveðið á um áframhaldandi vinnu næstu árin varðandi úttekt á akslóðum og reglum um kortlagningu þeirra og nýtingu. Ráðherranum væri nær að beina kröftum stjórnkerfisins að þeirri vinnu sem þar er ólokið í stað þess að kasta vel unninni og framsækinni löggjöf um náttúruvernd út í hafsauga. Hjörleifur Guttormsson |