Hjörleifur Guttormsson 1. nóvember 2013

Obama á línunni í sveitasímanum

Mín kynslóð minnist sveitasímans sem gegndi mikilvægu samfélagshlutverki fram yfir miðja 20. öld. Gegnum hann bárust fréttir og skilaboð manna á milli og það varð að dægradvöl margra að liggja á línunni og fylgjast með. Ófáar sögur spunnust um það athæfi, sem stundum kvað svo rammt að vegna álags að sambandið slitnaði. Á þéttbýlisstöðum bjuggu menn á sama tíma við þá „einangrun“ að vera tengdir við ákveðið númer gegnum símstöð, en það bauð vaktmeisturum öryggis og réttra skoðana upp á þann möguleika að láta hlera símtölin, að fengnum dómsúrskurði til málamynda. Í þann heiðursflokk komust ófáir Íslendingar, en lögreglustjórinn í Reykjavík vann sér það til hægari verka að kveikja í sönnunargögnum um athæfið.  Nú eru breyttir tímar og heimsbyggðin býr við stafrænt Netfrelsi sem opnað hefur Stóra bróður ómælda möguleika til að hnýsast um hvers manns hag og samskipti. Þetta hefur Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna notfært sér til að gerast heimslögregla  fyrir hönd forseta síns. Obama hefur endurreist sveitasímann og liggur á línunni nótt sem nýtan dag.

Snowden og fleiri pörupiltar

Það var ljótur grikkur sem Edward Snowden gerði heimslöggunni í Washington með því að ljóstra upp um endurhönnun sveitasímans og dægrastyttingu manna þar vestra við að tryggja frið og öryggi með því að skrá niður nöfn allra þeirra sem gera sig tortryggilega eða seka um rangar skoðanir. Tilraunir til að hafa hönd í hári þessa uppljóstrara mistókust herfilega og var þó öllu til kostað, svo sem að knýja forseta Equador til að millilenda í Vínarborg á heimleið frá Moskvu. Reyndar gerðust Spánverjar og Frakkar liðsmenn Bandaríkjanna í því mannráni, að því er virðist óvitandi um að þorri eigin þegna er hleraður dag hvern. Nú er Snowden orðinn dýrlingur og nokkurn veginn öruggur um að hljóta friðarverðlaun Nóbels að ári, líkt og Obama við upphaf forsetatíðar. Ógöngurnar sem Bandaríkin hafa komið sér í fyrir eigin tilverknað eru slíkar að vandratað verður úr þeim og siðferðilegt áhrifavald heimsveldisins hefur beðið ómældan hnekki.

Öll heimsbyggðin undir

Á síðustu vikum hefur runnið upp fyrir mönnum að Þjóðaröryggisstofnunin vestra (NSA) telur sér ekki aðeins heimilt heldur skylt að beita öllum tiltækum ráðum til að vaka yfir heimsbyggðinni, hverjum einasta manni. Efst á lista virðast vera þeir þjóðarleiðtogar og aðstoðarmenn þeirra sem talið hafa sig í hópi dyggra stuðningsmanna Bandaríkjanna. Forsetar Mexíkó og Brasilíu urðu fyrstir til að sjá nöfn sín á forgangslista NSA, en þeir eru ekki lengur einmana því að síðan er upplýst að fylgst er með að minnsta kosti 35 kollegum þeirra um víða veröld nótt sem nýtan dag. Prestsdóttirin frá Austur-Þýskalandi, Angela Merkel, kynnist því nú hversu frumstæðar voru aðferðir Stasi, miðað við þá hátækni sem nú nemur hvert orð sem fram gengur af hennar munni í farsímann. Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna með aðalritara sinn eru auðvitað auðtekin bráð og eins er háttað um kommissaraveldi ESB í Brussel. Það er vissulega ekki ónýtt að þekkja út og inn samtöl manna þar á bæ, þegar nú hafnar eru viðræður um fríverslunarsamning þvert yfir Atlantsála.

Guðs eigin land í sérflokki

Obama ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fyrir mánuði, eftir að njósnanet NSA var komið í hámæli. Í stað þess að biðjast velvirðingar á athæfinu undirstrikaði hann sérstöðu Bandaríkjanna. Ég tel að Bandaríkin séu í sérflokki („exceptional“), mælti forsetinn, og í krafti þeirrar sérstöðu beiti þau sér ekki aðeins fyrir eigin hag, heldur í þágu allra. Það er þetta yfirlæti sem ráðamenn í Bandaríkjunum hafa lengi notað sem réttlætingu fyrir gjörðum sínum, hvort sem um var að ræða herförina í Írak eða mannlausar drápsvélar þvert á landamæri.  Eftir höfðinu dansa limirnir, eins og skýrt kom fram hjá æðstu yfirmönnum NSA þegar þeir mættu fyrir leyniþjónustunefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings nú í vikunni. Á þeim var ekki að sjá hinn minnsta bilbug. Allt væri þetta lögum samkvæmt, hvort sem í hlut ættu eigin landsmenn eða annarra þjóða fólk. Aðrar leyniþjónustur beiti sömu brögðum og fóðri NSA á upplýsingum úr eigin ranni.

Öll fyrri met eru slegin

Leyniþjónustur eru ekki nýjar af nálinni og hafa verið alræmdar í Evrópu frá dögum Metternich fursta sem hafði frumkvæði að samtryggingarkerfi þáverandi stórvelda gegn sjálfstæðis- og lýðhreyfingum á 19. öld. Arftakarnir vestanhafs ganga hins vegar skrefi lengra í skjóli hátækni og yfirburðastöðu Bandaríkjanna og skirrast ekki við að hlera orð og merkjasendingar æðstu manna í ríkjum, sem hingað til hafa verið talin vinveitt Washington. Aðstæður hafa hins vegar skyndilega breyst eftir að kornungir liðhlauparar eins og Manning og Snowden hafa svipt hulunni af siðlausasta og víðtækasta njósnasnuðri allra tíma. Eftir er að sjá hvort eitthvað breytist í hirðsiðum við háborð valdsins vestanhafs og austan eftir afhjúpanirnar á liðnu sumri.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim