Hjörleifur Guttormsson 3. maí 2013

Eftir alþingiskosningarnar

Niðurstaða alþingiskosninganna endurspeglar vonbrigði kjósenda með fráfarandi ríkisstjórn og óraunsæjar væntingar margra um töfralausnir eins og þær sem fólust í kosningaloforðum Framsóknarflokksins. Fráfarandi ríkisstjórn hóf feril sinn vorið 2009 með tundurskeyti í farangrinum þegar ákveðið var að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Forysta VG hefur við engan að sakast nema sjálfa sig vegna fylgistaps í nýafstöðnum kosningum og kom þó fleira til en ESB-umsóknin. Málefnalegt flokksstarf og samráð við grasrótina lagðist að mestu af síðustu árin. Með ákvörðun um að stefna að olíuleit og olíuvinnslu á Drekasvæðinu laskaðist jafnframt alvarlega trúverðugleiki VG í umhverfismálum.  Hrun Samfylkingarinnar er þó enn sögulegra og ástæðurnar margþættar. Ósveigjanlegur starfsstíll og brotlending í stjórnarskrármálinu á þar eflaust drjúgan hlut að máli ásamt niðurskurði til velferðarmála, ekki síst á heilbrigðissviði.

Óvenjumikil endurnýjun

Sjálfsagt er að óska nýjum þingmönnum til hamingju með inngöngu á þjóðþingið. Endurnýjun er holl fyrir Alþingi svo og aðkoma fulltrúa mismunandi kynslóða. Hins vegar er örskammur starfsaldur þorra þingmanna umhugsunarefni. Ekki færri en 27 nýkjörnir þingmenn taka nú sæti á Alþingi og 14 til viðbótar hafa aðeins átt þar setu síðan 2009. Með ýmsum þeim sem féllu út af þingi í kosningunum eða hættu á kjörtímabilinu hverfur mikilvæg reynsla sem hætt er við að skili sér ekki til nýrra þingflokka. Ég tek sem dæmi umhverfismálin en 2/3 af þeim sem áttu sæti í umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta þingi eru nú horfnir af vettvangi. Meðal þeirra sem báru hitann og þungann af þeim málaflokki í tíð fyrri ríkisstjórnar voru Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Mörður Árnason, Álfheiður Ingadóttir, Ólína Þorvarðardóttir og Atli Gíslason sem óháður þingmaður. Einnig féll út af þingi Skúli Helgason, formaður þverpólitískrar nefndar um eflingu græna hagkerfisins.

Staða umhverfismála áhyggjuefni

Margt jákvætt náðist fram í umhverfismálum á síðasta kjörtímabili. Ber þar hæst Rammaáætlun og setningu nýrra laga um náttúruvernd. Svandís Svavarsdóttir var nýliði í þessum málaflokki og tók vorið 2009 við sem ráðherra af Kolbrúnu Halldórsdóttur sem verið hafði öflugur talsmaður VG í náttúruvernd um tíu ára skeið. Skarð Kolbrúnar var vandfyllt en Svandís var fljót að fóta sig á þessu sviði og skilaði um margt góðu verki sem ráðherra. Í ljósi kosningaúrslitanna og viðhorfa stjórnarandstöðunnar á Alþingi síðustu árin er rík ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu umhverfismála í nýju kjörtímabili. Nægir þar að minna á  andóf sjálfstæðis- og framsóknarþingmanna gegn Rammaáætlun og hótunum um að breyta þeirri niðurstöðu sem fékkst við afgreiðslu hennar á þingi. Voru þó í henni alvarlegar brotalamir, einkum varðandi Reykjanesskaga. Umhverfisvernd nýtur vissulega vaxandi stuðnings í samfélaginu eins og mikil þátttaka í Grænu göngunni í Reykjavík 1. maí er til vitnis um. Ráðandi viðhorf og fátæklegur stuðningur við málaflokkinn í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki gefur hins vegar ekki tilefni til bjartsýni á nýbyrjuðu kjörtímabili, nái þessir flokkar saman um stjórnarmyndun.

Örar breytingar – nýjar blikur

Nýliðin kosningabarátta var efnislega óvenju fátækleg og bar ekki vott um hugmyndaauðgi eða greiningu á örum samfélagsbreytingum sem eiga sér stað hérlendis og á alþjóðavettvangi.
Þannig leiddu flokkarnir að mestu hjá sér að ræða um afstöðuna til Evrópusambandsins, að ekki sé talað um EES-samninginn og þörfina á endurskoðun hans. Hugmyndir um nánara samstarf VG og Samfylkingar sem bar á góma hjá formönnum flokkanna strax og kosningaúrslit lágu fyrir eru innihaldslausar nema annarhvor flokkurinn breyti formlega um grundvallarafstöðu til ESB-aðildar. Tilraunir til málamyndasamstöðu eru dæmdar til að misstakast og ESB-andstaðan til vinstri hverfur ekki með hókuspókus-orðaleppum.
            Ástand samfélagsmála á Vesturlöndum er uggvænlegt og á rætur í ósjálfbæru hagkerfi sem leiðir rakleitt í öngstræti. Birtingarform þess er annars vegar efnahagskreppur með atvinnuleysi og vaxandi misskiptingu og hins vegar eyðing náttúruauðlinda og ógnvænlegar loftslagsbreytingar. Lausnin sem vísað er á af ráðandi öflum er hagvöxtur drifinn áfram af neyslukapphlaupi og skuldsetningu. Þróunarríki með Kína í fararbroddi feta sömu slóð. Verði ekki róttæk breyting á þessari stefnu rekur mannkyn fyrr en varir upp á sker. Íslendingar búa um margt við betri forsendur en aðrar þjóðir til að snúa af þessari braut, reynslunni ríkari af kollsiglingu haustið 2008. Til að það gerist þarf í senn að varðveita og treysta sjálfsforræði þjóðarinnar og ryðja braut fyrir nýja hugsun þar sem sjálfbærni og hófstilling eru höfð að leiðarljósi. Mættum við biðja fyrr en seinna um Alþingi sem hlúir að slíkum breytingum.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim