Hjörleifur Guttormsson 5. september 2013

Kveikjan að ritinu Í spor Jóns lærða
Ávarp í málstofu um Jón lærða í Þjóðmenningarhúsi

Góðir áheyrendur.

Það getur verið erfitt að greina samhengi milli lauslegra hugmynda og hvenær þær leiða til athafna. Minn þáttur í að rekja spor Jóns lærða hófst fyrst að einhverju marki fyrir tæpum áratug. Ég hafði þá tekið að mér að skrifa fyrir Ferðafélag Íslands rit um Úthérað sem kom út vorið 2008. Ég þekkti að vísu sæmilega til á þessu svæði eftir árvissar ferðir í röska fjóra áratugi, en nú reið á að skyggnast í króka og kima og leiða fram drætti úr fortíðinni, bæði um náttúru og mannlíf.

Það fór ekki mikið fyrir Jóni lærða í fyrstu í þessu umhverfi. Frá æskudögum hafði ég hugmynd um að hann hefði verið um skeið sem útlægur sakamaður í Bjarnarey nyrst á Héraðsflóa, en um dvalarstaði hans eftir það var mér lítt kunnugt, utan hann hefði borið beinin á Hjaltastað í Útmannasveit. Í  hugum heimafólks sem ég ræddi við var hjá flestum fátt um svör þegar talið barst að Jóni lærða, en austfirskir grúskarar á öldinni sem leið höfðu þó gert ferli hans nokkur skil, fremstir í flokki Benedikt Gíslason frá Hofteigi og Halldór Stefánsson, bóndi, alþingismaður og rithöfundur. Af örnefnaskrám má líka ráða að menn tengdu nafn Jóns lærða við einstaka eyðibýli, þar á meðal Dalakot sem síðar er kallað Dalasel. Það var fyrst við kynni af Edduriti Einars Gunnars Péturssonar og skrifum Páls Eggerts Ólasonar um 17. öldina að sviðið laukst upp að gagni og kjöt fór að koma á beinin. Lestur á Fjölmóði, ævikvæði Jón lærða, sem telur nær 400 vísur, gagnaðist líka vel við að kalla fram spurningar og spá í eyður.

Eftir útlegðardóm yfir Jóni sumarið 1631 og þegar fyrir lá að enginn vildi flytja hann utan í tugthús var honum heimilað að afplána á Austurlandi. Í kvæði sínu Fjölmóði vísar Jón tvívegis til „landsenda“, annars vegar flýr Guðmundur sonur hans „til landsenda“ eftir að hafa verið sviptur hempu, og síðar í kvæðinu segir Jón: „Á Langanes/til landsenda, skikkað var mér að skrölta þangað ...“  Þangað heldur hann norður um land veturinn 1631–1632 og bætir við: „komst á Langanes/ að liðnum jólum,/ þaðan í hérað hoppa náði.“ Hann hefur misst hest sinn og „hoppar“ úr Vopnafirði næsta víst yfir Hellisheiði niður í Jökulsárhlíð.  Af heiðarbrún opnast honum sýn yfir það hérað, þar sem áhrifamenn áttu eftir að veita Strandamanninum og fjölskyldu hans skjól þau 26 ár sem Jón átti ólifuð. Hér er eyða í kvæðinu, og ekki eru heimildir um dvalarstaði Jóns fyrstu árin eftir að hann náði austur. Ég get þess til að hann hafi í fyrstu haldið til á hjáleigunni Landsenda utan við Ketilsstaði í Hlíð, en þar var búið fram yfir árið 1703. Á Alþingi 1635 yfirlýsti Jens Söffrinsson, nýr umboðsmaður á Bessastöðum , að Jón „skyldi fangast, og flytjast sýslumanni eður til Bessastaða.“ Í staðinn fyrir að velunnarar Jóns hlýðnuðust þessu valdboði var honum komið fyrir úti í Bjarnarey, sem liggur skammt undan á Héraðsflóa. Eyjan var enn byggð, amk. öðru hvoru, fram yfir aldamótin 1700. Úr Bjarnarey skaust hann með kaupfari til Kaupinhafnar til að rétta hlut sinn, en Sigríður gætti á meðan kinda í eynni.
Gagnger umskipti verða á aðstæðum fjölskyldunnar eftir að Brynjólfur Sveinsson fær biskupsembætti í Skálholti 1639. Sonurinn Guðmundur fær þá hempuna á ný og gerist aðstoðarprestur á Hjaltastað og Jón og Sigríður halda til í Gagnstaðahjáleigu nokkru utar í sveitinni. Þaðan hefur hann gert út til að skreyta kirkjuna á Hjaltastað, en þau verk hans entust í fullar tvær aldir. Í Gagnstaðahjáleigu setur Jón punktinn aftan við ritgerðasyrpu sína Tíðfordríf vorið 1644, þá sjötugur að aldri. Sama ár flyst sonurinn Guðmundur Jónsson sóknarprestur til Berufjarðar og þjónar þar í áratug, en foreldrum hans er þá þegar, eða litlu síðar, komið fyrir í Dalakoti nær Dyrfjöllum austur af Hjaltastað. Þarna eru lynggrónar rústir af kotbýli innan túngarðs, prýðilega varðveittar, en skera sig annars sökum aldurs lítt frá umhverfinu. Á þessar fornminjar rakst ég á rölti mínu um Útmannasveit í júlí 2006. Í Dalakoti gekk Jón lærði frá handriti sínu af útdrætti úr Heimshistoríu Fabróníusar, sem hann þýddi úr þýsku eftir prentaðri útgáfu frá árinu 1612. Hann er þá orðinn skjálfhentur en tekur ótrauður til við lokaverk sitt, ævikvæðið Fjölmóð og lýkur því undir miðja öldina þá 75 ára gamall.

Ætli mér hafi ekki verið svipað innanbrjósts þennan sumardag og Jóni Helgasyni þegar hann yrkir Til höfundar Hungurvöku:

Hér stíg ég enn mínum fæti á fold
og fylli lungun í blænum,
en þú ert örlítil ögn af mold
undir sverðinum grænum.

Jón lærði hvílir að vísu ekki í Dalakoti heldur framan við kirkjudyr á Hjaltastað, þar sem hann kaus sér legstað. Þangað flytja gömlu hjónin í skjól hjá syninum Guðmundi sem sneri þangað á ný úr Berufirði eftir að hafa fengið óskorað prestsembætti á Hjaltastað 1654 sem hann gegndi til 1683.

Menn hafa fyrir satt að dánarár Jóns lærða sé 1658, en Sigríður hafi ef til vill lifað mann sinn um einhver ár. Árið 2008 blasti þannig við 350. ártíð Jóns. Í samvinnu við nafna minn Hjörleif Stefánsson arkitekt og Guðmund Rafn Sigurðsson framkvæmdastjóra Kirkjugarðaráðs var ákveðið að koma fyrir steini á leiði þeirra hjóna. Við afhjúpun legsteinsins 10. ágúst 2008 var haldið vel heppnað málþing í nærliggjandi félagsheimili sveitarinnar, Hjaltalundi. Að því búnu lögðu nokkrir pílagrímar leið sína í Dalakot, sem ég kýs að vísa til sem kveikju að framhaldinu. Nokkur erindi sem flutt voru á málþinginu urðu stofninn í ýmsum greinum í bókinni, þökk sé Hinu íslenska bókmenntafélagi. Síðan hefur við þær verið aukið og mikið efni bæst við, einkum tengt listamanninum og Strandamanninum Jóni, svo og Spánverjavígum og Böskum, að ógleymdum tilvísunum til Rökkurbýsna Sjón og finnsku skáldsögunnar Ariasman í ágætri þýðingu. Hljómdiskur með margvíslegu efni er síðan ábót, með efni í tali og tónum sem tengist Jóni lærða. Lesenda og hlustenda verður nú að dæma hvernig til hefur tekist, en ljóst er að Jón lærði er ekki með þessu genginn út af sviðinu. Miklu fremur má ætla að sporgöngumönnum hans muni fjölga, enda blasa við fjölmörg tilefni til frekari rannsókna og túlkunar.

Um höfunda og margar hjálparhellur við tilurð þessarar bókar og hljómdisks, jafnt um efni og ytra búning, vísast til formála og efnis ritsins, en ítrekaðar skulu hér að endingu þakkir mínar til allra hlutaðeigandi og ekki síst útgefandans.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim