Hjörleifur Guttormsson 5. desember 2013

Skriftamál Steingríms J og ESB-aðildarumsóknin

Í bók sinni Frá Hruni og heim gerir Steingrímur J. Sigfússon tilraun til að réttlæta umsóknina um aðild að Evrópusambandinu í formannstíð sinni. Andstaðan við aðild Íslands að ESB var einn af hornsteinum í stefnu VG allt frá stofnun flokksins 1999. Þessari undirstöðu var kippt burt við myndun ríkisstjórnar með Samfylkingunni vorið 2009. Nú situr VG uppi í stjórnarandstöðu með landsfundarsamþykkt frá mars 2013 þar sem gerð er krafa um að ljúka aðildarviðræðum við ESB sem fyrst og að bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla verði um niðurstöðu þeirra.  

Undanhaldið hófst í vetrarbyrjun 2008

Undanhald VG frá markaðri stefnu hófst fyrr en fram kemur í bók Steingríms, þ.e. þegar á flokksstjórnarfundi í byrjun aðventu 2008 á meðan ríkisstjórn Geirs H. Haarde var enn við völd.  Þá varð til klisjan um að niðurstöður viðræðna við ESB verði fengnar „á lýðræðislegan hátt“ og „lagðar í dóm þjóðarinnar að undangenginni vandaðri kynningu“. Í  umdeildri ályktun landsfundar í mars 2009 sagði síðan: „Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Hér kemur fram sú tvöfeldni sem fylgt hefur málflutningi VG-forustunnar alla götu síðan. Í sjónvarpsumræðum flokksformanna kvöldið fyrir alþingiskosningarnar 2009 þvertók Steingrímur fyrir að til greina kæmi að hefja undirbúning að því að sækja um aðild að ESB. Orðrétt sagði hann við alþjóð: „Það samrýmist ekki okkar stefnu og við höfum  ekkert umboð til þess.“ Hálfum mánuði síðar var búið að gera aðildarumsókn að Evrópusambandinu að leiðarljósi nýrrar ríkisstjórnar og lagt að þingmönnum VG að styðja tillögu þar að lútandi.

„Loks hægt að fá botn í þetta mál“

Á síðu 142 í Frá Hruni og heim má lesa eftirfarandi:

Þrátt fyrir að VG hafi alltaf verið á móti aðild að Evrópusambandinu var Steingrímur því ekki mótfallinn að tekist yrði á við málið. Það var því ekki gegn hans vilja að það var á verkefnalista ríkisstjórnarinnar þótt hann hefði vissulega viljað fara hægar í sakirnar en Samfylkingin og standa öðruvísi að málum. „Mín hugsun var sú að loks væri þá hægt að fá einhvern botn í þetta mál sem hafði hangið svo lengi yfir okkur. Við skyldum bara láta á þetta reyna.“

Um afstöðu mína segir Steingrímur (s. 147):

„Það var auðvitað leiðinlegt þegar gamlir félagar eins og Hjörleifur urðu viðskila en við því var ekkert að gera. Hann og fleiri töluðu mikið um sjálfstæðið en við þurftum nú fyrst að endurheimta sjálfstæðið áður en við gátum samið það af okkur. Í mínum huga var það alltaf mun stærra og mikilvægara mál að endurheimta efnahagslegt sjálfstæði landsins heldur en að hafa áhyggjur af því að það væri stórhættulegt að ræða við Evrópusambandið.“

Ekki skal lítið gert úr alvöru hrunsins haustið 2008, en að halda því fram að þjóðin hafi með því tapað efnahagslegu sjálfstæði er blinda eða vísvitandi blekking. Jafnframt var forðast eins og heitan eld að viðurkenna að til að fullburða samningur við ESB liti dagsins ljós, sem vísa mætti síðan í þjóðaratkvæði, þyrfti VG sem aðili að ríkisstjórn að standa að honum.

IPA-styrkir gagnrýndir „algjörlega að ósekju“

Svo virðist sem Steingrímur og fleiri í forystusveit VG  hafi haft mjög  takmarkaða þekkingu á leikreglum ESB áður en ákvörðun var tekin um að sækja um aðild. Í aðdraganda umsóknar Íslands vísaði forysta VG t.d. ítrekað í aðildarsamning ESB og Noregs frá árinu 1994. Eftir aldamótin 2000 hafði framkvæmdastjórn ESB hins vegar breytt leikreglum, innleitt svonefnt aðlögunarferli, og útdeilir í því skyni umtalsverðum fjármunum í formi IPA-styrkja. Þetta fé er notað í aðdraganda aðildar til að undirbúa lagaumhverfi og stjórnsýslu umsóknarlandsins og til að plægja akurinn að öðru leyti, hérlendis m.a. með rekstri sérstakrar ESB-skrifstofu.  Steingrímur talar um „fjandans“ IPA-styrkina og segir ástæðuna „að þeir voru notaðir í andspyrnunni gegn málinu, algjörlega að ósekju að hans mati.“ (s. 149)
 
Forðaðist að ræða við „þrönga hópa”

Í ráðherratíð sinni síðustu fjögur árin vék Steingrímur sér undan að ræða við þá sem ósáttir voru með umsóknina um ESB-aðild og fleiri stórmál. Þannig forðaðist hann t.d. að ræða við talsmenn þeirra 100 stuðningsmanna VG sem haustið 2010 komu á framfæri áskorun til forystu flokksins um að beita sér gegn aðild að ESB og aðlögunarferlinu. Síðast heyrði ég frá honum í aðdraganda flokksráðsfundar VG í desember 2008.  Hann segist sjálfur hafa sett sér „þá meginreglu sem formaður að funda ekki með þröngum hópum í flokknum.“ (s.198) Það kom fyrir lítið að landsfundur VG samþykkti haustið 2011 sem „eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar“. Hvorki heyrðist hósti né stuna í þessa veru frá Steingrími og hans nánasta samstarfsfólki. Erindum mínum til þingflokksins vegna ESB-umsóknar og fleiri mála, var í engu svarað. Kannski ber að líta á þetta rit Steingríms sem síðbúið svar, en ekki er ég viss um að það bæti orðstír hans sem stjórnmálamanns.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim