Hjörleifur Guttormsson 9. desember 2013

„Evrópusambandið þarfnast  hallarbyltingar“
Útdráttur úr viðtali þýska vikuritsins Die Zeit við Helmut Schmidt og Joschka Fischer

Þýska vikuritið Die Zeit átti nýlega sameiginlegt viðtal við tvo af fyrrum áhrifamönnum í þýskum stjórnmálum, þá Helmut Schmidt (f. 1918) fyrrum kanslara og Joschka Fischer (f. 1948) utanríkisráðherra Þýskalands á árunum 1998-2005 og þá forystumann Græningja. Viðtalið birtist í blaðinu 28. nóvember 2013. Tilefni þess er nýútkomin bók eftir Helmut Schmidt sem ber heitiðMín Evrópa (Mein Europa útg. Hoffman und Campe). Samræðurnar fjölluðu um stöðu Evrópusambandsins og Þýskalands innan þess. Fyrirsögn viðtalsins, sem blaðamaðurinn Matthias Nass ritstýrði, er „Evrópa þarfnast hallarbyltingar!“ (Europa braucht einen Putsch!). Hugtakið Evrópa er í tímaritinu, eins og algengt er í framsetningu manna á meginlandinu, notað sem samheiti fyrir Evrópusambandið, og segir það sína sögu. Báðir hafa þeir Schmidt og Fischer lengi verið eindregnir talsmenn sameiningar ríkja innan Evrópusambandsins.  Það sem vekur ekki síst athygli er hversu svartsýnir þeir eru á framtíð ESB. Þeir sjá ekki fram á að mikið breytist í þeim efnum nema þá að Evrópusambandinu verði steypt í ríkisheild. Eðlilega er hlutur Þýskalands þeim ofarlega í huga. Hér fer á eftir upphaf viðtalsins í lauslegri þýðingu minni.
...............
Helmut Schmidt: Ég verð svartsýnn þegar ég virði fyrir mér núverandi stöðu Evrópusambandsins. Það stendur hvergi í Biblíunni að ESB lifi til loka 21. aldarinnar í núverandi mynd. Það kann að trosna sundur af því að oddvitar ríkisstjórna átta sig alls ekki á stöðunni.

Joschka Fischer: Evrópa er nú í erfiðustu kreppu frá upphafi evrópska sameiningarferlisins, og ég sé hvergi við upphaf 21. aldar hjá pólitískt leiðandi öflum aðildarríkja þess – fremst í flokki Þýskaland og Frakkland – þann huglæga kraft sem þyrfti til að drífa áfram Evrópuhugmyndina eins og sjálfsagt þótti hjá þinni kynslóð, en einnig undir Kohl og Mitterand.

Die Zeit: Er þá um að ræða forystukreppu í Evrópu?

Schmidt: Mér er sama hvað þið viljið kalla það. Sú staðreynd að við höfum ekki einu sinni fyrsta flokks mann í forystu fyrir framkvæmdastjórn ESB í Brussel, segir sína sögu.

Fischer: Ég er þeirrar skoðunar að Þýskaland eigi sinn hlut í þessari þróun, þar eð það hefur gefið um of eftir sitt hefðbundna leiðandi hlutverk í ESB. Þýskaland var á öllum stigum Evrópska samrunans fremst í flokki ásamt með Frakklandi. Að vísu höfum við alltaf haft með í huga hagsmuni okkar sem þjóðar, en við höfum aldrei sýnt stolt þegar heim var komið frá leiðtogafundum í Brussel eða látið þakka okkur fyrir það opinberlega, hversu mikið við tókum með okkur heim þaðan. Við höfum gefið og við höfum þegið, og það skaðaði okkur ekki, heldur þvert á móti. Þetta er einkennileg þversögn. Þýskaland og Frakkland standa þéttar saman en nokkru sinni fyrr, og samt svo fjarlæg hvort öðru. Löndin eiga meira sameiginlegt en áður, einnig á menningarsviðinu. Hvaða þýðingu höfðu franskar kvikmyndir í Þýskalandi áður fyrr! Og einnig bókmenntirnar. Maður hefur samt á tilfinningunni að Rínarfljót hafi breikkað, þótt langtum auðveldara sé nú að komast yfir það. Það er einkennileg tvísögn.

Schmidt. Frú Merkel myndi sennilega  aldrei láta sér detta það í hug, sem var ráðandi hugsun hjá mér, í dag eins og fyrir fjörutíu árum: Ekkert án Frakklands! Það var fyrir mig sjálfsögð grunnhugsun: Ekkert án Frakklands! Þessvegna féllst ég t.d. á ósk Frakka um að taka Grikkland inn í Evrópusambandið. Ég vissi vel að Grikkland var ekki ríki sem hægt væri að sýna sig með Unter den Linden. Ég var sjálfur ekki þeirrar skoðunar að Grikkland væri hæft til upptöku í sameiginlegan markað ESB, en Giscard var sannfærður: „Nú hafa þeir með eigin afli losað sig við hernaðareinræðið, eins og Spánverjar og Portúgalar – og nú verðum við að  styðja við þá með inngöngu.“ Þessi afstaða hans er mér skiljanleg enn í dag.
 
Fischer: Ég held að vendipunkturinn þegar Þýskaland gaf eftir sína hefðbundnu forystu hafi verið þegar Angela Merkel sagði: Í þessari kreppu verður hver og einn að taka til heima fyrir. Það var upphaf endurkomu þessarar óheilla þjóðríkjaráherslu, sem nú er að finna hvarvetna í ESB.

Zeit: „Ekkert án Frakklands“ – undir það myndi þó frú Merkel strax skrifa.

Schmidt: Ekki er ég viss um það. Eitt af knýjandi vandamálunum í Evrópu nú er geysilegt atvinnuleysi meðal ungs fólks; á Spáni eru meira en 50% unga fólksins án vinnu, og það sama á við um Grikkland, og vel að merkja einnig um Kýpur, og á Ítalíu eru það líka að minnsta kosti 35% meðal ungs fólks. Þetta er vandamál dagsins.  Nauðsynlegt er að koma á sameiginlegri evrópskri áætlun til þess að vinna á atvinnuleysi æskufólks. Þetta er tímasprengja, sem enginn veit hvenær getur sprungið, um það er ég því miður sannfærður. Og ég er líka sannfærður um, að menn verða að grípa sameiginlega til einhverra aðgerða. En frú Merkel hefur ekki þá sannfæringu. Hún er þeirrar skoðunar að suðlægu ríkin ættu góðfúslega að koma fótum undir eigin atvinnumál og tryggingakerfi og menntakerfi, hver og einn eftir eigin smekk.

Fischer: Atvinnleysi ungs fólks er sérstaklega dramatískur þáttur hinnar almennu kreppu. Ég sé ekki hvernig ríki í kreppu eigi að brjótast út úr langvarandi lægð eða kreppu án þess að menn t.d. horfist í augu við gamlar skuldir. Nú stöndum við frammi fyrir mótsögninni: Því meira sem Grikkir spara, þeim mun dýpra sökkva þeir í skuldir, því að efnahagslífið dregst saman og skuldirnar fara því hækkandi. Glíman við gömlu skuldirnar eru málefni sem stöðugt er frestað að taka á, af ástæðum sem liggja í augum uppi – það myndi kosta eitthvað. Á sama hátt þyrftum við að líta til nýrra skuldbindinga, sumsé þess sem liggur að baki hugtaksins evruskuldabréf (Eurobonds) eða hvað sem menn vilja kalla króann. Það mun ekki ganga án millifærslu.

Schmidt: Ég er sömu skoðunar.
...........................
Lausleg þýðing Hjörleifs Guttormssonar. Viðtalið í heild má nálgast hér sem HTML skjal eða WORD skjal.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim