Hjörleifur Guttormsson 11. janúar 2013

Flokksforysta á villigötum
Af tilefni greinar ritstjóra Smugunnar.

Ritstjóri Smugunnar, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, skrifaði athyglisverða grein á vefmiðilinn í fyrradag undir fyrirsögninni Olían og samviskan. Það var altént tilraun til að lýsa inn í þá stöðu sem forysta VG hefur komið flokknum í með gjörðum sínum á kjörtímabilinu. Þóra telur réttilega að í þeim efnum séu aðildarumsókn að Evrópusambandinu og úthlutun olíuvinnsluleyfa á Drekasvæðinu afdrifaríkust. „Í þessum tveimur málum kristallast tilvistarvandi VG,“ segir hún. Margt segir hún athyglisvert um þessa vegferð og vanda stjórnmálaflokks í ríkisstjórnarsamstarfi. Á nokkur atriði tel ég rétt að benda þar sem röksemdafærsla og söguskýring haltra í greiningu hennar.

  1. Um ESB-umsóknina segir Þóra: „Ríkisstjórnarsamstarfið hékk á þessari ákvörðun en án hennar hefði VG ekki verið í ríkisstjórn.“ Þetta er ósannað mál. Í raun lét forysta VG, formaður og varaformaður, sem ræddu við forystu Samfylkingarinnar á fyrstu stigum um stjórnarmyndun í maí 2009, ekki á það reyna hvort aðildarumsókn yrði úrslitaatriði um stjórnarmyndun af hálfu Samfylkingar heldur gáfust upp gagnvart slíkri kröfu á fyrstu dögum viðræðna. Að mínu mati var Samfylkingin ekki í stöðu til að gera slíka kröfu að úrslitaatriði um stjórnarmyndun. Uppgjöf forystumanna VG í upphafi viðræðna voru hrapaleg mistök, ef þau á annað borð ætluðu sér að standa við stefnuyfirlýsingar flokksins og þræða bil andstæðra viðhorfa.

 

  1. Um framhaldið segir Þóra: „Vilji flokksmanna miðað við samþykktir, hefur verið að halda þeirri vegferð til streitu [ríkisstjórnarþátttöku? aðildarumsókn?], enda er það þjóðin sem á endanum tekur afstöðu til aðildar eða ekki, þegar hún er búin að fá fullvissu sína um hvað hangir á spýtunni.“ Í þessum orðum endurspeglast sú flóttaleið sem forysta VG hefur boðið flokksmönnum upp á frá fyrsta degi, það er ekki flokkurinn heldur þjóðin sem sker úr um aðild! Því er látið ósvarað, hvernig verður fullgildur aðildarsamningur til og hverjir þurfa að standa að honum til að þjóðin fái að segja sitt? Svarið er að það sé ríkisstjórn og þeir ráðherrar sem í henni sitja, og væntanlega einnig þeir þingflokkar sem tryggja henni meirihluta á Alþingi. Aðildarsamningur að ESB verður ekki til í höndum tilkvaddra „samningamanna“, heldur stig af stigi og að lokum á ábyrgð þeirra ráðherra sem sitja í ríkisstjórn. Feluleikur VG-forystunnar í þessu stórmáli er í senn gagnsær og siðlaus.

 

  1. „Undirbúningur að olíuleit innan íslenskrar lögsögu hefur staðið frá 1998 ... og vart á forræði Steingríms eins og VG að breyta um stefnu“ segir Þóra. Hér er skautað léttilega. Undir „olíuleit“ getur margt falist og það er langt á milli rýni sérfræðinga í aðstæður án borana og pólitískra ákvarðana um úthlutun sérleyfa til olíuvinnslu, jafnvel í allt að þrjá áratugi, eins og hér er á ferðinni. ENGAR upplýsingar voru gefnar af ríkisstjórn eða ráðherrum VG til almennings áður en ákvarðanir voru teknar um úthlutun leyfa til olíuleitar og olíuvinnslu. „Óþarflega pínleg“ kynning atvinnumálaráðherra á ákvörðun sinni 4. jan. 2013 held ég að sé einsdæmi í stjórnmálasögunni þegar um slíkt stórmál er að ræða, að ekki sé minnst á undanbrögð hans í fjölmiðlum. Hvað rak ráðherrann til að stíga þetta skref án minnsta samráðs við flokk sinn?

 

  1. „Það liggur þó fyrir að Grænlendingar munu leita olíu og Færeyingar, vinstri mennirnir í Noregi halda áfram að vinna olíu og færa út kvíarnar eins og ekkert hafi í skorist“ segir Þóra. Hér er í besta falli hálfsannleikur á ferð og óljóst talað. Af því að grannþjóðir hyggja á olíuleit hljóta Íslendingar að keppa að hinu sama! Olíuvinnsla við Austur-Grænland snertir íslenskt umhverfi og almenna stefnu um norðurslóðir. Hver er staða Íslendinga til að verja sína umhverfishagsmuni gagnvart öðrum þjóðum eftir að stefna sjálfir að olíuvinnslu? Hverjir eru „vinstri menn“ í Noregi og þeir sem VG ætti að líta til og ræða við áður en forystan skellir sér út á borpallana? Þóra hlýtur að vita að Sosialistisk venstreparti í Noregi hefur háð harða baráttu innan og utan ríkisstjórnar gegn því að opnuð yrðu ný vinnslusvæði út af vesturströnd Noregs, við Lófót og  í Vesterålen, og tekist það hingað til, auðvitað við óvinsældur margra, að ekki sé talað um Barentshaf.
  1. „Á flokkurinn að reyna fyrir sér sem breiður hópur vinstra fólks og græns, eða á hann að vera smáflokkur sem ekki semur sig frá einu einasta máli ... og standa þá utan ríkisstjórnar“ spyr sig Þóra. Er ekki ráð að spyrja hvernig forystu VG hefur tekist upp í þessum efnum? Hver hefur uppskeran verið af málafylgjunni og samningalipurðinni í þeim tveimur grundvallarmálum sem stefna flokksins hefur hvílt á allt frá stofnun hans? Svari hver fyrir sig. Það er auðvelt að gagnrýna þá sem hafa viljað ganga aðra götu en meirihluti þingflokksins í þessum efnum og saka þá um „skæruhernað innan flokksins sem á vart sinn líka ...“ Stærsta ávirðing flokksforystunnar á kjörtímabilinu er að hafa einangra sig frá félögum í flokknum og snúa baki við þeim mörgu sem lagt hafa annað mat á þá vandasömu vegferð sem staðið hefur yfir í fjögur ár.  

 



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim