Hjörleifur Guttormsson 14. maí 2013

Ávarp
í árbókarhófi Ferðafélags Íslands 2013

Háttvirta samkoma.
Liðin eru um þessar mundir 40 ár frá því ég fór að fást við ritun árbóka fyrir Ferðafélag Íslands. Þær eru nú orðnar sjö talsins og fjalla allar um austurhluta landsins frá Núpsstað í suðri, norður um Vatnajökul og með Jökulsá á Fjöllum til hafs.

Það hafa verið forréttindi að kynnast aðstandendum Ferðafélagsins og árbóka þess á þessu skeiði. Við sögu hafa komið forsetar og framkvæmdastjórar félagsins, en samskipti mín sem höfundar hafa eðlilega verið mest við ritstjóra og ritnefnd hverju sinni, svo og umbrotsmenn, og fyrr á tíð stundum einnig við prentsmiðju.

Ritstjórar árbóka hafa verið fjórir á jafn mörgum áratugum: Páll Jónsson, Þorleifur Jónsson, Hjalti Kristgeirsson og við gerð síðust tveggja árbókanna Jón Viðar Sigurðsson. Við alla þessa hef ég átt gott og eftirminnilegt samstarf, og sem höfundur auðvitað oft reynt á þolrif þeirra. Alltaf hefur þó tekist að ljúka verki á umsömdum tíma.

Svo mikil sem er ábyrgð og vinna ritstjóra að slíku verki, koma fleiri við sögu, bæði ritnefnd árbókanna og skrifstofa félagsins með vinnufúsum höndum starfsmanna og sjálfboðaliða við dreifingu ritsins hverju sinni. Ég hlýt að undrast  þolgæði og úthald tilkvaddra fulltrúa í ritnefnd árbókanna á liðinni tíð, fólks sem um áratugi hefur lagt á sig sjálfboðavinnu við yfirlestur handrita og komið á framfæri leiðréttingum og tillögum um breytingar. Ég má til með að nefna, að við gerð árbókar 1993 sem bar heitið Við rætur Vatnajökuls voru komin í ritnefndina þrjú hin sömu og skipa hana í dag, þau Guðrún Kvaran, Eiríkur Þormóðsson og Árni Björnsson, og með þeim reyndar einnig núverandi ritstjóri. Ég vil hvetja til þess að mikilsverðri reynslu þessa hóps verði haldið sem best til haga við framhald útgáfuverka á vegum félagsins.

Þessi nýja árbók um Norðausturland hefur nokkra sérstöðu í hópi þeirra árbóka sem ég hef  nærri komið. Fyrir nær hálfri öld var skrifað um þetta svæði í tveimur árbókum, Gísli Guðmundsson 1965 um Norður-Þingeyjarsýslu og Langanesströnd og Halldór Stefánsson 1968 um Vopnafjörð. Nú eru þessu sama svæði gerð skil í einu riti og ber ég nokkra ábyrgð á að sú varð niðurstaðan. Rökin fyrir því tel ég næsta augljós miðað við þróun samgangna og breytt samskipti viðkomandi byggðarlaga á síðustu áratugum. Fyrir ferðamenn er það sérstök ákvörðun hvort þeir velja að víkja út af hringvegi norður til Húsavíkur eða til Vopnafjarðar og þræða slaufuna með ströndinni þar á milli. Víðlendar afréttir byggðarlaganna átta, sem hér er lýst, liggja líka saman og bjóða upp á ferðalög, ekki síst göngu- og hestaferðir, þvert á markalínur. Það er ótvíræður kostur að geta fjallað um slíkt svæði í einu riti. Stærð þessa landsvæðis kemur aðkomumönnum á óvart, en það tekur yfir ekki minna en 7% af flatarmáli Íslands. Það reyndi því á þanþol ritstjórnar að koma efninu fyrir í einni bók, sem reyndar varð sú lengsta í blaðsíðum talið sem ég hef sett saman.

Hugtakið Norðausturland er ekki skýrt afmarkað landfræðilega frá Austurlandi og Norðurlandi. Horft frá Fljótsdalshéraði er svæðið „norðan Smjörvatnsheiðar“ hluti Norðausturlands og í mínum huga er eðlilegt að draga mörkin til vesturs um Jökulsá á Fjöllum. Kynni mín af þessum landshluta hófust um 1950, tengd ferðum frá Héraði í og úr skóla á Akureyri. Ferðamátinn voru rútur norður um Fjöll, um Grímsstaði til Mývatns, eða þá sigling með strandferðaskipum í 2-3 sólahringa. Einnig komu til um sama leyti Catalína-flugbátar sem tóku sig upp upp af Lagarfljóti og lentu á Pollinum við Akureyri. Alllöngu síðar tóku ég til við að kanna byggðir og hálendi eystra, í fyrsta leiðangurinn um norðausturland fór ég sumarið 1968 eftir eftirminnilegt hafísvor. Seinna fylgdu á eftir tíðar ferðir mínar sem þingmanns um þessar slóðir, þ.e. Vopnafjörð og Bakkafjörð. – Skipuleg vinna við aðföng þessarar bókar hófst fyrir 4 árum, þ.e. sumarið 2009. Auk áðurnefndra forráðamanna Ferðafélagsins tengdust verkinu margir heimamenn á svæðinu, eins og vísað er til í eftirmála árbókarinnar. Það er ómetanlegt fyrir höfund að hafa aðgang að slíku úrvalsliði til viðbótar við vökul augu ritstjórnar.

Staðfræðikortin mörgu í þessari árbók hefur Guðmundur Ó Ingvarsson teiknað, en við höfum nú kastað slíku efni á milli okkar í röskan aldarfjórðung, meðal annars og ekki síst vegna ákvörðunar um örnefni. Eins og í fyrri bókum er hér að finna aðrar áherslur og um sumt nýmæli um nafnsetningu sem ekki hefur áður komist inn á hliðstæða uppdrætti og landabréf. Við þetta bætast síðan jarðfræðiupplýsingar og fornleifakort sem draga fram nýja og gamla vitneskju.

Myndefni hefur í vaxandi mæli orðið hluti árbóka Ferðafélagsins og reynir það á ritstjórn, umbrotsmann og myndrýni meira en fyrr. Eins og mörg undanfarin ár hefur verið ómetanlegt að hafa fagmann í slíkri vinnu þar sem er Daníel Bergmann. Hann sameinar í senn reynslu af náttúruskoðun og kunnáttu sem ljósmyndari. – Svipuðu máli gegnir um prófarkalesara og reyndan bókagerðarmann þar sem er Helgi Magnússon, en hlutur hans er meiri við vinnslu og frágang árbókanna en óinnvígðir geta áttað sig á.

Norðausturland er sá hluti lands okkar sem fjærst liggur aðalþéttbýli og miðstöðvum stjórnsýslu á Íslandi. Lengst af eða fram á bílaöld voru 18-19 dagleiðir fyrir ríðandi frá Vopnafirði eða Sauðanesi suður til Alþingis og Bessastaða. Enn í dag liggur Norðausturland fjær ferðamennsku og heimsóknum  héðan af höfuðborgarsvæðinu en aðrir landshlutar. Í samhengi ferðamála, hvort sem um er að ræða tómstundir eða atvinnurekstur, er þetta landshorn nánast sem ónumið. Þeim aðstæðum tengjast bæði hættur og tækifæri, allt eftir því hvernig á er haldið. Með útgáfu þessarar árbókar leggur Ferðafélag Íslands til ákveðinn grunn upplýsinga um náttúru og sögu þessara um margt sérstæðu og heillandi byggðarlaga, átta talsins. Hvernig til hefur tekist verða lesendur að dæma.

Ég þakka fyrir þann trúnað sem mér hefur verið sýndur með aðkomu að þessu verki og Ferðafélaginu þakka ég samstarfið á langri vegferð.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim