Hjörleifur Guttormsson 15. apríl 2013

Banamein stjórnar VG og Samfylkingar var umsóknin um ESB-aðild

Fylgi stjórnarflokkanna, VG og Samfylkingar, er nú hálfum mánuði fyrir kosningar í sögulegu lágmarki, samanlagt innan við 20%. Talsmenn þeirra telja sér nú helst til tekna að hafa í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins haldið úti „vinstristjórn“ í heilt kjörtímabil. Það hefur verið dýrkeypt úthald fyrir flokka sem hófu samstarf vorið 2009 með hreinan meirihluta á Alþingi á bak við sig. Í bráð mun reynast erfitt að byggja á ný upp traust á vinstristefnu sem fái risið undir nafni, enda margt í þeim farangri orðið harla merkingarlítið.

Hvað var það sem brást?

Það verður viðfangsefni, óháð úrslitum kosninganna, að greina ástæður þess að stjórnarflokkunum fataðist svo flugið sem raun ber vitni. Sumt liggur í augum uppi fyrir þá sem til þekkja en annað á eftir að skýrast er frá líður. Enginn getur neitað því að stjórnin tók við erfiðu búi, og meginviðfangsefnið hlaut að verða að glíma við afleiðingar hrunsins. Í þeim efnum geta stjórnarflokkarnir með réttu bent á jákvæðan árangur, en málstök þeirra voru hins vegar ekki eins frumleg og þeir vilja vera láta og í veigamiklum atriðum ákveðin af ríkisstjórninni sem féll í umróti búsáhaldabyltingar. Glíman við efnahagsvanda og niðurskurð á mörgum sviðum hlaut að verða meginviðfangsefni stjórnvalda, sérstaklega á fyrrihluta kjörtímabilsins. En stjórnin ætlaði sér frá upphafi aðra og stærri hluti samkvæmt samstarfssamningi, og þar bar hæst heildarendurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins og umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Bæði málin reyndust stjórninni ofvaxin, aðferðafræðin við endurskoðun stjórnarskráinnar meingölluð frá upphafi og ESB-umsóknin það innanmein sem sýrði samstarf flokkanna og tvístraði röðum VG þannig að stjórnin missti í reynd þingmeirihluta áður lauk.

ESB-umsóknin baneitrað veganesti

Undanhald VG-forystunnar gagnvart kröfu Samfylkingarinnar um að sótt yrði um aðild að ESB hófst fyrir árslok 2008 á meðan stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var enn við völd. Á flokksstjórnarfundi í byrjun desember 2008 var byrjað að gefa eftir frá áður markaðri stefnu og sama sagan endurtók sig á landsfundi VG í mars 2009. Um þetta voru þau samstiga Steingrímur J., Katrín Jakobsdóttir og Ögmundur Jónasson, en sá síðastnefndi viðurkenndi er frá leið að umsóknin hafi verið mistök. Ekkert þessara forystumanna virtist þá hafa áttað sig á gerbreyttu umsóknarferli ESB-megin frá því sem var þegar norska ríkisstjórnin gerði samning við ESB  og sem felldur var í þjóðaratkvæðagreiðslu 1994. Innan VG var mikil andstaða gegn tvískinnungi forustunnar veturinn 2008–2009.  Leiddi það til þess að Steingrímur J sem formaður aftók degi fyrir kosningar vorið 2009 í beinni útsendingu að VG tæki í mál að sækja um aðild. Það tók hann og Katrínu varaformann síðan aðeins nokkra daga að venda kvæði í kross í stjórnarmyndunarviðræðum við Samfylkinguna og með því fór trúverðugleiki flokksins út í veður og vind.

ESB-aðild eða sjálfstætt þjóðríki

Það vefst fyrir mörgum að átta sig á að valið á milli ESB-aðildar og Íslands sem sjálfstæðs þjóðríkis er grundvallarmál sem snertir öll svið þjóðmála og felur í sér ósættanlegar andstæður til lengri tíma litið. Flokkar með andstæð viðhorf að þessu leyti eiga samkvæmt eðli máls fá sameiginleg markmið og merkimiðinn „vinstri-flokkar“ er gerviplástur sem ekki getur bundið slíka flokka saman sem marktækt stjórnmálaafl. Með því að gefast upp fyrir Samfylkingunni og sækja um aðild að ESB var Vinstrihreyfingin grænt framboð að bregðast stefnu sinni og segja sig hugmyndalega til sveitar. Uppgjöf ráðandi forystu VG var síðan innsigluð með kjörorðinu um að „þjóðin fengi að ráða“, flokkurinn þyrfti þar hvergi nærri að koma sem þáttakandi í ríkisstjórn!

VG-forystunni í engu treystandi

Í samþykkt landsfundar VG þann 24. febrúar 2013 segir að flokkurinn „vill ljúka aðildarviðræðum við ESB og setja ferlinu tímamörk  ... Þjóðin kjósi síðan um niðurstöður aðildarviðræðnanna.“  Hér er enn og aftur reynt að halda að almenningi þeirri blekkingu, að „aðildarviðræður“ séu verkefni valinna einstaklinga í viðræðunefnd og leiði af sér „niðurstöður“ sem VG eða þeir sem við taka eftir kosningar beri enga pólitíska ábyrgð á. Aðildarsamningur við ESB verður auðvitað ekki til í pólitísku tómarúmi. Án bindandi samnings af hálfu stjórnvalda er ekkert efni til þjóðaratkvæðagreiðslu um „niðurstöður“.  Dýrkeypt reynsla hefur sýnt að VG er á engan hátt treystandi sem andstöðuafli þegar átökin um framhald aðildarviðræðna við ESB verða til lykta leidd að loknum kosningum. Flótti Steingríms J. úr formannssæti breytir þar engu um, því að áhöfnin er óbreytt og var samábyrg fyrir undanhaldinu allt kjörtímabilið.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim