Hjörleifur Guttormsson 15. ágúst 2013

Evrópulest að nálgast leiðarenda

Þegar Alþingi samþykkti naumlega 16. júlí 2009 að Ísland skyldi sækja um aðild að Evrópusambandinu var byggt á vikugömlu áliti meirihluta utanríkismálanefndar. Það álit var kynleg samsuða, einkum til þess gerð að draga úr andstöðu þingmanna VG við aðildarumsóknina og tryggja henni meirihlutastuðning. Þessa dagana snýst umræða um stöðu aðildarviðræðna aðallega um svonefnda IPA-styrki (Instrument for Pre-Accession Assistance) frá ESB. Nú þegar hlé hefur verið gert á viðræðum liggur fyrir að Ísland verði af því gulli, hvað þá ef þeim verður formlega hætt. Rétt er að rifja upp að slíkar fjárveitingar frá ESB voru ekki á dagskrá þegar Alþingi tók afstöðu til umsóknar 2009, a.m.k. var vandlega um þær þagað í áliti meirihluta utanríkismálanefndar. Í VIII. kafla nefndarálitsins, þar sem fjallað er um þjóðhagsleg áhrif aðildar og kostnað við aðildarumsókn, er hvergi vikið að slíkum „styrkjum“ frá ESB né heldur aðlögun að regluverki Evrópusambandsins á  meðan aðildarviðræður standa yfir. Í nefndarálitinu er einnig lítið gert úr kostnaði ráðuneyta og stjórnsýslu vegna fyrirhugaðra aðildarviðræðna og staðhæft að „skýr krafa er um að mæta nýjum verkefnum með hagræðingu.“  Umsóknin um ESB-aðild var þannig knúin í gegn á Alþingi á fölskum forsendum, sem sést best á því að ítrekað var vísað til tveggja áratuga gamals umsóknarferlis Norðmanna, þar sem allt aðrar leikreglur voru í gildi en þær sem teknar voru upp af hálfu ESB fyrir um áratug síðan. Norska ferlinu lyktaði með formlegum samningi  ESB og norskra stjórnvalda en sem felldur var í þjóðaratkvæðagreiðslu 1994.

Fjáraustur ESB opinberaður 2010

Vorið 2010, rösku ári eftir samþykkt Alþingis, kynnti Össur utanríkisráðherra Alþingi væntanlega „aðlögunaraðstoð“ ESB og nánar var henni lýst í minnisblaði handa utanríkismálanefnd 25. ágúst 2010 „um stuðningsaðgerðir Evrópusambandsins við Ísland í umsóknarferlinu.“ Þar segir m.a.: „Þau ríki sem urðu aðilar að ESB á árunum 2004 og 2007 nutu öll sérfræðiráðgjafar og fjárhagsstyrkja, en ríkin sem gengu til liðs við ESB þar á undan nutu ekki skipulegrar eða umfangsmikillar fjárhagsaðstoðar.“ Ísland var að tillögu framkvæmdastjórnar ESB tekið formlega inn í þennan styrkþegahóp 14. júlí 2010. Þar var gert ráð fyrir að verja í þessu skyni a.m.k. 28 milljónum evra eða nálægt 4500 milljónum ísl. kr. Með þessu var afhjúpuð sú blekking sem íslensk stjórnvöld höfðu haldið að almenningi, að hér væru á ferðinni samningaviðræður eða áþreifingar, án breytinga á íslenskri stjórnsýslu. Samt var reynt í lengstu lög af talsmönnum fyrrverandi ríkisstjórnar, ekki síst af forystu VG, að afneita aðlögunarferlinu sem síðan hefur verið á fullri ferð sem hluti af undirbúningi fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.  Pólitískar afleiðingar þessarar leikfléttu birtust m.a. í hörðum átökum innan VG, þar sem Jóni Bjarnasyni var vísað á dyr sem ráðherra.

Illur fengur illa forgengur

IPA-milljarðafúlgunum var vísað til ráðuneyta og ýmissa annarra aðila sem setja skyldu fram óskir um ráðstöfun þeirra. Jafnframt var gert ráð fyrir allt að 10–15% mótframlagi af Íslands hálfu. Þess utan ákvað ESB að ráðstafa 700 þúsund evrum „til upplýsingamála“, ekki síst til reksturs upplýsingaskrifstofu sinnar hérlendis. Þegar hér var komið sögu hefði verið eðlilegt að fram færi endurmat á ákvörðun Alþingis um að sækja um aðild að ESB. Ekkert slíkt hvarflaði að forystu Samfylkingar og VG. Fyrst í stað var þrætt fyrir eðli og inntak IPA-styrkjanna, en að því kom að þeir voru settir á fjárlög og byggðir inn í verkefni ráðuneyta og annarra sem fengu mola af þessu veisluborði frá Brussel. Áður en til IPA-styrkjanna kom var orðið lágt risið á VG-forystunni, sem við stjórnarmyndunina 2009 hafði gengið þvert gegn yfirlýstri stefnu, en siðferðilegt gjaldþrot hennar blasti nú við öllum. Reynt var að réttlæta viðsnúninginn með því að þjóðin fengi að ráða að lokum, en jafnframt þagað þunnu hljóði um forsenduna, þ.e. að VG yrði að vera reiðubúið að gerast ábekingur á aðildarsamningi.

Dýrkeyptum leiðangri að ljúka

Leiðangurinn sem efnt var til með aðildarumsókn að ESB fyrir fjórum árum er að nálgast endastöð. Þar blasir við stöðvunarskilti, borið uppi af þeim meirihluta Íslendinga sem þrátt fyrir gylliloforð og fjáraustur á bæði borð hefur í margendurteknum skoðanakönnunum lýst sig andvígan aðild að ESB. Núverandi ríkisstjórn gerir rétt í að stöðva það ólánsferli sem staðið hefur yfir í fjögur ár og sem frá upphafi hefur verið rekið á fölskum forsendum, þ.e. að vilji Íslendinga stæði til aðildar að ESB. Þess í stað þarf að rækta góð samskipti Íslands við ESB og aðildarríki þess og taka fljótlega EES-samninginn til löngu  tímabærrar endurskoðunar. VG sem til þessa hefur í orði lýst sig andvígt aðild að Evrópusambandinu á enn þann kost að losa sig úr faðmlagi Samfylkingarinnar. En þá þarf VG líka að kasta fyrir róða leiðarvísinum frá síðasta landsfundi, sem segir að sem fyrst beri að semja um aðild. Fyrir stjórnmálahreyfingu er erfitt að glíma lengi við geðrof, sem ekki getur endað nema með ósköpum.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim