Hjörleifur Guttormsson 16. mars 2013

Kárahnjúkavirkjun og eyðileggingin á Lagarfljóti

Þær fregnir sem nú berast um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á lífríki Lagarfljóts og landbrot fram með fljótinu staðfesta það sem gagnrýnendur virkjunarinnar vöruð sterklega við í aðdraganda framkvæmda. Er þar þó aðeins um lítið brot að ræða af þeim náttúruspjöllum sem virkjunin í heild hefur í för með sér. Álver Alcoa á Reyðarfirði er önnur hlið á sama teningi og hvað áhrif þess snertir, umhverfisleg og samfélagsleg, gildir það sama að þau eru aðeins að hluta til komin fram, m.a. áhrif langtíma mengunar á fólk og umhverfi í Reyðarfirði. Ég fjallaði um þessar stóriðjuframkæmdir í fjölda greina á öllum stigum undirbúnings. Það sem tilfært er orðrétt hér á eftir er tekið úr formlegum athugasemdum mínum 14. júní 2001 til Skipulagsstofnunar vegna matsskýrslu Landsvirkjunar um Kárahnjúkavirkjun.

Gífurleg óafturkræf umhverfisspjöll

Í upphafi athugasemda minna sagði eftirfarandi:
„Eins og matsskýrsla Landsvirkjunar ber með sér hlytust af byggingu Kárahnjúkavirkjunar gífurleg umhverfisspjöll, margfalt meiri en af nokkurri framkvæmd sem til álita hefur komið að ráðast í hérlendis fram til þessa. Virkjunarhugmyndin er tröllaukin jafnt á íslenskan sem alþjóðlegan mælikvarða og myndi hafa stórfelld neikvæð áhrif  á Fljótsdalshérað og hálendið inn af því allt til Vatnajökuls. Fyrirhugað er að safna nær öllu vatni sem til næst á hálendinu ofan við ca. 550 m hæðarlínu á 50 km belti austur-vestur, frá vatnaskilum Sauðár og Kverkár í vestri austur á Hraun, í ein jarðgöng og leiða að stöðvarhúsi, þaðan sem vatnið bærist í Lagarfljót. Veita á saman tveimur stórum jökulfljótum, og veldur það eitt út af fyrir sig margháttuðum vandamálum frá efstu mörkum framkvæmda allt til ósa, meðal annars hættu og víðtækri röskun af völdum flóða og grunnvatnsbreytinga. ... Þá yrðu áhrif á vatnalíf  á svæðinu mikil og tilfinnanleg en verndargildi þess er vanmetið í matsskýrslu. Varðar það bæði stöðuvötn, dragár og og jökulár þar á meðal Lagarfljót sem yrði mun lífminna og korgugra og litur þess breyttist.

Vatnalíf og vatnaflutningar

„Ítarleg skýrsla [S35: Vatnalífríki á virkjanaslóð]  er eitt af bakgögnum matsskýrslu og af lestri hennar verða fyrst ljós þau víðtæku neikvæðu áhrif sem virkjunin myndi hafa á vatnalífríki og nytjar af því, bæði fyrir dýrastofna og veiði. Þar sem rannsóknir að baki skýrslunni byggja flestar á punktmælingum eins sumars eru þær eðlilega takmarkaðar og mikið vantar á að vistfræðileg heildarmynd af fyrirhugaðri röskun vegna virkjunarinnar liggi fyrir. ... Mikil miðlunarlón ásamt flutningi Jökulsár á Dal yfir í Lagarfljót og flutningi meirihluta vatnsins úr Kelduá yfir í Jökulsá í Fljótsdal gerir þessa virkjunarhugmynd einstæða í neikvæðum skilningi og varhugaverðari en áður hefur komið til umræðu hérlendis. Að því er varðar bæði stórfljótin, Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal, sem og fyrir Kelduá, eru ráðgerðir vatnaflutningar mjög neikvæðir, bæði að því er lífríki og áhrif á útlit varðar. Ekki síst á þetta við um Lagarfljót. Slíkum vatnaflutningum ætti skilyrðislaust að hafna hérlendis, en með byggingu Kárahnjúkavirkjunar væri fordæmi gefið sem ekki sæi fyrir endann á. ...
Ekki virðist litið á stærð Lagarfljóts í þessu samhengi og þann mikla lífmassa sem það hefur að geyma í heild, þar á meðal í laxfiskum. Veiði hefur um aldir verið talin til hlunninda á mörgum bæjum við fljótið en ekki er að sjá neina umfjöllun um það í matsskýrslu.“

Áhrifin á Lagarfljót og umhverfi

Í umsögn minni 2001 vitnaði ég til ýmissa þátta í matsskýrslu Landsvirkjunar m.a. eftirfarandi um verndargildi fljótsins :  “Verndargildi Lagarfljóts er á heildina litið í meðallagi og er hærra en ella vegna þess að í því finnast allar þrjár íslensku laxfiskategundirnar, bleikja urriði og lax, auk hornsílis.“ Um þetta sagði ég orðrétt:
„Þessu mati, “í meðallagi”, er undirritaður ósammála og telur að verndargildi Lagarfljóts eigi að teljast hátt. Enginn hefur rétt til að breyta umhverfi Lagarfljóts eins og yrði með umræddri veitu frá Jökulsá á Dal. Með tilkomu hennar væri með einu pennastriki gjörbreytt náttúrulegu eðli vatnsfalls sem um árþúsundir hefur runnið um Fljótsdalshérað, verið tilefni nafngiftar þess og daglegur, órofa þáttur í lífi kynslóðanna sem búið hafa á bökkum þess. Þessu fljóti má af menningarlegum og siðferðilegum ástæðum ekki gjörbreyta eins og hér er að stefnt. Það verður að teljast alltof þröngt sjónarhorn í mati á verndargildi að líta aðeins á vistfræðiþáttinn eða fjölda fiskistofna í fljótinu. Menningarþátturinn og sagnhelgi eiga að vega hér þungt en slíka nálgun er ekki að finna í matsskýrslu og einnig það er augljós vöntun.“
Þetta er örlítið brot af aðvörunarorðum sem ég viðhafði áður en Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra lét undan pólitískum þrýstingi og sneri við niðurstöðu Skipulagsstofnunar.
Ófarnaðurinn sem nú blasir við er dýrkeyptur og verður seint bættur, en það minnsta sem hægt er að gera er að læra af reynslunni þegar aðrar slíkar stórframkvæmdir koma til umræðu.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim