Hjörleifur Guttormsson 18. janúar 2013

Rammaáætlun – Áfangi á langri leið

Samþykkt Alþingis 14. janúar sl. á þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða,  svonefnd Rammaáætlun, telst til tíðinda, bæði í þingsögunni og í vinnu að náttúruvernd og skipulagi hérlendis. Samþykktin byggir á stefnumarkandi ferli sem staðfest var með lögum sem samþykkt voru samhljóða vorið 2011. Þótt ekki hafi ríkt jafn mikil eindrægni um þingsályktunina fékk hún þó meiri stuðning en búist var við fyrirfram, 36 þingmenn greiddu atkvæði með en 21 á móti. Ég hygg að sjaldan eða aldrei hafi jafn margir innan og utan Alþingis komið að undirbúningi máls og látið sig það varða á mótunarstigi þann röska áratug sem Rammaáætlun hefur verið í mótun. Þessi áhugi fer saman við aukin kynni fólks af landinu, einkum óbyggðunum, og vaxandi skilning á gildi náttúruverndar.
 
Sögulegt baksvið

Rætur Rammaáætlunar liggja rösk 40 ár til baka og eru í senn rammíslenskar og alþjóðlegar. Deila mývetnskra bænda við stjórn Laxárvirkjunar um vatnsmiðlun í Mývatni og sprenging Miðkvíslarstíflu í ágúst 1970 féllu saman við náttúruverndarár Evrópu og setningu nýrrar löggjafar um náttúruvernd. Náttúruverndarráð undir formennsku Eysteins Jónssonar 1972–1978 tók strax upp viðræður við yfirvöld orkumála og næstu áratugina starfaði Samstarfsnefnd iðnaðarráðuneytisins og Náttúruverndarráðs um orkumál (SINO-nefndin). Ráðið sendi árið 1975 tvo fulltrúa, undirritaðan og Vilhjálm Lúðvíksson, til Noregs til að kynna sér samspil náttúruverndar- og iðnaðarstefnu þarlendis. Norðmenn höfðu þá nýlega komið á fót umhverfisráðuneyti og fyrir forgöngu þess og Stórþingsins varð til fyrsta „Verneplan for vassdrag“ þarlendis sem síðan hefur verið þróað í áföngum. Á Alþingi veturinn 1984–1985 flutti ég tillögu um úrbætur í umhverfismálum og náttúruvernd þar sem sagði m.a.: „Náttúruverndarráð undirbúi í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Slík áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar og staðfestingar.“ Endurflutt tillaga um sama efni var samþykkt sem ályktun Alþingis vorið 1989. Það tók framkvæmdavandið hins vegar áratug að hefjast handa á grundvelli hennar og veita fé til vinnu að verkefninu sem fékk nafnið Rammaáætlun.

Margslungið ferli

Vinnan að Rammaáætlun hefur þróast og tekið breytingum stig af stigi frá því fyrsta verkefnisstjórnin hóf störf um síðustu aldamót. Framan af var áherslan nær eingöngu á vatnsföll en vinna að mati á jarðvarmasvæðum hófst fyrst að marki árið 2005. Jafnframt færðust áherslur stjórnar og faghópa yfir á að meta verndargildi svæða án orkunýtingar. Í tengslum við starfið kom æ betur í ljós þörfin á meiri upplýsingum um náttúrufar, jafnframt því að nýir matsþættir eins og landslag bættust við og kölluðu á breytta aðferðafræði og nýjar áherslur. Gagnrýni ýmissa alþingismanna að undanförnu, einkum í stjórnarandstöðu, um að í meðförum ráðuneyta og meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis hafi verið horfið frá „vísindalegum niðurstöðum“ verkefnisstjórnar og faghópa, er að mínu mati á misskilningi byggð. Hér er um flókið og gagnvirkt ferli að ræða, þar sem saman tvinnast náttúrufræðilegir og samfélagslegir þættir sem og siðfræðileg álitamál. Í þeim efnum er ekki komið á neina endastöð, en mikilvæg leiðsögn um verkferlið felst í lögum nr. 48/2011.

Jarðvarminn í óvissu

Það hefur smám saman komið í ljós hve mikið skortir á fullnægjandi aðferðafræði í mati á jarðvarma háhitasvæða landsins, ekki síst til raforkuframleiðslu. Varðar það m.a. spurningar um sjálfbæra notkun slíkra svæða, svo og mengun og meðferð affallsvatns. Veigamesta gagnrýnin á lokatillögur um flokkun orkukosta snertir þá málsmeðferð að setja jarðhitasvæði eins og Bjarnarflag og háhitasvæði Reykjanesskaga frá Krýsuvík út á Reykjanestá í orkunýtingarflokk í stað þess að þau ættu flest heima í verndar- eða biðflokki. Slík stefna getur að mínu mati ekki staðist til frambúðar. Hvað jarðhitann snertir bíður því stórt viðfangsefni næstu verkefnisstjórnar. Annar þáttur sem að mestu hefur legið utan við verksvið Rammaáætlunar hingað til eru flutningslínur raforku sem þó hafa síst minni umhverfisáhrif en einstakar virkjanir. Brýnt er því að orkuflutningur verði metinn jafnhliða hugmyndum um verndun og röðun virkjanakosta. Jafnhliða þarf að verða til vitræn orkustefna, þar sem leitast er við að skilgreina takmörk vinnslu og ná víðtækri sátt um sem flesta þætti.

Margir lagt hönd á plóg

Í vinnu að mati á vernd og orkunýtingu hafa fjölmargir komið síðustu áratugi. Þar hafa tekist á miklir hagsmunir, ólík sjónarmið og oft heitar tilfinningar. Verndarhugsunin hefur upp á síðkastið verið í sókn og áhugamenn um virkjanir og orkufrekan iðnað þurft að draga í land. Slíkt er heilbrigt og endurspeglar styrk í lýðræðislegu ferli. Við Íslendingar búum vel að endurnýjanlegum en takmörkuðum orkulindum. Það sama á við um landið sjálft, víðerni þess og töfra.  Um leið og við fögnum góðum áfanga skulum við strengja þess heit að gera enn betur næst.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim