Hjörleifur Guttormsson 18. júlí 2013

Alaskalúpína að leggja undir sig landið

Það dylst fáum sem ferðast um landið þessa sumardaga hvílík stökkbreyting hefur á fáum árum orðið í útbreiðslu alaskalúpínu. Þessi ágenga tegund hefur þegar lagt undir sig stór landsvæði, ekki aðeins örfoka eða lítt gróið land heldur einnig mólendi og lyngbrekkur, andstætt því sem lengi vel var fullyrt af þeim sem réttlættu dreifingu lúpínunnar. Augu almennings fyrir þessari vá og af völdum fleiri ágengra innfluttra tegunda eins og skógarkerfils eru að opnast og stofnanir eins og Landgræðsla ríkisins viðurkenna nú þá miklu hættu sem við blasir í gróðurríki landsins af þessum sökum. Ég hef áður haldið því fram að hér sé á ferðinni alvarlegasta ógn sem steðjar að gróðurríki Íslands þar sem lúpína muni að óbreyttu leggja undir sig mikinn hluta landsins fyrir lok þessarar aldar.

Gjörbreytir eðli og ásýnd landsins

Í bæklingi sem Stýrihópur um alaskalúpínu og skógarkerfil gaf nýlega út og Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðsla ríkisins eiga hlutdeild að, er bent á að breytingar á grónu landi af völdum þessara ágengu tegunda verði m.a. að fjölbreytni minnki, lyngtegundir hverfi og berjalönd rýrni að sama skapi. Vistkerfin breytist til frambúðar og þar sem hér er um að ræða hávaxnar og stórgerðar plöntur verður land erfitt yfirferðar og upp safnast mikill eldfimur lífmassi. Því sé um verulega aukna eldhættu að ræða í og við lúpínubreiður. Jafnframt breytist ásýnd landsins, jarðfræðifyrirbæri svo sem jökulminjar og klettar hverfa og það innlenda blómskrúð sem gleður augu ferðamannsins allt frá vegköntum til víðerna. Sláandi er að sjá hvernig lúpína er þessi árin að koma sér fyrir í klettabeltum suður af Hofi í Öræfum þangað sem hún hefur borist út frá landgræðslusvæðum í landi Hofsness og Fagurhólsmýrar. Fyrir var þarna m.a. fágætur vaxtarstaður munkahettu. Fræ lúpínunnar dreifast um langa vegu með vindi og vatni. Í Skriðdal eystra blasir við hvernig lúpína berst frá skógræktarsvæði í meginár dalsins og leggur undir sig bakka þeirra og eyrar á leið til Lagarfljóts. Þéttbýlisstaðir Austfjarða eru nú flestir að lenda í gíslingu þessarar öflugu tegundar svipað og lengi hefur blasað við á Húsavík.
 
Sótt að Grenivík og nágrenni

Fyrir skemmstu var greint frá áhyggjum sveitarstjórnar í Grýtubakkahreppi og fólks á Grenivík vegna ágengni lúpínu, m.a. í Þengilhöfða sunnan þorpsins þangað sem margir leggja leið sína. Í kynningu á höfðanum stendur: „Þegar líður á sumarið er hægt að gleyma sér við bláber og krækiber á leiðinni.“ Í nýlegu blaðaviðtali segir Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri (Fréttablaðið 28. júní sl.): „Það eru fimmtán til tuttugu ár síðan við ösnuðumst með dúsk af lúpínu þarna upp eftir, sem við áttum aldrei að hafa gert. Við erum að spá í hvort það eigi að útrýma lúpínunni eða ekki. … Ef það verður ákveðið þá tekur það tuttugu ár og við þurfum að leggja töluverða peninga í það. … Annað hvort byrjum við á næsta ári eða við hugsum ekki um þetta, því það verður alltaf erfiðara og erfiðara að útrýma lúpínunni eftir því sem hún breiðist út. Hún stoppar ekki.“ – Þeir eru margir sem standa í svipuðum sporum og fólk á Grenivík. Á vegum sveitarstjórnasambandsins Eyþings er nú starfandi sérstök nefnd sem fjallar um ágengar tegundir og  hefur sent frá sér athyglisverða skýrslu.

Reykjadalur og skógarkerfill

Í liðinni viku ók ég fram hjá Laugum í Reykjadal. Mér hnykkti við að líta heim á þetta menntasetur og sjá hvernig skógarkerfill er að leggja umhverfi þess undir sig. Eyfirðingar hafa undanfarið verið í fararbroddi í baráttu við þennan vágest, sem þekur tugi hektara lands í Eyjafirði og sækir víða á, þrátt fyrir mótaðgerðir. Athyglisvert er að lesa greinargerð frá nemendum 10. bekkjar skólans á Litlu-Laugum um þennan vágest. Þeir taka undir með Bjarna E. Guðleifssyni náttúrufræðingi um að skógarkerfill sé víða orðinn plága og fólk þurfi að vera sér vel meðvitað um þetta vandamál. Kerfillinn var upphaflega fluttur í Lauga sem kryddjurt fyrir Húsmæðraskólann. Lokaorð ungmennanna eru: „Ef ekkert verður gert í þessum málum verður Reykjadalur fullur af kerfli eftir einhver ár“ (www.litlulaugaskóli.is).

Allir þurfa að leggjast á eitt

Það er góðs viti að almenningur, ungir sem aldnir, er að átta sig á þeirri alvarlegu vá sem tengist ágengum framandi tegundum. Hér er um vel þekkt alþjóðlegt vandamál að ræða sem víða er glímt við en birtist okkur Íslendingum af meiri þunga en annars staðar vegna þeirrar miklu röskunar sem íslenskt gróðurríki hefur orðið fyrir af völdum ofbeitar um aldir. Við erum því berskjaldaðri en nágrannalönd okkar fyrir áhrifum innfluttra ágengra tegunda. Þeim mun ríkari þörf er á að sýna varúð við innflutning og dreifingu plantna sem geta hegðað sér á óvæntan hátt í íslensku umhverfi. Til þess eru vítin að varast og ekkert annað en samræmt og markvisst átak, tengt rannsóknum, fræðslu og skipulegum aðgerðum, getur komið í veg fyrir þann ófarnað sem ella blasir við.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim