Hjörleifur Guttormsson 19. júní 2013

Ferðaþjónusta og náttúruvernd

Á fáum áratugum hefur ferðþjónusta hérlendis vaxið frá því að vera einskonar aukabúgrein upp í að teljast einn mikilvægasti atvinnuvegur landsmanna og skákar um þessar mundir grónum atvinnugreinum eins og sjávarútvegi hvað varðar gjaldeyrisöflun. Fjölgun erlendra ferðamanna hefur verið næsta ótrúleg síðustu árin. Á liðnu ári var tala þeirra 673 þúsund manns og hafði aukist um nær 19% frá árinu 2011. Þessi mikla aukning blasir einkum við suðvestanlands og í einhverjum mæli víðast hvar á landinu. Ferðir Íslendinga um eigið land, þar á meðal um óbyggðir, hafa einnig farið vaxandi, þótt ekki liggi fyrir um það öruggar tölulegar upplýsingar. Eðlilega gleðjast menn yfir þeirri búbót sem þessu fylgir í kjölfar kreppu, en jafnframt vakna spurningar um áhrif þessarar þróunar á náttúru landsins og umhverfi.

Komin að þolmörkum víða

Ljóst er að náttúra Íslands er sá segull sem fyrst og fremst dregur erlenda ferðamenn hingað, þótt einnig komi til áhugi fólks á sögu okkar og menningu. Náttúra landsins er því sú auðlind sem ferðaþjónustan hvílir á og um hana gilda hliðstæð lögmál og um aðrar náttúrutengdar atvinnugreinar. Inn í þetta blandast jafnframt huglæg viðhorf sem varða upplifun af fjölda ferðamanna, mannvirkjagerð og hreinleika eða röskun landsins. Vísbendingar eru um að vöxtur ferðaþjónustunnar með fjölgun ferðamanna sé farinn að hafa neikvæð áhrif á fjölsóttum ferðamannastöðum og því brýnt að við sé brugðist áður en í frekara óefni er komið. Rannsóknir á ástandi ferðamannastaða og viðhorfum ferðalanga renna stoðum undir þetta, auk þess sem draga má ályktanir af reynslu víða erlendis. Rannsóknir Önnu Dóru Sæþórsdóttur og samstarfsmanna á ýmsum stöðum á landinu tala skýru máli um hvert stefnir, nú síðast varðandi „Þolmörk ferðamanna í Friðlandi að Fjallabaki“ (skýrsla útgefin des. 2012).  Umhverfisstofnun hefur nýverið uppfært svonefndan rauðan lista yfir svæði sem stofnunin telur að séu undir miklu álagi þannig að bregðast þurfi strax við. Á rauða listanum eru m.a. verndarsvæði Mývatns og Laxár, Reykjanesfólkvangur og Friðland að Fjallabaki. Í sömu átt stefnir á 14 öðrum tilgreindum svæðum á „appelsínugulum lista“ stofnunarinnar.  

Aðgerðir mega ekki dragast

Alltof lengi dróst að mótuð væri samræmd og ábyrg stefna af opinberri hálfu í  málefnum ferðaþjónustunnar, alveg sérstaklega hvað varðar þróun og undirstöður greinarinnar. Sá sem þetta skrifar kom að tilraun til mótunar slíkrar stefnu 1989–1991, en þrátt fyrir víðtæka samstöðu, einnig á Alþingi, var brugðið fæti fyrir samþykkt hennar. Loks árið 2005 var samþykkt þingsályktun um ferðamál, leyst af hólmi 2011 af ferðamálaáætlun 2011–2020. Í ritinu Græn framtíð (2007) setti VG fram fjölþættar tillögur um ferðaþjónustu og útivist og reynt var að þoka þeim fram á síðasta kjörtímabili, m.a. með fjárframlögum frá atvinnugreininni í formi hækkaðs virðisaukaskatts úr 7% í 14%, sem talið var að skilað gæti 1.5 milljörðum kr. á ári í ríkissjóð. Nú hefur ný ríkisstjórn ákveðið að draga þá tekjuöflun til baka, þrátt fyrir að slík skattlagning sé mun lægri hér en í nágrannalöndum á stóran hluta starfseminnar (Heimild: Hagdeild Landsbankans). Vinnubrögð af þessu tagi eru ekki til þess fallin að treysta undirstöður þessarar mikilvægu atvinnugreinar, þótt álitamál geti verið hvaða leiðir séu vænlegastar að því marki. Fyrirbyggjandi aðgerðir til að draga úr áhrifum ferðamanna á viðkvæma náttúru eru nauðsynlegar og geta skilað árangri ef rétt er að staðið. Tekjuöflun í formi gjaldtöku inn á einstaka ferðamannastaði er erfið leið í framkvæmd og færir aðeins til álagið tímabundið. Hvar á slík innheimta að enda? Fjölmargt annað kallar á skýra stefnumörkun í greininni, þar á meðal til hvaða hópa og væntinga sé skynsamlegt að vísa.

Takmarkanir sem ber að virða

Í markaðssetningu íslenskra ferðaþjónustuaðila er gjarnan höfðað til óspilltrar náttúru, víðerna og öræfakyrrðar. Það er gott svo lengi sem innistæða er fyrir slíku, en með örri fjölgun ferðamanna og áhrifum af umferð þeirra gengur á þann höfuðstól. Að því kemur að óbreyttu að þeir sem um landið fara taka að líta á slíka merkimiða sem vörusvik. Álag á umhverfið fer að nokkru eftir ferðamáta, en allir skilja eftir sig einhver spor, gangandi fólk, hestar og bílar, jafnvel þótt menn haldi sig við markaðar leiðir. Frávik þurfa ekki að vera mörg að tiltölu eftir því sem fjöldinn vex. Traustir innviðir, vel hugsað skipulag, dreifing ferðamanna og virkt eftirlit geta seinkað því að þolmörkum sé náð. Það er hins vegar ábyrgðarlaust að láta reka á reiðanum og horfast ekki í augu við þær takmarkanir sem við blasa og taka í taumana áður en það er um seinan. Ytri aðstæður, þróun olíuverðs, náttúruhamfarir og fleiri ófyrirséðir þættir geta líka breytt hagrænum horfum í ferðaþjónustu til hins verra. Því ber að varast offjárfestingu í greininni, eins og gæti orðið niðurstaðan m.a. af áformum um stórfellda fjölgun gistirýma í miðborg Reykjavíkur.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim