Hjörleifur Guttormsson 19. desember 2013

Hættan af viðvarandi mengun frá Alcoa Fjarðaáli

Eftir aðeins fárra ára starfrækslu álbræðslu Alcoa Fjarðaáls hefur komið í ljós að mengunarvarnir verksmiðjunnar standast ekki væntingar og að mikil áhætta var tekin með staðsetningu slíkrar stóriðju við þær umhverfisaðstæður sem ríkja í Reyðarfirði. Hrapað var að undirbúningi málsins þar sem stjórnvöld veittu Alcoa undanþágu frá mati á umhverfisáhrifum og gáfu út starfsleyfi til verksmiðjunnar án þess að slíkt mat hefði farið fram. Ekkert var gert með aðvaranir og kærur umhverfissamtaka og einstaklinga og það var fyrst eftir málshöfðun undirritaðs, sem lyktaði með hæstaréttardómi, að fyrirtækinu var gert skylt að ráðast í umhverfismat. Þegar það mat lá loks fyrir á árinu 2006 var bygging verksmiðjunnar komin langt á leið og ákvarðanir höfðu verið teknar um tilhögun mengunarvarna.

Erfiðar staðbundnar aðstæður

Eins og margir eflaust minnast stefndi Norsk Hydro á árunum 1999–2002 að byggingu 420 þúsund tonna álbræðslu við Reyðarfjörð með raforku frá Kárahnjúkavirkjun. Höfðu stjórnvöld gefið út starfsleyfi til verksmiðjunar, sem gerði ráð fyrir vothreinsun á útblæstri til viðbótar þurrhreinsun.  Öll þessi framkvæmd sætti miklum andmælum, einkum var andstaðan hörð gegn Kárahnjúkavirkjun. Í athugasemdum mínum vegna verksmiðjunnar lagði ég áherslu á að Reyðarfjörður hentaði engan veginn fyrir risaálver og vísaði m.a. til álits Staðarvalsnefndar um iðnrekstur frá árinu 1983 og allsendis ónógra rannsókna á veðurfarsaðstæðum í Reyðarfirði. Í mars 2002 hætti Norsk Hydro þátttöku í Noral-álverkefninu og áttu umhverfismálin vafalítið sinn þátt í því. Alcoa hljóp þá skjótt í skarðið með samningi við íslensk stjórnvöld. Var gert ráð fyrir 322 þúsund tonna ársframleiðslu, en sem nú er um 350 þúsund tonn. Brátt kom í ljós að Alcoa var andsnúið því að koma upp mengunarvörnum með vothreinsibúnaði til viðbótar þurrhreinsun. Í norskum álverum eru slíkar mengunarvarnir hins vegar meginregla og skila langtum minni heildarlosun mengandi efna, sérstaklega hvað varðar brennisteinssambönd, en einnig flúor.

Voru gerð grundvallarmistök?

Í málshöfðun gagnvart Alcoa og fleirum árið 2004 benti ég á þann ávinning sem næðist með því að beita tvíþrepa vothreinsun í viðbót við þurrhreinsun til að draga úr losun mengandi efna frá álverksmiðjunni. Þegar umhverfismat Alcoa lá loks fyrir 2006 blasti þetta við, þ.e. 14-faldur munur eða meira á magni brennisteinsdíoxíðs og um 40% munur á loftbornu flúoríði Alcoa í óhag í samanburði við áform Norsk Hydro. Sú reynsla sem nú liggur fyrir varðandi flúormengun og til umræðu var m.a. í Kastljósþáttum Sjónvarpsins 11. og 12. desember sl. ber því miður vott um að mengunarvarnir Alcoa Fjarðaáls séu ótraustar. Fyrirtækið kenndi á árinu 2012 um bilun í búnaði og að flúormengunin í fyrra hafi verið einstakt tilvik sem ekki ætti að endurtaka sig. Nýjar niðurstöður mælinga á árinu 2013 á styrk flúors í grasi og heyi í Reyðarfirði sýna hins vegar áfram há gildi eða svipaða niðurstöðu og í fyrra (sjá hér). Langvinn flúormengun kemur fram í tönnum og beinum grasbíta og er ungviði viðkvæmast fyrir henni. Einnig hafa þegar komið fram skemmdir á gróðri.
Losun brennisteinsdíoxíðs frá Fjarðaáli hefur reynst á bilinu 14–15 kg á hvert tonn af áli eða lítið eitt undir heimildum í starfsleyfi (18,5 kg/t áli). Slík mengun er hérlendis einkum áhyggjuefni vegna mögulega skaðlegra áhrifa á  heilsu fólks. Í  því sambandi ber að hafa í huga nálægð verksmiðjunnar við þéttbýlið á Reyðarfirði, en skilgreind mörk þynningarsvæðis eru í aðeins 1 km fjarlægð frá byggðinni.

Góðviðrissumur hættuleg!

Staðviðri getur ríkt svo dögum skiptir í Reyðarfirði og fer að sumarlagi oft saman við mikil hlýindi. Það er við slík skilyrði sem mengunarský getur lagst yfir innanverðan fjörðinn þar sem álverksmiðjan og þéttbýlið eru staðsett. Við þannig aðstæður getur uppsöfnuð mengun birst mönnum sem sýnileg móða og upplifa hana m.a. vegfarendur sem koma akandi frá Héraði til Reyðarfjarðar. Raunar mældist hár flúorstyrkur sl. sumar einnig í grasi ofan við miðjan Fagradal, en þar gengur fé frá bæjum á Upphéraði.  Hafa ber í huga að Fjarðaáls verksmiðjan er starfrækt nótt sem nýtan dag árið um kring. Umbúnaður og rekstur slíks fyrirtækis þarf að sjálfsögðu að standast lágmarkskröfur við hvaða veðurfarsaðstæður sem er. Ef það bregst er illt í efni.

Aðvörun til að taka alvarlega

Fyrir röskum áratug var lítið á þá hlustað sem vöruðu við staðsetningu risaálbræðslu í Reyðarfirði og hvöttu til ítrustu árvekni um mengunarvarnir yrði hún reist. Flestir ráðamenn með sveitarstjórnir í broddi fylkingar skelltu við slíku skollaeyrum og báru mönnum á brýn annarlegar hvatir og afturhaldssemi. Slík einsýni er hættuleg og þjónar ekki í reynd hagsmunum íbúanna í bráð og lengd. Fjölþjóðafyrirtæki eru ekki góðgerðastofnanir og er Alcoa þar engin undantekning. Vonandi tekur ekki aðeins fyrirtækið heldur og heimamenn og eftirlitsstofnanir þá aðvörun sem nú liggur fyrir alvarlega, svo mikið sem hér er í húfi.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim