Hjörleifur Guttormsson
Vatnsstíg 21
101 Reykjavík |
8 janúar 2013 |
Til
þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs
c/o Álfheiður Ingadóttir þingflokksformaður
Alþingi
Góðir félagar.
Um leið og ég óska ykkur gleðilegs árs, leyfi ég mér að snúa mér til ykkar vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem flokkur okkar hefur sett sig í á þessu kjörtímabili og blasir nú við í aðdraganda alþingiskosninga 27. apríl næstkomandi. Ástæðurnar eru vissulega margþættar en hér á eftir kýs ég að fjalla um tvö mál sérstaklega:
- umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og
- útgáfu leyfa til leitar og vinnslu olíu á Drekasvæðinu.
Þessi tvö stórmál varða tvær grunnstoðir í stefnu flokks okkar, annars vegar sjálfstæði Íslands og þá stefnu VG frá upphafi, að Íslandi beri að standa utan Evrópusambandsins, hins vegar umhverfismálin og sjálfbæra þróun hérlendis og í alþjóðlegu samhengi. Ég mun hér á eftir víkja að báðum þessum þáttum og hvernig þeir að mínu mati tengjast framtíðarstöðu flokksins og þá um leið möguleikum á að snúa vörn í sókn.
Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu.
Frá því núverandi ríkisstjórn var mynduð vorið 2009 hef ég ekki farið dult með þá skoðun að fráleitt væri af hálfu VG að standa ásamt Samfylkingunni að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Aðeins örfáum dögum eftir kosningar var fallist á þá kröfu Samfylkingarinnar, þvert ofan í yfirlýsingar í aðdraganda kosninga, að stefnt skyldi að umsókn Íslands um aðild að ESB. Meirihluti þingflokks VG greiddi þingsályktunarttillögu um slíka umsókn síðan atkvæði sitt 16. júlí 2009 og tryggði henni þar með meirihlutafylgi á Alþingi. Málið var vanreifað í upphafi og kynnt á röngum forsendum innan flokksins, látið að því liggja að aðildarsamningur færi beint í þjóðaratkvæði, að því er skilja mátti án ábyrgðar af hálfu flokksins. Staðhæft var að ferlið yrði hliðstætt því sem gerðist í Noregi 1994 þegar aðildarsamningur norsku ríkisstjórnarinnar við ESB var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Engu er líkara en forysta flokksins hafi ekki kynnt sér forskrift ESB að gjörbreyttu aðildarferli upp úr aldamótunum 2000, þar sem stig af stigi er látið reyna á aðlögun umsóknarrríkis að grunnsáttmála ESB og tilskipunum á einstökum sviðum. Þar við bætist að ESB hefur frá 2009 stigið stór skref sem breyta eðli samstarfsins innan þess og færa það í átt til sambandsríkis á kostnað fullveldis aðildarríkja.
Fullbúinn aðildarsamningur af hálfu umsóknarríkis verður samkvæmt eðli máls hvorki að veruleika né lagður fyrir þjóðina til úrskurðar, nema viðkomandi ríkisstjórn, ráðherrar og þeir flokkar sem að henni standa, beri á honum pólitíska ábyrgð. Í slíku ferli stenst þátttaka stjórnmálaflokks, sem er yfirlýstur andstæðingur aðildar, hvorki almennar leikreglur né siðferðilega mælikvarða.
Það hefur nú um langt skeið blasað við að enginn aðildarsamningur verður til á þessu kjörtímabili og að aðildarumsóknin siglir að óbreyttu yfir á það næsta. Þingflokkur VG og aðrar stofnanir flokksins þurfa á næstu örfáum vikum að svara því með skýrum og ótvíræðum hætti, hvort flokkurinn ætlar áfram að styðja yfirstandandi ferli, fyrir og eftir kosningar, eða hvort hann ætli að hætta stuðningi sínum við það. Afstaða flokksforystunnar og meirihluta þingflokksins í þessu grundvallarmáli hefur þegar rúið flokkinn trausti fjölda fólks, flokksfélaga og fyrrum stuðningsmanna. Því duga engin tvíræð eða óljós svör lengur. Viðbrögðin munu ráða afstöðu margra, af eða á, um stuðning við VG nú og framvegis.
Veiting leyfa til rannsókna og vinnslu olíu og gass á Drekasvæðinu
Eins og þruma úr heiðskíru lofti birtist fréttatilkynning frá Orkustofnun 3. desember 2012, þar sem frá því var greint að til stæði að veita „sérleyfi fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis (olíu og gass) á Drekasvæðinu“. Tilkynningunni fylgdu umsagnir umhverfisráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og undirstofnana frá sl. sumri, þar sem ekki var af hálfu viðkomandi ráðherra lagst gegn veitingu umræddra leyfa. Sérleyfin voru síðan gefin út af Orkustofnun 4. janúar sl. að viðstöddum formanni VG sem atvinnumálaráðherra og norska olíumálaráðherranum Moe vegna tengsla Noregs við málið gegnum Jan Mayen samninginn frá 1981.
Veiting umræddra sérleyfa er einstæður atburður hérlendis, m.a. vegna þess að í aðdraganda leyfisveitinganna hafa engar opinberar umræður farið fram um það skref sem hér er stigið, ekki innan Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs svo mér sé kunnugt, ekki á yfirstandandi Alþingi og ekkert heyrst um málið opinberlega frá ríkisstjórn Íslands, áður en tilkynningar voru sendar út um væntanlegar leyfisveitingar. Undirritaður hafði, óvitandi um hvað til stæði, skrifað grein sem birtist 1. des. 2012, um áhrif olíuvinnslu á norðurslóðum í samhengi loftslagsmála og vísast til hennar um þann þátt. Á eftir fylgdi önnur grein undir fyrirsögninni: Hvenær ákvað VG að stefna að olíuvinnslu á Dreka? og birtist hún þann 12. des. 2012 . Við seinni greininni bárust mér engin viðbrögð frá hlutaðeigandi.
Laumuspilið í kringum þetta stórmál er fáheyrt, og ekki bætir úr skák að formaður VG reyndi að afvegaleiða umræðuna í svörum sínum í Ríkisútvarpinu 4. janúar sl. um hvað gerst hefði, með því að draga fjöður yfir að um væri að ræða ekki aðeins leyfi til rannsókna heldur jafnframt olíuvinnsluleyfi til viðkomandi leyfishafa. Í 3. kafla útgefins leyfis segir m.a.: „Að uppfylltum skilyrðum leyfisins á leyfishafi forgangsrétt að framlengingu leyfisins til vinnslu kolvetnis í allt að 30 ár.“
Ísland hefur með þessum gjörningi slegist í hóp ríkja sem keppa að olíuvinnslu í Norður-Íshafi með fyrirsjáanlega hrikalegum afleiðingum fyrir loftslag jarðar og áhrif á sýrustig sjávar, hafstrauma og sjávarvistkerfi. Mengunarslys vegna rannsókna og olíuvinnslu, sem alltaf verða einhver, smá og stór, koma þessu til viðbótar. Með því að keppa að olíuvinnslu eru Íslendingar jafnframt að glata einstæðu tækifæri til að hafa áhrif á gjörðir annarra þjóða sem stefna að olíuvinnslu, hvort sem er við Austur-Grænland, á norska hluta Drekasvæðisins eða á fjarlægari norðurslóðum. Langtímahagsmunir Íslendinga hafa falist í því að gerast forystuþjóð í loftslagsmálum á grundvelli endurnýjanlegra orkulinda og halda sig frá olíuleit á eigin yfirráðasvæði. Séu þar til staðar kolvetni í teljandi mæli gætu þau nýst í framtíðinni með öðrum hætti en ausa þeim á skammvinnt olíubál, þá m.a. til efnaframleiðslu.
Með þessum gjörningi er unnið illbætanlegt skemmdarverk á ímynd VG sem umhverfisverndarflokks. Áhyggjur og viðbrögð úr röðum flokksmanna hafa eðlilega ekki látið á sér standa, sem fordæming blandin hryggð yfir því sem hér hefur gerst. Nógur var vandi flokksins fyrir, þótt ekki yrði með þessum hætti löskuð önnur helsta stoðin undir starfi hans. Það hlýtur að vera krafa okkar sem staðið höfum að uppbyggingu og starfi VG, sum hver allt frá stofnun, að þingflokkur VG geri hreint fyrir sínum dyrum, kveði upp úr um það hvort hér sé farið að vilja hans og til hvaða ráða verði gripið af hans hálfu til að lágmarka skaðann.
Í von um skjót og skilmerkileg viðbrögð.
Með kveðjum
Hjörleifur Guttormsson
Samrit sent öllum þingmönnum VG, framkvæmdastjóra VG og starfsmanni þingflokks VG.
Hjörleifur Guttormsson |