Hjörleifur Guttormsson 25. apríl 2013

VG heimtar aðildarsamning við ESB

Umræðurnar í sjónvarpssal á þriðjudagskvöldið um afstöðuna til ESB-aðildar voru um margt fróðlegar en jafnframt afhjúpandi um fávisku talsmanna margra framboða um það, hvernig þjóðréttarsamningar verða til. Aftur og aftur kom upp klisjan um að þjóðin eigi að fá að ráða, hvort menn treysti ekki þjóðinni? Þáttarstjórnendur hjálpuðu áheyrendum því miður lítið til að komast að kjarna máls um yfirstandandi inngönguviðræður.

Samningur verður ekki til í tómarúmi

„Þjóðin“ semur ekki við Evrópusambandið, heldur þarf til þess kjörið stjórnvald, ríkisstjórn sem styðst við þingmeirihluta og sem ber stjórnskipulega og pólitíska ábyrgð á hugsanlegum aðildarsamningi. Ríkisstjórn gerir væntanlega ekki aðildarsamning við ESB bara til að þjóðin fái að greiða um hann atkvæði. Flokkar sem standa að samsteypustjórn hljóta að þurfa að vera sammála um að samningur sem þeir eru tilbúnir til að undirrita sé að þeirra mati aðgengilegur fyrir Ísland, – að sjálfsögðu með fyrirvara um meirihlutasamþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um slíka ákvarðandi atkvæðagreiðslu er enginn ágreiningur milli stjórnmálaflokka. En fyrst eftir að slíkur samningur liggur fyrir væri komið að þjóðinni að segja sitt um niðurstöðuna.

VG siðferðilega í gapastokki

Málflutningur talsmanns VG í sjónvarpsviðræðunum, Svandísar Svavarsdóttir, er skýrt dæmi um það hvernig stjórnmálamenn geta misst fótanna þegar kemur að grundvallarreglum í afdrifaríkum samningaviðræðum. Í þættinum reyndi hún  að skýra mótsagnakennda afstöðu VG-forystunnar til ESB-aðildar og framhalds viðræðna. Fyrirspurn þáttastjórnenda um þetta svaraði hún á þessa leið:

“Við áréttuðum síðast að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins. Við erum sammála þjóðinni um það. En við erum líka sammála þjóðinni um að það eigi að leiða málið til lykta og koma því í þann búning að það sé tækt til þjóðarinnar til afstöðu. Að þjóðin taki efnislega afstöðu til niðurstöðu og við höfum nefnt í því sambandi eitt ár frá kosningum til að ramma þessa umræðu inn, þannig að við erum sammála þjóðinni um að það eigi að halda viðræðunum áfram og botna þær og við erum líka sammála þjóðinni um að okkur sé betur borgið utan sambandsins.“

Þáttastjórendur spurðu, hvort þetta væri trúverðug afstaða og Svandís taldi svo vera:

„Vegna þess að við teljum að spurningin sé það krefjandi og mikilvæg að það sé ekki stjórnmálamanna að rífa þetta ferli úr sambandi. Það sé mikilvægt fyrir almenning í landinu og fyrir lýðræðið í landinu og umræðuna í landinu að klára þetta með lýðræðislegum hætti. Við teljum þetta það mikilvægt að þetta verði ekki leitt til lykta í einhverjum stjórnarmyndunarviðræðum og einhverjum lokuðum bakherbergjum heldur þurfi almenningur að fá botn í málið og fá að taka lýðræðislega afstöðu.“

Stjórnmálamenn á flótta

Fulltrúi VG minntist hér ekki orði á aðildarsamning en samt á að „leiða málið til lykta“. Að mati Svandísar mega stjórnmálamenn hvergi nærri koma og í stjórnarmyndunarviðræðum að loknum kosningum má í engu hrófla við umsóknarferlinu. Umfram allt verði að koma málinu „í búning“ og botna viðræðurnar. Í raun er hún að heimta að gerður verði aðildarsamningur. En það voru fleiri frá fjórflokkunum en Svandís á flótta í þessu máli. Fulltrúi Framsóknarflokksins átti í miklum erfiðleikum með að skýra afstöðu eigin flokks, sjálfur eindreginn ESB-andstæðingur. Og Sjálfstæðisflokkurinn talar þrátt fyrir sinn landsfund í gátum um það, hvernig hann hyggst höndla framhaldið, m.a. hvað eigi að spyrja þjóðina um áður en lengra verði haldið. Það var aðeins fulltrúi Regnbogans sem talaði skýrt í þessu örlagamáli. Þátturinn í heild sýndi að hvað sem skoðanakönnunum líður ríkir mikil óvissa um framvindu ESB-viðræðna að kosningum loknum og fólk sem vill standa vörð um sjálfstæði Íslands þarf að halda vöku sinni sem aldrei fyrr.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim