Hjörleifur Guttormsson | 26. október 2013 |
Ávarp við upphaf málþings Háttvirta samkoma. Þið hafið væntanlega öll dagskrána undir höndum og sjáið að hér er tjaldað til úrvalsliði fyrirlesara, sem fara munu yfir lífshlaup Kjartans frá mismunandi sjónarhornum auk þess sem okkur verður skemmt með söng og brugðið upp myndum sem tengjast aðstandendum og æviferli Kjartans. Öllum þeim sem hér leggja til efni vil ég flytja þakkir fyrir hönd undirbúninsnefndarinnar og þeirra fjögurra félagasamtaka sem eru bakhjarl þessarar ráðstefnu. Leyfist mér að bregða hér upp tveimur svipmyndum sem tengjast tilefninu. Leiðir okkar Kjartans lágu fyrst saman í Menntaskólanum á Akureyri árið 1951. Hann hafði sest í í fjórða bekk MA haustið 1950 eftir stutta en sögulega viðkomu á Laugarvatni veturinn á undan. Vorið 1951 birtist Bandaríkjaher hér á nýjan leik og hreiðraði um sig á Miðnesheiði og víðar í skjóli samnings við íslensk stjórnvöld. Tæpast hafði nokkur atburður á seinni hluta 20. aldar viðlíka áhrif á íslenskt þjóðlíf og stjórnmál. Þjóðin var á samri stundu klofin í tvær andstæðar fylkingar. Í MA var tekist hart á um þennan gjörning á vettvangi málfundafélags skólans, þar sem einnig skólameistarinn blandaði sér í umræður. Þar tók ég eftir Kjartani í ræðustól í fyrsta sinn í byrjun vetrar 1951. Fundarefnið var „Sjálfstæðismál íslensku þjóðarinnar“. Hann mælti fyrir tillögu þar sem orðrétt var „mótmælt þeirri ráðstöfun íslensku ríkisstjórnarinnar að leyfa erlendum her setu í landinu á friðartímum.“ – Ég sé hann enn fyrir mér þar sem hann stendur í ræðustólnum á Sal, „föllleitur og skarpleitur“ eins og sagt er um Skarphéðin í Njálu, eilítið álútur og með hreim sem ekki er auðvelt að líkja eftir. Nær 100 manns tóku þátt í atkvæðagreiðslu í fundarlok um frávísunartillögu sem samþykkt var með 64 atkvæðum gegn 28. Talning atkvæða fór þannig fram að andstæðar fylkingar gengu hvor út um sínar dyr á Sal skólans, þ.e. um norðurdyr og suðurdyr. Hér skyldi ekkert fara milli mála um afstöðu manna. Sjálfur var ég óráðinn í pólitík þennan vetur eftir að hafa sagt skilið við ungliðasamtök Framsóknarflokksins í kjölfar herstöðvasamningsins. Ári seinna var ég kominn í sveit með Kjartani í Æskulýðsfylkingunni á Akureyri. Síðan höfum við lengst af verið samstiga í afstöðu til meginmála í íslensku samfélagi, þar á meðal og ekki síst um samskipti Íslands út á við. Önnur örstutt upprifjun. Snemma gætti áhuga Kjartans á að kafa undir yfirborð hlutanna, jafnt um menn sem um málefni. Síðasta vetur hans í MA sýndi hann mér stílabók sem hafði að geyma yfirlit um stéttarlegan bakgrunn nemenda, aðallega í efri bekkjum skólans. Flokkunina byggði hann á bresku kerfi og samkvæmt því lenti ég í „Upper-middle-class“ eða efri-miðstétt, sonur skógarvarðar í opinberu starfi eystra. Ég hef orðið að búa við þá greiningu síðan. Sjálfan sig flokkaði Kjartan örugglega sem „proletarian“, þ.e. af lágstétt kominn. Stílabækur hans eru síðan orðnar fleiri en tölu verði á komið, og að innihaldi þeirra munu fyrirlesarar trúlega víkja hér á eftir. Ég ætla mér ekki við þetta tækifæri að gera úttekt á verkum Kjartans eða fjalla um samskiptin við hann og fjölskyldu hans í heilan mannsaldur. Konu hans Gíslrúnu kynntist ég raunar sem skógardís í gróðrarstöðinni á Hallormsstað 1955, líklega áður en þau hjónaefnin vissu hvort af öðru. Glaðvær hlátur Gíslrúnar hljómar mér enn í eyrum, en Kjartani hefði þá eflaust þurft að segja tvisvar að hann ætti eftir að verða tengdasonur biskupsins yfir Íslandi. Þótt fjarlægðir skildu okkur að lengi vel, ég eystra og hann syðra, leið sjaldan langt á milli þess að við hittumst á fundum á stjórnmálavettvangi. Við tókum samtímis sæti á Alþingi haustið 1978, en þar varð vera Kjartans langtum skemmri en skyldi. Eftir sem áður naut ég hollráða frá honum um fjölda ára. Þeir eru margir sem leggja hlustir við skoðunum Kjartans og greiningu hans á málefnum samtímans og er það ekki endilega bundið við stjórnmálaskoðanir hlutaðeigandi. Styrkur hans byggir í senn á víðtækri þekkingu á mönnum og málefnum og heiðarleika við að kryfja mál vægðarlaust til mergjar, einnig þótt niðurstaðan kunni að ganga gegn huglægum væntingum. Slíkt er aðalsmerki þeirra sem í alvöru vilja leggja hlustir við slætti tímans og rýna í framtíðina. Mönnum gengur misjafnlega að skipta um hlutverk á miðri ævi. Þetta tókst Kjartani hins vegar farsællega eins og þau verk bera vott um sem hann hefur unnið sem sagnfræðingur síðustu þrjá áratugi. Margt af afrakstrinum hefur ekki farið hátt, enda ekki síst verið helgað dreifðum byggðum og liðnum kynslóðum. Það er því við hæfi að beint sé sjónum að uppskerunni á þessu málþingi, ekki síður en þeim störfum sem voru meira áberandi og í sviðsljósi á ferli hans fram um miðjan aldur. Marga undrar hvernig tæknifælinn einstaklingur eins og Kjartan nær að kafa djúpt í málefni uns allt liggur opið fyrir. Margir muna eflaust hvernig hann kortlagði hlerunarmál á vegum íslenskra stjórnvalda á öldinni sem leið. Við erum þessa dagana minnt á slíkt athæfi sem nú skekur heimsbyggðina. Líklega hefði ýmsum orðið órótt ef Kjartan hefði haft fullt vald á tölvutækni og innsýn í netheima. Enn hefur sagnfræðingurinn Kjartan ekki lagt frá sér pennann og á sitthvað í handraðanum sem vonandi verður aðgengilegt almenningi eins og fjölmargt sem hann hefur á síðustu áratugum tekið saman og afhent söfnum til varðveislu. Góðir gestir. Við aðstandendur þessarar samkomu fögnum því hversu margir hafa lagt hingað leið sína og er nú mál að ganga til dagskrár. Ég fel fundarstjórnina Guðrúnu Hallgrímsdóttur og aðstoðarmanni hennar. Ég vona að þið njótið þess fjölbreytta efnis, sem hér verður flutt. Þökk fyrir áheyrnina. Hjörleifur Guttormsson |