Hjörleifur Guttormsson | 27. mars 2013 |
Loftslagsmálin gleymd og grafin Árið 1972, þrettán árum eftir að mælingar hófust á Hawai-eyjum á styrk koltvíoxíðs í andrúmslofti, birti norska tímaritið Ambio niðurstöður og framreikning um líklega þróun til næstu aldamóta. (Sjá rit mitt Vistkreppa eða náttúruvernd 1974, s. 29) Samkvæmt mælingunum var styrkurinn 1970 talinn hafa numið 320 ppm en talinn mundu vaxa í um 375 ppm árið 2000. Þetta boðaði tíðindi en þótti samt af flestum harla ýkjukennt. Rauntalan sem birtist mönnum um aldamótin reyndist þó ívið hærri og hafði náð gildinu 389,6 ppm árið 2010 en það er nánast sama talan og spáð var 20 árum fyrr í aðdraganda loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Síðan hafa mælingar og reiknilíkön margfaldast að umfangi og nákvæmni og á þeim hvíla útreikningar og forspár langt inn í framtíðina. – Um þessi efni geta menn nú lesið sér til á íslensku í vönduðu riti, Kolefnishringrásin eftir Sigurð Reyni Gíslason jarðefnafræðing, sem Bókmenntafélagið gaf út á síðasta ári. Vörðuð leið til glötunar Loftslagbreytingar af mannavöldum eru stærsta áskorun sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Þær eru afleiðingar nútímalífshátta sem byggja á kolefnisorkugjöfum í formi jarðefnaeldsneytis og sem magnaðir eru upp af ósjálfbæru hagkerfi og efnahagsvexti samhliða örri fólksfjölgun. Í riti sínu rekur Sigurður Reynir skilmerkilega hrikalegar afleiðingar aðgerðaleysis og ófullnægjandi viðbragða við hlýnun andrúmsloftsins, súrnun sjávar og hækkun sjávarborðs, en fjallar einnig um viðleitni til að bregðast við, m.a. með bindingu af ýmsum toga. – Óhætt er að fullyrða að núverandi viðleitni alþjóðasamfélagsins og einstakra ríkja er með öllu ófullnægjandi, enginn bindandi alþjóðasamningur í gildi og markmiðið um að stöðva hlýnun við 2°C aukningu meðalhita langt utan seilingar. Í stað samdráttar í brennslu kolefnis benda opinberar spár til mikillar og stöðugrar aukningar næstu áratugi. Þróun vistvænna orkugjafa heldur engan veginn í við sívaxandi orkunotkun. Afleiðingar loftslagsbreytinganna varða alla heimsbyggðina en alvarlegastar geta þær orðið fyrir lífsskilyrði á norðlægum slóðum. Þeir kynda eldana sem síst skyldi Í stjórnmálaumræðu nú í aðdraganda alþingiskosninga hérlendis heyrist vart minnst á viðbrögð við loftslagsbreytingum, sem vegna alvöru málsins ætti þó að vera ofarlega, ef ekki efst á blaði í stefnuskrám stjórmálaflokka og nýrra framboða. Innihaldslaust orðagjálfur um sjálfbærni kemur fyrir lítið ef ekki er fjallað um rætur vandans og settar fram tillögur um markviss viðbrögð. Staðan er í reynd allt önnur og verri, þar eð helsta flagg þeirra flokka sem verið hafa við völd allt kjörtímabilið og kenna sig við vinstrimennsku og græna pólitík vísar í þveröfuga átt: Að gera Ísland að miðstöð í olíuvinnslu á norðurslóðum. Það kom sem reiðarslag yfir marga sem horft höfðu til Vinstri grænna sem haldreipis í umhverfismálum þegar Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra studdi og fagnaði um síðustu áramót úthlutun einkaleyfa til olíuleitar og olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Ekkert heyrðist þá frá helstu samstarfsmönnum hans annað en óljóst tuldur. Nú hefur annar garpurinn frá, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, gerst keppinautur Steingríms með opinberri heimsókn til Noregs þar sem yfirlýsingar hans og gyllingar um væntanlegan olíugróða kaffærðu meira að segja gestgjafann sem reyndi að draga í land með væntingar. Með þessu framferði hafa nefndir ráðherrar afvopnað flokka sína til frambúðar, reyni menn á þeim bæjum að byggja upp ábyrga stefnu í loftslagsmálum. Það verður auðveldur leikur fyrir talsmenn olíudrauma og mengandi stóriðju í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki að feta í fótsporin. Dauðans alvara og siðferðileg gildi Þegar kemur að spurningunni um olíuvinnslu á heimskautsvæðum falla raunverulegir hagsmunir Íslendinga í bráð og lengd saman við þörf alls mannskyns á að stöðva sig af í notkun jarðefnaeldsneytis. Háskinn af olíukapphlaupi í norðri sést best af því að þar gæti verið að finna um eða yfir fjórðung af áætluðum forða kolefnisbirgða í heiminum. Framlenging, að ekki sé talað um aukningu, á notkun þeirra er ávísun á allsherjarvá. Til viðbótar við koltvíoxíð er losun mýragass (metans) úr freðmýrum á næsta leiti sem og bráðnun Grænlandsjökuls. – Nýlega hvöttu 6 guðfræðingar til ábyrgrar afstöðu í þessum málum (Fréttablaðið 14. febrúar 2013) og sögðu m.a.: Þjóð eins og Íslendingar sem enn er að jafna sig eftir kollsteypu af völdum taumlausrar græðgi ætti að varast flokka og frambjóðendur sem egna nú fyrir kjósendur með hliðstæðum hætti og fyrir hrun og horfa ekki fram fyrir tærnar á sér þegar vistkerfi norðurslóða á í hlut. Hjörleifur Guttormsson |