Hjörleifur Guttormsson 1. júlí 2014

Um hreppaflutninga opinberra starfsmanna og ótæka stjórnskipan

Ákvörðun sjávarútvegsráðherra um flutning Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar er gjörræðisskref sem hafa mun þveröfug áhrif við yfirlýstan tilgang og vinna gegn skynsamlegri dreifingu opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Þessi hreppaflutningur opinberrar stofnunar þar sem nú vinna um 40 starfsmenn er sá stórtækasti sem dæmi eru um í seinni tíð. Um hliðstæða gjörninga einstakra ráðherra fyrr á árum sagði ég fyrir hálfum öðrum áratug: „Núverandi handahóf þar sem einstakir ráðherrar skáka með illu eða góðu einstökum stofnunum á sínu valdsviði út á land snýst fyrr en varir gegn landsbyggðinni. Ólíkt ráðlegra er að hlúa að svæðisbundinni starfsemi, fjölga meðal annars störfum á sviði rannsókna, mennta- og heilbrigðismála þar sem þeirra er augljós þörf og draga um leið úr yfirbyggingu hins opinbera í höfuðstaðnum.“ (DV, 6. júní 2000) Tilefnið þá var m.a. umdeildur flutningur Landmælinga Íslands upp á Akranes 1999, en að honum stóðu sem ráðherrar Össur Skarphéðinsson 1993 og síðan Guðmundur Bjarnason.

Grundvallarmistök í skipan stjórnsýslu

Flumbrugangurinn sem nú er endurvakinn gefur tilefni til að rifja upp nokkur grundvallamistök sem gerð hafa verið í stjórnsýslu hérlendis síðasta aldarþriðjung og varða afnám sýsluskipunar og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Upp úr 1980 var mikið rætt um að koma á fylkja- eða héraðaskipan hérlendis, svipaða þeirri sem tekin hafði verið upp á öðrum Norðurlöndum. Um slíka skipan tókst ekki pólitísk samstaða hérlendis í tíð þáverandi ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks 1986, samhliða setningu nýrra sveitarstjórnarlaga. Við meðferð þess máls á Alþingi flutti ég breytingartillögur sem gerðu m.a. ráð fyrir eftirfarandi: „Sett skal á fót nýtt stjórnsýslustig, héruð, milli ríkis og sveitarfélaga til að treysta byggð í landinu, koma á virku lýðræði og dreifa valdi frá ríki til landshluta.“ (Þingskjal 545, breytingartillögur við 54. mál á 108. löggjafarþingi) Tillögunum fylgdi sérstakur kafli um skiptingu landsins í átta héruð með héraðsþingum sem kosið væri til beinni kosningu á viðkomandi svæði samhliða sveitarstjórnarkosningum. Tillögur þessar voru felldar og þess í stað sett inn óljós ákvæði um héraðsnefndir og byggðasamlög, sem samstarfsvettvang fyrir sveitarstjórnir. Jafnhliða var tekið til við að knýja á um stækkun og fækkun sveitarfélaga.

Forsendur dreifðrar stjórnsýslu

Nýtt stjórnsýslustig hefði leyst mikinn vanda og orðið þýðingarmikil viðspyrna í byggðamálum. Um það sagði ég í áður tilvitnaðri blaðagrein: „Með fimm fylkjum fengist svæðaskipting sem auðvelda myndi stórum landfræðilega dreifingu opinberrar stjórnsýslu, sem ekki næst nema að takmörkuðu leyti á grunni sveitarfélaga. Fylkin væru nægilega stórar einingar til að byggja upp stjórnsýslu ríkisins á öllum helstu málasviðum og hún fengi um leið bakhjarl í fylkisþingunum. Núverandi viðleitni til að flytja stofnanir hins opinbera sem gegna miðstöðvarhlutverki frá Reykjavík út á land leysir lítinn vanda og vinnur um margt gegn skynsamlegri stjórnsýslu. Miklu vænlegra er að hlúa að svæðisbundinni uppbyggingu í helstu málaflokkum og færa með því þjónustuna nær fólkinu. Það yrði jafnframt til að fjölga sérmenntuðu fólki á landsbyggðinni.“

 

Meingölluð kjördæmaskipan

Ekki bætti úr skák kjördæmaskipanin sem innleidd var með lögum nr. 24 árið 2000 og við búum enn við. Þá urðu m.a. til þrjú risastór landsbyggðarkjördæmi, þvert á gömul stjórnsýslumörk og þáverandi starfssvæði landshlutasamtaka sveitarfélaga sem náð höfðu að festa sig í sessi. Jafnframt var Reykjavík skipt upp í tvö gervikjördæmi til að þókknast tölfræðikúnstum höfunda þessa furðuplaggs. Ég var í hópi örfárra þingmanna sem vöruðu við þessum gjörningi en líklega er nú flestum, sem láta sig varða íslenska stjórnskipan, orðið ljóst, hversu illa var hér að verki staðið. Ásamt þáverandi stjórnarflokkum lagði nýstofnuð Samfylking blessun sína yfir þennan gjörning. Með honum voru m.a. höggvin sundur umdæmi sveitarstjórnarsambanda á Norðurlandi og Austurlandi og þannig bætt gráu ofan á svart varðandi sveitarstjórnarstigið sem grunn fyrir skynsamlega valddreifingu. 

Snúum frá villu vegar

Fleirum en mér hlýtur að vera ráðgáta hvað fær ráðherra til að standa fyrir þessum nýjustu hreppaflutningum. Sjálfur hefur sjávarútvegsráðherra ekki sett fram nokkur frambærileg rök, en segist þó um leið skilja áhyggjur viðkomandi starfsmanna. Þótt stjórnskipan okkar sé meingölluð, eins og hér hefur verið að vikið, eru fjölmörg svæðisbundin verkefni og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga úti um land sem stjórnvöld gætu nú þegar stutt við með fjárveitingum og mannafla, m.a. til að bæta úr niðurskurði í kjölfar hrunsins. Náttúrustofur í landshlutunum geta strax bætt við sig verkefnum sem og þekkingarsetur víða um land, að ekki sé minnst á grunnþjónustu heilbrigðisstofnana. Langvinn átök um vanhugsaða hugmynd eins og flutning Fiskistofu er það sem landsbyggðin þarf nú síst á að halda.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim