Hjörleifur Guttormsson 3. febrúar 2014

Flugeldasýningar í dönskum stjórnmálum
Sosialistisk folkeparti í uppnámi. Undirrótin er sala á 19% hlut í DONG Energy til dótturfélags Goldman Sachs bankans.

DONG Energy er langstærsta orkufyrirtæki Danmerkur og hefur verið í opinberri eigu hingað til. DONG (Dansk olje og naturgas) var upphaflega stofnað 1972 til að annast um olíu- og gasauðlindir innan danskrar efnahagslögsögu í Norðursjó. Árið 2005 bættust við hlutabréf í dönskum raforkufyrirtækjum, m.a. Elsam, Energi E2 og NESA og var sú sameining samþykkt árið 2006, einnig af ESB. 76% hlutafjár DONG Energy er í eigu danska ríkisins og afgangurinn í eigu minni danskra hluthafa. Samkomulag er um að danska ríkið haldi meirihluta í fyrirtækinu a.m.k. til ársins 2025.
 
Útlendingum hleypt í orkuauðlindina

Nú í ársbyrjun 2014 samþykkti danska ríkisstjórnin að selja 19% hlut í DONG Energy til dótturfélags Goldman Sachs bankans bandaríska, sem skráð er á Caymans-eyjum, og tæp 7% til danskra lífeyrissjóða, samtals fyrir um 11 milljarða danskra króna. Eftir að það lá fyrir hefur allt verið á suðupunkti í dönskum stjórnmálum, og bakland ríkisstjórnar Helle Thorning-Schmidt hefur riðlast svo um munar. Í síðustu viku bættist við það tundur að samningurinn við Goldman Sachs dótturfélagið væri ekki opiber í heild sinni, þar eð hluti af honum væri viðskiptaleyndarmál. Eftir að margir þingmenn gagnrýndu þá málsmeðferð var þeim heimilað, hverjum og einum, að lesa samninginn yfir en mættu ekkert segja opinberlega um efni hans. Það spurðist þó út að samningurinn tryggði hinum nýja bandaríska eiganda neitunarvald gagnvart danska ríkinu um tiltekin en óskilgreind atriði.

Danskir vinstriflokkar og ESB

Í dönsku ríkisstjórninni hafa frá síðustu þingkosningum setið þrír flokkar, Sósíaldemókratar, miðjuflokkurinn Radikale venstre og Sosialistisk folkeparti (SF). Fjórði flokkurinn,  Enhedslisten, hét stjórninni hlutleysi við myndun hennar, en sá stuðningur var úr sögunni eftir að stjórnin leitaði til hægriflokkanna 2012 við mótun skattastefnu sinnar. SF hefur ásamt Enhedslisten lengi verið í flokkasamstarfi vinstri-grænna flokka í Norðurlandaráði, m.a. með VG. Sosialistisk folkeparti var stofnaður árið 1959 fyrir forgöngu Aksels Larsen, fyrrum formanns danska kommúnistaflokksins, og eftir hann var Gert Petersen lengi formaður (1974–1991).  Framan af var SF andsnúinn aðild Danmerkur að ESB, en nokkru eftir að ESB-aðild Danmerkur varð staðreynd 1972 byrjuðu flokkadrættir um það mál og frá og með 2005 hefur sú andstaða gufað upp innan SF og aðrir, einkum Enhedslisten, sem stofnaður var 1991, hafa tekið upp merki andstöðunnar gegn ESB. SF fékk 9,2% í þingskosningunum 2011, en tapaði miklu fylgi í sveitastjórnarkosningunum sl. haust og mældist þá með aðeins 5,2% fylgi á landsvísu. Enhedslisten, hefur hins vegar bætt miklu við sig, fékk 6,7% í þingkosningum 2011 en mældist með yfir 9% sl. haust.

Gífurleg óánægja hjá SF

Síðast liðinn fimmtudag, 31. janúar, lá fyrir að Sosialistisk Folkeparti myndi yfirgefa ríkisstjórnina vegna átaka og óánægju innan flokksins með afstöðu forystunnar til Goldman Sachs sölunnar, sem meirihluti flokksstjórnar hafði fallist á daginn áður. Yfir þriðjungur af þingmönnum flokksins var reiðubúinn að styðja tillögu Enhedslistens um að hætta við kaupin. Formaðurinn Annette Vilhelmsen sagði af sér og varaformaðurinn Metta Touborg fylgdi í kjölfarið. Umhverfisráðherra flokksins frá 2011, Ida Auken, sagði skilið við flokkinn og gekk í Radikale venstre, og heilbrigðisráðherrann Astrid Krag hljóp yfir til sósíaldemókkrata. Þá sagði þingflokksformaðurinn og fleiri trúnaðarmenn í þinginu af sér og gengu sumir um leið úr flokknum. Utanríkisráðherrann og formaður SF fyrrum (1991–2005), Holger K. Nielsen, segist hafa lesið rangt í afstöðu flokksmanna, en hann hefur verið stuðningsmaður fráfarandi formanns. Sten Gade, sem keppti við Nielsen um formennsku í SF 1991, greiddi hins vegar atkvæði með sölusamningnum umdeilda í skattanefnd þingsins og segir málið almenns eðlis, þ.e. snúast um eignaraðild í fyrirtækjum og þar sé dönsk löggjöf mjög óljós, andstætt því sem er í norskum lögum. - Sem sjá má af þessu er SF nú rjúkandi rúst, sem óvíst er að skili þingsætum inn á Folketinget næst þá kosið verður.

„Meiri pólitík, minni teknókratíska nálgun“

Óánægjan með DONG-söluna nær einnig inn í aðra flokka, t.d. segir Ritt Bjerregaard (f. 1941), einn af þekktustu talsmönnum danskra krata um áratugi, í viðtali við blaðið Politiken, að hún hefði viljað að sinn flokkur tæki sömu afstöðu til DONG-sölunnar og gagnrýnendurnir í SF. Sósíaldemókratar séu úr takt við kjósendur sína í þessu máli. DONG á ekki að einkavæða, það skiptir alltof miklu máli fyrir hag landsins, segir Ritt. – Simon Phil Sørensen, varaborgarstjóri krata i Lyngby, segir málið snúast um tilfinningar og hvetur til að menn stundi meiri pólitík, og minni teknókratíska nálgun. Það ættu mesta hæfileikafólkið í danskri pólitík, „nemlig Enhedslistens unge kvinder“ að hafa í huga.

Svipar mjög til Magma-Energy-málsins

Sláandi líkindi eru með DONG-málinu í Danmörku og átakanna hérlendis í borgarstjórn Reykjavíkur og stjórn OR um söluna á hlut Orkuveitunnar í HS Orku til erlendra einkaaðila.
Um niðurstöðu þess máls sagði Þorleifur Gunnlaugsson, varaborgarfulltrúi VG í grein 12. júlí 2013 undir fyrirsögninni „Orrustan er töpuð en stríðið ekki“:

„Borgarráð hefur nú samþykkt söluna á Magma skuldabréfunum. Þar með er möguleiki almennings til að hafa áhrif á þróun í HS orku, þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins, endanlega fyrir borð borinn. – Það sem stendur uppúr í mínum huga er hið ótrúlega ofbeldi sem kjörnir fulltrúar og þá um leið aðrir íbúar, voru beittir í þessu máli. Þrátt fyrir að öll megin efnisatriði hafi verið ljós fyrir þremur vikum og sjóður Landsbréfa hafi þá gert bindandi tilboð, komust Dagur Eggertsson og co upp með að stimpla allan pakkann sem trúnaðarupplýsingar og gera kjörna fulltrúa að innherjum, neita þeim um að leita ráða eða að upplýsa almenning með undirliggjandi hótun um sektir eða fangelsun. – Aðferðir sem þessar eru ógn við almannahagsmuni og aðför að því  upplýsingasamfélagi sem almenningur á 21. öldinni vill. – Mín tilfinning er sú að vika í viðbót í upplýstri umræðu hefði getað breytt niðurstöðunni eða í það minnsta gert valdhöfum mun erfiðara um vik að framkvæma ódæðið.“

Lærdómar fyrir vinstrimenn

Stjórnmálamenn á vinstri væng stjórnmálalitrófsins á Norðurlöndum mættu margt læra af þessari atburðarás í Danmörku. Það á einnig við um íslensk stjórnmál nú um stundir, þar sem hugsjónir og yfirlýst stefna hafa á stundum vikið fyrir sókn í fallvalta valdastóla. Þörfin á að standa vörð um náttúruauðlindir til lands og sjávar í þjóðareign er brýnni nú en nokkru sinni fyrr. Til þess að það megi takast þarf skýr stefnumið, trygga löggjöf og vakningu meðal æskufólks um gildi fullveldis í fjölþjóðlegum samskiptum.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim