Hjörleifur Guttormsson | 5. september 2014 |
Náttúruvá og seiðmagn eldsumbrota Landsmenn hafa nú um nokkurra vikna skeið fylgst með fréttum af jarðskjálftum og eldsuppkomu við norðvestanverðan Vatnajökul. Í okkar rómaða eldfjallalandi vekja atburðir af þessu tagi gífurlega athygli og verða fremsta fréttaefni fjölmiðla, þannig að allt annað hverfur í skuggann á meðan á þeim stendur. Það er ekki óeðlilegt þar sem á ferðinni eru frumkraftar sem mannlegur máttur fær lítið við ráðið og þeim fylgir sjónarspil sem lætur flugeldasýningar og aðra manngerða tilbreytingu blikna. Við þetta bætist svo kitlandi óvissa um framvindu náttúruhamfaranna, sem endurspeglast nú dag hvern í „gosfréttum“ fjölmiðla þar sem saman fer aðdáun á sjónarspilinu og afsökunartónn yfir hrifningu sem á næsta augnabliki getur breyst í vá. Vel varðveitt leyndarmál Eldsumbrotin tengjast að þessu sinni Bárðarbungu, öflugustu eldstöð landsins með allt að 200 kílómetra löngu eldstöðvakerfi sem gert hefur vart við sig hátt í 30 sinnum á sögulegum tíma, þeirra afdrifaríkast líklega Veiðivatnagosið 1477 sem þakti allt að helming landsins með basaltösku. Gosið í Gjálp haustið 1996 leiddi af sér stórhlaup úr Grímsvötnum niður yfir Skeiðarársand og virtist sem kylfa réði kasti hvorum megin vatnaskila flaumurinn brytist fram. Það sem af er núverandi hrinu sýnist jarðeldur einvörðungu hafa tengst bergganginum út frá kvikuþró Bárðarbungu til norðausturs, fyrst lítillega undir Dyngjujökli en síðan í tvígang í Holuhrauni. Það nafn var til skamms tíma eitt best varðveitta leyndarmál landsins, en nú skyndilega á hvers manns vörum. Nafngjafinn var Þorvaldur Thoroddsen sem þar var á ferð 17. ágúst 1884 með sínum dygga förunauti Ögmundi Sigurðssyni. „Miðja vega milli Urðarháls og Jökulsár er allmikið hraun á miðjum söndunum. Nær það fast upp að jökli og langt norður, og [er] ákaflega illt yfirferðar. Kölluðum við það Holuhraun.“ (Þorvaldur Thoroddsen. Ferðabók I. 2. útg. 1958, s. 367). Tveir á ferð 1839 Fyrsta lýsingin sem ég hef séð á Holuhrauni kom úr penna Sigurðar Gunnarssonar (1812‒1878), síðast prófasts á Hallormsstað, sem þarna var á ferð sem nýstúdent og fylgdarmaður Björns Gunnlaugssonar landmælingameistara í júní 1839. Fóru þeir fyrstir manna svo vitað sé eftir Gnúpa-Bárð landnámsmann um Vonarskarð, en þaðan lá leið þeirra upp eftir Dyngjujökli og niður af honum í krikanum vestan Kistufells. Af Grjóthálsi héldu þeir austur á Jökulsáraura. Um það sem þar bar fyrir augu segir Sigurður í ritgerð löngu síðar: „Þegar nokkuð dregur norðaustur á þessa Jökulsár aura, kemur þar flatt, lágt og breitt brunahraun, sem runnið hefir innan dalinn sem falljökullinn fyllir nú, því það kemur undan falljöklinum. Hafa grjót og aurspýjur, sem jökulhlaup og vatnsmagn úr jöklinum hafa fært yfir, hækkað alla farvegi báðum megin við hraunið og innanum það, svo það er nú orðið mjög lágt og sjer sumstaðar eigi til þess.“ (Norðanfari, s. 69‒76 1876) Austfirðingar sem landkönnuðir En þeir voru fleiri Austfirðingarnir sem komu við sögu landkönnunar á þessum slóðum norðan Vatnajökuls. Þar var fyrstur á ferð sumarið 1794 Fljótsdælingurinn Pétur Brynjólfsson (1772‒1798) sem ásamt Guttormi Pálssyni (1775‒1860) fylgdi síðar þetta sama ár Sveini Pálssyni náttúrufræðingi og lækni upp að Snæfelli og fræddi hann um öræfin norðan jökulsins, þar sem hann hafði riðið „yfir hinar tíu kvíslar Jökulsár á Fjalli“ og þaðan norðan Trölladyngju að Kiðagili. Ekki getur Pétur um neitt hraun þar á söndunum samkvæmt endursögn Sveins, né heldur er það sýnt á uppdrætti frá 1834 þar sem vísað er til ferðar Guttorms Þorsteinssonar prests á Hofi í Vopnafirði sumarið 1797 yfir kvíslar Jökulsár. (Árbók FÍ 1987. Norð-Austurland, s. 120‒121) Lýsingu á ferð Guttorms, sé hún til, hef ég ekki undir höndum, en ólíklegt er að hann hefði ekki getið um nýorpið hraun þarna. Í því ljósi er rétt að hafa fyrirvara um ágiskanir Ólafs Jónssonar, byggðar á framburði Jóns Jónssonar í Reykjahlíð, sem veturinn á undan hafi séð „eldsloga leggja í dimmu upp í loftið úr fjöllum eða öræfum suður undan Þingeyjarsýslu ...“. (Ódáðahraun II, s. 236). Enn einn Austfirðingur, Pétur Pétursson á Hákonarstöðum á Jökuldal, hélt haustið 1834 að áeggjan Hins íslenzka Fjallvegafélags við annan mann í leit að vegi norðan Vatnajökuls. „Nokkru fyrir vestan vaðið [á Jökulsá á Fjöllum] komust þeir í þvílíkt vonzkuhraun fyrir neðan jökulinn, að þeir voru nærri búnir að missa hestana.“ (Þorvaldur Thoroddsen. Ferðabók I. 2. útg. s. 264). Vafalítið er þetta sama hraunið og Sigurður Gunnarsson fór yfir fimm árum síðar, þá líklega fárra áratuga gamalt. Enginn hefur enn gert Ódáðahrauni í heild viðlíka skil og Ólafur Jónsson frá Freyshólum í Skógum (1895‒1980) eftir að hafa ferðast um það í mörg sumur. Um Holuhraun segir hann m.a. (Ódáðahraun I, s. 150): „Einkum mun kyrrðin og fegurðin mikil kvölds og morgna. Ekkert hljóð heyrist, engin lind suðar, enginn fugl tístir. Hér er algjör þögn.“ ‒ Þegar eldurinn slokknar skulum við leggja þangað leið okkar. Hjörleifur Guttormsson |