Hjörleifur Guttormsson 6. febrúar 2014

Loftslagsstefna Evrópusambandsins í ógöngum

Framkvæmdastjórn ESB  sendi 22. janúar 2014 frá sér yfirlýsingu um endurskoðaða loftslags- og orkustefnu fram til ársins 2030. Markmiðið er að heildarlosun gróðurhúsalofts á ESB svæðinu verði  þá samanlagt 40% minni en 1990 og 27% orkunotkunar komi þá frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Með þessu er hert til muna á fyrri markmiðum og það þrátt fyrir að ekki séu horfur á að áform til skemmri tíma verði uppfyllt.

Ísland batt sig í ESB-kerfið 2012

Ástæða er fyrir Íslendinga að fylgjast með ákvörðunum ESB á þessu sviði, þar eð frá og með árinu 2012 hafa loftslagsmál hérlendis verið lögðuð að tilskipun ESB, sbr. lög nr. 70 frá árinu 2012. Hún byggir að verulegu leyti á markaðskerfi með framseljanlegar koldíoxíðheimildir (ETS – European trading system) sem ESB tók stefnu á þegar á árinu 2003. Árið 2013 er það fyrsta eftir að byrjað var að framkvæma þessa stefnu hérlendis. Fyrrverandi ríkisstjórn beitti sér fyrir upptöku þessa kerfis, sem eins og fleiri mál runnin frá ESB-tilskipunum fengu takmarkaða umfjöllun, en enginn þingmaður var þó á móti. Bálkurinn sá er reyndar engin  smásmíði, um 20 þéttskrifaðar síður með viðaukum. Umhverfisráðherra skal láta gera aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en Umhverfisstofnun fer með framkvæmd laganna og er „landsstjórnandi Íslands“ í alþjóðlegu skráningarkerfi.

Í ósamræmi við mengunarbótaregluna

Evrópusambandið hefur um árabil stært sig af því að vera leiðandi afl í loftslagsmálum. Í því efni er ekki um harða samkeppni að ræða. Bandaríkin hafa hingað til sagt pass, Obama forseti verið bundinn af þingmeirihluta sem ekki fékkst einu sinni til að samþykkja Kyótóbókunina.  ETS-kerfi Evrópusambandsins hefur hins vegar reynst gloppótt og sætt vaxandi gagnrýni jafnt innan sem utan ESB. Meginljóður þessa kerfis er að það fylgir ekki þeirri stefnu Ríó-samþykktanna frá 1992 að mengunarvaldurinn borgi, heldur vísar á markaðslausnir með framseljanlegum kolefniskvótum. Afdrifaríkir gallar hafa komið fram á framsalskerfinu í samspili við hvata fjárhagslegra stuðningsaðgerða vegna endurnýjanlegra orkugjafa. Það sætir því tíðindum að ESB telji sig nú geta lögfest strangari markmið en áður án þess að hafa breytt leikreglunum.

„Verra en gagnslaust“

Tímaritið The Economist segir 25. janúar sl. að báðar helstu leikreglur loftslagsstefnu ESB, kolefnismarkaðurinn og niðurgreiðslur til þróunar og fjárfestinga í endurnýjanlegri orku, vinni hvor gegn annarri og kerfið sé „verra en gagnslaust“. Niðurgreiðslur vegna endurnýjanlegrar orku hafi aukist gífurlega en beinist ekki eingöngu að nýjum orkugjöfum, þar eð stór þáttur sé ætlaður í annað, svo sem skógrækt. Þetta grafi undan kolefnismarkaðinum. Með ETS-markaðskerfinu hafi átt að tryggja að losun verði náð með sem minnstum tilkostnaði. En þegar framleiðendur endurnýjanlegrar orku dragi úr kolefnislosun fái þeir í staðinn fleiri ETS-einingar en þeir þurfi sjálfir að nota. Mismuninn selji þeir til annarra notenda, sem geti þá losað meira en ella, þannig að markmiðinu um minni losun sé ekki náð. Þetta valdi því að fleiri losunarheimildir komi inn á markaðinn og þrýsti verði þeirra niður. Nú sé gangverð á tonn um 5 evrur, á sama tíma og fyrirtæki greiði yfir 150 evrur fyrir að fjarlægja sama magn þegar endurnýjanlega ferlið á í hlut. Fjöldi undanþága í kerfinu geri síðan illt verra.

Að berjast við vindmyllur

Þeir sem ferðast um meginland Evrópu taka fljótt eftir þyrpingum af vindmyllum sem hreykja sér víða á ásum og hæðum. Í Þýskalandi tengja menn þær við „orkuviðsnúninginn“ svonefnda (Energiewende) eftir að horfið var frá kjarnorkuverum. Nú eru vindmyllurnar þó fremur orðnar tákn fyrir hæpnar fjárfestingar, ekki síst eftir að stórfyrirtækið Prokon rambar á barmi gjaldþrots. Gabríel varakanslari og viðskiptaráðherra Þýskalands glímir nú við afleiðingar stuðningsaðgerða við iðngreinar sem fá aðgang að niðurgreiddri umhverfisvænni orku, m.a. frá vindmyllufyrirtækjum. Ráðherrann vill umfram allt reyna að stöðva verðhækkanir á raforku vegna síhækkandi kostnaðar af vindorku og um leið fækka til muna þeim fyrirtækjum sem að óbreyttu njóta niðurgreiðslna samkvæmt lögum um endurnýjanlega orku (EEG -Gesetz). Niðurgreiðslurnar eiga samkvæmt hugmyndum hans að lækka úr 17 centum á kílówattstund í 12 cent árið 2015. Framleiðendur umhverfisvænnrar orku (vind-, sólar- og líforku) eiga þannig að laga sig að almennum skilyrðum orkumarkaðarins. Tillögur hans valda þegar titringi víða, m.a. hjá stóriðjufyrirtækjum sem hingað til hafa sloppið við sérstakan umhverfisskatt noti þau orku frá eigin raforkuverum.

Hver verða áhrifin hérlendis?

Of snemmt er að fullyrða um niðurstöðu yfirstandandi átaka í Þýskalandi og innan ESB um endurskoðun núverandi kerfis í þágu loftslagsmála. Staðan kann að skýrast á leiðtogafundi ESB í næsta mánuði. Ástæða er fyrir Íslendinga sem lögleitt hafa hliðstætt kerfi hérlendis að fylgjast vel með framvindunni, en undrahljótt hefur verið um skipan þessara mála hingað til.

Hjörleifur Guttormsson;



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim