Hjörleifur Guttormsson 6. maí 2014

Eitthvað er rotið í henni Reykjavík

Fyrir fólk utan af landi hefur höfuðstaðurinn aðdráttarafl sem miðstöð menningar og lista og suðupottur næturlífs og uppákomu af ýmsu tagi. Menn ímynda sér að það hljóti að vera eftirsóknarvert að stjórna slíkri borg og gera hana enn betri og meira aðlaðandi fyrir gesti og gangandi, jafnt sveitafólk og ferðlanga komna lengra að. Þess vegna kemur á óvart hve veik og sundurlaus yfirstjórn þessa stærsta sveitarfélags landsins hefur reynst vera um áratugi.  Seta í borgarstjórn virðist helst vera biðstöð eftir þingsæti en ekki alvöruverkefni eða þá tilraunasmiðja fyrir poppara og fólk sem unir sér við tölvuleiki. Slíkt umhverfi er auðvitað óskaland fyrir sérvisku og er sú þekktust og lífseigust að loka beri Reykjavíkurflugvelli sem miðstöð flugsamgangna innanlands og senda eigi  landsbyggðarfólk til og frá Keflavík eins og hverja aðra túrista erlendis frá. Á miðju kjörtímabili Gnarr-stjórnarinnar fékk uppsetning fuglahúsa á Hofsvallagötu talsverða athygli en ekki náð fyrir augum borgarbúa. En þau eru fleiri tilraunaverkefnin sem fengið hafa að blómstra.

Borgartún sem minnisvarði

Hofsvallagata reyndist aðeins byrjunin á nýrri stefnu við gatnagerð í Reykjavík og kostaði að sögn innan við 20 milljónir króna. „Framkvæmdin var hugsuð sem tímabundin lausn til að hægja á umferð og gera gangandi og hjólandi umferð fólks öruggari“ segir í skýringu á vef borgarinnar vorið 2013. Um það leyti voru hins vegar að hefjast langtum umfangsmeiri aðgerðir við Borgartún sem áætlað var að kosta myndu 230 milljónir og þannig var lýst fyrir ári:

„Meiri gróður, nýjar gangstéttir beggja vegna götunnar, nýir ljósastaurar, hjólastígar og miðeyjar í götu til að auka öryggi gangandi vegfarenda eru meðal breytinga sem gerðar verða á Borgartúni í sumar. Eftir breytingarnar mun Borgartúnið verða falleg nútímaleg borgargata, að mati borgaryfirvalda.“

Samkvæmt þessu er hér um stefnumarkandi fyrirmynd ræða, því að hver vill ekki hafa sem flestar götur fallegar og nútímalegar.  En stendur niðurstaðan undir þessum væntingum og er þetta það sem koma skal?  Ekki skal dregið úr því að aðgerða hafi verið þörf við Borgartún sem víðar, en götumyndin sem nú blasir við er að mínu mati skelfileg. Fyrst af öllu má nefna skræpóttar gangstéttir af því umfangi sem duga myndi breiðgötu í milljónaborg. Milli þeirra hlykkjast ósamfelldir hjólreiðastígar, þar sem hjólandi fólki er öðru hvoru beint út í bílaumferðina sem hér fer mest fyrir. Yfir tróna svo kengbognir rauðir ljósastaurar sem auka á þann óróleika sem einkennir þessa kynlegu framkvæmd. Slíkt er ekki til þess fallið að auka öryggi.   

Akvegur meðfram reiðvegum

Í hugann koma hendingar úr alþekktu kvæði eftir Stein Steinarr sem birtist í Nýju Dagblaði um sumarmálin 1942 og ber heitið Frumvarp til laga um akvegi meðfram reiðvegum. Síðasta vísan af þremur hljóðar þannig:
           
            Og orðstír vor lifir í verki, sem mikils er metið,
            þótt margt fari í súginn og þjóðin sé allskonar neyð slegin.
            Að endingu virðist mér óhætt að láta þess getið,
            að akveginn skuli menn ríða, en aka reiðveginn.

Það er eins og hönnuðum þessarar skrautgötu hafi yfirsést að þarfasti þjónninn eigi heima í umferðakerfi framtíðarinnar, þegar búið er að losa okkur endanlega undan oki einkabílsins. Hestasteinar gætu þá einnig átt heima við peningamusterin og skrifstofur borgarstjórnar sem hýsa 450 manns á sjö hæðum við Borgartún.

„Algjörlega huglægt höfuðborgarhlutverk“

Það kemur æ betur í ljós að sérákvæði þarf að setja í skipulagslöggjöf um hlutverk sveitarfélagsins Reykjavíkur sem höfuðborgar. Lengi vel virtist ríkja skilningur á því og sammæli um að virða óskráðar skyldur Reykjavíkur sem höfuðstaðar landsins. Þessu er ekki lengur svo háttað eins og  skýrt hefur komið í ljós á yfirstandandi kjörtímabili. Nægir þar að benda á yfirgang af hálfu borgaryfirvalda gagnvart umhverfi Alþingis sem stofnunar í miðborginni og ekki síður dæmalaust tillitsleysi varðandi þýðingu Reykjavíkurflugvallar fyrir flugsamgöngur innanlands og samskipti landsbyggðarfólks við fjölda opinberra stofnana í höfuðborginni.  Í viðtali við vikublaðið Reykjavík 3. maí sl. segir oddviti Bjartrar framtíðar réttilega að höfuðborgarhlutverkið sé „algjörlega huglægt en ekki niðurnjörvaðar skyldur.“ Hans stefna er „að það þarf að flytja flugvöllinn. Ástæðan er þessi þétting byggðar sem er gríðarlega mikilvæg.“ Fleiri en hann eru nærsýnir þegar að þessu máli kemur og það undirstrikar þörfina á sérákvæðum um borgina sem höfuðstað.

Turninn og hækkandi sjávarborð

Þeim dæmum fjölgar ört sem sýna sofandahátt jafnt kjörinna fulltrúa sem sérfræðinga þegar kemur að einföldustu atriðum í skipulagsmálum borgarinnar. Turninn sem er í byggingu á horni Frakkastígs og Skúlagötu og sem rýfur sjónlínu til hafs var samþykktur einróma af borgaryfirvöldum þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir. Framtíðarhorfur um hækkun sjávarborðs fá ekki heldur athygli sömu aðila. Hér leiðir haltur blindan og virðist sama hvaða flokkur á í hlut.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim