Hjörleifur Guttormsson | 8. ágúst 2014 |
Mikilvæg stefnumörkun um landsskipulag Við Íslendingar getum ekki talist framúrstefnuþjóð í skipulagsmálum. Lengst af var okkur ósýnt um að búa í þessu norðlæga landi svo vel færi og laga okkur að aðstæðum þannig að sambúðin yrði áfallalítil. Og víst var hér margt sem gat komið mönnum á óvart, eldgos og jökulhlaup, að ekki sé talað um langvarandi áhrif bústangs og beitar á gróðurlendi. Að vísu hafði landið allt verið gert skipulagsskylt að nafninu til með lögum árið 1979, en þeirri skyldu var lítið sem ekkert sinnt utan þéttbýlismarka. Aðeins ákvæði um náttúruvernd tiltekinna svæða reistu skorður við ráðstöfun lands til annars en hefðbundinna nota og 1998 voru lögfest sérstök ákvæði um skipulagsmál á miðhálendinu. Umræða og tillögur á Alþingi fyrir aldamótin síðustu um sérstakt landsskipulagsstig skiluðu þá ekki niðurstöðu í endurskoðaðri löggjöf, á sama tíma og sveitarfélögum var gert að ljúka aðalskipulagi innan áratugs. Þessi töf hefur reynst tilfinnanleg því að óleyst vandamál og nýjar áskoranir hafa hrannast upp sem kalla á víðtækari málstök og breytt vinnubrögð. Landsskipulagsstefna í mótun Með lögum nr. 123/2010 voru í fyrsta sinn sett í löggjöf hérlendis löngu tímabær ákvæði um landsskipulag. Síðan hefur verið unnið að því að leggja grunn að landsskipulagsstefnu í ferli sem Skipulagsstofnun stýrir í umboði ráðherra. Sem umhverfis- og auðlindaráðherra lagði Svandís Svavarsdóttir fram þingsályktunartillögu um slíka stefnu fyrir síðustu alþingiskosningar, en málið náði þá ekki lengra. Haustið 2013 fól svo núverandi ráðherra Skipulagsstofnun að halda málinu áfram í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og hagsmunasamtök, svo og almenning. Samkvæmt bréfi ráðherra á landsskipulagsstefna að taka til miðhálendisins, dreifingu byggðar, haf- og strandsvæða og landnotkunar í dreifbýli. Samkvæmt verkferli á að kynna forsendur, greiningu valkosta og umhverfismat innan skamms og gert er ráð fyrir að ráðherra leggi fram þingsályktunartillögu um málið á vorþingi 2015. Hér er því mikið undir og ástæða til að hvetja almenning til að fylgjast vel með tillögugerðinni. Endurskoðun laga í kjölfarið Með mótun landsskipulags er verið að leggja upp í mikla og flókna vegferð sem reyna mun á alla hlutaðeigandi um framkvæmd, ekki síst sveitarstjórnir á hverjum stað. Markmið gildandi skipulagslaga er m.a. „að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“ Til að þetta verði meira en orðin tóm, ekki síst varðandi landnotkun í dreifbýli og á miðhálendinu, þarf að koma til endurskoðun löggjafar á fjölmörgum sviðum, þar á meðal um landnotkun í dreifbýli sem hér verður vikið að nokkrum orðum. Álitaefnin eru mörg og nægir að nefna ört vaxandi ferðamannastraum, fjölda búfjár, ekki síst hrossa, aðferðir við endurheimt landgæða og orkumannvirki. Þar við bætist ört vaxandi ógn af ágengum tegundum, ekki síst lúpínu. Dæmi um staðnaða og löngu úrelta löggjöf eru lög um skógrækt sem hafa verið óbreytt frá árinu 1955, og lög um gróðurvernd og landgræðslu frá árinu 1965. Fjölmargar atrennur hafa verið gerðar að endurskoðun þessara lagabálka án niðurstöðu. Í stað sérgreindra laga á þessum sviðum þarf að setja samræmda löggjöf um gróður- og jarðvegsvernd og greina skýrt á milli skógverndar sem hluta af verndun náttúrulegs gróðurlendis og hins vegar nytjaskógræktar sem hluta af landbúnaði. Sjálfgræðsla til endurheimtar landgæða Ásýnd mikils hluta lands okkar endurspeglar ofnýtingu og jarðvegseyðingu af hennar völdum. Hófleg beit og friðun fyrir beit á ofnýttu landi um lengri eða skemmri tíma er lykilatriði til að snúa þessu við. Víða um land hafa menn fyrir augum svæði sem notið hafa friðunar um fáein ár eða áratugi og gróðurfarsbreytingin án frekari aðgerða er sláandi. Þar sem birki er til staðar eða í grennd breiðist það út ásamt víðitegundum og öðrum gróðri eins og við blasir á Skeiðarársandi og í Skaftafelli. Það eina sem þarf er að gefa landinu tíma til að jafna sig þannig að náttúruleg gróðurlendi nái sér á strik. Plöntun innfluttra tegunda á slíku landi án vel skilgreindra markmiða og að undangengnu umhverfismati ætti sem fyrst að heyra sögunni til. Ágengar tegundir sívaxandi ógn Alþjóðlega er nú viðurkennt að þörf er á mikilli aðgát við innflutning og dreifingu plantna landa og heimshluta á milli. Afleiðingarnar blasa við víða og miklum fjármunum er varið í glímu við ágengar tegundir. Aðstæður eru afar breytilegar eftir vistkerfum og ástandi gróðurlenda frá einu landi til annars. Spánarkerfill og lúpína eru hörmuleg dæmi sem blasa við hérlendis. Lúpína ögnar nú gróðurlendum og aðgengi að landi í fjölmörgum byggðarlögum; fleiri tegundir geta bæst í þann hóp hafi menn ekki varann á. Á þessu sviði sem öðrum þarf skilning og skýra stefnu. Landsskipulagsstefna byggð á þekkingu og vel skilgreindum markmiðum er fyrsta skrefið til viðspyrnu og bættrar sambúðar við land okkar. Hjörleifur Guttormsson |