Hjörleifur Guttormsson | 8. október 2014 |
Mikill meirihluti Norðmanna myndi nú hafna ESB-aðild Það er margt sem við Íslendingar getum lært af frændum okkar norskum. Sérstök ástæða er til að samfagna með þeim í ár vegna tveggja sögulegra viðburða, annars vegar afmælis stjórnarskrárinnar sem þeir settu sér á Eiðsvelli vorið 1814 og lagði grunninn að þingbundnu lýðræði, og hins vegar höfnun á inngöngu í Evrópusambandið í nóvember 1994. Tvöhundruð ára afmælis stjórnarskrárinnar hefur þegar verið minnst hátíðlega en enn standa yfir viðburðir um allan Noreg undir merki samtakanna Nei til EU sem ná munu hámarki 28. nóvember næstkomandi. Leikfléttur undir forystu sósíaldemókrata Fyrir þeim sem höfðu aðstöðu til að fylgjast allnáið með atburðarásinni á Norðurlöndum á árunum 1989‒1994 eru leikflétturnar sem efnt var til af stuðningsmönnum ESB-aðildar í fersku minni. Þær hófust með útspili Jacques Delor hins franska og Gro Harlem Brundtland 1988-89 um nánari tengsl Norðurlanda og þáverandi Evrópubandalags (EB) í formi tveggja stoða samstarfs undir hatti EB og EFTA. Danmörk var allt frá 1973 aðili að Evrópubandalaginu og ráðandi meirihluti þar vildi fá önnur Norðurlönd með í púkkið. Forysta sósíaldemókrata í Noregi og Svíþjóð hafði lengi horft til EB-aðildar en Norðmenn felldu þegar árið 1972 fyrirliggjandi samning. Tveggja-stoða-módelið átti að vera áfangi á leið til að tryggja að slíkt gerðist ekki öðru sinni. Viðræður þar að lútandi hófust þegar 1989, einnig með þátttöku íslenskra stjórnvalda, en í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi tóku ráðandi öfl stefnu á fulla aðild. Fall Sovétríkjanna 1990 ýtti undir þau viðhorf, sérstaklega meðal Finna. Evrópubandalagið breytti jafnframt grunnreglum sínum með Maastricht-sáttmálanum 1993 og til varð European Union (EU) sem við köllum Evrópusamband (ESB). Söguleg andstaða norsks almennings Norðmönnum var tilraunin frá 1972 enn í fersku minni og 1989 var efnt til almannasamtaka þvert á stjórnmálaflokka til að fylgjast með og bregðast við endurnýjaðri tilraun um aðild. Þar var fremstur í forystu Kristen Nygaard (1926‒2002) tölvufræðingur, reyndur úr baráttunni um 1970. Það sem skipti sköpum voru hins vegar undirtektir norsks almennings til sjávar og sveita, sem fylkti sér undir merki andstöðunnar við aðild og komu frá flestum ef ekki öllum byggðarlögum landsins. Sumarið 1994 var gífurleg og vaxandi spenna eftir að ákveðin hafði verið þjóðaratkvæðagreiðsla um fullgerðan samning í löndunum þremur og hagað þannig að fyrst skyldi kosið um aðild í Finnlandi og Svíþjóð og síðast í Noregi þar sem menn töldu úrslitin tvísýnust. Lengi vel mældu skoðanakannanir meirihluta fyrir aðild, en það bil minnkaði er nálgaðist kjördag 28. nóvember. Afdrifaríkt reyndist þegar forysta norska alþýðusambandsins (LO) tapaði kosningu um að mega nota sjóði verkslýðshreyfingarinnar til stuðnings fyrir aðild. Eftirminnilegt Norðurlandaráðsþing Norðurlandaráð hélt haustþing í Tromsö 15. nóvember 1994, tveimur vikum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Báðar fylkingar, með og móti aðild, leituðust við að koma boðskap sínum á framfæri í tengslum við þennan atburð, en ekki leyndi sér hvorir höfðu meiri hljómgrunn á staðnum, andstaðan við ESB-aðild hvergi meiri en í Norður-Noregi. Einnig deildu norrænir þingfulltrúar hart, en aðild Íslands að EES var þá ráðin. Ekki fór hins vegar fram hjá viðstöddum að íslenski utanríkisráðherrann Jón Baldvin Hannibalsson talaði í Tromsö öðrum tungum um ESB en þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson. Niðurstaða norskra kjósenda tveim vikum síðar, 52,2% á móti aðildarsamningi en 47,8% með, kom flestum utanaðkomandi á óvart, en þó tæpast þeim sem fylgst höfðu með þróttmikilli baráttu samtakanna Nei til EU. Samkvæmt skoðanakönnunum myndu nú að minnsta kosti 70% norskra kjósenda hafna ESB-aðild. Aðdáunarverð þrautseigja Eftir þennan sögulega árangur hefði mátt ætla að samtökin Nei til EU rifuðu seglin, en sú varð ekki raunin. Því réði reynslan af endurteknum tilraunum stjórnmála- og hagsmunaafla að ganga gegn 49. grein stjórnarskrárinnar frá 1814 um „folkestyre“, þ.e. löggjafarvaldið í höndum þjóðar og Stórþings. Þessi þrautseigja ber vott um innsæi og skarpan skilning á eðli sjálfstæðisbaráttu þjóðar. Samtökin Nei til EU hafa haldið uppi þróttmiklu starfi alla götu síðan, áfram með fótfestu í félagseiningum um allan Noreg. Fræðsla um þróun ESB og áhrif forskrifta frá Brussel gegnum EES-samninginn er stöðugt á dagskrá í fréttabréfum og á fundum samtakanna. Margir eldhugar hafa fallið frá en reyndir forystukaftar hafa fyllt þeirra skörð og menn borið gæfu til að standa saman um meginatriði óháð tengslum við stjórnmálaflokka. Á engan er hallað þótt nefnt sé sérstaklega nafn Dags Seierstads, sem í áratugi hefur miðlað af þekkingu sinni á þróun og stöðu Evrópussambandsins. Hann er aðalhöfundur að hátíðarriti samtakanna sem kemur út á þessum tímamótum. Íslendingar, og þar á meðal Heimssýn ‒ hreyfing sjálfsstæðissinna í Evrópumálum, geta margt lært af baráttu Norðmanna við að varðveita arfinn frá Eiðsvelli. Þörfin á varðstöðu um þjóðlegt sjálfstæði hefur aldrei verið brýnni en nú. Hjörleifur Guttormsson |