Umsögn til utanríkismálanefndar um ESB-tillögu
Ég hef sent utanríkismálanefnd Alþingis ítarlega umsögn um ESB-málefni af tilefni þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, mál 340 á yfirstandandi þingi. Þar mæli ég með því að tillagan verði samþykkt sem ályktun Alþingis. Umsögn mína í heild má nálgast HÉR.
Hér fer á eftir yfirlit um efnisþætti í umsögninni, en síðan er aðeins birtur töluliður 2.
1. Aðild að EB hafnað 1990.
2. Helstu ástæður fyrir því að Ísland á ekki erindi í ESB.
3. Aukinn samruni á flestum sviðum innan ESB.
4. Vaxandi andstaða við ESB-kerfið innan Evrópusambandsins.
5. Evran er spennitreyja sem gæti brostið.
6. Umsóknarferli á brauðfótum frá upphafi.
7. „Vissum ekki hvað við vorum að fara út í“.
8. Hugmyndir um þjóðaratkvæði á veikum grunni.
9. ESB-aðildarumsóknin og hugmyndir um ráðgefandi þjóðaratkvæði.
10. Prófsteinn á stjórnmálaflokka og Alþingi.
11. Styrkja þarf stoðir lýðveldisins.
12. Góð tengsl í stað aðildar að Evrópusambandinu.
2. Helstu ástæður fyrir því að Ísland á ekki erindi í ESB
Hér verða taldar upp helstu ástæður þess að ég tel ekki rétt af Íslands hálfu að sækjast eftir aðild að ESB nú eða í fyrirsjáanlegri framtíð. Um hvert og eitt atriði mætti hafa mörg orð, en fulltrúar í utanríkismálanefnd þekkja væntanlega gangverk ESB nógu vel til að skilja samhengið. Þótt einstök atriði geti vegið þyngra en önnur, er það samþætt heildarmynd eftirtalinna þátta í uppbyggingu og stjórnkerfi ESB sem ræður niðurstöðu minni.
Fullveldisafsal
- fullveldisafsal á fjölmörgum sviðum;
- yfirþjóðlegar valdastofnanir ESB þar sem Ísland fengi langt undir 1% atkvæðisréttar;
- eðlismunur á EES og ESB – þótt EES-samningurinn sé stórgallaður;
- stefnir í vaxandi samruna innan ESB sem miðar að því að ESB þróist í ríkisheild (sambandsríki);
- veiking á löggjafarvaldi aðildarríkja;
- æðsta dómsvald í höndum yfirþjóðlegs ESB-dómstóls (Dómstóllinn í Lúxemburg);
- ESB sem tollabandalag reisir tollmúra gagnvart ríkjum utan ESB;
- fríverslunarsamningar af hálfu einstakra aðildarríkja ESB eru útilokaðir við ríki utan sambandsins;
- samræmd utanríkis- og öryggismálastefna ESB hefur styrkst með embætti sérstaks utanríkistalsmanns sem nú er varaforseti framkvæmdastjórnar ESB.
ESB og Sameinuðu þjóðirnar
- ESB samræmir afstöðu aðildarríkja sinna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og það land sem fer með formennsku hverju sinni túlkar sameiginlega afstöðu aðildarríkja á Allsherjarþinginu;
- Það á einnig við um 6 aðalnefndir allsherjarþingsins svo og ECOSOC (Efnahags- og félagsmálaráðið);
- Vorið 2011 öðlaðist sendinefnd ESB hjá SÞ sjálfstæðan rétt til að kynna afstöðu sambandsins á Allsherjarþinginu, taka þátt í umræðum, dreifa skjölum og flytja tillögur;
- Innan Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO) fer ESB með óskorað samningsumboð allra ríkjanna svo og í GATT-viðræðum;
- Á alþjóðaráðstefnum SÞ, m.a. um umhverfis- og loftslagsmál, ræður ESB sameiginlegri afstöðu aðildarríkja sinna.
Skerðing lýðræðis
- miðstýrt og ólýðræðislegt stjórnkerfi ESB;
- Framkvæmdastjórnin í Brussel (Kommissjónin) hefur ein rétt til að leggja fram frumvörp að tilskipunum (lagafrumvörp);
- Herskarar lobbýista, ekki síst frá samtökum atvinnurekenda og stórfyrirtækja, umkringja valdastofnanir ESB til að hafa áhrif á ákvarðanir;
- Evrópuþingið svonefnda hefur umsagnarrétt um frumvörp framkvæmdastjórnar og getur beitt stöðvunarvaldi í vissum tilvikum;
- Auknu valdi til Evrópuþingsins fylgir að sama skapi minna vald og áhrif þjóðþinga aðildarríkjanna;
- Frumvörp frá framkvæmdastjórninni þurfa samþykki ráðherraráðsins eftir tilteknum reglum um atkvæðavægi, sem geta verið ólíkar eftir einstökum sviðum;
- fjarlægar valdastofnanir ESB ýta undir pólitískt sinnuleysi og draga úr eftirliti og aðhaldi almennings; það er löng leið frá Austurvelli að aðalstöðvum ESB í Brussel!
- stóraukið skrifræði á flestum sviðum;
- markaðurinn þrengir sér æ meira inn á svið opinberrar þjónustu.
Tap forræðis yfir náttúruauðlindum
- úrslitavald yfir sjávarauðlindum (exclusive competence) til ESB;
- misheppnuð fiskveiðistjórn ESB, ofveiði og óreiða, yfirfærð á Ísland;
- brottfall samningsréttar við þriðju ríki (flökkustofnar eru a.m.k. 30% verðmætis fiskafla upp úr sjó hérlendis);
- aðrar auðlindir, m.a. jarðvarmi og fallorka, í óvissu á einkalendum;
- loftslagsmál færð undir forræði ESB.
Ósveigjanleg efnahagsstefna
- myntbandalag ESB, m.a. fast gengi gagnvart evru;
- peningamál evruríkja hluti af óskiptum valdheimildum ESB;
- hagsveiflur ólíkar á Íslandi og í ESB og fylgjast ekki að í tíma; ýtir undir atvinnuleysi;
- mikið atvinnuleysi í ESB, – nú (1. ársfjórðungi 2014) um 12% að meðaltali og hjá ungu fólki undir 25 ára aldri um 25%. Meira atvinnuleysi á Evrusvæði en utan þess;
- fjárhagslegt nettótap á aðild fyrir vel stæð ríki eins og Ísland;
- veik staða landsbyggðar og jaðarsvæða, hömlur á stuðningsaðgerðir;
- landbúnaður á Íslandi yrði í vörn vegna innflutnings, dýrasjúkdóma, verksmiðjubúskapar ofl.
- markaðsfrjálshyggja á kostnað velferðar;
- einkavæðing meginregla sem teygir sig yfir á svið samfélagsþjónustu.
Umhverfivernd víkjandi
- ósjálfbær efnahagsvöxtur andstæður sjálfbærri þróun;
- óheftur markaður hefur forgang á kostnað umhverfis;
- umhverfisvernd er víkjandi gagnvart frjálsu streymi vöru og fjármagns;
- ESB fer með umhverfismál allra aðildarríkja sinna á alþjóðaráðstefnum;
- nýjar reglur á umhverfissviði eru ýmist háðar auknum meirihluta aðildarríkja eða samþykki þeirra allra;
- lokað er í reynd á frumkvæði einstakra aðildarríkja til að gera betur á umhverfissviði en sameiginlegar reglur segja til um.
Félags- og jafnréttismál
- veiking opinberrar þjónustu og samningsstöðu launafólks;
- aukinn launamunur og fátæktargildrur;
- heilbrigðisþjónusta gefin “frjáls” þvert á landamæri skv. úrskurðum ESB-dómstólsins; það getur leitt til mikils stjórnunarvanda;
- láglaunastefna sækir á með undirboðum milli landa (þjónustutilskipun ESB), rýrð réttindi og kjör launafólks;
- erlend fyrirtæki og undirverktakar þeirra geta greitt laun eins og í heimalandi, þvert á kjarasamninga í viðkomandi ríki (niðurstaða ESB-dómstólsins í Laval-málinu);
- vinnuréttur er orðinn hluti af ESB-rétti (Vaxholm-dómurinn frá 22. des. 2007 og Viking Line-dómurinn frá 5. jan. 2008).
Hvert og eitt ofangreindra atriða getur nægt sem ástæða fyrir því að Ísland leiti ekki eftir aðild að ESB, og til samans ættu þau að nægja til að menn leiði ekki hugann að slíku óráði.
Hjörleifur Guttormsson |