Hjörleifur Guttormsson 14. apríl 2014

Hafa talsmenn aðildar ekki trú á grundvelli ESB?

Margt er sérstætt í þeirri umræðu sem talsmenn aðildar að Evrópusambandinu hafa haldið uppi, jafnt á Alþingi sem á Austurvelli. Þeir gera lítið sem ekkert til að útskýra fyrir almenningi þá miklu kosti sem þeir sjái í aðild Íslands að þessu ríkjasambandi. Það er helst að látið sé glitta í evruna sem allsherjarlausn á sama tíma og óvissa ríkir um það hvort myntbandalagið fái staðist til frambúðar. Núverandi grundvöllur Evrópusambandsins kemur fram í Lissabonsáttmálanum og honum tengjast fleiri tilskipanir en tölu verði á komið. Það ætti því að vera af nógu að taka fyrir þá sem kjósa að boða almenningi þetta fagnaðarerindi. En á það er varla minnst, heldur snýst umræðan mest um hugsanlegar undanþágur frá lögum og reglum ESB Íslandi til handa. Nú hafa tvær virtar háskólastofnanir reitt fram skýrslur sem staðfesta það sem talsmenn Evrópusambandsins hafa margítrekað bent íslenskum stjórnvöldum á sl. fjögur ár: Aðild snýst ekki um það að semja sig frá grundvelli ESB, í hæsta lagi má skoða tímabundinn aðlögunarfrest í einhverjum tilvikum í blálokin.

Skiptir fullveldi og sjálfstæði ekki lengur máli?

Þeir sem gera kröfu um inngöngu Íslands í ESB ættu í stað hugaróra um undanþágur og óvissan ávinning af aðild að skýra það út fyrir þjóðinni af hverju þeir telja að skerða eigi fullveldi Íslands á fjölmörgum sviðum. Þar blasir m.a. við eftirfarandi:

  • Að Ísland gefur sig á vald miðstýrðu og ólýðræðislegu stjórnkerfi ESB.
  • Að æðsta dómsvald flyst úr landi í hendur yfirþjóðlegum dómstóli ESB.
  • Að úrslitavald yfir sjávarauðlindum færist frá Íslandi til Evrópusambandsins.
  • Að Evrópusambandið fær yfirráð yfir hafsvæðum utan 12 mílna að 200 mílum.
  • Að samningar við þriðju aðila um fiskveiðimálefni færast til ESB.
  • Að landbúnaði er stefnt í hættu með tollfrjálsum innflutningi og dýrasjúkdómum.
  • Að fríverslunarsamningar Íslands við aðrar þjóðir falla úr gildi.
  • Að sjálfstæð rödd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hljóðnar að mestu.
  • Að stjórn gengis og peningamála flyst í hendur Seðlabanka Evrópu.
  • Að vinnuréttur verður hluti af ESB-rétti og staða launafólks verður óviss.

Evran er ótrygg söluvara

Í áróðri aðildarsinna hefur evran frá upphafi verið helsta söluvaran sem réttlæta eigi fullveldisafsal og annað í farangri Evrópusambandsins. Til að sú beita virki er reynt að telja mönnum trú um að evran standi til boða fljótlega eftir að  aðildarsamningur væri í höfn. Fátt sýnir betur rangtúlkanir og veikan málstað, því að flest bendir til að aðild Íslands að myntbandalagi ESB tæki ekki minna en áratug frá inngöngu í sambandið. Enginn einn þáttur hefur heldur reynst ESB jafn erfiður ljár í þúfu og evran eftir upptöku hennar 1999 og stærstu vandamál Evrusvæðisins tengjast henni, m.a. vegna afar ólíkrar efnahagsstöðu og mismunandi hagþróunar ríkja innan svæðisins. Ýmsir sem teljast sérfróðir um málefni ESB spá því að evran fái ekki staðist til lengdar, bæði af pólitískum og efnahagslegum ástæðum. Síðast var hér á ferð franskur sérfræðingur, François Heisbourg, sem hafði uppi sterkar aðvaranir um framtíð og horfur Evrusvæðisins.

Vaxandi andstaða innan Evrópusambandsins

Í mörgum ríkjum Evrópussambandsins vex nú andstaða við ýmsa grundvallarþætti í leikreglum þess og stjórnkerfi. Ástæðurnar eru margþættar, en ekki síst ólýðræðislegt stjórnkerfi og gífurlegt atvinnuleysi, sem er að meðaltali 25% meðal ungs fólks á Evrusvæðinu. Vaxandi vantrú almennings á ESB í ríkjum sambandsins birtist m.a. í lítilli þátttöku í kosningum til Evrópuþingsins, sem náði aðeins 43% síðast þegar kosið var og fór niður í 20% þar sem hún var minnst. Fátt bendir til að á þessu verði breyting í kosningum til þessarar umdeildu samkomu í næsta mánuði. Gagnrýnin afstaða á ESB-kerfið hefur nýlega mælst með 23% stuðning í Frakklandi, 30% í Hollandi og um 20% í Bretlandi. Kemur hún bæði frá hægri og vinstri og á einnig sterkan hljómgrunn í grannríkjum sem samningslega eru tengd ESB. Þar talar skýru máli niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss, þar sem meirihluti kjósenda hafnaði nýlega óheftum fólksflutningum.

Prófsteinn á stjórnmálaflokka og Alþingi

Umsóknin um aðild að ESB fyrir nær fimm árum var mikið feigðarflan. Fyrir henni var enginn pólitískur meirihluti og þeir sem að henni stóðu gerðu sér ekki grein fyrir um hvað aðildarferlið snerist. Fyrrverandi ríkisstjórn var strand með þetta ferli þegar á árinu 2012 og því kemur það úr hörðustu átt að sömu flokkar gera nú kröfu um að haldið sé í því lífinu með einhverjum ráðum. Krafan um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum eða draga umsókn Íslands til baka á sér hvorki fordæmi né fótfestu í okkar stjórnskipan. Stjórnmálaöfl hérlendis sem áfram eru þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið verða að afla þeirri skoðun meirihlutafylgis í alþingiskosningum og láta þannig reyna á styrk sinn fyrir endurnýjaðri umsókn. Best fer á því að það sé gert án þess að haldið sé á lofti grillum um sérlausnir Íslandi til handa.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim