Hjörleifur Guttormsson 16. mars 2014

Að vekja upp og kveða niður drauga

Í íslenskum þjóðsögum eru margar frásagnir af afturgöngum og uppvakningum, framliðnum verum sem gengu aftur eða menn höfðu vakið upp til að ná sínu fram gegn andstæðingum í því skyni að gera þeim skráveifur og jafnvel fyrirkoma. Af afturgöngum hérlendis mun Glámur kunnastur.Einnig eru þekktir gangárar, afturgöngur sem flökkuðu um og sem erfitt gat reynst að kveða niður, enda óviss uppruninn. Þriðja gerðin voru tilbúnir árar eins og Eyjasels-Móri, einna frægastur draugur austanlands. Ef ekki tekst að koma afturgöngum og uppvakningum fyrir geta þau orðið fylgjur og brugðið sér í margra kvikinda líki.

Uppvakningur frá árinu 1961

Því er þetta rifjað upp hér að Íslendingar glíma um þessar mundir við óvenju aðsópsmikinn uppvakning, svo magnaðan að sumir telja tvísýnt um að bestu manna ráð dugi til að kveða hann niður. Þarna er að sjálfsögðu átt við umsóknina um aðild að Evrópusambandinu. Gangári þessi á sér sem kunnugt er langa sögu, fór af gera vart við sig skömmu eftir að kola- og stálbarónar Þýskalands og Frakklands komu sér saman um Rómarsamning 1957, að sögn í von um að sá gjörningur dygði til að þjóðir þessar hættu að berast á banaspjótum. Þetta hét þá Efnahagsbandalag. Alþýðuflokkurinn sálugi heillaðist svo af þessari draumsýn að fáum árum síðar, 1961, lagði helsti forystu maður þess flokks til að Íslendingar bæðu um inngöngu í þetta bandalag og boðaði það heilræði, að besta ráðið til að tryggja fullveldi þjóðar væri að fórna því og deila með öðrum. Um þann málflutning sagði Alfreð Gíslason, læknir og alþingismaður í þingræðu (17. apríl 1963):

Sumarið 1961 hófu málgögn hæstvirtrar ríkisstjórnar og félagasamtök á hennar snærum magnaðan áróður fyrir inngöngu Íslands í Efnahagsbandalagið. Var sú innganga þá talin brýnt nauðsynjamál þjóðarinnar og hver sem dirfðist að andmæla því [var] fyrirfram stimplaður landráðamaður og kommúnisti. En áróðurinn datt snögglega niður; þó ekki vegna þess að stjórnin sæi sig um hönd, heldur hins að stund náðar hinna voldugu í Brüssel var en ekki upprunnin. Áróðurinn reyndist ótímabær, og því var hann látinn falla niður að sinni.

Ástæðan fyrir áróðurshléinu var m.a. uppgjafasamningurinn fyrir Vestur-Þjóðverjum og Bretum í landhelgismálinu 1961, sem mæltist afar illa fyrir hérlendis, en sama afstaða þessra þjóða gagnvart Íslendingum kom upp 1972 eftir útfærslu landhelginnar í 50 mílur.

Alvöruatlaga hálfri öld síðar

Alþýðuflokkurinn hélt fast við það baráttumál sitt að koma Íslandi inn í Evrópubandalagið, þótt í áföngum væri. Um 1990 höfðu sósíaldemókratar Vestur-Evrópu að Norðurlöndum meðtöldum gefist upp fyrir aðþjóðakapítalinu og sameinast undir merkjum Delors og Gro-Harlem Bruntland um að koma sem flestum utangarðsríkjum inn í Evrópusambandið. Fyrst skyldi skrifað upp á EES og fjórfrelsið og síðan sigla hraðbyri á endastöð í Brussel. Það gekk skjótt eftir í Svíþjóð og Danmörku en mislukkaðist í Noregi svo og hérlendis þar sem staða Alþýðuflokksins var afar veik. Ekki var þó farið dult með að EES ætti að gagnast sem vogarstöng til ESB-aðildar. Bæði Kvennalisti og Alþýðubandalag misstu átta í gjörningaveðri 10. áratugarins og sundruðust, að ekki sé minnst á Þjóðvaka. – EES-tilskipanir urðu til að kippa fótum undan íslensku bönkunum haustið 2008, og nú var það Samfylkingin, arftaki Alþýðuflokksins, sem boðaði Evru og fulla aðild sem bjarghring og allrameinabót.

ESB-uppvakningnum sleppt lausum

Ringulreiðin í kjölfar hrunsins var tilvalið ástand til að brjóta niður traust almennings á getu Íslendinga til að standa á eigin fótum. Útrásarvíkingarnir höfðu ekki aðeins komist yfir sparifé íslensks almennings heldur gott betur í útlöndum. Gangárar þeirra ýttu undir samsektarkennd fjölda fólks og vantrú á að stofnanir lýðveldisins réðu við það verkefni að reisa Ísland úr rústum hrunsins. Við þessar aðstæður setti Samfylkingin út net sín og fangaði í þau forystu Vinstri grænna í aðdraganda stjórnarmyndunar vorið 2009. Flokkur sem fram að þessu hafi gert út á andstöðu við ESB-aðild sem meginmál, féll á nokkrum dögum fyrir valdadraumórum og ESB-draugnum var sleppt lausum. Síðan hefur íslenskt þjóðfélag ekki verið samt við sig. Eyjasels-Móri varð til úr göróttri mixtúru og eirði engu. Samningaferlið mikla um aðild að ESB sem stundað var allt síðasta kjörtímabil var með sama hætti eitrað og hitti þá flokka fyrir sem settu það í gang. Til að reyna að bjarga sér undan uppvakningnum varð að ráði hjá upphafsmönnum að ákalla þjóðina sér til bjargar, hún yrði að skera úr, flokkarnir réðu ekki við málið. Og stjórnarandstaða þess tíma féll sumpart fyrir lýðskruminu og lítur nú undan þegar hún er á það minnt.

Glyttir í Gláms augun

Í liðinni viku lauk á Alþingi einni sérkennilegustu umræðu sem þar hefur orðið í þingsögunni. Skiptust þar á í ræðustól fulltrúar þingflokka í stjórnarandstöðu frá Samfylkingu, VG, Bjartri framtíð og Pírötum og ræddu til skiptis fundarstjórn forseta eða skiptust á andsvörum sín á milli. Sumir lýstu stefnu, fleiri þó stefnuleysi. Stöku ræður tíndust að mestu í þessu kapphlaupi um ræðustólinn. Ekki er þetta þó með öllu ónýtt efni heldur bíður nánari greiningar sálfræðinga. Ég nefni sem dæmi ræðu sem Páll Valur Björnsson í Bjartri framtíð hóf kl 16:31 11. mars sl. þar sem hann sagði m.a.:

Ég lít þannig á stjórnmál að við séum að vinna að hagsmunum þjóðarinnar. Allar þær ákvarðanir sem við tökum eiga að miðast að því að bæta hag og hagsæld þjóðarinnar. Nú hef ég ekki hugmynd um það frekar en nokkur einasti maður á Alþingi hvort það sé til hagsbóta fyrir okkur að fara í ESB. Ég hef bara ekki hugmynd um það. Ég vil samt trúa að það sé til hagsbóta, ekki síst í ljósi sögu Íslands, ekki síst í ljósi sögu gjaldmiðils okkar, þess hvernig staðan er á okkur núna og hvernig landinu hefur verið stjórnað alla tíð. Ég trúi því að með því að ganga í Evrópusambandið öðlumst við agaðri vinnubrögð.

Ekki var síður lýsandi ræðan sem hinn staðfasti ESB-andstæðingur Steingrímur J. Sigfússon byrjaði sama dag kl 19:48 og mælti m.a.:

Ég sem andstæðingur þess að Ísland gangi í Evrópusambandið gæti við venjulegar, hlutlausar óbundnar aðstæður að sjálfsögðu hugsað mér að greiða atkvæði með því að hætta viðræðum um það að fara í burtu frá því. Það væri efnislega sú niðurstaða sem félli að mínum skoðunum um að það sé að breyttu breytanda og að öllu samanlögðu væntanlega ekki hagstætt fyrir Ísland að gerast aðili að því. Það er algjörlega óbreytt skoðun mín, hefur lengi verið og þarf sennilega heilmikið til að hún breytist. ...
Í öðru lagi er það veruleiki og staðreynd, hvað sem menn segja um upphaf þess, að við erum búin að eyða tíma og kröftum í það að ræða við Evrópusambandið og erum langt komin með að láta á það reyna hvers konar samningsniðurstöðu við gætum fengið. Já, það hefur gengið hægar. Já, það voru eftir stórir erfiðir kaflar en engu að síður var farið að sjá fyrir endann á því að við gætum knúið á um niðurstöðu hvað varðar m.a. stór og afdrifarík hagsmunamál eins og landbúnað og sjávarútveg,

Ekki var laust við að sums staðar glytti í Gláms augu í orðaskiptum manna á Alþingi þessa daga á miðgóu. Mestöll umræðan bar því ljóst vitni, hversu erfitt er að kveða niður drauga, ekki síst þeim sem hafa vakið þá upp.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim