Hjörleifur Guttormsson 17. janúar 2014

Feluleikur með hálendisveg

Í grein eftir Trausta Valsson í Austurglugganum 10. janúar sl. sem ber fyrirsögnina „Varað við Hjörleifi Guttormssyni“ ber hann af sér að hann „sé að mæla með ferðamennsku á hálendisvegum að vetri ...“. Jafnframt vill hann nú sem minnst ræða um Sprengisandsveg, sem er þó augljós hluti af þeirri vegtengingu sem þeir félagar, Trausti og Birgir Jónsson, eru að mæla með, bæði sem varaleið í stað þjóðvegarins sunnan jökla og sem leið til að fjölga ferðamönnum „geysilega“ á Austurlandi.

Andmæli gegn vetrarumferð „alveg út í hött“

Trausti og Birgir hafa lengi boðað að færa beri umferð milli landshluta í auknum mæli af hringveginum upp á miðhálendið. Í bók sinni „Ísland hið nýja“ sem þeir gáfu út 1997 í aðdraganda Skipulags miðhálendisins til 2015 segja þeir m.a.:

 „Þegar hálendisvegirnir verða orðnir malbikaðir, mun straumurinn inn til landsins aukast mjög og stystu leiðir milli héraða taka við verulegum hluta þeirra flutninga sem nú fara fram á sjó eða í lofti.“  (s. 83)

Tillögu skipulagsnefndar miðhálendisins þess efnis að ekki skuli stefnt að vetrarumferð á hálendisvegum segja þeir jafnframt vera „alveg út í hött“ (s. 83). Og þeirri fullyrðingu er síðan fylgt eftir með þessum orðum (s. 153):

„Enn er landlæg sú tilfinning að vetrarumferð yfir Miðhálendið sé mun erfiðari en yfir aðra fjallvegi, eins og t.d. Möðrudalsöræfi og Öxnadalsheiði, sem báðir eru á hringveginum. Þetta eru ýkjur sem ekki má gera að forsendu þegar verið er að skipuleggja framtíðarvegakerfi landsins.“

Vísað á Ódáðahraun og Sprengisand

Í erindi sínu á Hallormsstað 5. nóv. sl. vísaði Trausti á rit sín um skipulag allt frá árinu 1975 og sagði: „Landsskipulagstillaga mín inniheldur t.d. hugmyndir um hálendisvegakerfi þar sem Austurland tengist Sprengisandsvegi með vegi norðan Vatnajökuls ...“. Meginboðskapur ræðu hans, sem fjölmiðlar hentu á lofti, var síðan þessi:

„Vatnajökulsvegur mundi stytta leiðina Egilsstaðir-Reykjavík um meira en 200 km. Vegna þessarar gífurlegu styttingar væri auðvelt að klára þennan veg í einkaframkvæmd því vegtollur mætti [vera] allnokkur því bílstjórar spöruðu það mikið á þessari styttingu. Þegar þessi vegur væri kominn mundi innlendum og erlendum ferðamönnum á SV-horninu til Austurlands fjölga geysilega m.a. vegna möguleika á mörgum nýjum hringleiðum.“ (www.austur.is Atvinnuráðstefnan Auðlindin Austurland)

Ljóst er að tillaga þeirra félaga um „Vatnajökulsveg“ þvert yfir Ódáðarhraun, sem færi í yfir 800 m hæð, tengist með beinum hætti framhaldi um Sprengisand, en sú leið liggur upp í um 900 m hæð yfir sjávarmál með þeim veðurfarsaðstæðum sem ég lýsti í grein minni 22. nóvember 2013.

„Varaleiðin“ um Sprengisand

Tilraun þeirra félaga til að fá Austfirðinga til að leggjast á sveif með boðskap sínum um uppbyggðan veg yfir Ódáðahraun, tók á sig kynlega mynd í erindi Birgis Jónssonar sem fjallaði um tímabundin rof á hringveginum sunnan jökla og hvernig við þeim megi bregðast:

„Þar er nauðsynlegt að hafa varaleið fyrir umferð milli Austurlands og Suður- og Suðvesturlands. ... Nýr vegur norðan Vatnajökuls, frá Hálslóni að Sprengisandsvegi myndi vera slík varaleið. ... E.t.v. hafa í huga nyrðri leið; Vegaskarðsleið yfir Ódáðahraun (+26 km)?.“ (Ofangreind heimild – Lokaorð, skv. glæru)

Það er sérkennilegt að setja fram slíka hugmynd um hálendisveg í 800–900 m hæð og horfa fram hjá hringveginum um Norðurland, sem hlýtur að teljast hin eðlilega „varaleið“ á landi og sem reynt er að halda opinni árið um kring. Leiðin frá Egilsstöðum til Reykjavíkur norður um er auk þess álíka löng og þjóðvegurinn sunnan jökla! Hér er því langt seilst í ákafanum við að fá skipulagsyfirvöld til að skrifa upp á hugmyndina um uppbyggðan veg yfir Ódáðahraun.

Lagfæring hálendisslóða og aðstöðu

Fyrir þá sem ætla að skoða sig um á hálendinu norðan Vatnajökuls að sumarlagi eru þegar tiltækar margar slóðir sem lagfæra þarf eftir föngum án stórfellds tilkostnaðar. Þróa þarf líka sem fyrst aðferðir til að leggja bundið slitlag á valdar akslóðir á hálendinu án þess að ráðast þar í teljandi uppbyggingu viðkomandi vega. Sú stefna sem mótuð var með skipulagi miðhálendisins 1998 var í aðalatriðum skynsamleg, m.a. að byggja upp helstu þjónustumiðstöðvar vegna hálendisferða í byggð eða í jaðri hálendisins. Eftir sem áður er brýn þörf á að koma upp góðri hreinlætisaðstöðu víða á áningarstöðum á hálendinu ásamt viðeigandi gistingu í fjallaskálum.
-------
            Umræða um frekari mótun landsskipulags er góðra gjalda verð og ágætt að sem flestar raddir heyrist á undirbúningsstigi. Inn í þá umræðu geta sjónarmið þeirra Trausta og Birgis um „Vatnajökulsveg“ átt rétt á sér, þótt ég telji þau illa rökstudd og sé þeim ósammála. Köpuryrði eins og Trausti lætur falla í minn garð í grein sinni í Austurglugganum 10. janúar sl.  bæta hins vegar ekki slíka orðræðu né heldur feluleikur með málavöxtu.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim