Hjörleifur Guttormsson 14. febrúar 2014

Evrópusambandið á krossgötum

Fáum sem fylgst hafa með þróun Evrópusambandsins um áratugi dylst að tilraunin til að steypa álfuna í mót sambandsríkis stendur nú hallari fæti en nokkru sinni í 60 ára sögu þessa leiðangurs. Fram undir 1990 virtist sem 12 þjóðir þáverandi Evrópubandalags (EB) væru sæmilega sáttar við módelið og fram að því takmörkuð völd í höndum stofnana þess. Evrópubandalag ( The European Communities – EC) þessa tímabils var ekki síst kynnt sem trygging fyrir friði í álfunni með því að sætta efnahagslegar andstæður milli Þjóðverja og Frakka sem tvívegis á öldinni höfðu barist á banaspjótum. Valdaafsal til framkvæmdastjórnar í Brussel sem færi með vissa sameiginlega þætti átti samkvæmt formúlunni að styrkja fullveldi þátttökuríkjanna, en ekki veikja undirstöður þess. En svo kom stóra stökkið með Maastricht-sáttmálanum og innleiðingu „fjórfrelsisins“ 1992/1993 og með honum glitti í Evruna sem fyrst kom til framkvæmda um aldamótin síðustu. Með henni var smíðuð sú spennitreyja sem 18 aðildarríki engjast nú í undir veldissprota Þýskalands.

„Frjálsir“ fjármagns- og fólksflutningar

Þættir fjórfrelsisins fólu í sér óhefta flutninga 1) fólks, 2) varnings, 3) þjónustu og 4) fjármagns. Viðbótin frá fyrri skipan snerist öðru fremur um fólks- og fjármagnsflutninga.  Upphaflega Evrópubandalagið (EB) var þegar hér var komið sögu í reynd tollabandalag með tollfrjálst vörustreymi á sínu svæði. Þrjú EFTA-ríki sem ekki gengu í hið endurskapaða Evrópusamband ‒ ESB (European Union ‒ EU), sömdu 1992-1994 um takmarkaðri þáttöku í samrunaferlinu undir merki Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Sviss sem fjórða EFTA-ríkið samdi þá sér á parti um samstarf með margþættri samningagerð. Fjórfrelsið svonefnda var þó vörumerki allra þessara samninga. Afnám landamæraeftirlits bættist síðan við 2001 með Schengen-samkomulaginu sem tekur til flestra ESB og EFTA-ríkja (Lichtenstein undanskilið). Sá samningur var kynntur Íslendingum undir því formerki að með honum losnuðu menn við vegabréfsskyldu í utanlandsferðum, en í reynd varð sú kvöð ótvíræðari en áður! Óheftir fjármagnsflutningar voru um 1990 kall heimskapítalsins um að ryðja sem flestum hindrunum úr vegi, í raun innsiglun á því frelsi fjármagnsins sem er kjarni hnattvæðingar síðustu áratuga. Það er kaldhæðnisleg staðreynd að ásamt Bandaríkjunum voru evrópskir sósíaldemókratar meðal fremstu talsmanna þessarar opnunar, hérlendis forysta Alþýðuflokksins sáluga.

Höfnun Svisslendinga afdrifarík

Þjóðaratkvæðagreiðslan í Sviss á dögunum, þar sem meirihluti hafnaði óheftum fólksflutningum, er ekki aðeins söguleg niðurstaða fyrir Sviss, heldur að margra mati sterk aðvörun til Evrópusambandsins í heild. Því til vitnis er bent á vaxandi ólgu í mörgum kjarnaríkjum ESB vegna innflytjendastefnu sambandsins og skorts á lýðræðislegu umboði stofnana þess. Í Frakklandi mælist andstaðan nú 23% í aðdraganda kosninga til Evrópuþingsins, 30% í Hollandi og um 20% í Bretlandi. Í mörgum fleiri ESB-ríkjum er svipuð þróun í gangi, þótt í minna mæli fram að þessu. Þessi gagnrýna afstaða kemur ekki aðeins frá hægri „öfgaöflum“, eins og reynt er að túlka viðbrögð almennings. Einnig á vinstri væng vex andstæðingum hins kapítalíska og ólýðræðislega ESB ásmegin, þar á meðal innan samtaka Evrópska vinstrimanna (European left ‒ EL). Þessi samtök héldu ráðstefnu í Madrid í desember sl. umdir kjörorðinu „Breytum Evrópu“ og stilla nú saman strengi sína í aðdraganda kosninga til Evrópuþingsins. Meðal flokka í þessum hópi eru Syriza í Grikklandi með 71 fulltrúa á gríska þjóðþinginu, þýski Linke með 64 þingmenn, finnska Vinstrabandalagið með 14 og Enhedslisten í Danmörku með 12 þingmenn.

Lýðræðishalli á kostnað aðildarríkja

Hérlendis klifa þau öfl sem krefjast aðildar Íslands að Evrópusambandinu fyrst og fremst á blessun Evrunnar, þótt öllum sé ljóst að Ísland sem aðildarríki kæmist ekki í þá spennitreyju í fyrirsjáanlegri framtíð. Um aðra þætti eins og lýðræðishallann, þjónkun við fjölþjóðafyrirtæki og markaðsfrjálshyggju er þagað þunnu hljóði í trausti þess að almenningur þekki takmarkað til innviða ESB. Um 26 milljónir manna voru í lok árs 2013 skráðar atvinnulausar í Evrópusambandinu, eða að meðaltali tæp 11% af vinnuafli. Hlutfallið er meira en tvöfalt hærra eða 23-24% meðal æskufólks á öllu ESB-svæðinu, mest tæp 60% í Grikklandi og 55% á Spáni.  Það segir sína sögu að ESB dældi 700 milljörðum Evra til bjargar bönkum í síðustu kreppu, en til að slá á atvinnuleysi meðal æskufólks er varið óverulegri upphæð (6 milljörðum Evra að sögn Die Zeit 13. febr. 2014).  Það er inn í þetta samkvæmi sem forysta Samfylkingarinnar og fleiri vill lokka Íslendinga, studd af ritstjórn Fréttablaðsins og talsmönnum iðnrekenda. Nú síðast hefur forysta Vinstri grænna bæst í hópinn með kröfu varaformanns VG um að aðildarsamningur verði hið fyrsta gerður við ESB. Slík tíðindi hefði mátt segja mönnum tvisvar fyrir nokkrum árum.

Tvíhliða samning í stað EES

Þróun mála innan ESB síðustu áratugi og vaxandi efasemdir um framtíð þess ættu að  vera Íslendingum hvatning til að binda ekki frekar en orðið er trúss sitt við Brussel. Nærtækara verkefni er að greina áhrif EES-samningsins á íslenska löggjöf og undirbúa tvíhliða samning í stað þess færibands sem gengið hefur linnulítið í tvo áratugi og kom íslensku samfélagi fram á bjargbrún haustið 2008.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim