Hjörleifur Guttormsson 19. desember 2014

Vanhugsaðir tilburðir stjórnvalda í byggðamálum

Flutningur fólks utan af landi til höfuðborgarsvæðisins umfram aðflutta hefur átt sér stað í einhverjum mæli lengst af lýðveldistímanum og á sér margþættar orsakir og hliðstæðu í grannlöndum okkar. Það var helst á áttunda og níunda áratug síðustu aldar að sæmilegt jafnvægi ríkti og nokkur bjartsýni var á framtíð byggðanna víða um land. Eftir 1990 hafa fólksflutningar til höfuðborgarsvæðisins aukist til muna og bitnað á flestum landshlutum, ekki síst á sveitum og kauptúnum með undir 1000 íbúa. Flestir eru sammála um að þetta sé óæskileg þróun, en deilt er um ástæður og tillögur um viðbrögð eru ólíkar og afar umdeildar. Nægir þar að minna á deilurnar um fiskveiðistjórnun og þátt opinberra aðgerða. Um það síðarnefnda hafa af hálfu núverandi ríkisstjórnar komið fram óvenju stórkarlalegar og handahófskenndar tillögur um flutning ríkisstofnana frá höfuðborgarsvæðinu. Um flutning Fiskistofu til Akureyrar ritaði ég grein í Morgunblaðið 1. júlí sl. og varaði eindregið við aðferðafræðinni.   

Langur slóði vanrækslu og mistaka

Ríkisstjórnum og Alþingi hafa um áratugi verið afar mislagðar hendur við ákvarðanir um breytingar á stjórnsýslu og þátt hins opinbera. Tillögur um nýtt og sjálfstætt stjórnsýslustig sem fram komu á níunda áratugnum voru felldar um leið og sýsluskipanin var afnumin. Með skiptingu landsins í fylki með lýðræðislega kjörnum fylkisstjórnum hefði skapast góður grunnur til að efla svæðisbundna stjórnsýslu sem til þess væri fallin að taka við opinberu fjármagni og verkefnum frá ríkinu. Það er grundvallamunur á því hvort verið er að færa svæðisbundin verkefni með skipulegum hætti út um land, eða rífa í heild upp stofnanir sem byggðar hafa verið upp á löngum tíma til að þjóna öllu landinu. Samhliða tilfærslu verkefna hefðu skapast forsendur til að draga úr miðlægum kostnaði og fækka störfum með yfirveguðum hætti. Í stað þess að taka upp nýtt stjórnsýslustig var vísað á sameiningu og stækkun sveitarfélaga. Tilfærsla verkefna í heild frá ríki til sveitarstjórnarstigsins hefur verið reynd með jákvæðum árangri í nokkrum mæli, en einstök sveitarfélög verða seint til þess fallin að taka við verkefnum sem snúa að landinu í heild. – Breyting á kjördæmaskipaninni um síðustu aldamót var svo enn eitt axarskaftið af hálfu meirihluta Alþingis með myndun þriggja risastórra landsbyggðarkjördæma sem hvert um sig eiga fátt sameiginlegt.

Óskalisti frá Norðvesturlandi

Nýjasta dæmið um fálmkennd og vanhugsuð vinnubrögð er stofnun sérstakrar nefndar á Norðvesturlandi á vegum ríkisstjórnarinnar til að búa til óskalista um flutning ríkisstofnana inn á svæðið. Svo virðist sem nefndin sé tilkomin að frumkvæði einstaks ráðherra og án nokkurrar hugsunar um heildarsamhengi. Formlega hafa tillögur hennar ekki verið gerðar opinberar, en formaðurinn úr Skagafirði staðhæfir að oddvitar ríkisstjórnrinnar hafi tekið hugmyndum nefndarinnar vel. Þær fela m.a. í sér flutning höfuðstöðva RARIK til Sauðárkróks, en fyrir eru starfsstöðvar þessa ríkisfyrirtækis á 22 stöðum víða um land. Hver maður getur séð að ekki er heil brú í slíkum vinnubrögðum, sem eru síst til þess fallin að skapa sátt um tilfærslu opinberra starfa út á land. Uppskeran af slíkum stofnanaflutningi er líka sýnd veiði en ekki gefin eins og fram kemur í nýlegum norskum úttektum.

Fjöldi stuðningshæfra verkefna

Fyrir liggur að fjöldi opinberra stofnana á landsbyggðinni líður fyrir fjárskort og niðurskurð margra undangenginna ára. Á það við um margar menntastofnanir á framhaldsskóla- og háskólastigi svo og heilbrigðisstofnanir í öllum landshlutum. Forgangsverkefni ætti að vera að treysta undirstöður slíkra stofnana sem fyrir eru í stað þess að búa til skýjaborgir sem ólíklegt er að verði að veruleika. Þar að auki blasir við að að opinber framlög til fjölmargra þátta á sviði rannsókna og þróunar í öllum landshlutum væru langtum líklegri til árangurs en að skáka til miðlægum ríkisstofnunum af handahófi. Mikil þörf er á stuðningi við vinnu að skipulagsmálum, m.a. vegna samþættingar landsskipulags og aðalskipulags sveitarfélaga. Það sama á við um náttúrurannsóknir og vinnu að náttúruvernd, sem náttúrustofurnar átta sem þegar eru til staðar geta strax tekið að sér. Minjavernd er jafnframt verkefni sem brýnt er að efla út um land.  Þróun og skipulag ferðamála kallar á sérhæfð störf sem best verður sinnt svæðisbundið nálægt vettvangi, í samvinnu við sveitarfélögin og Ferðamálastofu, sem nú hefur starfsstöðvar í Reykjavík og á Akureyri.

Ósk um ný og breytt vinnubrögð

Sem fyrrum þingmaður í landsbyggðarkjördæmi í tvo áratugi tel ég mig þekkja nokkuð til hvar skóinn kreppir. Á Austurlandi tókst samvinna þvert á flokka m.a. um uppbyggingu framhaldsskóla, verkefni á heilbrigðissviði og um skipulag og uppbyggingu safna í heilum fjórðungi. Vilji menn í reynd efla hag og viðnám landsbyggðarinnar er þörf á allt annarri og vænlegri nálgun en nú birtist alþjóð í nýlegum stjórnarathöfnum.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim