Hjörleifur Guttormsson 21. júní 2014

Ragnar í Skaftafelli
Örstutt upprifjun um kynni okkar

Ágæta samkoma.
Ég fagna frumkvæði ykkar, Borgþórs Arngrímssonar og annarra, sem standið að þessu samsæti í minningu þess að öld er liðin frá fæðingu Ragnars Stefánssonar í Skaftafelli og þakka fyrir að vera boðið hingað til þátttöku með ykkur.  Þegar nálgast áttrætt leitar á hugann margt af því sem ógert er og gaman hefði verið að halda til haga. Eitt af því eru minningar um kynni mín af Skaftafelli í rösk fjörutíu ár, þá sérstaklega á meðan Ragnar var á meðal okkar. Ég hef að vísu skrifað sitthvað um þennan stað, héraðið og jökulinn upp af. Við þau verk naut ég kynna minna af Ragnari og  fróðleiks sem hann miðlaði mér eins og öðrum sem áttu við hann löng samskipti.

Þegar Ragnar varð sjötugur 22. júní 1984 og lét af starf þjóðgarðsvarðar skrifaði ég um hann afmælisgrein. Ég leyfi mér að grípa hér niður í brot úr þeirri kveðju því að þar er vikið að því sem ég vildi hvort eð er deila hér með ykkur:

„Það var á miðju sumri 1972 að leið mín lá í fyrsta sinn í Skaftafell til móts við félaga mína í nýkjörnu Náttúruverndarráði. Ég kom að austan landleiðina en þeir að sunnan í Fagurhólsmýri, - tvö ár voru þá enn í það að lokið væri brúargerð á Skeiðarársandi og engin teljandi mannvirki risin vegna ferðamannaðstöðu í Skaftafelli.
         Þá hitti ég þau Ragnar og Laufeyju í Hæðum, kvöldið áður en aðalhópurinn kom, og það var margt rætt áður gengið var til náða. Óvissa ríkti um hvað nýir húsbændur þjóðgarðsins í Skaftafelli hygðust fyrir, og ég fann að undir niðri gætti nokkurs kvíða hjá fólkinu í Hæðum. Ragnar hafði þá samkvæmt kaupsamningi frá árinu 1966 lífstíðarábúð á þessari föðurleifð, þar sem forfeður hans hafa búið um aldir. Hann stundaði hefðbundinn búskap í Skaftafelli, og það var ekki ýkja margt sem minnti á að stofnað hefði verið til þjóðgarðs á jörðinni 5 árum áður. Fyrir umsjón með þjóðgarðinum hafði Ragnar aðeins lítilsháttar þókknun og hugmyndir um framtíðarskipulag voru lítt mótaðar. Ferðamannastraumur fór vaxandi og ljóst að hann myndi margfaldast við lúkningu vegarins yfir Skeiðarársand. Hvernig átti að bregðast við þeirri þróun? Hvaða áhrif hefði hún á náttúruvernd í Skaftafelli og mannlíf í Öræfum? Þessar spurningar voru áleitnar og fyrir fáa skiptu svörin meira máli en fólkið sem búsett var á býlunum tveimur í Skaftafelli, Hæðum og Bölta.
         Það varð viðfangsefni mitt næstu árin sem trúnaðarmaður Náttúruverndarráðs að leita svara við þessum spurningum í samvinnu við heimamenn. Þar mæddi mest á Ragnari, sem settur var í tvöfalt hlutverk, ‒ heimamanns og bónda annars vegar og þjóðgarðsvarðar hins vegar. Það var við þessar aðstæður sem ég kynntist Ragnari og hans fólki, og þau kynni urðu náin og treystust með hverju ári.
         Þeir urðu margir dagarnir sem ég dvaldi í Skaftafelli og gekk með Ragnari og samverkamönnum um þjóðgarðslandið, mörg kvöldin sem setið var í stofunni á Hæðum yfir teikningum, uppdráttum og hugmyndum um skipulag þjóðgarðsins, allt frá þjónustumiðstöð niðri á sandi til gönguleiða inn um Skaftafellsheiði og Morsárdal. Önnur viðfangsefni enn nákomnari heimafólki voru líka á dagskrá: Breytingar á búskaparháttum, nýr samningur um réttindi og skyldur þjóðgarðsvarðar, hvað ætti að standa af húsum og girðingum, hvað að hverfa eða breytast í samræmi við nýtt hlutverk Skaftafells.
         Ég hygg að á fáa íslenska bændur hafi í seinni tíð verið lagt að svara jafn mörgum spurningum á skömmum tíma og Ragnar í Skaftafelli og að aðlagast stórfelldum breytingum heima fyrir. Þetta próf stóðst hann af mikilli prýði til ómetanlegs ávinnings fyrir þjóðgarðshugmyndina, en án þess að missa sjónar á hag sinna nánustu og sveitarinnar. Þar kom honum að haldi ágæt greind og yfirsýn, samhliða ríkum tilfinningum og næmleika fyrir því, hvaða leiðir séu helst  færar. Reynsla vatnamannsins sem oft þurfti að þræða yfir Skeiðará eða sneiða fyrir hana á jökli kom Ragnari að góðu haldi, við þessar breyttu aðstæður.
         Hann átti milli þess að velja að halda sínu striki sem bóndi á ættarsetri og láta óskir náttúruverndarmanna lönd og leið eða taka undir áskorun þeirra. Ragnar valdi síðari kostinn.“ – (Hér lýkur tilvitnun í nefnda afmælisgrein.)

Ég fylgdist um árabil með umhugsun þeirra Ragnars og Laufeyjar um hvað við ætti að taka við starfslok hans sem þjóðgarðsvarðar 1988. Í rauninni lagði hann drög að lausninni strax um 1970 þegar hann hóf túnrækt hér austur í Nesi í landi Freysness, svæði sem nýttist m.a. undir tjaldbúðir við opnun Skeiðarárbrúar 1974. Niðurstaðan blasir við á þessu glæsilega ferðamannabýli dótturinnar Önnu Maríu og tengdasonarins Jóns Benediktssonar hér undir jökulöldunni, þar sem Svínafellsjökull nam staðar löngu fyrir landnám.

Ég hélt áfram að líta við hér í Freysnesi þegar ég átti leið um, síðast viku fyrir áttræðis afmæli Ragnars í júní 1994. Hann dró ekki dul á að kraftar hans væru að þrjóta, en hugsun hans var einbeitt og skýr. Í Freysnesbæinn voru þá komnir tveir augasteinar þeirra Ragnars afa og Laufeyjar ömmu þar sem voru þær Eyrún Halla (5 ára) og Ragna Kristín (2ja ára), en Stefán var þá ekki fæddur. Málefni þjóðgarðsins bar þá sem oftar á góma í þessu síðasta samtali okkar Ragnars og uppbyggingin hér í Freysnesi, sem hann mátti vera stoltur af. Röskum tveim mánuðum seinna sofnaði hann svefninum langa hér undir öldunni.

Ég tel það sérstök forréttindi að hafa fengið að kynnast Ragnari og hans fólki og öðrum Öræfingum á tímum mikilla breytinga.
Við minnumst Ragnars hér með hlýhug og virðingu og óskum hans fólki og þessu stórbrotna byggðarlagi farsællar framtíðar.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim