Hjörleifur Guttormsson 22. september 2014

Ógnvænleg vandamál 21. aldarinnar

Blikur grúfa yfir mannkyni í áður óþekktum mæli. Að baki er 20. öldin sem Eric Hobsbawm (1917‒2012) nefndi Öld öfganna. Í niðurlagi bókar sinnar með þessu heiti 1994 benti hann á að nútímatækni hafi aukið svo getu mannkyns til að breyta umhverfi jarðar, að mæla verði tímann, sem til umráða er í leit að lausnum á vandamálunum, í áratugum fremur en öldum. Þau 20 ár sem síðan eru að baki hafa hvorki verið notuð á alþjóðavettvangi eða svæðisbundið til að taka á vandanum að neinu marki, og því magnast hann nú stig af stigi. En hver eru helstu málin sem hér er vísað til og hvert stefnir um lausn þeirra? 1) Ósjálfbært efnahagskerfi sem hefur hagvöxt og hámörkun gróða að meginforsendu, óháð félagslegum og umhverfislegum afleiðingum. 2) Orkukerfi, knúið af kolum og olíu að meginhluta, sem leitt hefur til áður óþekktra loftslagsbreytinga af mannavöldum. 3) Fólksmergð og viðkoma sem stefnir í að mannkyninu fjölgi á þessari öld úr 7 milljörðum í 11 milljarða, með samsvarandi auknu álagi á náttúruauðlindir og andrúmsloft. Við þetta bætist æ háþróaðri vopnabúnaður, altækt njósnakerfi og vaxandi stríðsógnir með kjarnorkuvopnin tifandi í bakgrunni.

Ósjálfbært efnahagskerfi undirrótin

Meginorsökin fyrir þeim ófarnaði sem við blasir er kapítalískt efnahagskerfi sem í krafti tækniþróunar vex stöðugt að umsvifum og virðir engin náttúruleg takmörk. Skuldsetning, hvort sem er gagnvart lifandi eða dauðri náttúru eða komandi kynslóðum, er  megineinkenni efnahagsstarfseminnar, sem drifin er áfram af aukinni neyslu sem forsendu þess að gangverkið stöðvist ekki. Frjálshyggjuskeiðið undir lok síðustu aldar með óhefta fjármagnsflutninga sem æðsta boðorð jók ekki aðeins á arðrán á náttúruauðlindum á kostnað komandi kynslóða heldur hefur leitt til stórfelldari eignatilfærslu en dæmi eru til um í sögu síðari alda. Samkvæmt tölum Seðlabanka Bandaríkjanna í síðasta mánuði voru  55% allra auðæva heims árið 2013 í höndum 3% jarðarbúa, breyting úr 45% á árinu 1989. Kreppa og hrun dugar skammt til að knýja á um leiðréttingu á þessu banvæna kerfi eins og viðbrögð bandarískra stjórnvalda 2008 leiddu skýrt í ljós. Þá var almenningur látinn greiða reikninginn fyrir gjaldþrota fjármálastofnanir.

Loftslagsbreytingar geysast áfram

Við erum minnt á það þessa daga að aðeins rúmt ár er þangað til gerð verður ný alþjóðleg atrenna að manngerðum loftslagsbreytingum á 21. ársfundi loftslagssamnings SÞ í París í desember 2015. Frá því samningurinn var frágenginn í Ríó 1992 hefur margt verið reynt til viðnáms í krafti hans, en litlu marktæku verið skilað. Það sýnir alvöru málsins að í þessari viku kallar Ban-Ky-moon aðalritari SÞ til sérstaks toppfundar í New York til að ræða aðgerðir og stappa stálinu í þjóðarleiðtoga til að reyna að tryggja bindandi árangur miðað við 2°C markmiðið. Þessi samkoma er haldin í aðdraganda 20. ársfundar samningsaðila í Lima í desember nk. Í nýjustu skýrslu Alþjóða veðurmálastofnunarinnar WMO kemur fram að magn helstu gróðurhúslofttegunda í andrúmsloftinu náði methæð á árinu 2013 og CO2-hlutfall jókst þá hraðar en gerst hefur frá upphafi mælinga 1984.  Höfin taka upp um fjórðung þess gróðurhúslofts sem losnar og súrnun úthafanna virðist nú meiri en verið hefur sl. 300 milljón ár. Viðbrögð mannkyns við þessari vá eru að breytast í örlagaglímu sem skilja mun milli feigs og ófeigs í tíð allra næstu kynslóða.

Ný spá um mannfjölda árið 2100

Það er skammt stórra tíðinda milli um framtíðarhorfur. Nýir útreikningar um fólksfjölgun sem birtust í skýrslu rannsóknateymis við Washingtonháskóla í síðustu viku benda til að vonir manna um að jafnvægi myndi nást í íbúafjölda jarðar við 9 milljarða markið um miðja öldina séu tálsýn. Yfirgnæfandi líkur séu nú á að íbúatalan fari áfram hækkandi út öldina og geti numið 11 milljörðum árið 2100. Ef rétt reynist eru þetta alvarleg tíðindi sem auka enn á þá erfiðleika sem fyrirsjáanlega er við að fást í glímunni við loftslagsbreytingar og aukið álag á náttúrugæði jarðar í tíð þeirra sem nú lifa. Til samanburðar má nefna um árið 1800 var íbúatala jarðar 1 milljarður og um 1930 fór hún fyrst yfir 2ja milljarða markið.

Hver er stefnan um framtíðina?

Sá sem þetta skrifar undrast þá mótsögn sem virðist endurspeglast í afstöðuleysi þorra fólks gagnvart þeim gífurlega vanda sem sýnilega mun verða hlutskipti þeirra sem nú eru ungir, að ekki sé talað um afkomendurna. Andstæðan milli vakandi áhyggju, sem flestir hafa af sér og sínum á líðandi stund og ríkjandi afskiptaleysis um framtíðarhorfur, er sláandi og hlýtur að eiga sér djúpar rætur. Maðurinn virðist haldinn afdrifaríku skammtímaminni. Til samræmis við þetta sjá fæst almannasamtök og stjórnmálaflokkar ástæðu til að móta sér stefnu um örlagaríkustu mál, lengra en í besta falli út kjörtímabilið. Á meðan svo heldur fram er lítil von um viðspyrnu.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim