Hjörleifur Guttormsson 24. mars 2014

Afar fróðleg ráðstefna Heimssýnar

Það var fróðlegt og gefandi að sitja ráðstefnu Heimssýnar á Hótel Sögu sl. laugardag 22. mars. Þátttaka margra gesta og ræðumanna frá Nei til EU í Noregi setti svip á fundinn, sem sóttur var af á 2. hundrað manns. Framlag Josefs Motzfeldt frá Grænlandi, fv. ráðherra og þingforseta, var ekki síst mikilvægt fyrir vestnorrænan svip ráðstefnunnar. Hann rakti hvernig Grænlendingar sem dönsk nýlenda brutust 1985 úr greipum ESB.

Norðmenn horfa á þessu ári mjög til hátíðarhalda þar sem minnst verður 200 ára afmælis norsku stjórnarskrárinnar og Nei til EU sem samtök minna jafnframt rækilega á að 20 ár verða í nóvember næstkomandi liðin frá því aðildarsamningur norskra stjórnvalda og EU var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nafn frumherjans Kristens Nygaard, sem leiddi baráttuna gegn ESB-aðild í tvígang, 1972 og 1994, var eðlilega nefnt af mörgum ræðumönnum. Nei til EU gefur úr árbækur, að þessu sinni með heitinu Hvert stefnir ESB? Einnig vinnur Dag Seierstad, einn fremsti talsmaður Nei til EU í áratugi, að sérstöku hátíðarriti sem væntanlegt er síðar á þessu ári.

Í ræðum Norðmanna á ráðstefnunni var ítrekað vikið að EES-samningnum og nauðsyn þess að ná fram á honum róttækum breytingum. Samningsákvæðin eru þegar komin í mótsögn við norsku stjórnarskrána, líkt og rætt er um hérlendis, og ákvæðin um frjálsa flutninga fjármagns og vinnuafls sæta vaxandi gagnrýni, ekki síst innan norsku  verkalýðshreyfingarinnar. Að þessu véku m.a. Per Olaf Lundteigen þingmaður Miðflokksins og Helle Hagenau sviðstjóri alþjóðasviðs Nei til EU í ræðum sínum.

Alls voru flutt 15 erindi á ráðstefnunni og verður hér aðeins minnst á fáein atriði sem fram komu í máli nokkurra framsögumanna.

  • Yfirlitserindi Stefáns Más Stefánssonar prófessors við upphaf ráðstefnunnar fjallaði um réttarstöðu ESB og núgildandi sáttmála. Hann leitaði svara við spurningunni hvort ESB teljist vera ríki. Stefán sagði mestu skipta í því sambandi að líta á valdsvið ESB og grunnrétt. Sé gengið út frá þeim þáttum geti svarið kannski verið að Evrópusambandið standi þarna mitt á milli.
  • Frásögn Ernu Bjarnadóttur af störfum sínum í viðræðunefndinni við ESB og á vettvangi norrænna bændasamtaka var í senn upplýsandi og sláandi. Í aðildarviðræðum um landbúnaðarmál var í 23 manna samningahópi Íslandsmegin mikill meirihluti þátttakenda sérfræðingar kvaddir til af utanríkisráðneytinu, en aðeins þrír frá samtökum bænda. Talsmaður finnsku bændasamtakanna hafði samband við Ernu og var áhugasamur um að Ísland gengi í ESB, fyrst og fremst með það í huga að fá héðan stuðning við samningsákvæði ESB og Finnlands um landbúnað á norðlægum slóðum.
  • Svipað kom fram í máli Haraldar Benediktssonar alþingismanns, fyrrverandi formanns Bændasamtaka Íslands. Hann sagði Finna óttast að undanþága þeirra um landbúnað reynist ekki varanleg. Aðdragandi umsóknar um ESB-aðild sagði Haraldur liggja lengra til baka en almennt væri vitað. Undirbúningur þar að lútandi hefði jafnvel hafist innan utanríkisráðuneytisins þegar á árinu 2003. Utanríkismálanefnd þurfi að ræða aðdraganda umsóknarinnar 2009 og hvernig hann fái samrýmst því umboði sem fólst í samþykkt Alþingi og skilyrðum utanríkismálanefndar í júlí það ár. Rýniskýrsla um landbúnaðarmál hafi ekki fengist birt. Norðmenn hafi á það bent þegar á árinu 2007, að til lítils væri að setja sér samningsmarkmið, þar eð varanlegar undanþágur væru ekki í boði.
  • Brynja Björg Halldórsdóttir talaði um forgangsáhrif ESB-réttar. Vísaði hún m.a. í svonefndan Costa-dóm ESB frá árinu 1964, sem festi í sessi forgangsáhrif ESB-réttar og bein réttaráhrif gagnvart réttarkerfi aðildarríkja, einnig gagnvart stjórnarskrárákvæðum þeirra ef svo bæri undir. Rökin eru þau að ef ríki myndu brjóta gegn ESB-reglum myndu sáttmálaákvæði ESB ekki virka. Þetta sé fortakslaust á þeim sviðum þar sem ESB fer með valdheimildir. Til séu svonefndar „óhlýðni-túlkanir“ sem segi að landslög þurfi kannski ekki alltaf að víkja fyrir ESB-rétti. Það geti staðist svo lengi sem enginn rís gegn og kærir fyrir ESB-dómstólnum, en slíkt leysi auðvitað engin vandamál, því að sá dómstóll hefur yfirhöndina. Forgangur ESB-réttar er óaðskiljanlegur þáttur aðildar.
  • Ragnar Arnalds fjallaði um sjálfstæði strandríkja á Norðurslóð utan ESB og minnti m.a. á að hefði Ísland gengið inn 1972 byggjum við enn við 12 mílna landhelgi, þar eð svæði utan þeirra marka að 200 mílum heyrir eingöngu undir ESB.
  • Halldór Ármannsson, formaður smábátasjómanna, fór yfir stöðuna í sjávarútvegi með tilliti til ESB-aðildar, einkum út frá greiningu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Hann minnti á að ESB sé með óskert vald á sjávarútvegssviði, þar á meðal til að gera samninga um fiskveiðimál við þriðju aðila. Bagalegt hafi verið að ekki tókst að opna umræðu um sjávarútvegsþáttinn, en reynsla annarra þjóða sýni að erfitt sé að fá verulegar undanþágur.
  • Á ráðstefnunni fluttu fulltrúar ungs fólks skelegg ávörp, þau Halldóra Hjaltadóttir frá Ísafold og Ásgeir Geirsson formaður Herjans.

Þessi ráðstefna Heimssýnar var mikilvægur viðburður á tímamótum í samskiptum Íslands og ESB og verður væntanlega til þess að samtökin herði enn frekar róðurinn í fræðslustarfi.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim