Hjörleifur Guttormsson | 25. febrúar 2014 |
Stór áfangi í sjálfstæðismálum Íslendinga Samþykkt ríkisstjórnar Íslands sl. föstudag þess efnis að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er líklega merkasti áfangi í sjálfstæðismálum þjóðarinnar frá lýðveldisstofnun. Tillagan sem nú liggur fyrir Alþingi nýtur stuðnings yfirgnæfandi meirihluta þingmanna ríkisstjórnarflokkanna og ólíklegt verður að teljast að þingflokkur VG í heild gangi gegn tillögu sem er í samræmi við yfirlýsta stefnu flokksins frá upphafi. Samþykkt naums meirihluta á Alþingi 16. júlí 2009 um að sækja um aðild að ESB, hefur hvílt eins og mara á þjóðinni í rösk fjögur ár. Meirihlutinn fyrir þeirri samþykkt var illa fenginn eins og berlega kom fram við afgreiðslu málsins á Alþingi og forsendurnar harla óljósar. Gefið var í skyn að hægt væri að semja við ESB um fjölmörg atriði, nánast eins og menn væru að ganga inn í kjörbúð. Það kom hins vegar brátt í ljós, sem allir máttu vita, að viðræðurnar snerust ekki um undanþágur frá reglum ESB, heldur um að laga íslenska löggjöf að regluverki Evrópusambandsins. Í því skyni var tekið við fjárfúlgum frá Brussel í formi IPA-styrkja. Leiðangur Jóhönnu og Steingríms J. gafst síðan upp í miðjum klíðum undir lok kjörtímabilsins. Bæði þjóðin og ESB höfðu þá verið dregin á asnaeyrunum með aðildarumsókn sem aldrei hefur greinst meirihluti fyrir meðal kjósenda. Endurspeglar meirihlutaviðhorf Samþykkt ríkisstjórnarflokkanna á engum að koma á óvart. Báðir töluðu þeir fyrir kosningar gegn aðild að Evrópusambandinu og hlutu kjörfylgi sem raun ber vitni. Það er fáviska að ætla landsstjórn með slíka markaða stefnu og þingmeirihluta að standa að frekari viðræðum um aðild að Evrópusambandinu gegn eigin vilja. Skollaleikurinn frá síðasta kjörtímabili er síst til eftirbreytni. Á þetta hefur formaður Sjálfstæðisflokksins réttilega bent. Þingsályktunartillagan um að draga aðildarumsóknina til baka er því rökrétt framhald af síðustu alþingiskosningum og stjórnarsáttmála flokkanna og kveður á um að ekki skuli sótt um aðild á ný nema skýr vilji kjósenda þar að lútandi liggi fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Flokkar sem stóðu að fyrri ríkisstjórn hafa engin efni á að gagnrýna slíka málsmeðferð, eftir að hafa sjálfir hafnað ítrekuðum tillögum um þjóðaratkvæði áður en aðildarumsókn kom til ákvörðunar Alþingis í júlí 2009. Samfylkingin með sárt ennið Það þarf engum að koma á óvart þótt Samfylkingin hafi uppi stór orð vegna framkominnar tillögu. Aðild að Evrópusambandinu hefur verið helsta stefnumið flokksins frá upphafi. EES-samningurinn var af forystu Alþýðuflokksins á sínum tíma hugsaður sem aðgöngumiði að Evrópusambandinu líkt og gerðist hjá öðrum flokkum sósíaldemókrata á Norðurlöndum. Stöðugt er klifað á því að gegnum þann samning höfum við yfirtekið mikið af regluverki ESB og að full aðild sé því aðeins bitamunur. Slíkt er fjarri lagi hvað snertir fullveldisafsal og fulla aðild að stofnanaveldi ESB, dómstóll sambandsins í Lúxemburg meðtalinn. Með réttu er hins vegar bent á að EES-samningurinn þarfnist endurskoðunar og farsælast sé að tvíhliða samningur milli Íslands og ESB leysi hann af hólmi. Í því sambandi er fróðlegt að fylgjast með vaxandi gagnrýni í Noregi á EES-fyrirkomulagið, samhliða því að ¾ hlutar Norðmanna eru andsnúnir aðild að Evrópusambandinu. Forysta VG áberandi tvíátta Vinstrihreyfingin grænt framboð beið alvarlegan hnekki vegna þess hvernig flokkurinn hélt á aðildarumsókn í blóra við yfirlýsta stefnu í síðustu ríkisstjórn. Af viðbrögðum við skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ í síðustu viku að dæma er engu líkara en flokksforystan hafi lítið sem ekkert lært af þeim mistökum. Ræða Steingríms J fyrrverandi formanns VG á Alþingi sl. fimmtudag bar ekki vott um jafnvægi hugans. Í raun talaði hann fyrir því að ljúka aðildarsamningi og láta reyna á undanþágur. Til þess þyrfti þjóðin sjálf að veita leiðsögn um framhald mála, og með því mætti binda hendur ríkisstjórnarinnar. Þegar hann jafnframt sakar forystu Sjálfstæðisflokksins um svik við gefin loforð um þjóðaratkvæði kemur það úr hörðustu átt. Katrín arftaki Steingríms hefur talað gætilegar, þótt óskýr sé hún í tilsvörum. Hún hefur þó ítrekað andstöðu sína við ESB-aðild og horfir væntanlega til þess að þingflokkurinn þurfi að sýna á spilin þegar framkomin þingsályktunartillaga kemur til atkvæða. Baráttan heldur áfram Sjálfstæðisbaráttu lítillar þjóða lýkur aldrei og í því efni þarf hver kynslóð að svara kalli. Ákvörðun um að slíta nú aðildarviðræðum við ESB skapar Íslendingum kærkomið andrúm til að hugsa sinn gang í samskiptum við aðrar þjóðir. Lega landsins, ríkulegar náttúruauðlindir og nálægðin við norðurskautið kalla í senn á árvekni og sveigjanleika í samskiptum út á við. Niðurnjörfun Íslands sem jaðarríkis í gangverki stórvelda meginlandsins er það sem síst hentar okkar hagsmunum í bráð og lengd. Yfirvegað mat á heildarhagsmunum á að ráða för nú sem endranær og það er Alþingis í samvinnu við önnur stjórnvöld og almenning að vísa veginn.Hjörleifur Guttormsson |