Hjörleifur Guttormsson 27. janúar 2014

Grænir þjóðhagsreikningar í örri þróun

Verg þjóðarframleiðsla sem mælikvarði fyrir hagvöxt hefur í meira en hálfa öld klingt í eyrum. Enn í dag á þessi töfratala sviðið í þjóðmálaumræðu og fjölmiðlum og er almennt túlkuð sem mælikvarði á árangursríka hagstjórn. Sé hún niðri undir núlli beri það vitni um djúpa efnahagslægð og því hærri sem hún mælist, þeim mun betra. Þar ber Kína af með 7,7%  hagvöxt um þessar mundir og megi almættið bjarga Vesturlöndum ef kommúnistastjórninni þar bregst bogalistin! – Mörgum er nú orðið ljóst að þessi hagvaxtarmælir er langt frá því að vera einhlítur, heldur svikull í meira lagi sem mælikvarði á hagsæld og sjálfbæra þróun. Árið 1990 flutti sá sem þetta skrifar tillögu í Norðurlandaráði (A 932/s) um að fela norræna ráðherrráðinu að auka norræna samvinnu um umhverfishagtölur (miljöstatistik) og hafa frumkvæði að grænum þjóðhagsreikningum. Tillagan fékk jákvæðar undirtektir og leiddi ásamt tillögu frá sænskum græningjum til ályktunar um þessi efni í ráðinu.

Staðan um þessar mundir

Þrátt fyrir samþykkt af þessu tagi fyrir aldarfjórðungi og kröfur í sömu átt víða um lönd og í alþjóðastofnunum hefur mælistikan verg þjóðarframleiðsla haldið velli. Í umfjöllun þorra hagfræðinga og stjórnmálamanna  bregður öðrum mælikvörðum sjaldan fyrir. Þó er hér ekki allt sem sýnist. Dýpsta efnahagskreppa kapítalismans í meira en mannsaldur er enn ekki liðin hjá og hefur vakið marga til umhugsunar. Jafnframt hrannast upp ískyggilegir váboðar af áður óþekktri stærð. Einna hæst ber loftslagsbreytingar af mannavöldum, sívaxandi misskiptingu auðs, þverrandi náttúruauðlindir og þreföldun á íbúafjölda jarðar á einum mannsaldri. Þörfin á að þróa nýja mælikvarða, sem taka með í reikninginn fórnarkostnað sem hlýst af blindu lífsgæðakapphlaupi, er loksins að skila sér í gagnaöflun sem auðvelda á mönnum yfirsýn og skilning á því hvert stefnir. Staðan er hins vegar misjöfn eftir löndum og því miður hefur Ísland dregist aftur úr nágrannaþjóðun hvað þetta varðar.

Nýjar mælistikur vísa í rétta átt

Á síðasta ári gaf Danmarks statistik út ágætt yfirlitsrit með fyrirsögninni Grønne nationalregnskaber og det grönne BNP (Grænir þjóðhagsreikningar og græn VÞF). Þar er að finna yfirlit um þróun og stöðu á þessu sviði, bæði í Danmörku, á Norðurlöndum og alþjóðlega. Stofnanir eins og Eurostat og OECD hafa lagt margt til þessara mála og á árinu 2012 samþykkti hagtölunefnd Sameinuðu þjóðanna (UN Statistical Commission) fyrsta alþjóðlega tölfræðigrunninn á umhverfissviði (The System of Environmental-Economic Accounting – SEEA), en hann hefur verið í þróun allt frá árinu 1993. Með honum er fengin leiðsögn um hagtölugerð í umhverfismálum og tengsl hennar við hefðbundna mælikvarða á efnahagssviði.  Nokkrar af tölfræðieiningum SEEA eru þegar lögbundnar innan EES-svæðisins, m.a. um losun í andrúmsloftið og um efnisstrauma, og fleiri eru væntanlegar innan skamms. Enn víðtækari rammi bættist síðan við á síðasta ári með leiðbeiningum SÞ um umhverfistölfræði (Framework for Development and Environmental Statistics – FDES) sem tengst getur skyldum gögnum, bæði af sviði félagsfræði og efnahagsmála.

Flókin en bráðnauðsynleg tölfræði

Ofangreind tölfræði er sem vænta má í örri þróun og of snemmt að fullyrða hversu hratt hún nær að hafa áhrif á stjórnmálalegar ákvarðanir og þjóðarbúskap. Enn sem komið er eru niðurstöður fyrst og fremst hliðsjónargögn, nothæf til samanburðar við hefðbundna þjóðhagsreikninga. Engin ein viðurkennd skilgreining liggur enn fyrir á grænni þjóðarframleiðslu sem mælikvarða á velferð eða sjálfbærni og ýmsir aðrir kvarðar eru í umræðu og þróun til að mæla stöðu samfélaga út frá félagslegum þáttum, vellíðan þegnanna og hamingju. Dæmi um slíkt er nýleg umfjöllun Kristínar Völu Ragnarsdóttur og samstarfsmanna sem birtist nýlega í tímaritinu Nature og sagt var frá í Morgunblaðinu 16. janúar sl. Í Háskóla Íslands hafa þegar farið fram athyglisverðar rannsóknir tengdar grænum gildum, m.a. um svonefnt vistspor Íslands (Ecological Footprint), en þær benda til að Íslendingar séu neyslufrekasta þjóð jarðar.

Ísland í afleitri stöðu

Í þingsályktun sem Alþingi samþykkti á árinu 2012 „um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi“ er vikið að gagnaöflun varðandi græna þjóðhagsreikninga, m.a. um útreikning á framfarastuðli á vegum Hagstofu Íslands. Framkvæmd þessarar tillögu var falin forsætisráðuneytinu. Nauðsynlegar fjárveitingar hafa hins vegar ekki gengið eftir og staða þessara mála hérlendis er að óbreyttu afleit, þar eð söfnun tölfræðilegra gagna á umhverfissviði hefur lengi verið hornreka. Afleiðingar þessa birtast m.a. sem eyða þegar kemur að Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Undantekningar finnast þó, m.a. varðandi losun gróðurhúsalofts. Eðlilegt er að fela Hagstofu Íslands forystu á þessu sviði, hliðstætt því sem gerist á öðrum Norðurlöndum, en með markvissri samvinnu við helstu stofnanir á auðlinda- og umhverfissviði. Í þessum efnum reynir á fjárveitingavald og ríkisstjórn, sem hingað til hafa skilað auðu.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim