Hjörleifur Guttormsson 2. febrúar 2015

ESB í uppnámi eftir stjórnarskiptin í Grikklandi

Forystusveit ESB á ekki sjö dagana sæla á þessum vetri og það sama á við um almenning í mörgum aðildarrríkjum, þar sem atvinnuleysi hefur farið vaxandi, sérstaklega meðal ungs fólks. Stórsigri Syriza-flokksins í Grikklandi fyrir röskri viku má líkja við jarðskjálfta, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á pólitískt landslag, einnig í öðrum skuldsettum ESB-löndum eins og á Spáni. Þar kveður sér nú hljóðs fjöldafylkingin Podemos („Við getum“) og skorar bæði sósíaldemókrata og hægriflokkinn PP á hólm. Sameiginleg krafa þessara hreyfinga sem skilgreina sig til vinstri er niðurfærsla skulda af hálfu lánardrottna, stöðvun einkavæðingar og innspýting í efnahagslífið m.a. með opinberum framkvæmdum til að draga úr atvinnuleysi. Fyrstu viðbrögð af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og þýskra stjórnvalda eru eitt stórt NEI, útstrikun og aflétting skulda sé ekki í boði. ‒ Á hinu leitinu eru síðan þjóðernissinnaðir hægriflokkar sem sækja í sig veðrið í krafti andúðar á sívaxandi fjölda innflytjenda og flóttafólks frá Afríku og stríðshrjáðum löndum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þessar hræringar geta fyrr en varið breytt pólitísku landslagi í ESB og leitt af sér enn frekari sundrungu innan myntbandalagsins og jafnvel fall evrunnar.

Margir samverkandi þættir

Myntbandalaginu með evru sem gjaldmiðil var komið á um síðustu aldamót og nú eru 19 ríki aðilar að því. Sett voru ákveðin þjóðhagsleg viðmið fyrir þátttöku en fljótlega varð ljóst að þau voru ekki tekin hátíðlega, hvorki af fjölmennum eða fámennum ríkjum. Pólitískar fremur en efnahagslegar ástæður réðu för og fyrirhugaður fjárhagslegur samruni (fiscal union) hefur látið á sér standa. Efnahagsgrunnur Evruríkjanna er líka mjög ólíkur og í mörgum þeirra er landlæg spilling, sem ekki hefur tekist að uppræta. Stórfelld tilfærsla fjármuna í skattaskjól eru opinbert leyndarmál og forseti framkvæmdastjórnar ESB, Lúxemborgarinn Jean-Claude Juncker, liggur undir ámæli fyrir að hafa rutt slíkum farvegum braut. Grikkland er eitt af þeim ríkjum þar sem spillt stjórnmálaöfl í samstarfi við auðjöfra hafa haft tögl og hagldir um langt skeið. Þessir aðilar, í samstarfi við ESB, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og Seðlabanka Evrópu, hafa hert svo ólarnar að grískum almenningi að stór hluti kjósenda þar hefur nú sagt hingað og ekki lengra, og krafan um skuldaniðurfærslu endurómar æ víðar. Í Frakklandi hefur ríkt stöðnun samfara 10% atvinnuleysi og gríska bakterían er þegar farin að smita inn í raðir Sósíalistaflokksins sem er við stjórnvölinn og á nú í vök að verjast frá hægri og vinstri.

Hraðvaxandi samþjöppun auðs

Upplýsingar OECD og fleiri alþjóðastofnana um stöðuga samþjöppun auðs og eigna á æ færri hendur afhjúpar eðli og innviði ríkjandi efnahagskerfis. Þetta gangverk kapítalismans hefur lengi mátt vera lýðum ljóst, en með frjálsum fjármagnshreyfingum samhliða netvæðingu gagnaflutninga á síðasta aldarþriðjungi hefur orðið stökkbreyting sem ýtt hefur svo um munar undir þessa þróun. Jafnframt hefur orðið auðveldara að safna um hana tölfræðilegum upplýsingum og nýir samskiptamiðlar auðvelda almenningi að fylkja sér gegn óréttlætinu. Við blasir að hátt í helmingur af veraldarauði er kominn í hendur um 1% jarðarbúa og ekkert lát er á þeirri samþjöppun. Þessi þróun og ástæður hennar er meginþema í bók franska hagfræðingsins Thomas Pikettys, sem kom út á árinu 2013 og vakið hefur mikla athygli. (Ensk þýðing 2014: Capital in the Tventy-first century). Höfundurinn bendir á að þessi þróun sé ógnun við lýðræði og félagslegan og efnahagslegan stöðugleika og leggur til stighækkandi kapítalskatta til að hamla gegn henni. Í Bandaríkjunum er þetta heitt umræðuefni þar sem þrengir mjög að millistéttarhópum, og svipað er uppi á teningnum innan ESB.

Spár um hrun evrunnar

Úr ýmsum áttum heyrast nú raddir sem spá ekki aðeins vaxandi erfiðleikum á evrusvæðinu, heldur telja að hætta sé á hruni myntsamstarfsins. Þannig taldi ritstjórn tímaritsins Economist sl. haust ( 25. okt. 2014) að mesti efnahagsvandi heimsins stafi af verðhjöðnun innan Evrusvæðisins. „Á sama tíma og skuldabyrðin vex frá Ítalíu til Grikklands munu fjárfestar fyllast ótta, pópúlískir stjórnmálamenn fá aukinn stuðning og ‒ fyrr en seinna ‒ mun evran hrynja.“ Tveimur dögum fyrir grísku þingkosningarnar greip Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, til þess örþrifaráðs að láta bankann hefja seðlaprentun í stórum stíl til kaupa á skuldabréfum í von um að hamla gegn áframhaldandi samdrætti. Markmiðið er að ýta undir eyðslu og verðbólgu. Áhrifin á almenning eru að mati Der Spiegel  (22. jan. 2015); „Þeir sem spara munu tapa, en lántakendur hagnast.“ Eflaust bíða margir spenntir eftir að sjá hvort þessi hrossalækning skilar einhverju. Hún er hins vegar skýr sýnikennsla í því, hvernig komið er fyrir fullveldi ríkja sem afhent hafa Evrópusambandinu forsjá sinna mála.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim