Hjörleifur Guttormsson 6. október 2015

Víðtæk áhrif af ferðamennsku í byggðum og óbyggðum

Gífurleg aukning í fjölda erlendra ferðamanna til Íslands síðasta áratuginn hefur komið sér vel í þjóðhagslegu tilliti, en nú er svo komið að mörgum þykir nóg um og viðvörunarbjöllur hringja í mörgum áttum samtímis. Árleg fjölgun um 25% og þaðan af meira síðustu árin er langt úr hófi og því er spáð að tala erlendra ferðamanna sem sæki Ísland heim árið 2018 fari í 2 milljónir. Til jákvæðra þátta má nefna aukna gestakomu að vetrarlagi, sem þó takmarkast að mestu við höfuðborgarsvæðið og nokkra staði á sunnanverðu landinu. Álag að sumarlagi á vinsælustu ferðamannastaðina er nú þegar óhóflegt hvað fjölda snertir og er farið að rýra upplifun gesta, innlendra sem erlendra,  jafnframt því sem innviðir í þjónustu og umhverfi standast það ekki.

Bragð er að þá barnið finnur

Ferðamannastraumurinn er mestur á sunnanverðu landinu, við Mývatn og á nokkrum stöðum í óbyggðum. Hótel spretta upp eins og gorkúlur í Reykjavík og eru í undirbúningi víða um land, m.a. í Öræfum og Mývatnssveit. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur horft á þá þróun með velþókknun að íbúðir í fjölbýli breytist í atvinnuhúsnæði með útleigu til ferðamanna. Einhverjir eru þó aðeins farnir að rumska, ef marka má viðtal við Hjálmar Sveinsson í Morgunblaðinu 25. sept. sl.: „Við teljum óhætt að setja spurningarmerki þegar heilum íbúðarhúsum er breytt í hótel. Með því er verið að breyta því í atvinnuhúsnæði.“ Borgarstjórn er ekki ein um að hafa horft fram hjá skýrum ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þar sem tekin eru af tvímæli um að afla verður samþykkis annarra eigenda ef stofna á þar til útleigu til ferðamanna. Á þetta mun á næstunni reyna fyrir dómstólum. ‒ Í Mývatnssveit þar sem meirihluti íbúa byggir afkomu sína á ferðaþjónustu eru vaxandi áhyggjur af fjölda og ágangi ferðamanna allt um kring. „Menn vilja ekki sjá sveitina kafna í hótelum“ er haft eftir oddvita Skútustaðahrepps nýlega (Mbl. 25. sept. 2015).

Fjöldi samþættra aðgerða

Sérstæð náttúra og lega Íslands er það aðdráttarafl sem dregur erlenda ferðamenn hingað. Eldvirknin sér fyrir auglýsingu með reglulegu millibili, í gær Grímsvötn, Eyjafjallajökull og Holuhraun, á morgun Hekla og Dyngjufjöll, síðan sjálfur Reykjanesskaginn. Þetta síkvika eðli íslenskrar náttúru greinir landið frá nágrannalöndum og nú bætast við loftslagsbreytingar sem óvíða munu hafa viðlíka áhrif og hér. Íslendingar hafa sjálfir enn ekki fótað sig á þessum heimavelli og nú bætist við álag ferðamannastraumsins á viðkvæma náttúru landsins. Stjórnvöld hafa hingað til ekki búið í haginn fyrir ferðaþjónustu sem alvöru atvinnugrein. Um 1990 var vel undirbúin ferðamálastefna kveðin niður af pólitískri heiftarhyggju. Fimbulfambið með náttúrupassa segir sína sögu um núverandi stöðu og skyndifjárveitingar duga skammt ef á undirbúning skortir á viðkomandi ferðamannastöðum. Ekkert minna en þjóðarátak dugir til að komast hjá ófarnaði. Þar skiptir mestu vandað skipulag, þar sem löggjafi, ríki og sveitarfélög þurfa að leggjast á eitt með þátttakendum og samtökum í ferðaþjónustu. Öryggismál og viðbrögð við breytilegum ytri aðstæðum þurfa að verða hluti af þeirri stefnumótun.

Miðhálendið að meginhluta þjóðlenda

Frá síðustu aldamótum hefur Óbyggðanefnd unnið að greiningu á landréttindum á miðhálendinu, sem tekur til um 40% af flatarmáli Íslands. Hátt í 90% af þessu svæði hafa verið úrskurðuð þjóðlendur, þ.e. landsvæði utan eignarlanda þar sem íslenska ríkið er eigandi lands og réttinda að meginhluta. Forsætisráðuneytið sem fer með málefni þjóðlendna hefur nýlega hafist handa við að móta eigendastefnu fyrir þjóðlendurnar og leitar nú eftir sjónarmiðum sem taka eigi tillit til í þeirri vinnu. Vísað er m.a. til þeirrar áherslu í fyrirliggjandi tillögu að landsskipulagsstefnu, að staðinn verði vörður um náttúru og landslag miðhálendisins vegna  náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist. Jafnframt er vísað til annarra þátta, svo sem rammaáætlunar, samgönguáætlunar, stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og til verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs.

Aðalskipulag sveitarfélaga ákvarðandi

Samkvæmt tillögunni um landsskipulagsstefnu eiga sveitarfélög með land á miðhálendinu  innan sinna marka að útfæra stefnuna um verndun víðerna og náttúrugæða og annarra þátta í skipulagsáætlunum sínum.  Tilkoma ferðamannaaðstöðu á þar að vera takmörkuð og megináhersla á uppbyggingu á jaðarsvæðum og skilgreindum reitum við aðalvegi hálendisins. Að samþykktri landsskipulagsstefnu verður aðalskipulag viðkomandi sveitarfélaga ákvarðandi um skipulagið, og þá m.a. um tilkomu og afmörkun náttúruverndarsvæða. Tillögur um nýja þjóðgarða á miðhálendinu þurfa samkvæmt þessu að hljóta samþykki viðkomandi sveitarstjórna til að öðlast gildi. Fyrir áhugafólk um náttúruvernd er verk að vinna ætli menn að fá óskabyr fyrir víðtæka hálendisvernd þar sem frekari orkumannvirki og uppbyggðir hlemmivegir komi sem minnst við sögu.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim