Hjörleifur Guttormsson 9. júlí 2015

Reynsla Grikkja af Evrópusambandinu er mikil lexía, líka fyrir Íslendinga

Liðin helgi var söguleg. Grikkir gerðu það sem forysta Evrópusambandsins og talsmenn hennar þarlendis sögðu að þeir mættu alls ekki, segja nei við enn einum afarkostum frá Brussel. Skoðanakannanir sýndu fram á síðustu stund að afar mjótt yrði á munum, niðurstaðan varð allt önnur og verður ekki líkt við annað en uppreisn þjóðar á elleftu stund. Í fimm ár höfðu Grikkir gengið götu sparnaðar og niðurskurðar að kröfu lánardrottna sinna án þess að efnahagur þeirra sýndi batamerki. Áfram skyldi haldið á sömu braut. Það kaldhæðnislega var að rétt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna barst út niðurstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem leynt átti að fara: Grikkland ætti sér ekki viðreisnar von nema felldur yrði niður hluti uppsafnaðra skulda! Einmitt það var meginkrafa Syriza og verður áfram bitbein í samningaumleitunum þeirra við Evrópusambandið næstu daga.

Evrópusambandið í uppnámi

Skýr úrslit grísku þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafa valdið jarðskjálfta innan ESB og eftirskjálftarnir geta staðið lengi. Með háværum áskorunum frá Brussel og Berlín um að samþykkja síðasta tilboð ESB átti ekki aðeins að niðurlægja grísk stjórnvöld heldur koma þeim frá. Niðurstaðan varð þveröfug og í stað þess að fá að samningaborði á ný þá sem töpuðu í kosningum til gríska þingsins síðasta vetur, hefur Antonis Samaras fyrrverandi forsætisráðherra nú sagt af sér formennsku í sínum flokki. Háværustu hneyksunarraddirnar yfir úrslitunum berast frá Berlín þar sem talsmenn beggja stjórnarflokka keppast við að útiloka allar hugmyndir um eftirgjöf skulda. Óttinn við að sú krafa breiðist út til annarra ofurskuldsettra ESB-ríkja eins og Spánar, ræður för.  Evrópski seðlabankinn hefur lokað á frekari lánveitingar og klukkan gengur á greiðsluþol grískra banka. Þær raddir gerast háværar að úr því sem komið er sé skást að losna við Grikkland úr myntsamstarfinu. Pólitískar afleiðingar slíkra tíðinda geta hins vegar orðið þungbærari fyrir ESB en eftirgjöf skulda sem líklega verða hvort eð er aldrei greiddar til fulls.

Þungir dómar nóbelshafa

Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Paul Krugman, hefur verið ómyrkur í máli að undanförnu, jafnt fyrir og eftir grísku þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hann ráðlagði Grikkjum eindregið að hafna frekari niðurskurðarkröfum ESB og að gríska stjórnin ætti ef nauðsyn krefði að búa sig undir að leggja niður evruna og taka upp eigin mynt. Af tvennum kostum sé sá skárri en að beygja sig fyrir áframhaldandi niðurskurði. „Það hefur verið augljóst um skeið að  upptaka evru voru hræðileg mistök. Evrópa hafði aldrei forsendur til að taka með árangri  upp sameiginlega mynt ...“ segir Krugman í New York Times 29. júní sl. „Að beygja sig fyrir afarkostum þrístirnisins [ESB, AGS og SBE] væri að gefa upp á bátinn allar hugmyndir um sjálfstætt Grikkland.“ Til hliðsjónar við þann kost að Grikkir taki upp eigin mynt bendir hann á árangursríka gengisfellingu íslensku krónunnar 2008–2009 og að Argentína hætti að binda pesóinn við dollara 2001–2002.
                                              
ESB-umsókn Íslands í ljósi síðustu atburða

Þeir sem stóðu fyrir því 2009 að Ísland sækti um aðild að ESB hafa hægt um sig þessa dagana. Reynslan frá Grikklandi og mörgum fleiri ESB-ríkjum að undanförnu sýnir hvílíkt glapræði þar var á ferðinni og aðför að sjálfstæði og velferð Íslendinga. Af hálfu talsmanna ESB-aðildar Íslands síðasta áratuginn hefur áherslan á upptöku evru verið meginstefið sem bæta átti upp augljóst framsal fullveldis og aðgang að fiskimiðunum. Það er mál til komið að þeir sem börðust fyrir ESB-aðild í tíð síðustu ríkisstjórnar séu látnir horfa í spegil frammi fyrir alþjóð í ljósi þess sem nú er að gerast á meginlandinu. Það er ekki síður sögulegt að um þessar mundir er reynt að stofna stjórnmálaflokk hérlendis undir merki viðreisnar með það meginerindi að knýja á um ESB-aðild Íslands.

Óháð og sjálfbært Ísland

Spennitreyja evrunnar er að verða óbærileg, ekki aðeins fyrir grískan almenning. Þær fórnir sem færðar hafa verið til að viðhalda sameiginlegri mynt koma víða fram í niðurskurði til velferðarmála, stórfelldu atvinnuleysi og samþjöppun auðs í hendur fjármálastofnana og fjölþjóðafyrirtækja. Forysta Evrópusambandsins hefur um skeið haft tilbúnar tillögur til að knýja á um næstu skref í fjármálalegum og pólitískum samruna. Aðeins núverandi brestir í innviðum ESB hafa komið í veg fyrir að þær séu lagðar á borðið. Íslendingar geta prísað sig sæla að þurfa ekki að taka við slíkum boðskap. Eitt brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála er að móta skýra stefnu um óháð Ísland og sjálfbæra nýtingu og skiptingu gæða lands og sjávar. Slík stefna felur ekki í sér einangrun heldur grunn til heilbrigðs samstarfs og gefandi samskipta við aðrar þjóðir.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim